16.03.1966
Sameinað þing: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (2938)

125. mál, reikningsskil hinna rændu þjóða við þær ríku

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Mér þótti mjög vænt um að heyra ræðu hv. 8. þm. Reykv. um þessi mál, eins og hans var von og vísa. Það er ekki bara af því, að við ræðum efnahagsmálin og eigum að kljást við hagfræðingana og sérfræðingana frá ríkisstj., að það er venjulega frá honum, sem eitthvert vit kemur úr þeim herbúðum, heldur er það líka mælt af miklum skilningi, það sem hann segir viðvíkjandi þessum málum.

Hins vegar brá hv. 7. þm. Reykv. sér á dálitla gandreið hér áðan. Ég náttúrlega er reiðubúinn til þess að pexa hér um alla sögu veraldarinnar, ef hv. þm. langar út í það. Ég þurfti að gera það stundum hérna fyrr að halda fyrirlestur yfir mönnum og þeim, sem vissu meira en hann um þá hluti. En ég álít hins vegar ekki, að það sé sérstaklega verkefnið að stunda gamla iðn sem skólakennari úr þessum ræðustól. Og heldur þótti mér það ills viti, hvernig hv, þm. byrjaði sína ræðu, og ég veit ekki, hvað Jón Sigurðsson hefði sagt um það orðatiltæki, sem hann notaði, þegar hann var að tala um, að það hafi verið nokkuð erfitt fyrir Jón Sigurðsson að selja Dönum sínar hugmyndir. Ef það ensk-ameríska orð sell er komið svona inn í heilann á þessum hv. þm., að hann getur ekki talað öðruvísi en upp á amerísku, þegar hann er að ræða við okkur hérna í þinginu, er hann raunverulega að byrja að setja sig út úr því, að það sé yfirleitt hægt að tala við hann, og við þurfum nú alvarlega að hugsa, hvort hann horfir kannske sérstaklega mikið á sjónvarpið og hversu áhrifin frá enskunni séu farin að teygja sig svo inn í heilann á þessum þm., að hann sé farinn að hugsa sem sagt á ameríska vísu, ekki aðeins í flestöllu, sem hann segir, og vera endurhljómur af lélegum amerískum áróðri, heldur þar að auki í sjálfu því íslenzka máli, sem hann talar, þá sé hann það líka. Ég veit að vísu, að það er ekkert skemmtilegt, sem er að gerast hér í Reykjavík í sambandi við þau mál öllsömun. Það er svo sem ekkert gaman að vita til þess, að þegar 7 ára gömlum börnum í barnaskóla er sagt að teikna íslenzka fánann, biðji helmingurinn af þeim heldur um að fá að teikna þann ameríska, þann bandaríska, vegna þess að þau þekkja hann miklu betur. (Gripið fram í: Í hvaða skóla var þetta?) Þetta er í skóla hér í Reykjavík. (Gripið fram í: Við skulum staðreyna þetta.) Já, við skulum staðreyna þetta, og það get ég við hæstv. dómsmrh. á eftir. Þetta kemur fyrir hérna í Reykjavík núna. Mér brá, þegar ég heyrði það, og hæstv. dómsmrh. bregður Iíka við. En það er bezt, að við áttum okkur alveg fyllilega á því, hvað það er, sem er að gerast hérna í kringum okkur, ekki bara þegar við heyrum einn hv. þm. nota orðið „sell“ um hugmyndir og slengja því á Jón Sigurðsson í sambandi við, að honum hafi gengið illa að selja sínar hugmyndir Dönum. Ég býst við, að Jóni hafi aldrei dottið í hug að selja hugmyndirnar til Dana, hann var að reyna að berjast fyrir þeim hugmyndum, að koma þeim inn í kollinn á Dönum.

Hv. 7. þm. Reykv. fór að spyrja, hvernig það mundi ganga á þingi Sameinuðu þjóðanna að fá þá inn á þessa hluti. Við skulum gera okkur ljóst, að þegar við förum að ræða svona mál og þegar við flytjum svona mál í alvöru, gerum við það vegna þess, að við sjáum, að það sé sérstaklega mikil hætta á ferðum. Og það þarf líklega að byrja með því að reyna að opna augun á slíkum þm. sem hv. 7. þm. Reykv. fyrir þeirri hættu, sem flokksbróðir hans hins vegar, hv. 8. þm. Reykv., greinilega sá. Hættan er sú, að 1500—2000 millj. manna í veröldinni lifa við hungurkjör. Þær deyja reglulega úr hungri, svo og svo mikið, ekki sízt af börnunum, sem alast upp hjá þessum þjóðum. Og það er þetta vandamál, sem er ekki sízt vandamál vegna þess, ef maður vill taka það hreint pólitískt og ekki bara mannúðlega, að þessar þjóðir verða eftir nokkra áratugi yfirgnæfandi meiri hl. mannkynsins. Á sama tíma sem t.d. íbúum Evrópu kemur til með að fjölga um 30%, koma íbúar Afríku, Asíu og Suður-Ameríku til að þrefaldast, fjölga um 300%. Það þýðir m.ö.o., að þessi fjöldi, sem þarna er að koma upp nú í þessum löndum, sprengir af sér öll bönd. Við skulum ekki láta okkur detta það í hug, nema það sé þá meiningin að eyða byggðinni á jörðinni, að Bandaríki Norður-Ameríku eða önnur slík ríki ætli sér að halda niðri öllum íbúum Suður-Ameríku, Afríku og Asíu með kjarnorkusprengjum og slíku, bara eyða þessum löndum. Það verður ekki gert. Öllum heiminum verður þá eytt, ef út í slíkt fer. Stóra vandamálið, sem fyrir heiminum liggur í dag, er, hvernig við ætlum að leysa það, að 1500—2000 millj. manna, sem hungra, sem horfa upp á börn sín deyja, 30 þús. börn á dag eftir skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, horfa á þau deyja úr hungri, — hvernig við ætlum að afstýra því, að fyrr eða seinna verði þeir stórkostlegustu árekstrar og ægilegasta blóðbað, sem heimurinn hefur þekkt, þegar þessum tveim aðilum lendir saman.

Menn hafa undanfarinn áratug gengið upp í alls konar fantasíum í sambandi við baráttu milli austurs og vesturs, í sambandi við uppgjörið á milli sósíalisma og kapítalisma í Evrópu og Norður-Ameríku. En það er ekki það, sem er stóra vandamálið upp á það, hvort heimurinn lifir áfram eða ekki. Stærsta vandamálið, eins og hv.8. þm. Reykv. kom réttilega inn á, er þetta vandamál, og það er þetta vandamál, sem við eins og aðrar þjóðir eigum að brjóta heilann um og reyna að finna einhverja lausn á. Og þegar við ræðum það mál, eigum við að reyna að hefja okkur það hátt, að við ræðum þetta mál málefnalega. Við getum pexað hér um allt, sem við viljum, viðvíkjandi Atlantshafsbandalagi, Varsjábandalagi og hverju sem er og um annað sem er að gerast hjá okkur í Evrópu. Við getum pexað hér viðvíkjandi verkalýð og auðvaldi, líka hér á Íslandi, viðvíkjandi verðbólgu og hvernig stolið sé með henni, og annað slíkt. Ég er reiðubúinn líka að ræða það við hv. þm. En ef við ætlum að reyna að halda okkur við málefnið, sem hér liggur fyrir, er það um það, hvort Ísland geti lagt fram eitthvað heilbrigt í þessum efnum og hvort Ísland með þá reynslu, sem það hefur, verandi kúguð þjóð, svo að segja nýlenduþjóð í 600 ár og verandi núna með fremstu löndum veraldar hvað efnahag snertir, a.m.k. árstekjur almennt, þótt kannske ríkidæmið sé ekki á við aðrar þjóðir, — hvort við getum með tilliti til okkar reynslu og þess, hvernig við höfum haft okkur upp á þeim tíma, sem við sjálfir höfum verið sjálfstæðir, treystum okkur til að miðla þessum þjóðum einhverju af okkar þekkingu og okkar reynslu, hvort við getum litið á okkur sjálfa sem það stóra í þessum efnum, að við gætum sagt við þessar þjóðir, þessa tugi þjóða í Afríku og annars staðar: Viljið þið ekki ræða við okkur, við erum smærri þjóð en nokkur ykkar, við höfum verið nýlenda lengur en nokkur ykkar, en við stöndum svona í dag. — Ég held, að við höfum möguleika til þess að tala við slíkar þjóðir, og ég held, að þessar þjóðir mundu hlusta á okkur, vegna þess að við höfum sýnt, hvernig hægt er að komast áfram í þessum efnum. Þess vegna held ég, að það sé ekki rétt að reyna að byrja með því að fara að draga umr. um þetta inn í okkar almennu baráttu hér, okkar almenna pólitíska pex eða harðvítugu stéttabaráttu eða annað slíkt eða okkar ágreining um sósíalisma og kapítalisma, svo nauðsynlegt sem er að ræða þau mál.

Hv. þm. spyr þess vegna fyrst af öllu, hvernig ég hugsi mér, að það sé hægt að fá menn á þingi Sameinuðu þjóðanna til að ræða þetta. Þegar hv. þm. hugsar um Sameinuðu þjóðirnar, er ég ákaflega hræddur um, að hann líti eins og sumir menn, sem Íslendingar tala ekki allt of vel um núna, litu til dönsku mömmu í gamla daga. Ég er hræddur um, að þegar hann hugsar til Sameinuðu þjóðanna, af því að þær séu þarna í New York, verður honum hugsað til Bandaríkjanna. En Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkin eru orðin sitt hvað, og það er bezt að gera sér það ljóst. Bandaríkin gátu framan af ráðið nokkurn veginn atkvgr. í Sameinuðu þjóðunum með þeim fjárhagslegu ítökum og þeirri pólitísku yfirdrottnun, sem þau höfðu, sérstaklega gagnvart Suður-Ameríkuríkjum og ítökum í Evrópu og öðru slíku, en þau geta það ekki lengur. Og við skulum muna eftir því, að það, að ráðstefnan í Genf, sem Sameinuðu þjóðirnar gengust fyrir, bar ekki meiri árangur en sýnt var, var vegna þess, að kröfur þjóðanna frá Afríku, Asíu og Suður-Ameríku voru það harðvitugar og sterkar í þessum efnum, að þær gömlu yfirdrottnunarþjóðir í Evrópu og Ameríku komust ekkí upp með moðreyk. Á þingi Sameinuðu þjóðanna eiga allar þessar þjóðir Afríku og þessara landa sæti. Og þrátt fyrir það, þó að þarna gæti allra mögulegra hugmynda og allra mögulegra kennisetninga í heilum þeirra manna, sem eru fulltrúar þessara þjóða, allt frá svo að segja kommúnistískum fulltrúum og yfir í fulltrúa, sem eru frá gömlum einveldis- eða ættarsamfélagsríkjum, — það er svo að segja allt að heita má, sem við þekkjum úr sögu þjóðfélagsskipunarinnar á jörðinni, í fulltrúum þessara þjóða, en eitt er þeim sameiginlegt, öllum þessum þjóðum frá Afríku og þessum löndum, þeim er það sameiginlegt, að þær svo að segja — ég skal ekki segja hata, en þær bera allar sár eftir meðferðina, sem þær hafa orðið fyrir frá Evrópu og Norður-Ameríku. Og þeirra stóra vandamál er í dag sú fátækt, sem þær hafa búið við um aldir, og það, hvernig þær eigi að hafa sig upp úr þessu, þannig að við náum, hvort sem þeir eru mjög róttækir eða afturhaldssamir eða hvernig sem þeir eru, hvort sem það er fulltrúar eins og kannske frá Guineu eða Mali eða allt til keisara eða fulltrúa hans frá Abessiníu, náum við til allra þessara manna, þegar við tölum um nýlendukúgun, hvort sem þjóðir þeirra hafa verið undirokaðar í nokkrar aldir eða hvort Evrópumenn voru fyrst að leggja þær undir sig 1935—1936, þegar Ítalir réðust á Abessiníu. Þess vegna er sá möguleiki til að tala til þessara þjóða á þingi Sameinuðu þjóðanna og fá þær til þess að hugsa um þessi mál.

Þess vegna, ef hv. 7. þm. Reykv. vill hugsa svolítið alvarlega í þessu, sem ég vil gjarnan reyna að kenna honum, — hann hefur verið ýmislegt að læra hérna á þinginu þau ár, sem hann hefur setið hérna, hann var heldur gustmikill, þegar hann kom hér inn, og hans ágætu flokksbræður fengu mjög á því að kenna, og hafa heflazt af honum helztu agnúarnir á þessum tíma, og ég vona, að þeir fari ekki að vaxa út aftur, svo að það verði að fara að taka til aftur að hefla hann til, — þess vegna vil ég taka það mjög alvarlega, þegar eitthvert alvarlegt orð kemur út úr honum, og sýna honum fulla virðingu í því að ræða það mjög alvarlega við hann. Ég skal sem sé hugga hann með því, ef hann hefur raunverulegan áhuga í þessum efnum, að á þingi Sameinuðu þjóðanna er fullt af fulltrúum þessara þjóða, sem við getum talað við. Það eru ekki bara Bandaríkin og endurhljómur af Bandaríkjunum hjá öllum þeim, sem þar sitja. Þess vegna efast ég ekki um, — ég tala nú ekki um t.d., ef hann tæki sig nú til og gerðist verulega góður nemandi og lærði hér vel og reyndi að kunna sína lexíu, — ef hann yrði t.d. sendur af hæstv. ríkisstj. á þing Sameinuðu þjóðanna til þess að herjast fyrir þessari till., þegar búið væri að samþykkja hana, efast ég ekki um, að hann gæti fengið marga menn til þess að hlusta þar á sig, og mundi þykja mjög merkilegt það, sem hann væri að segja.

Svo hins vegar skauzt hv. 7. þm. Reykv. inn í það að fara að minnast á, að e.t.v. væru þarna ýmsar þjóðir, — hann sér enn þá ekki heldur út fyrir Evrópu, — sem mundu segja, að þetta hefði bara verið fórnfýsi og bræðralag af þeirra hálfu, þessi afskipti, sem Englendingar og aðrar þjóðir í Evrópu hafa haft af nýlenduþjóðunum á undanförnum öldum, og það hefði enginn ágóði og ekkert nema kostnaður verið við þetta. Ég veit nú ekki, af því að það var ekki nógu mikil alvara í þessu, sem hann sagði, þá veit ég ekki alveg, hvort hann hefur meint þetta þannig, að hann væri sammála því. Við vitum, að ýmsir afturhaldsmenn í Bretlandi mótuðu fyrir nokkrum árum slagorðið, sem þeir kölluðu „white men's burden“ — „byrði hinna hvítu manna“, hve ægileg byrði hefði hvílt á þessum vesalings hvítu mönnum, sem hefðu rænt jörðunum þarna í Afríku og annars staðar og væru nú að reyna að manna þessar þjóðir. (Gripið fram í.) Nei, ég þýddi það aftur algjörlega. Ég held, að enskan hafi verið hrein hjá mér og íslenzkan líka, eða var það ekki rétt? En ég var bara að nota orðin, vegna þess að þetta hefur verið eitt algengasta slagorð þeirrar engilsaxnesku yfirdrottnunarstefnu, og mér virtist hv. þm. vera hálfsmitaður af því. Þess vegna held ég, að við þurfum að gera okkur það ljóst, ef honum hefur verið einhver alvara í þessu, að vera að einhverju leyti sammála þessum hugmyndum, þá þurfum við að gera okkur ljóst, að því fer fjarri, að við Evrópumenn höfum flutt þessum þjóðum okkar menningu. Við höfum mikið að flytja þeim, hefðum við viljað gera það. En það er alveg rétt, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði áðan, við skildum við þær þannig, að jafnvel í þjóð, sem taldi tugi millj., var máske einn einasti læknir innfæddur.

Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að það er ekki þarna um það að ræða, að fyrst hafi Englendingar komið sem einhverjir blessaðir englar til Indlands og þessara landa, verið að sýna þar fórnfýsi og bræðralag og lagt bara í kostnað og engan ágóða haft og gefið svo 670 millj. manna frelsi. Nei, það var ekki svona. Það var þannig, að fyrst kom ákveðið verzlunarfélag, ákveðnir auðmenn, sem höguðu sér eins og ránsriddararnir í gamla daga, lögðu þessi lönd undir sig. Það var verzlunarfélagið til að byrja með, sem stjórnaði þessu, hvort það var í SuðurAfríku eða í Indlandi, og eftir nokkurn tíma, stundum leið máske heil öld, yfirtók t.d. kannske enska ríkið þetta. Og þessi lönd voru þurrausin. Mannsaldurinn meira að segja styttist, eins og t.d. í Indlandi, vegna þess, hve hart var gengið að, vegna þess, hvernig umhverft var öllum grundvelli undir þeirra lífi. Hvernig fólkið var rekið úr sveitunum, án þess að það væri skapaður möguleiki fyrir það til þess að lifa í bæjunum, það vita þeir menn og það gætu þeir hv. þm. eða ráðh., sem hafa komið til Kalkútta eða Nýju-Delhi eða annarra af þessum borgum Indlands, þeir gætu gefið lýsingarnar á því, hvernig fólkið lífir þar En flestir af þeim, sem ég hef talað við, af Íslendingum, sem þangað hafa komið, hafa lýst því þannig, að til slíks lands gætu þeir ekki hugsað að fara aftur vegna þess, hvernig ástandið væri. — Það var sem sé ekki þannig. Þeir komu sem ræningjar. Þeir lögðu þessi lönd undir sig. Þeir eyðilögðu tiltölulega öruggan grundvöll, sem margar af þessum þjóðum þó höfðu lagt fyrir sína tilveru, og þeir rændu og rupluðu í 2—3 aldir í þessum löndum, og þeir sköpuðu sér auð og allsnægtir og landi sínu vald, þannig að eins og við vitum réð Bretland í upphafi þessarar aldar upp undir fjórðungi heimsins eða hafði ítök í, brezka heimsveldið. Það voru þjóðirnar, sem urðu að bera kostnaðinn, og það var England, sem varð ríkt. Og enn þá sitja þeir menn, sem rændu þannig, eins og í Suður-Afríku, með allt bezta landið, sem þar var til, hafandi rekið íbúa landsins út á hjarnið svo að segja. Og allir menn, sem tala og skrifa af einhverri ábyrgðartilfinningu um ástandið í Suður-Afríku núna, segja: Takist ekki að koma viti fyrir þá hvítu, sem stjórna þar, verður það eitt ægilegasta blóðbað, sem veraldarsagan hefur séð, þegar allur sá svarti fjöldi rís upp. — Og það er þeim, sem hafa alltaf lýðræðið á vörunum bezt að hugsa svolítið út í, þegar nokkur hundruð þúsund manna kúga yfir 4 millj. og svipta þá öllum mannréttindum.

Þessum þjóðum var ekki gefið frelsi. Þessar þjóðir voru að rísa upp. Það var eftir uppreisn sjóliðanna á sjálfum brezka flotanum í Indlandi, af því að brezk yfirstétt hefur venjulega verið með raunsæjustu yfirstéttum jarðarinnar, — sem ekki verður sagt um amerísku yfirstéttina núna, hún á dálítið eftir að læra enn þá af því, ef henni gefst nokkurn tíma tækifæri til þess, — brezka yfirstéttin var það raunsæ, að hún sá, að hún gat ekki haldið þessari þjóð niðri. Þess vegna kaus hún að láta undan í tíma og sleppa sínum pólitísku völdum. Gegn hverju? Gegn því að halda sínum efnahagslegu völdum. Bretarnir eiga öll ríkustu og mestu fyrirtæki Indlands í dag. En þeir voru nógu skynsamir, af því að þeir voru fyrst og fremst kaupmannaþjóð og kaupmannastétt, til þess að hugsa fyrst og fremst um að reyna að varðveita peningana, en sleppa krúnunni yfir Indlandi, sleppa keisaratigninni. Þess vegna er það ekki til neins að koma hérna til okkar og segja, að þessum þjóðum hafi verið gefið frelsi. Það var látið undan við þær. Það voru nokkrar þeirra, sem urðu að sýna það, að þær væru reiðubúnar að taka það, ef þær ekki fengju það. Í Víetnam var barizt í 7 ár við Frakka, þar til eftir tapið við Dien-Bien-Phu, að þeir urðu að gefast upp. Frakkar hættu og sömdu. Og hvað lærðu svo Frakkar af óförunum í Indó-Kína? Þeir lærðu það, að þeir létu sér nægja að berjast í 7 ár í Alsír. Þá var einmitt einn þeirra þjóðernissinnaðasti foringi, de Gaulle, sem hafði þó vit á því að semja við uppreisnarmennina í Alsír og gefa Alsír þar með frelsi, eins og það er kallað.

Það, að tugir landa í Afríku hafa nú fengið pólitískt frelsi og eru orðnar meðlimir Sameinuðu þjóðanna, stafar af því, að þjóðirnar, sem þarna réðu, sáu, að þær mundu bara bíða eftir að fá blóðugar uppreisnir þar, svo fremi sem þær yrðu ekki af sjálfsdáðum fyrri til að gefa þeim pólitískt frelsi og reyna að halda þar einhverjum efnahagsítökum, eins og þær líka hafa gert, Frakkarnir gagnvart sínum gömlu nýlendum í Afríku t.d. Sumir eru það vitlausir, sumir bandamenn hv. þm. og hans NATO-manna, þeir eru hins vegar það vitlausir, hafa þar ekkert lært af veraldarsögunni, eins og t.d. Portúgalar, þessir indælu verjendur lýðræðisins með okkur í Atlantshafsbandalaginu, þeir myrða og drepa enn í Angóla, Mosambique og öllum þeim nýlendum, sem þeir hafa. Það eru enn þá háðar borgarastyrjaldir þar. Þeir hafa ekkert lært enn þá. Þeir ætla auðsjáanlega að bíða og standa í 10—20 ára borgarastyrjöldum þarna og láta Atlantshafsbandalagið hjálpa sér heldur en að láta undan í tíma og gefa þessum þjóðum frelsi, eins og hv. þm. orðaði það.

Við verðum að muna það, þegar við erum að ræða um þessa hluti, að við megum ekki láta þær deilur, sem við oft eigum í, blandast þarna inn í, og ég vil ráðleggja hv. þm., ef hann vill reyna að hugsa þetta mál af einhverri alvöru, að reyna að aðskilja það. Við erum í bandalagi við þær þjóðir, sem hv. þm. úr stjórnarflokkunum og hæstv. ráðh. þykir mjög gaman að kalla lýðræðisþjóðir og eru hér í Evrópu lýðræðisþjóðir, þ.e. Englendingar, Frakkar og aðrir slíkir, en þessar sömu þjóðir, sem hér í Evrópu hafa gert sinar byltingar, ensku og frönsku byltinguna, og barizt fyrir lýðræði og verið brautryðjendur í því, þær eru gagnvart umheiminum, gagnvart Afríku, Asíu og öðrum slíkum, þá eru þær nýlendukúgarar. Á milli þessara þjóða í Evrópu var búið að skipta heiminum upp um aldamótin. Við verðum þess vegna að muna eftir því að láta þá samúð, sem t.d. góðir NATO-menn, miklir vinir vestrænnar samvinnu, hafa með þessum lýðræðisþjóðum, sem þeim þykir svo vænt um að kalla, þeir verða að reyna að gera greinarmun á því, hvernig þeir hugsa um þessar þjóðir, þeirra eiginleika, eins og þær eru heim að sækja í gestaboðum, og hins vegar, hvernig þær eru, þegar við lítum framan í þær sem herraþjóðir í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Þetta er tvennt ólíkt, alveg eins og það gat komið fyrir mann hér áður að hitta mann, sem tók ákaflega vel á móti honum, en var kannske versti harðstjóri við sitt fólk hins vegar, en gestum tók hann yndislega á móti. Þess vegna verðum við að muna það, að þessar lýðræðisþjóðir í Evrópu hafa farið með eldi og ránum um heiminn undanfarnar aldir og lagt heiminn undir sig, þangað til þær núna eru að missa tökin á heiminum, eru enn þá að reyna að viðhalda gömlu aðferðinni, eins og Bandaríkin núna í Víetnam, að reyna að drepa og myrða, eins og hægt er, eitra, þegar ekki dugir annað, en meginið af þeim og þær skynsömustu þeirra hins vegar að láta undan síga. En það er ekki nóg. Það þarf að gera upp fortíðina, og þessar þjóðir standa ábyrgar í þeim efnum.

Nú komum við inn á það, sem hv. 8. þm. Reykv. kom alveg réttilega inn á í sinni ræðu, þar kom hann inn á mál, sem er mjög mikið vandamál í þessum efnum, og það er sú siðferðilega og fjármálalega bótaskylda, þegar um svona hluti er að ræða. Siðferðilega séð bera þessar Evrópuþjóðir og upp á síðkastið Bandaríki Norður-Ameríku ábyrgð á því ástandi, sem skapazt hefur í þessum löndum. Og enn fremur ber þessum þjóðum, af því að þær eru ríkar þjóðir, mjög ríkar og hafa mikið af sínum auði ekki aðeins frá verkalýðnum í sínum löndum, heldur líka einmitt frá þessum fyrri nýlendum, þá ber þeim líka, ekki sízt af því að þetta eru forustuþjóðir heims í stjórnmálum og efnahagsmálum, að hugsa til þess að afstýra þeim voða, að öllum þessum fátæku þjóðum eigi eftir að lenda saman í allsherjar reikningsskilum, jafnvel blóðugum, við þessar ríku þjóðir. Það ætti að reyna að afstýra þeim voða, sem þar vofir yfir. Og ég benti á í minni framsöguræðu, hve illa þetta hefur gengið fram að þessu, og ég tók tölurnar beint eftir einum fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, eftir einum af þeirra riturum, hvernig af 47 milljarða dollara aðstoð á 10 árum hefðu 13 milljarðar dollara tapazt vegna óhagstæðra verðlagsbreytinga og 21 milljarður hefði runnið til baka til ríku þjóðanna sem vextir og gróði, aðeins 1/4 hluti af allri hinni svokölluðu aðstoð hefði orðið eftir hjá þessum fátæku þjóðum. En þó að allt þetta hefði komið að gagni, allt saman orðið að styrk, hefði það samt tekið 80 ár að koma þeim þessara þjóða, sem skást standa efnahagslega, upp á svipað stig og nú er almennt í Evrópu, en 200 ár fyrir þær, sem lélegast standa, í staðinn fyrir að við höfum á svo að segja einni til tveim kynslóðum komizt upp úr þeirri eymd og neyð, sem við vorum í fyrir 100 árum.

Þarna komum við að því spursmáli: Er einhver bótaskylda á höndum Evrópu og Norður-Ameríku í þessum efnum? Ég skal ekki fara út í þá hreinu lögfræðilegu hlið þessa máls, en benda þó í því sambandi aðeins á eitt. Þegar þjóðir fara í styrjaldir, tíðkast það, ýmsir kunna að segja máske: því miður, að að þeim styrjöldum loknum séu lagðar svo og svo miklar skaðabætur á þá þjóð eða þær þjóðir, sem undir verða. Það er ekki skemmtilegt atriði, vafalaust ekki heldur neinn réttur. (Gripið fram í.) Nei, það reyndist ekki lengur neinn réttur, sem þar í felst, en það er það, sem hefur hins vegar gerzt, þegar svona hefur verið að staðið, að stríð hefur orðið. Segjum, að það ætti eftir að verða styrjöld, þar sem allar þessar þjóðir stæðu saman, þessar fátæku þjóðir, á móti þeim ríku þjóðum. Ef til vill yrði það styrjöld, ef hún yrði ekki háð með kjarnorkuvopnum, sem yrði ekki ósvipuð þeirri, sem oft er kölluð þjóðflutningarnir, þ.e. innrás barbaranna, sem kallaðir voru, í það volduga rómverska ríki, þegar það hrundi til grunna. En segjum, að slík styrjöld yrði og þær fátæku þjóðir sigruðu, ekki sízt í krafti síns margmennis, þær yrðu líklega tifaldar á við hinar. Þá mundi að öllum líkindum, eins og öllum styrjöldum hefur lokið hér á meðal hinna breysku manna, þeirri styrjöld ljúka með því, að hinum sigruðu væri gert að greiða ákveðnar skaðabætur. (Forsrh.: Hverjir voru það, sem heimtuðu skaðabætur eftir síðustu styrjöld?) Það voru allir aðilar, held ég, sem heimtuðu skaðabætur eftir síðustu styrjöld, en vafalaust hafa þeir heimtað mestar skaðabætur, sem urðu fyrir mestu tjóninu. Vill hæstv. forsrh. kynna sér til fullnustu, hvað lönd eins og Pólland, Sovétríkin, Júgóslavía urðu fyrir miklu tjóni þá, og bera það saman við það land, sem græddi á hlóðbaðinu, jók alla sína framleiðslu allan tímann, sem safnaði stórauði, Bandaríkin, eins og þau höfðu gert í styrjöldinni 1914—1918 líka? Það eru sum ríki, sem græða á styrjöldum og búa sig undir styrjaldir núna. Og það þarf ekki að líta nema til Víetnam í augnablikinu til þess að sjá, hvernig Bandaríkin græða á styrjöldinni í Víetnam og hvernig framleiðslan eykst í Bandaríkjunum vegna þess, hvernig meira að segja jafnóðum og Bandaríkin eyðileggja hrísgrjónaekrurnar í Víetnam með eitri, þá vex hrísgrjónaútflutningurinn frá Bandaríkjunum, þannig að Suður-Víetnam, sem var eitt mesta hrísgrjónaútflutningsland heimsins, verður núna að flytja inn hrísgrjón og Bandaríkin eru orðin eitt mesta hrísgrjónaútflutningsland veraldarinnar. Á þennan hátt kunna ribbaldar þeir, sem ráða Bandaríkjunum, að tengja saman bisness og keppa um leið að lýðræði.

Þess vegna skulum við hverfa aftur að því, ef til svona styrjaldar kæmi og ef þær fátæku þjóðir, sem sigruðu, heimtuðu skaðabætur af þeim ríku, skyldi þá ekki hafa verið betra fyrir þær ríku þjóðir, áður en slík styrjöld yrði, með öllum þeim skelfingum, sem henni fylgir, að slá til í tíma og semja, meðan hægt er að semja? Það kunna að vera einhverjir hér inni, sem eru á þeirri skoðun, sem ríkisstjórnin í Rhodesíu, eins og hún kallast víst núna, í Suður-Rhodesíu sem var, er á, að það sé bezt að láta slag standa og efna heldur til borgarastyrjaldar en að slaka til gagnvart svertingjunum þar. En mér sýndist afstaða brezku ríkisstj. vera sú og flestra manna í Bretlandi að reyna að telja þessa hvítu menn á að láta undan, en setja ekki allt á eitt spil. Það kunna einhverjir að vera hérna, sem eru þess sinnis, að það sé venjulega bezt að taka baráttuna upp í þessum efnum, slást á meðan hægt er að slást, rétt eins og hæstv. ríkisstj. finnst rétt að sitja á meðan sætt er og lofa öllu að fara til fjandans í efnahagsmálunum. Það er mjög misjafnt, hvernig menn líta á slíkt. Sumir líta ábyrgt á hlutina og álita, að menn ættu að reyna að afstýra ógæfu í tíma.

Sumir segja: Við skulum sitja bara og hugsa, — eins og viss konungur í Frakklandi, en syndaflóðið kemur eftir okkar dag. — Mín hugsun hefur alltaf verið sú, að menn eigi að reyna að afstýra ógæfunni, og það sem ég hef getað skipt mér af íslenzkum stjórnmálum, þá hefur það miðazt við það og orðið nokkuð ágengt stundum. Og ég held, að það væri skynsamlegt, að við Íslendingar, sem einmitt höfum að mörgu leyti borið gæfu til að haga okkur nokkuð skynsamlega á undanförnum áratugum og öld, þyrðum að hugsa og ræða þessi mál af djörfung og reyndum að koma vitinu fyrir þá aðila, sem vilja heldur tefla í tvísýnu og taka einn allsherjar slag heldur en láta undan í tíma.

Þetta er ekki nema smáræði, sem þarf á þann mælikvarða, sem auður fyrir Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku er, til þess að hjálpa þessum þjóðum, sem þarna eiga hlut að máli. Hvað snertir hins vegar, að það yrðu að vera ríkin einvörðungu, sem bæru það, ef tækist samkomulag hjá Sameinuðu þjóðunum, ef hv. 7. þm. Reykv. og allir fulltrúar, sem ríkisstj. sendi héðan, hefðu unnið mjög vel að þessu máli, að fá þetta fram, þeim hefði ekki aðeins tekizt að vinna þá svörtu með sér með því að lesa upp fyrir þá úr Nýjum félagsritum, vel þýddum, heldur hefði þeim líka tekizt að koma vitinu fyrir einhverja af þeim voldugu herraþjóðum, og þá kæmu þær þjóðir að þeim vanda: Ja, okkar ríki, við skulum segja enska ríkið, það getur ekki staðið undir því að eiga að borga þessar skaðabætur. Það er ekki enska ríkið nema að nokkru leyti, sem hefur arðrænt þessar þjóðir. Það eru hin og þessi auðfélög þar. — Vissulega, alveg rétt. Brezka ríkið á bara sinn þátt í því að hafa gert þetta, en það hefur fyrst og fremst verið varðhundurinn fyrir sjálfa auðmannastéttina, sem hefur rænt og ruplað þar. Hvernig mundum við þá fara að? Hvaða ráð ætti hv. 7. þm. Reykv. þá að gefa Wilson og þeim til að sýna þeim, hvernig þeir ættu að fara að, ef þeir væru alveg í standandi vandræðum með sín forríku fyrirtæki? Ég veit ósköp vel, að Unilever á eitt sitt bezta hlutafélag, United Africa Company, sem á meginið af plantekrum Vestur-Afríku. Ríkið á það ekki, enska ríkið, og þeir mundu vafalaust vera í nokkrum vandræðum, hvað þeir ættu að gera við þessi auðfélög. Í Indlandi eru öll voldugustu fyrirtækin líka eign brezkra banka eða brezkra iðjufyrirtækja. En ég skal benda ykkur á eitt dæmi, sem þið mættuð minna Wilson á. Þið skuluð minna þá á, þegar Bandaríkin voru að koma þeim til hjálpar 1940. Ég á þar ekki við tundurspillasöluna, hátt í 50 tundurspilla, þegar þeir voru að tryggja sér herstöðvarnar í þeim brezku nýlendum Vesturheims í staðinn í 99 ár og fá loforð um að afhenda Ísland úr ensku yfirráðasvæði yfir á amerískt, en ég skal minna á þær kröfur, sem ameríska stjórnin, Bandaríkjastjórn, gerði þá um, að nokkur stórfyrirtæki Englendinga í Bandaríkjunum, m.a. eitt af helztu fyrirtækjum Unilevers þar, yrðu seld Bandaríkjunum með tiltölulega hagkvæmum skilmálum. Bandaríkjastjórn notaði tækifærið, þegar England var orðið eitt eftír af þeim þjóðum, sem þá var ekki búið að hertaka í baráttunni við nazismann, — Bandaríkjastjórn notaði tækifærið til þess að kúska Englendinga, af því að þeir börðust svo að segja á hnjánum að verjast nazistum, til þess að neyða þá til að selja stórfyrirtæki í Bandaríkjunum, þannig að þau kæmust í bandaríska eigu, en væru ekki lengur í enskri eigu. Ég efast ekki um, að það væri hægt að komast að margs konar samkomulagi við Indverja og hjálpa á ýmsan hátt betur þar til, ef öll fyrirtæki, sem Bretar eiga í dag í Indlandi t.d., og tek þá bara eitt land sem dæmi af öllum, ef þau væru öllsömun afhent í indverska eigu og indverska ríkið fengi þar með eignarréttinn yfir þessum fyrirtækjum og gæti notað það fé, sem í þeim felst, og þann gróða, sem þau gefa, til þess að byggja upp betra líf fyrir alþýðuna í Indlandi. Ég skal nú ekki tala um, ef Bandaríkjamenn færu að stinga hendinni í eigin vasa og færu að breyta þannig, að olíuhringarnir þeirra færu að reyna að hagnýta auðinn, sem þeir pumpa út úr öllum þeim löndum, þar sem olían er framleidd, á einhvern svipaðan máta, bæði fyrir þær þjóðir og aðrar. Auðæfin, sem einstök auðfélög eiga í öllum þessum ríkjum, eru yfrið nóg, ef ætti að taka það þannig, til þess að gerbreyta um hvað snertir allt lífsviðhorf, allt efnahagslegt viðhorf í þessum löndum. Það er nægur auður til þarna, ef menn aðeins vilja nota hann til þess að bæta líf þessa fólks, sem er að deyja úr hungri, heldur en auka við auðinn, sem fyrir er í Bandaríkjunum, Bretlandi og annars staðar. Það eru þess vegna næg dæmi, ef menn vilja taka þau, um, hvernig hægt sé að láta þá hótaskyldu, sem eitt ríki gengur inn á að sé, ganga yfir til þeirra auðmanna, sem þarna eiga í hlut. Og við skulum gera okkur annað ljóst. Hvernig stendur sá auður í dag og þau auðfélög, sem þessir evrópsku og amerísku auðmenn eiga núna í Indlandi, iðnaðarríkjum Afríku eða slíku? Í sumum þessara landa hafa þessar eignir verið teknar eignarnámi skaðabótalaust. Annars staðar hafa þær kannske verið bættar og borgað í mynt þess lands. Það er allur mögulegur háttur á þessu hafður. Viðkomandi land ræður því sjálft, hvað það gerir í þessum efnum, eftir að þau pólitísku yfirráð eru komin úr höndum gömlu nýlenduherranna er ekkert af þessu öruggt lengur fyrir þessi auðfélög. Það er þess vegna skynsamlegt af þessum auðfélögum að semja þarna í tíma.

Við skulum þess vegna ekki örvænta, eins og mér sýndist hv. 7. þm. Reykv. hafa tilhneigingu til, — við skulum ekki örvænta um, að það sé hægt að koma vitinu fyrir herraþjóðirnar annars vegar og þá þær þjóðir, sem rændar hafa verið, til þess að haga sér skynsamlega hins vegar. Það er hins vegar alveg rétt, og það kom hv. 8. þm. Reykv. alveg réttilega inn á, að það eru ýmis og mikil vandamál, ekki aðeins fjárhagslegs eðlis, sem bíða úrlausnar í þessum efnum. Sannleikurinn er, að eins hræðilegur og sá arfur er, sem Evrópa skilur eftir hjá þessum þjóðum fjárhagslega séð, er hann enn þá ægilegri hvað snertir menntun. Það er e.t.v. þyngsta álösunin til Evrópubúa, að þeir skuli hafa búið svo að þessum þjóðum, að þeir skuli hafa hræsnað með það, að þeir væru að flytja inn kristindóm og menningu og annað slíkt, og skilja þær svo eftir eins menningarsnauðar og þeir verða sjálfir að viðurkenna að þær séu í dag og fara svo þar ofan á að tala um, að það séu vandræðin, þær séu svo menningarlitlar, þessar þjóðir, að þó að við vildum hjálpa þeim, sé það varla hægt.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. muna eftir því, að það var send til þessa þings sendinefnd frá þjóðfrelsishreyfingunni í Nýasalandi, meðan dr. Banda, sem nú er þar forsrh., var í haldi hjá Bretum, og það var verið að spyrja okkur, hvort við mundum ekki vilja leggja inn kæru hjá Evrópudómstólnum til þess að reyna að tryggja, að Bretar væru neyddir til að veita honum einföldustu mannréttindi í sambandi við hans fangelsun. Við drukkum þá með þeim hér niðri kaffi nokkrir, forsetar þingsins o.fl., held ég, og þeir sögðu okkur dálítið frá, hvernig ástandið væri hjá þeim. M.a. sögðu þeir okkur söguna af þremur unglingum, sem höfðu lagt í það að fara fótgangandi frá Nýasalandi norður til Kairó, — það tók þá þrjár vikur, — til þess að komast á gagnfræðaskóla. Þá langaði til að afla sér menntunar, og það var enginn möguleiki í því hámenntaða Englandi, í því landi, sem það hámenntaða England stjórnaði með sínum fínu Oxford og Cambridge, þá var enginn möguleiki fyrir þessa svörtu unglinga að fá menntun, sem samsvarar gagnfræðaskóla hjá okkur. Þeir urðu að stelast burt úr landinu, ganga í þrjár vikur yfir fjöll og firnindi Afríku norður til Kairó til þess að komast á gagnfræðaskóla.

Þegar við hugsum um þann aðbúnað, sem þessar þjóðir hafa haft, finnum við náttúrlega enn þá meira til okkar sektar, Evrópubúar, í sambandi við meðferðina á þessum þjóðum. En trú mín er hins vegar sú, að ef við Evrópubúar og Bandaríkjamenn erum reiðubúnir til þess að hjálpa þeim hvað fjármagnið snertir, yrði okkur ekki skotaskuld úr að hjálpa þeim hvað menntunina snertir. En það var alveg rétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að leggja á það mikla áherzlu. Við Íslendingar stóðum að vísu hvað það snertir betur að vígi. Eins bláfátækir og við vorum, þá tókst aldrei að drepa út menntunina hjá okkur og menninguna. Þegar við áttum ekki léreft til að mála á, gátum við með okkar orðum búið til þau listaverk í lýsingum, í sögum, sem jöfnuðust á við hin fegurstu málverk. En þessa menntun er hægt að bæta á mjög skömmum tíma. Unglingarnir, sem þarna eru í dag, börnin, sem þarna fæðast, og unglingar, sem þarna eru að vaxa upp, ef þau fá allt í einu möguleikana til menntunar, eins og við gætum veitt þeim, gerbreytum við þessu á einni einustu kynslóð. Við skulum ekki láta okkur detta í hug, að þetta fólk sé eitthvað ófærara til að öðlast menningu og listir heldur en við erum, eins og ég gat um í minni framsöguræðu. Íbúar Ghana á 11. og 12. öld bjuggu til höggmyndalist, sem brezkir listsagnfræðingar viðurkenna að sé svo góð, að aðeins sú gríska standi henni framar.

Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að til þess að gera þetta átak í menningarmálum þurfum við líka fjármagn, þannig að þegar öllu er á botninn hvolft, komum við alltaf að þessu aftur. Við megum ekki gleyma því, að fjármagnið er undirstaðan að þessu.

Nú vilja menn máske segja, og þá kem ég að þeirri spurningu líka, sem hv. 7. þm. Reykv. beindi til mín: Geta Sameinuðu þjóðirnar framkvæmt þetta? Hafa Sameinuðu þjóðirnar t.d. einhvern lagalegan rétt til þess að leggja svona skatt á þær ríku þjóðir og borga þetta til þeirra fátæku þjóða? Nei, þær hafa það ekki. Sameinuðu þjóðirnar hafa ekkert vald til þess að framkvæma þetta í dag, ekki nokkurt vald. Það, sem ég er þarna að ræða um, er að reyna að fá Sameinuðu þjóðirnar inn á það, að það sé rétt, það sé pólitískt skynsamlegt út frá sjónarmiði t.d. friðarins í heiminum, það sé mannúðlega rétt sökum hungursins hjá helmingi mannkynsins að gera eitthvað svona. Sameinuðu þjóðirnar hafa á vissum sviðum komið því fram að geta beitt valdi í þessum efnum. Þær hafa t.d. fengið það fram, að það hefur verið stofnuð Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og það er gengizt fyrir því um allan heim að reyna að safna til þessarar barnahjálpar, til þess að draga eitthvað úr þeirri ægilegu tölu, sem ég nefndi, til þess að minnka það, að það verði ekki 30 þús. börn, sem deyja úr hungri á dag, heldur færri. Sameinuðu þjóðirnar hafa sýnt sig í því að geta á fleiri sviðum smám saman gert hitt og þetta í þessum efnum, líka á sviði efnahagslegrar aðstoðar, þannig að það er gefið, að ef Sameinuðu þjóðirnar tækju af verulegum krafti upp svona mál, og ég tala nú ekki um, ef þeir menn, sem auðsjáanlega hafa ekki hugsað allt of mikið um þessi mál enn þá, eins og hv. 7. þm. Reykv., ef þeir fyllast nú brennandi áhuga, vegna þess að þeir sjá, hvernig ástandið sé í veröldinni, og fara að vilja reyna að bæta þetta eitthvað, þá efast ég ekki um, að það væri hægt að fá marga aðra til þess að hugsa eitthvað svipað. En þetta er rétt, Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki í dag neitt vald til þess með meiri hl. atkv. að samþykkja svona. Það, sem þarna verður að gerast, er, að það verður að heyja langa baráttu. Það verður að heyja baráttu um að sannfæra menn, um að opna augu manna fyrir því, að það sé neyðarástand hjá þessum þjóðum, sem við töluðum um, að þetta neyðarástand sé ekki aðeins ómannúðlegt fyrir þær ríku þjóðir að láta viðgangast, heldur sé það pólitískt stórháskalegt fyrir þær. Ég man ekki betur en Kennedy heitinn forseti hafi verið að minna á það í einni af sinum ræðum einmitt, hvað þeir ríku og hvað þær ríku þjóðir yrðu að gera til þess að viðhalda sínu ríkidæmi, m.a. að reyna að afnema fátæktina hjá þeim fátæku. Það er ekkert efamál, að beztu menn þessara þjóða sjá það þegar, hvað þarna þarf að gera. En það er bara fullt af mönnum, sem byrja að glápa á kommúnisma og kapítalisma og annað slíkt, þegar þetta vandamál er rætt, og síðan getur þetta víxlazt út í þau átök, að þær stóru andstæður hér í Evrópu og NorðurAmeríku, stóru stórveldin þar, fari að athuga, á hvern hátt þau geti náð einhverjum pólitískum samböndum í þessum mismunandi löndum, og hvert af þessum ríkustu stórveldum fer að skipuleggja aðstoð frá sér, miðað við sína hagsmuni og miðað við það, sem þau álíta réttast og praktískast.

Ég held þess vegna, að einmitt þessi hugmynd um, að Sameinuðu þjóðirnar ættu að framkvæma þetta, hafi ákaflega sterk rök fyrir sér, en það þýðir, að við yrðum að sannfæra fulltrúa Sameinuðu þjóðanna um, að þetta væri rétt, ekki aðeins fulltrúa hinna rændu þjóða, eins og ég kalla það, heldur líka fulltrúa þeirra ríku þjóða. Og hv. 7. þm. Reykv. væri máske alveg tilvalinn til þess að tala einmitt við fulltrúa þeirra ríku þjóða, því að þær mundu kannske álita, að það væri alveg öruggt, að hann væri ekki úr því rauða sauðahúsi, þannig að hann væri þar með einhvern kommúnistískan áróður við þá, svo að hann ætti að eiga nokkuð vel innangengt þar, ef hann tæki nú þeim sinnaskiptum, sem ég vona að hann taki nú, þegar hann fer að hugsa þessi mál, eins og hann hefur áður gert hér á þinginu með ýmsu háttalagi, og verður þess trausts aðnjótandi, að hans ríkisstj. sendi hann út til þess að reyna að koma þessu máli fram.

Hv. 8. þm. Reykv. kom alveg réttilega inn á það, sem ég hafði ofurlitið minnzt á í sambandi við spursmálið um lán og gjafir, að gjafirnar væru á vissan hátt óheppilegar, jafnvel þótt þær væru gefnar oft með góðum hug. Einmitt vegna þess. Segir ekki málshátturinn, að „sælla er að gefa en þiggja“? Þeim aðilum, sem þiggja það, finnst þeir á ýmsan hátt vera eitthvað bundnari. Máske ef við Íslendingar værum í þeirri aðstöðu að geta gefið stórgjafir, mundi enginn skoða sig skuldbundinn okkur þannig. Við værum lausir við, að það væri haldið, að við værum að reyna að ná einhverjum ítökum í slíkum löndum. Gjafirnar eru engan veginn það heppilegasta. En hvernig eru lánin? Eru lánin heppileg? Hvað þýða lán? Lánin þýða, að það á að borga þau til baka og það á að borga vexti til baka. Og eins og ég gat um áðan, er ástandið nú þegar svo, að af þessum 47 milljörðum dollara, sem búið er að veita á þessum síðustu 10 árum, hefur 21 milljarður dollara runnið til baka sem vextir og afborganir. Maður er þá að gefa með annarri hendinni og taka með hinni. Lánin eru þannig áframhald af gömlu nýlendupólitíkinni. Það má kannske segja, að miðað við 2% verðbólgu almennt í heiminum og 2% vexti af lánum sé lítið arðrán í því út af fyrir sig. Það verða þá a.m.k. lánin, sem eru borguð til baka. En í gamla daga var sagt, þegar Jón boli var að tala, svo að ég fari ekki að sletta enskunni aftur, — þegar Jón boli var að tala um, að hann þyldi allt nema 2%, það var á þeim tíma, sem England var lánardrottinn veraldarinnar, og hann treysti sér til að standa í flestu og þola flest og sýndi sig líka þolgóðan, en hann þoldi allt nema 2%. Þá var gróðinn orðinn of lítill. Ég held, að lán og gjafir séu ekki aðferðirnar við þetta. Hins vegar þykist ég vita, að hjá þeim ríku þjóðum sé yfirleitt mikill vilji til þess að láta fé af hendi, og þá er spurningin um formið, þá er spurningin um að finna út það form, sem segir annars vegar: Það særir ekki þær fátæku þjóðir, og það gefur ekki heldur þeim ríku þjóðum nein ítök, neitt vald, neitt nýtt arðrán. Það er engin ný nýlendustefna, sem í því felst, og ég hef ekki getað komið auga á annað betra í þeim efnum heldur en þessa hugmynd mína, sem ég hef sett fram í þessari þáltill. Af hverju? Ef það tækist að sannfæra Sameinuðu þjóðirnar um að gera þetta, er verið að úthluta til þeirra fátæku þjóða fé og sagt við þær: Þetta er það, sem við skuldum ykkur. Þið eruð að fá til baka það, sem rænt var af ykkur fyrrum. — Þið eigið ekki lagalega kröfu á þessu, mundum við máske segja, eins og Danirnir segja við okkur, þegar þeir eru að færa okkur handritin eða flytja þá deild úr safni Árna Magnússonar hingað heim. Þið eigið ekki lagalegan rétt á þessu, en þið hafið liðið og þið hafið þjáðst þessar aldir, en við erum ríkir og við viljum láta þetta til ykkar sem eins konar skaðabætur, uppbætur eða greiðslur. — Þetta særir ekki þá fátæku í þessu efni.

Þær ríku þjóðir gera þetta, eins og við vitum, að nokkru leyti nú þegar, en þó með þessu móti, að öll aðstoðin er ekki meiri en 47 milljarðar dollara á 10 árum og 2/3 teknir til baka. En þeir menn, sem gleggst þekkja þessa hluti, álíta, að það, sem þyrfti að vera t.d. á einu ári, væri um 25 milljarðar dollara. Sannleikurinn er, að þær ríku þjóðir mundi ekki muna um þetta. Þetta fé mundi að mínu áliti vera látið í té fyrst og fremst í formi véla og annars slíks, véla og vagna. Það mundi, eins og við minntumst á fyrst, e.t.v. hafa eitthvað svipuð áhrif hjá þeim ríku þjóðum og t.d. Marshall-gjafirnar, Marshall-lánin höfðu gagnvart Bandaríkjunum. Marshall-lánin beinlínis, stórjuku framleiðslumátt Bandaríkjanna og reyndust líka frá fjárhagslegu sjónarmiði ákaflega skynsamleg fyrir þau. (Forsrh.: En fyrir þá, sem tóku á móti því?) Fyrir þá, sem tóku á móti því, var það mjög misjafnt. Það hjálpaði Vestur-Evrópuþjóðunum til þess að vinna sig upp og hjálpaði hins vegar um leið ameríska auðvaldinu til þess að ná sterkari tökum á Vestur-Evrópuþjóðunum. Ameríkanar eiga þess vegna nú miklu, miklu meira af fyrirtækjum í VesturEvrópu heldur en þeir áttu áður. Ríku þjóðirnar mundi sem sé ekkert muna um þetta. Það mundi vera mjög auðvelt fyrir þær að veita þetta. Ég held þess vegna, að æskilegt væri, ef maður gæti bara komið þeim inn á þennan hlut, — í staðinn fyrir að þær svo að segja noti þetta sem gjafir og lán til þess að skapa sér pólitísk ítök, ná

pólitískum áhrifum, fengjust þær inn á að fela Sameinuðu þjóðunum að hafa með þetta að gera. Ég veit, að það mundi kosta þó nokkur átök að sannfæra þessi stórveldi um það. En ég get vel trúað, að það yrði hægt, vegna þess að það er ákaflega margt, sem mælir með því, og þegar meiri hl. Sameinuðu þjóðanna væri unninn fyrir þessari hugmynd, mundu vart mörg ár líða, áður en menn sæju, að það yrði að láta undan þessu. Það hefur verið svo með fleira, sem gerzt hefur hjá Sameinuðu þjóðunum.

Og þá komum við að hinu. Hv. 8. þm. Reykv. kom réttilega inn á það, að það væri viss hætta á, ef þessar fátæku þjóðir fengju þetta sem peninga til meðferðar, þá færi þetta í alls konar vitleysu. Það er alveg rétt, að hjá mörgum af þessum fátæku þjóðum er t.d. alveg hreint einvaldsfyrirkomulag. Við skulum t.d. taka þau ríku olíulönd Arabanna. Furstarnir þar lífa í lúxuslífi, sem fer fram úr Þúsund og einni nótt, en fólkið býr við hörmulegustu fátækt. Þess vegna undirstrikaði ég það líka í minni grg., að það næði engri átt að úthluta þessu til þessara ríkja bara sem fé, heldur þvert á móti, það skyldi búa til heildaráætlun fyrir allar þessar þjóðir, sem þarna yrðu með, og sérstaka áætlun fyrir hvert land í samráði við ríkisstj. þess lands um, hvað það skuli gera, þannig að menn komi sér niður á það, eftir að sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa athugað það vel: hvaða verksmiðju byggjum við í þessu landi, hvaða menningar- og félagslegum fyrirtækjum, heilbrigðisstofnunum og öðru slíku komum við upp, hvaða skóla byggjum við og annað slíkt. Þá eru það Sameinuðu þjóðirnar, sem ráða yfir þessu fé. Það eru þær, sem hafa fengið það í gegn, að ríku þjóðirnar láta þetta til þeirra, og þær segja við þessar fátæku þjóðir: Með þessum skilmálum er hægt að fá þetta. Það er hægt að byggja gagnfræðaskóla í Nýasalandi, svo að það þurfi ekki að ganga alla leið til Kairó til að fara á skóla. Og það er hægt að koma upp læknaskólum og öðru slíku. Ég held einmitt, að með því að Sameinuðu þjóðirnar geri þetta á þennan máta og svona sé um þetta samið, sé hægt að koma því þannig fyrir, að það verði þessum rændu þjóðum, þessum fátæku þjóðum, að hvað mestu gagni. Ég efast ekki um, að þetta mundi um leið verða til þess að gera aðstöðu Sameinuðu þjóðanna í veröldinni miklu, miklu sterkari á eftir. Það mundi verða sagt: Sameinuðu þjóðirnar hafa fundið ráð til þess að afstýra þeim geigvænlegu átökum, sem gætu annars orðið á milli þeirra ríku. Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið í sínar hendur að miðla þeim auði, sem ríku þjóðirnar viðurkenna að þær hafi haft af þeim fátæku, en ætla að skila til baka. Þetta mundi gerbreyta afstöðu Sameinuðu þjóðanna í heiminum. Ég held þess vegna, að þessi hugmynd sé ekki bara falleg út af fyrir sig og þess vegna, eins og margt, sem fallegt er, heppilegt að gera grín að því, heldur sé hún líka raunhæf. Ég er út af fyrir sig ekkert óvanur því, að gert sé grín að hugmyndum, sem ég kem með hér á Alþ. Það er allt í lagi. Ég kom með hugmynd hér fyrir 20 árum, sem óskaplegt grín var gert að: skýjaborgir og alls konar vitleysa. Og þær skýjaborgir hafa samt sem áður lagt grundvöll að því tímabili framfara í efnahagsmálum, sem við höfum lifað, síðan lýðveldið var stofnað. Við skulum ekki vera of fljótir á okkur í þessum efnum. Fyrst við á annað borð erum að reyna að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, skulum við ekki vera með neina minnimáttarkennd, þannig að það geti ekkert gott komið frá Íslandi, að við getum aldrei verið annað en t.d. peð, sem dingli eftir því, hvernig Bandaríkin ákveða, að það skuli greiða atkv. Við skulum ganga út frá því, að okkar land geti verið sjálfstætt, okkar land geti haft sitt framtak, okkar land geti komið með góðar hugmyndir, og alveg sérstaklega í þessum málum, þar sem við höfum reynslu, sem mjög fáar Evrópuþjóðir annars hafa. Ég held, að á því sviði beri okkur alveg sérstaklega skylda til slíks.

Hv. 7. þm. Reykv. langaði nú í umræður um ýmislegt annað um leið. Honum fannst þessi till. mín auðsjáanlega allt of smá í sniðum, að ætla bara að hugsa um þessar vesalings hungrandi 1500 millj. í heiminum og vera að einbeita sér að svona smáverkefni. Því í ósköpunum á ekki að taka alla Evrópu þarna inn í líka? Til allrar hamingju er ástandið ekki þannig í Evrópu sem stendur, að menn falli þar hundruðum eða þúsundum saman úr hungri á dag. Það er hér um að ræða mál, þar sem Evrópa, hennar voldugustu ríki, á mikla sök, og þó að hv. 7. þm. Reykv. hafi kannske dottið í hug, að með svona þáltill. ætti að bæta úr öllu misrétti, sem til væri í veröldinni, hef ég satt að segja ekki vogað að hugsa svo hátt. Ég hef látið mér nægja að takmarka mig við þau lönd, þar sem menn falla úr hungri, þar sem meðaltekjur eru frá 50 dollurum á mann á ári og kannske í hæsta lagi upp í 500 dollara. Þjóðir Evrópu búa yfirleitt við það góð lífskjör, að þrátt fyrir ýmislegt, sem þar fer aflaga háðum megin járntjaldsins, ef við viljum taka það þannig, er þetta ekki mál, sem Evrópuþjóðirnar þurfa að glíma við sem þolendur.

Þá fór hv. þm. inn á það, hvort við ættum ekki að fara líka að skipta okkur af ýmsum mönnum, sem hann taldi að hefðu tapað frelsi, og nefndi þá til, hvort við ættum ekki að fara að skipta okkur af því, sem hann kallaði Austur-Pólland, og annað slíkt, þeir hefðu tapað frelsi. Ég hef í þessari þáltill., sem ég hef lagt hér fyrir, verið að ræða um annars vegar þau lönd, sem almennt í heiminum eru kölluð með vægu orði þróunarlönd eða vanþróuðu löndin eða ýmislegt annað slíkt, og hins vegar þau lönd, sem almennt eru kölluð þau ríku lönd í heiminum, og það er þetta, sem um er að ræða. Ef hv. 7. þm. Reykv. er spenntur fyrir því, getum við tekið upp umr. um hitt líka. Ég hef ekki farið hins vegar að leggja til, að við Íslendingar settum okkur á svo háan hest, að við ætluðum að skakka leikinn í innanlandsmálum allra annarra þjóða í heiminum. Það má vel vera, að hv. 7. þm. Reykv. sé gæddur slíkri réttlætistilfinningu og slíkri þekkingu á öllum heimsmálum, að hann treysti sér til þess að segja hverri einustu þjóð og hverju einasta ríki, hvernig það eigi að stjórna sínum málum. Ég ætla mér ekki þá dul. Ég læt mér nægja að segja, að við eigum að leggja eitt lítið orð inn, þegar lítil, fátæk og vanmegna ríki efnahagslega séð eiga við neyð að búa og þegar önnur ríki eru svo rík, að þau vita vart, hvað þau eiga við sína peninga að gera. Hitt er annað, að ætla að fara að tala um það, sem hann minntist á og hann kallaði Austur-Pólland. Ég býst við, að það, sem hann hafi átt við, hafi verið Vestur-Úkraína og Vestur-Hvíta-Rússland. Ef ég á að fara að halda mannkynssögufyrirlestur fyrir hv. þm., voru þetta lönd, sem 1921, þegar stríð var á milli Póllands og Rússlands, voru tekin af Rússlandi og innlimuð í Pólland. Og svo að ég vitni í einhvern mann, sem honum hlýtur að vera kær, þann íhaldssama utanríkisráðherra Breta Curzon lávarð, þegar hann á Versalaþinginu dró landamæralínuna, hvar þeir herrar í Versölum álitu, að landamærin ættu að vera, áleit hann auðvitað, eins og eðlilegt var, að hún ætti að vera þar, sem hún er nú, þ.e.a.s. Vestur-Úkraína og Vestur-Hvíta-Rússland væri sameinað Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. (BP: Var Katrín II ekki búin að næla í eitthvað af Póllandi áður?) Jú, ef ég á að fara að fræða þennan þm. líka, þá versnar það nú heldur. Póllandi var nefnilega skipt þrisvar sinnum, og Katrín II og Friðrik mikli Austurríkiskeisari stóðu þar saman að, og það tókst að lokum að koma Póllandi upp aftur og gera það aftur að sjálfstæðu ríki. Ég vona þess vegna, ef honum er ákaflega annt um Pólland, að hann standi þá mjög vel með Pólverjunum í því að varðveita þann hluta, sem Þjóðverjar eru stundum núna að gera kröfur til að fá til baka aftur af því. Ef hann er sem sé að spekúlera í þeim efnum og við förum að ræða Slésíuvandamálið og annað slíkt, er ég reiðubúinn til þess. Ef hv. þm. hafa svona ákaflega mikinn áhuga á þessum málum, skulum við sem sé ræða um þetta. En ég get sem sagt frætt þá um ýmislegt í þessum efnum, ef þeir óska sérstaklega eftir. En ég hafði ekki hugsað mér, að í þáltill. frá Alþingi Íslendinga tækjum við að okkur að leysa þessi mál öllsömun. Ég hafði ekki hugsað svo hátt. Ef Sjálfstfl. hér á þingi er hins vegar á þeim buxunum eða a.m.k. 7. þm. Reykv., ætti hann að leggja fram sérstaka þáltill. um það. Hins vegar vil ég vara ykkur við, af því að það er nú alltaf rétt, að menn kunni fótum sínum forráð, þegar þeir ætla að stjórna allri veröldinni þannig, og það er, að ef farið væri að tala um slíkt, kæmu kannske til okkar vissir bandamenn okkar í Bandaríkjunum, svartir að lit, og segðu, að þeir ættu ekki við alls kostar góð kjör að búa, þá vantaði ýmislegt frelsi, og þeir kæmu þá kannske til 7. þm. Reykv., og ég mundi þá kannske senda þá til hans, ef þeir kæmu til mín, og hann mundi þá kannske gera út nokkrar sveitir, ekki kannske beint suður til Little Rock, en í Mississippiríkin og á þær slóðir til þess að skakka leikinn, því að ég veit, að ef hann hefði forustu fyrir slíkum og færi að veita þeim svörtu í viðureign við þá hvítu, mundi vafalaust ekki verða mikið eftir af þeim hvítu körlum, þegar hann væri búinn að jafna um þá. Sem sagt, ef hann vill fara að frelsa allar þjóðir, sem eru kúgaðar, og hjálpa öllum mönnum, sem eiga bágt, er það ákaflega fallega hugsað, ef það nær til allra, hvar sem þeir eru. En trúað gæti ég nú samt, að við færðumst fullmikið í fang, ef við gerðum slíkt.

Það er t.d. hér rétt hjá okkur land, sem er okkur á ýmsan hátt skylt, raunar á báða vegu, ef við vildum fara að athuga hlutina þannig. Næsti nágranni okkar, Grænland, það mætti e.t.v. athuga mjög vel, hvort við gætum ekki hjálpað þar dálítið betur en við höfum gert fram að þessu. Ég hef stundum minnzt á það áður og skal ekki fara út í það, en það væri kannske eitt af því næsta, ef hann vill kynna sér, hvernig fátæk nýlenduþjóð lifir. Og var hann ekki eitthvað að tala um verzlunareinokun áðan líka? Hann gæti e.t.v. byrjað á því að afnema hana hjá Dönum gagnvart Grænlandi. Grænland á að heita núna eftir þeirra lagasetningu partur af þeirra landi, og þó held ég, að það sé vitað, að það er eins konar einokun á Grænlandi. Ég held jafnvel, að ferðafrelsið sé ekki allt of mikið þar. Ég er ekki að segja þetta til þess að álasa Dönum neitt. Ég ætla ekki að fara að stjórna innanríkismálum þeirra. En ef hv. 7. þm. Reykv. ætlar að fara að stjórna allri veröldinni þannig, hvað innanlandsmál þjóða snertir, held ég, að hann ætti að líta sér nær.

Hinum megin við okkur er líka annað land, sem heitir Írland. Ef hann er að bera mikinn kvíðboga út af landaskiptingu í Evrópu fyrir 40 árum eða jafnvel fyrir 20 árum, ætti hann máske að athuga á Írlandi. Það er viss hluti af Írlandi enn þá, sem tilheyrir Englandi. Og hann veit kannske, að ein ástæðan til þess, að Írland og þess stjórn er, ef svo má segja, miklu íhaldssamari en okkar hæstv. ríkisstj. hér, — hún hefur ekki einu sinni við að ganga í Atlantshafsbandalagið, þó að hún sé oft kannske í sínum till. næstum því hægra megin við ýmsa menn þar, — er sú, að hluti af hennar landi er enn þá hersetinn af Bretum. Ef við ætlum sem sé að fara að taka að okkur að leiðrétta allt misræmi í veröldinni og skakka leikinn í innanlandsmálum allra þjóða, yrði það nokkuð langt hjá okkur.

Ég held þess vegna, að við ættum að láta okkur nægja að reyna að sjá um þetta, sem ég hef farið hér fram á. Ég held, að það sé alveg nægilegt fyrir okkur. Ég held jafnvel, að hann hafi verið að fara alla leið austur í Tíbet, ef ég heyrði rétt, í sambandi við þetta. Hann vill ekki láta sér nægja Grænland og Írland, hann ætlar líka að fara að laga ástandið í Tíbet. Ég held nú, að það allra versta á ástandinu í Tíbet hafi verið lagað. Sú bændaánauð og það þrælahald, sem þar var, er afnumið. Og ég mundi yfirleitt ráðleggja þessum hv. þm., áður en hann étur amerískan áróður hráan og kastar honum hér út á þinginu, að reyna að athuga þessa hluti og kynna sér þá ofurlítið. Ég skyldi meira að segja hjálpa honum við það, reyna að lána honum einhverjar bækur um þetta og annað slíkt og það frá báðum hliðum, þannig að hann tali ekki eins og grammófónplata.

Hv. 7. þm. Reykv. kom í þessu sambandi líka inn og las upp, — það átti að vera eins konar hryllingslestur, held ég, — að Evrópubúar hefðu farið með mannránum og árásarstyrjöldum, frelsissviptingu, arðráni og hvers konar kúgun og misrétti, og svo kom hann með þrælaveiðarnar líka. Jú, hann skaut því að mér, hvort það væri ekki vissara fyrir mig eiginlega, skilst mér, að tala varlega. Það væru ýmsir menn, sem stjórnuðu í Arabalöndunum, sem væru e.t.v. í einhverju vinfengi við einhverja, sem hann áleit þó, að mundu vera mínir vinir. Ég skal hugga hv. þm. með því, að hvaða utanríkispólitískar ráðstafanir sem einhverjar og einhverjar sósíalistískar stjórnir kunna að álíta skynsamlegt að gera út frá sínu valdapóltíska sjónarmiði, snertir það ekki afstöðuna til þeirra þjóða, sem þær kunna að semja við um slíkt. Það á sér ýmislegt misjafnt stað í mörgum Arabalöndunum enn þá, það er alveg rétt. Það var jafnvel sýnt hérna lítillega í amerískri kvikmynd — góðri amerískri kvikmynd, — það eru meira að segja til góðar amerískar kvikmyndir, þó að þorrinn af þeim sé svo lélegur, að hann sé ekki sýnandi, og við verðum að stynja hér menningarlega undir því að hafa helzt ekki annað en það andskotans óféti, sem sett er í okkur, en m.ö.o., það eru til hérna góðar amerískar kvikmyndir, og ég skal fræða hv. þm. um, að það eru meira að segja ekki aðeins til góðar amerískar kvikmyndir, sem snerta ástand í vissum nýlendum, það eru til góðar amerískar kvikmyndir um ástandið í Bandaríkjunum, sem hann hefði líka gott af að sjá. En annars, þegar þær hafa komið hingað, hafa þær verið sýndar stutt.

Það er alveg rétt, að þetta þrælahald viðgengst enn þá, og það er svona þrælahald, sem var verið að afnema í Tíbet, og var öskrað upp um allan heim, af því að þrælahaldararnir voru reknir í burtu. Hins vegar það þrælahald, sem ég var að tala um, fólst í því, að í upp undir 200 ár voru stundaðar mannaveiðar af hálfu þeirra hákristnu þjóða, Breta og fleiri, þannig að mönnum var rænt í Afríku og seldir mansali til Ameríku. Og sú blóðtaka, sem Afríkuþjóðirnar urðu fyrir á þessum öldum, er reiknuð hvorki meira né minna en upp undir 200 millj. manna, sem hafi verið rænt, og aðeins brot af því hafi komizt lifandi á þrælamarkaðinn í Bandaríkjunum í Ameríku. Þegar ég var þess vegna að tala um bætur þarna, er það spursmálið að reyna að einhverju leyti að bæta þetta upp. Við vitum, að það er ekki hægt að bæta svona hluti. Það er hins vegar hægt að sýna einhvern lit á því að hjálpa þessum þjóðum, sem urðu fyrir svona búsifjum á þessum tíma, alveg eins og það er ekki hægt að bæta þær búsifjar, sem við urðum fyrir á einokunartímanum. Það yrði máske sagt: Það var ekki brezka ríkið, sem leyfði þetta eða stóð fyrir þessu, skulum við segja. Brezka ríkið leyfði það hins vegar langa lengi. Og þeir menn eru löngu dauðir, og þeirra gróði hefur gengið í arf til afkomenda þeirra, sem græddu á þessu. En engu að síður sem heild eiga þær þjóðir, sem höfðu auðsuppsprettu og lifa við auð í dag vegna þess, sem gerzt hefur á þessum öldum, meðan hinir verða að búa við fátækt, þær eiga að bæta fyrir það.

Að síðustu vil ég leggja áherzlu á, að það, sem ég er að hugsa um í þessum efnum, ef einhvern tíma einhver svona hugmynd kæmist fram, þá yrði um að ræða þarna sjóð, sem yrði undir stjórn Sameinuðu þjóðanna, sem ekki væri tekinn úr höndum þeirra, sem þær sjálfar í samráði við hinar einstöku þjóðir, en eftir sínum till., úthlutuðu til þeirra í því formi, sem ég hef rætt um. Og Sameinuðu þjóðirnar gerðu þetta beinlínis sem þátt í því að tryggja friðinn í veröldinni, tryggja, að þessum tveimur aðilum ljósti ekki saman í allsherjarstyrjöld.

Ég minntist á það hér áður, þegar við vorum að minnast á þessa hluti, að í staðinn fyrir, að við höfum nú búið við það næstum tvo áratugi, að það væri talað um þær andstæður í heiminum, sem fyrst og fremst væru kallaðar austur og vestur, kynni svo að fara, að þær höfuðandstæður, sem menn töluðu nú um, yrðu kannske norður og suður, af því að það vill þannig til, að þessi ríki, sem hafa verið ríkust þarna, Evrópa og Norður-Ameríka, eru öll á Norðurhvelinu, en hin hafa verið mestöll á Suðurhvelinu. Ég vil biðja menn um að reyna að þjálfa sína hugsun í því að laga sig að vandamálunum, jafnóðum sem þau skapast, halda ekki áfram að hugsa fyrst og fremst í þeim andstæðum, sem vissulega halda áfram að verða til og verða mjög grundvallandi andstæður, eins og andstæður milli sósíalisma og kapítalisma, en andstæður, sem við vonum að leiði ekki til styrjaldar milli þessara aðila, því að það vitum við öll að mundi þýða tortímingu mannkynsins. Ég vil biðja menn um að reyna nú að hugsa og beina sinni hugsun að þeim vandamálum, eins og þau eru fyrst og fremst í dag. Á öllum Norðurlöndum hafa menn þegar gert þetta. Það einkennir í dag allar stjórnmálaumr. á Norðurlöndum hvað utanríkismál snertir, að þetta vandamál vanþróuðu landanna, eins og þeir kalla það venjulegast, það er stærsta vandamálið að þeirra áliti, langsamlega stærsta vandamálið, og þær pólitískt praktísku ráðstafanir, sem t.d. stjórnir Norðurlanda eru oft að gera núna, eru einmitt þær að reyna á sinn hátt að draga enn þá meira úr þeim djúptæka ágreiningi, sem eðlilega er á milli kapítalisma og sósíalisma og þeirra ríkja, sem þeim stefnum fylgja, en einbeita sér að því að reyna að leysa þessi vandamál.

Það var eitt atriði, sem hv. 8. þm. Reykv. kom inn á, sem ég svaraði ekki. Hann ræddi um, að það, sem Danir hefðu gengið inn á að greiða á vissan máta til okkar, hefði verið afgjaldið af ríkisjörðunum, en þeir hefðu ekki gengið inn á að greiða gróðann, sem einokunarkaupmennirnir hefðu haft af einokunarverzluninni, reikningar Skúla og Jóns hefðu ekki náð fram hvað það snertir. Það er alveg rétt, að þar komum við inn á þennan hlut, sem er á milli ríkisins annars vegar og viðkomandi auðmannastéttar hins vegar og skyldanna, sem á þeim hvíla. En hve langt ein ríkisstj. gengur í að taka hins vegar á sig og hlutfallslega á sína þegna að bæta fyrir það, sem t.d. auðmannastéttir í þessu tilfelli hafa gert, fer eftir aðstæðunum á hverjum tíma. Brezkri auðmannastétt getur þótt rétt að afhenda fyrirtæki, sem auðmenn í Bretlandi eiga, í hendur Bandaríkjanna, þegar brezku stjórninni liggur á að vinna vinfengi Bandaríkjanna með því. Og eins er það t.d., þegar samið er í Alsír. Þeir taka eignarnámi svo og svo mikið af öllum frönsku eignunum, sem eru þar fyrir. Það er samið um það hins vegar um leið, að franska ríkisstj. haldi þar vissum réttindum. Auðmannastéttin franska í Alsír tapar sínu. Þetta fer eftir því, hversu tekst að fá viðkomandi ríkisstj. og viðkomandi auðmannastétt til þess að taka sönsum. Það er t.d. það, sem enska ríkisstj. er að reyna í dag við stjórnina í Rhodesíu, að koma henni í skilning um það, að láti hún undan í dag, sleppur hún með svo og svo mikið af sínum auði, en svo framarlega sem hún heldur áfram, missir hún ekki aðeins auðinn, heldur lífið líka. En að síðustu varðandi það, sem ég álít, að við eigum að gera í þessum efnum hér, þá gladdi mig mjög að heyra þá skýrslu, sem hv. 8. þm. Reykv. gaf um, hvað komið hefði út úr eða byrjað væri að vinna í því máli, sem hann lagði hér fyrir í fyrra. Ég álít, að við eigum að taka þessi mál alvarlega. Ég álit, að við eigum að sýna það, að við getum rætt þessi mál án þess að spinna inn í það allt mögulegt, sem við kunnum að vera ósammála um í innanlandsmálum ýmissa ríkja í Evrópu og Bandaríkjunum. Ég álít, að við eigum að geta einbeitt okkur að því að ræða þessi mál með sérstöku tilliti til sérstöðu Íslands í veröldinni í þessum efnum. Og ég vil minna á, að við, þessir eldri, t.d. þingflokkarnir, mættum taka okkur æskulýðshreyfinguna á Íslandi til fyrirmyndar í þessum efnum, æskulýðssamtökin á Íslandi, þar með samtök allra pólitísku flokkanna. Þau gangast ásamt mörgum öðrum æskulýðssamtökum fyrir almennri söfnun gegn hungri hjá þessum þjóðum og hefja heila „Herferð gegn hungri“. Og við sjáum það og finnum, að þegar farið er út í þessa herferð, fær hún þannig hljómgrunn hjá þjóðinni, að það er a.m.k. langt síðan nokkur söfnun hefur fengið nokkurn svipaðan hljómgrunn. Við þeir gömlu, við þingflokkarnir hérna mættum læra af þeim ungu hvað þetta snertir. Við ættum að feta í þeirra fótspor, taka höndum saman að okkar leyti með að gera till. um það á alþjóðavettvangi að hjálpa til á þessu sviði, hjálpa til enn þá meira og enn þá stórkostlegar en hægt er með því einu að reyna að lina hungur nokkurra barna eða hjálpa til þess að græða illa stödd landssvæði. Ég vil þess vegna vonast til þess, að þessi þáltill., þegar hún nú fer til utanrmn., vona ég, að lokinni þessari umr., verði samkomulag um það hjá okkur, — ég er vissulega til í allar mögulegar breytingar á henni, sem við gætum komið okkur niður á, — þá verði samkomulag um það hjá okkur að afgreiða hana í því formi, sem samstarf næst um, og reyna að láta kveða að Íslandi á skynsamlegan hátt og þann hátt, sem okkur væri virðing að á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða.