13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (2977)

140. mál, takmörkun sjónvarps frá Keflavíkurflugvelli

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Í dag er 13. apríl. Í dag eru 5 ár liðin síðan fyrrv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, veitti herstjórn Bandaríkjanna leyfi til stækkunar sjónvarpsstöðvarinnar. Í 5 ár hefur það ástand ríkt, sem hæstv. menntmrh. hefur sjálfur viðurkennt að sé ósamboðið Íslendingum sem sjálfstæðri menningarþjóð.

Í dag er fundur í Sþ. 7. málið á dagskrá fundarins er þáltill. um takmörkun sjónvarps frá Keflavíkurflugvelli. Þessi till. er flutt af 6 fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna hér á Alþ. Bak við hana standa ekki aðeins þm. stjórnarandstöðunnar, heldur fyrst og fremst íslenzkir menntamenn í einni fylkingu, stúdentar, rithöfundar, listamenn og kennarar, sem opinberlega hafa komið fram í þessu máli með einstæðri samheldni og krafizt aðgerða Alþingis.

Það var ætlun stjórnarandstöðuflokkanna að flytja þetta mál miklu fyrr á þessu þingi en gert var. En ég held, að það sé ekkert launungarmál, að því var stöðugt frestað, viku eftir viku, vegna þess að upplýsingar bárust frá æðstu stöðum um, að mál þetta væri í athugun hjá ríkisstj. og tillöguflutningur stjórnarandstöðuflokkanna gæti haft óheppileg áhrif á gang málsins. Loksins brast menn þolinmæði í marz s.l., og 9. marz var till. á þskj. 296 útbýtt meðal þm. Síðan eru liðnar 5 vikur, og í dag eru, að því er mér sýnist, ekki mjög miklar líkur til, að málið komi til umr.

Ég tek það fram, að ég er alls ekki að halda því fram, að þessu máli sé sérstaklega stungið undan eða að það eigi að hafa forgangsrétt fram yfir önnur þau mál, sem framar eru á dagskránni í dag. Ég er alls ekki að halda þessu fram. En ég vil benda á, að með þeim seinagangi, sem er á afgreiðslu mála hér í Sþ., minnka óðum líkurnar fyrir því, að þessi þáltill. fái fulla þinglega afgreiðslu, þar sem nú eru e.t.v. aðeins tvær vikur til þingloka. Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort ekki sé möguleiki á að hraða afgreiðslu þeirra mála, sem á dagskránni eru, t.d. með nokkrum kvöldfundum, og ég þykist tala fyrir munn margra þm., þegar ég segi, að það er alls óviðunandi, að mál séu ekki tekin til umr. fljótlega, eftir að þau eru lögð fram hér í þinginu, hvað þá þegar dregst í marga mánuði, að umr. hefjist, eins og oft vill vera.