27.10.1965
Sameinað þing: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3064)

28. mál, vegaskattur

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mér er það vel ljóst, að ég get varla gert kröfu til þess, að hæstv. ráðh. gefi tæmandi og glögg svör við þeim fsp., sem ég bar hér fram á seinustu stundu skriflega og ég afhenti honum á fundinum. En að hann gæfi það óljós svör og óglögg, að ég teldi mig ekki hafa fengið svar nema við einni af þeim 6 fsp., sem ég setti fram, taldi ég fyrir fram mjög ólíklegt.

Svar ráðh. við 1. fsp. minni um það, hversu langan tíma það tæki að greiða ákveðin lán af Reykjanesbrautinni af umferðargjaldinu, var það, að það mætti búast við því, að á árunum 1978–1979 yrðu lán þessi að fullu greidd. Það svar tel ég nægjanlegt.

2. spurning mín var um það, hvort fyrirhugað væri að halda áfram innheimtu þessa vegaskatts, eftir að lánin væru greidd upp. Við þeirri fsp. fékk ég ekkert svar, og hæstv. ráðh. vildi reyna að láta líta svo út sem fsp. væri ekki hægt að svara. En er nokkur hv. þm. hér inni, sem trúir því, að hæstv. ráðh. hafi ekki gert sér í meginatriðum grein fyrir stefnunni í þessum málum? Á umferðarskatturinn, ef hann verður notaður sem tekjuöflun fyrir vegagerð í landinu, að vera tímabundinn, eða á hann að gilda ótiltekið? Ég trúi því ekki, að ráðh. hafi ekki hugsað þetta mál þegar, og hann getur vafalaust gefið svar við þessari fsp., ef hann vill það.

3. fsp. mín var um það, hvort svipað umferðargjald yrði lagt á umferðina á Austurvegi, þegar hann yrði endurbyggður, eins og Reykjanesbrautina. Ráðh. sagði, að það yrði matsatriði, þegar þar að kæmi. Á virkilega að trúa því, að ráðh. hafi ekki gert sér í meginatriðum ljósa grein fyrir, hver þau aðalskilyrði þurfi að vera á hinum ýmsu vegum, til þess að hægt sé að leggja á umferðargjald? Ég trúi því ekki. Hann vill ekki svara þessari fsp.

Í 4. lagi spurði ég um það, hvort sérstaða íbúa Vatnsleysustrandarhrepps mundi athuguð og virt í sambandi við greiðslu gjaldsins. Ráðh. svaraði því að vísu, að loforð hefði fengizt um þessa athugun, og má segja, að það svar út af fyrir sig sé nægjanlegt.

5. fsp. mín var efnislega, hvort árlegt fastagjald varnarliðsins vegna nota af veginum fyrir eigin bifreiðar mundi hækka við það, að vegurinn var steyptur, og við það, að umferðargjaldið hefur nú verið sett á þá Íslendinga, sem nota þennan veg. Ráðh. svaraði þessu engu. Hann vildi ekki svara, hvort umferðargjaldið á herbilana mundi hækka til samræmis við það, sem það gerir á bíla Íslendinga, sem þennan veg nota.

6. fsp. mín var um það, við hvaða aðila hann eða rn. hans hefði rætt um umferðargjaldið, áður en það var lagt á. .Ráðh. svaraði því þannig, að hann hefði rætt við ýmsa aðila. Svarið var ekki meira.

Ég verð að segja, að svör ráðh. við þessum fsp. mínum, þó að þær séu seint fram bornar, það skal ég fyllilega viðurkenna, voru þess efnis, að þau eru hvergi nægjanleg. Ég hlýt því að endurtaka eða óska eftir gleggri svörum við þeim fsp., sem ég tel að engin svör hafi enn þá verið gefin við.

Ég vil svo að síðustu aðeins skora á hæstv. ráðh. að endurskoða allt þetta mál og sérstaklega upphæð gjaldsins í ljósi þeirra umr., sem hér hafa átt sér stað um málið.