03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (3077)

44. mál, bygging menntaskóla á Ísafirði

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég álit, að hæstv. ríkisstj. hafi sýnt mikinn stórhug og skilning á mikilvægum þætti íslenzkra fræðslu- og menningarmála, er hún beitti sér fyrir setningu l. á síðasta þingi um stofnun þriggja nýrra menntaskóla í landinu. Með þeim var ákveðið, eins og kunnugt er, að menntaskóli skyldi stofnaður á Ísafirði, á Austfjörðum og nýr menntaskóli í Reykjavík. Þessi mikla aukning menntaskólanna er fyrst og fremst nauðsynleg vegna þess, að þjóðina skortir háskólamenntaða menn. Tilfinnanlegur skortur er hér t.d. á læknum, verkfræðingum og tæknimenntuðum mönnum á fleiri sviðum. Það er hins vegar almennt viðurkennt, að þróun og uppbygging hins íslenzka þjóðfélags hljóti í framtíðinni að vera mjög tengd menntun fólksins og þá ekki hvað sízt þekkingu þjóðarinnar á sviði vísinda og tækni.

Vitanlega verður að leggja áherzlu á það, að hinir eldri menntaskólar okkar séu öflugar og vel búnar stofnanir. Endurbætur á þeim eru því þýðingarmiklar, ekki sízt þeim þeirra, sem vanræktir hafa verið. En hitt er jafnframt mjög nauðsynlegt, að sem fyrst verði hafizt handa um byggingu hinna nýju menntaskóla og þannig stuðlað að fjölgun stúdenta. Það er skoðun mín, að fyrsta framkvæmdin á þessu sviði eigi að vera bygging hins fyrirhugaða menntaskóla á Ísafirði. Hér í Reykjavík eru nú fyrir 4 skólar, sem rétt hafa til þess að brautskrá stúdenta. Eru það gamli menntaskólinn, nýi menntaskólinn, sem er í byggingu og gert er ráð fyrir að taki til starfa á næsta hausti eins og hæstv, menntmrh. lýsti hér áðan, enn fremur verzlunarskólinn og kennaraskólinn. Ég get ekki fallizt á, að eðlilegt væri, að bygging menntaskóla á Ísafirði drægist vegna byggingarframkvæmda við fjórða menntaskólann í Reykjavik, enda er þeirri framkvæmd það langt komið að það ætti að vera óþarfi.

Menntaskóli á Ísafirði verður ekki byggður fyrir Vestfirðinga eina, heldur alla þjóðina, á sama hátt og menntaskólinn á Akureyri var byggður í þágu alþjóðar á sínum tíma, ekki Akureyringa einna eða Norðlendinga. Það er tvímælalaust skynsamlegt að byggja slíkar menntastofnanir í hinum ýmsu landshlutum, eins og hæstv. núv. ríkisstj. hefur lagt til og markað með því nýja, stórhuga og raunhæfa stefnu í þessum þýðingarmiklu málum.

Ég er þakklátur hæstv. menntmrh. og fjmrh. fyrir, að þeir hafa stuðlað að því, að nokkur fjárveiting hefur verið tekin upp í fjárlög næsta árs til byggingar menntaskóla á Ísafirði. Er það einnig í samræmi við yfirlýsingu hæstv. menntmrh. á síðasta þingi, þegar þessi mál voru til umr. hér. Sú fjárveiting þyrfti að vísu að vera allmiklu hærri, en mestu máli skiptir, að unnið verði skipulega og án tafa að undirbúningi byggingarframkvæmda menntaskólans á Ísafirði, þannig að hann geti risið á skömmum tíma og átt þátt í að bæta úr þeirri brýnu þörf, sem fyrir hendi er í þessum efnum.

Ég vil svo að lokum fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. menntmrh. í ræðu hans hér áðan, að ríkisstj. hafi enga ákvörðun tekið um frestun byggingar menntaskólans á Ísafirði. Ég treysti henni líka fyllilega til þess að vinna að undirbúningi skólabyggingarinnar með nauðsynlegum hraða.