16.12.1965
Sameinað þing: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (3172)

86. mál, félagsheimilasjóður

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svar hans, en verð þó að láta í ljós nokkur vonbrigði með það, því að mér sýnist málið vera á sama stigi og það var fyrir 7—8 mánuðum, þegar síðast var rætt um það hér á þingi. Tölur þær, sem hæstv. ráðh. lét okkur heyra, eru okkur kunnar síðan í vor. Ég held, að hann hafi þá gefið þær upp, svipaðar eða sömu tölur og hann kom nú með.

Hæstv. ráðh. er að tala um, að það komi til mála að gefa út ríkistryggð skuldabréf, sem félagsheimilasjóður gæti greitt með framlagið, sem honum er ætlað að greiða, og hæstv. ráðh. segir, að heimilin ættu væntanlega auðvelt með að koma þeim í peninga. Hvað hefur hæstv. ráðh. fyrir sér í því efni? Mundi ríkisstj. e.t.v. greiða fyrir því, að menn gætu komið þessum ríkistryggðu skuldabréfum í peninga? Ég veit það ekki, hann gat ekkert um það. En ég vil aðeins benda á það, að ríkissjóður gefur út annað slagið vísitölutryggð skuldabréf til sölu, og það er sagt, að það hafi gengið allvel að selja þau. Mundu þau verða þannig, þessi bréf, ef til kemur? Mundi ríkið taka sams konar ábyrgð á þeim, vísitölutryggja þau, til þess að greiða fyrir sölu þeirra? Það gæti náttúrlega haft töluvert að segja.

Ég ræði ekki málið frekar í þessum fsp.-tíma, en mönnum fer vitanlega að leiðast að bíða eftir þeirri gagngeru og róttæku lausn á málinu, sem hæstv. ráðh. hét okkur fyrir 7—8 mánuðum.