30.03.1966
Sameinað þing: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3193)

147. mál, verðlagsmál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var aðeins út af því, sem hæstv. viðskmrh. talaði um hagskýrslurnar og upplýsingar viðvíkjandi gróða og auðskiptingu. Það hefur hvað eftir annað hér á Alþingi verið farið fram á það, að hæstv. ríkisstj. léti rannsaka, hver gróðamyndunin og gróðaskiptingin og auðskiptingin í landinu væri. Það er búið að gera þetta í meira en áratug. Það er hins vegar svo, að stjórn, sem styðst fyrst og fremst við auðmannastéttina og rekur pólitík, sem samsvarar hennar hagsmunum, virðist hafa lítinn áhuga á því að velta slíkar upplýsingar. Erlendis er nokkurn veginn hægt að ganga að svona upplýsingum, vegna þess að þar þykir skattaframtal yfirleitt það heiðarlegt, við skulum segja t.d. í Bandaríkjunum, að þar getur maður bókstaflega flett upp í skattskýrslum og séð gróða þeirra stóru hringa og séð hins vegar, hvað þeir borga í laun. Hérna aftur á móti hefur íslenzk auðmannastétt sína bókfærslu þannig, að hún dylur þetta eins og hún getur, og þær ríkisstjórnir, sem setið hafa að völdum, hafa reynt að hylma yfir þetta með henni. Það hefur verið svo mikið af sérfræðingum í þjónustu hæstv. ríkisstj., að hefði hún haft áhuga á því að kynna almenningi, hvernig auðskiptingin í landinu væri og hvernig gróðamyndunin væri og hvernig sá gróði skiptist, þá hefði það verið hægt.

Það eina, sem maður hefur getað séð, það er nokkurn veginn, hvernig t.d. verzlunin hefur sogað til sín í æ ríkari mæli lánsféð frá bönkunum og aukið hjá sér einnig meira en til samans hjá iðnaði og sjávarútvegi, og það hefur ekki farið fyrst og fremst til samvinnuverzlunarinnar. Ég skal ganga út frá því, að mikið af þeim gróða, sem skapast í heildverzluninni núna, sé ólöglegur gróði, og ríkisstj. gæti kannske gefið upplýsingar viðvíkjandi bæði tekjuskattinum og slíku, hvað hún telur líklegt, og söluskattinum. Hins vegar býst ég við, að kaupfélögin yfirleitt skili söluskattinum.

Það er þess vegna svo, að það þarf að gera sérstakar ráðstafanir til þess að fá hugmynd um, hvern gróða íslenzk auðmannastétt hefur, hvernig auðskiptingin í landinu er. Þetta er margoft búið að fara fram á, og þetta er hægt að gera. En ef menn hins vegar hafa áhuga á því að dylja hann, er minnstur vandi fyrir eina ríkisstjórn að segja: Þetta er því miður svo erfitt, að það verður líklega langt þangað til við getum þetta. — En það er bara vegna þess, að viðkomandi ríkisstj. tekur ekki auðmannastéttina í landinu því taki, sem þarf. Bankarnir og aðrir slíkir geta fyllilega veitt aðgang að þessu, ef um það væri að ræða. Það er alveg hægt að grennslast eftir þessum hlutum, ef það væri gengið dálítið fast fram í því.

En þegar vinnudeilurnar nálgast, hvað verður þá sagt? Þá verður sagt, að atvinnulífið þoli ekki það, sem verkamenn fara fram á, og það er sungið ár eftir ár. Og ár eftir ár, þegar um það hefur verið rætt, höfum við fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar beðið um að fá skýringar um þetta, hvernig atvinnulífið standi, og það fæst aldrei. Svo segir sjálfur hæstv. viðskmrh.: Þetta er svo erfitt að rannsaka, og við höfum ekki næga sérfræðinga. Okkar sérfræðingar halda, að þetta sé næstum því ómögulegt. — En þeir geta reiknað allt mögulegt annað út, sem þeim er falið að gera.

Við skulum aðgæta það, að þetta er mál, sem snertir mjög þau praktísku stjórnmál í landinu. Allt sem heitir að reyna að dylja, hvernig gróðaauki íslenzku auðmannastéttarinnar er, gerir það að verkum, að verkalýðurinn hlýtur að verða því ákafari í sínum kröfum að knýja fram kauphækkanir, sem hann veit ósköp vel að atvinnulífið þolir. Við þurfum ekki nema líta á, hvernig menn lifa hér í Reykjavik í yfirstéttinni og hvernig heildsalarnir láta afskrifa í sambandi við sín skattaframtöl allan sinn lúxus, á meðan verkamenn verða að þræla 10—12 tíma á dag og hlaðið er síðan á þá vísitölulánum, eins og núna er gert í sambandi við húsnæðið. Þessi þrældómur kemur ekki til með að ganga öllu lengur. Það eru þessir menn, sem halda þjóðfélaginu uppi með sínu starfi, og ef það á að koma fram, þegar vinnudeilurnar nálgast í sumar, að atvinnulífið beri það ekki, þá er það annað, sem atvinnulífið ekki ber, og það er lúxuslíf yfirstéttarinnar í Reykjavík. Ef hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til þess að koma með skýrslu um þetta, sem sé hægt að líta á sem hlutlausa skýrslu, verður stéttabaráttan einu sinni enn að ganga sinn gang og hver staðhæfir sitt.