27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

111. mál, bifreiðaferja á Hvalfjörð

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þessa bílferju, sem búið er að tala um hér í æðimörg ár, bæði utan þings og innan. Ég verð að segja það, að ég hef mjög takmarkaða trú á þessu fyrirtæki. Ég hef ekki trú á því, að það þyki svara kostnaði fyrir ferðamenn að biða eftir ferju með þeirri fyrirhöfn, sem það nú er að koma bílnum sínum á sinn stað og sjálfum sér á sinn stað og aka á ferjuna og af henni aftur, þegar haft er í huga, að það er aðeins 55 km vegalengd, sem sparast. Hvað er lengi verið að aka 55 km á góðum vegi? Það fer auðvitað eftir því, hver hámarkshraði er leyfður hæstur, en með löglegum hraða hygg ég að það mundi taka eitthvað nálægt 45 mínútum. (Gripið fram í.) Já, er það ekki sá hraði, sem kemur væntanlega á hraðbrautum, þegar þær eru komnar í notkun?

Það er upplýst í skýrslu hæstv. ráðh., að ferðirnar verði á hálftíma fresti, miðað við, að tvær ferjur verði notaðar. Ef hugmynd hv. fyrirspyrjanda yrði framkvæmd fyrst um sinn, mundu ferjurnar vitanlega verða þeim mun sjaldnar, þar sem hann gerir ráð fyrir einni ferju fyrst. Það þýðir það, að þótt tvær ferjur væru notaðar, gæti biðtíminn orðið allt að því hálf klukkustund. Væntanlega tekur einhvern tíma að sigla yfir fjörðinn og að koma bilunum fyrir á ferjunni og taka þá af ferju. Eins og allir vita, sem þessa samgönguleið hafa notfært sér, tekur það talsverðan tíma, og ég held þess vegna, að það þyki ekki hagkvæmt fyrir þá, sem ferðast, að nota þessa ferju. Hitt er svo aftur annað mál, að það má auðvitað alltaf sanna það, að bílferja geti borið sig fjárhagslega. Til þess þarf ekki annað en ákveða fargjaldið nægilega hátt. Og það eru út af fyrir sig sáralítil rök í þessu máli, hvort bílferjur geti borið sig fjárhagslega eða ekki, enda benti hv. fyrirspyrjandi á, að það væri þá nýmæli nánast í íslenzkri vega- eða samgöngusögu, ef vegirnir eða það, sem í þeirra stað kæmi, ætti að borga sig fjárhagslega. Þess vegna er það ekki sú spurning, sem hér þarf að velta fyrir sér, finnst mér, heldur fyrst og fremst, hver er hagkvæmnin, með hvaða móti er hagkvæmnin mest. Ég vil leyfa mér að benda á það, að enda þótt það kæmi bílferja frá þessum tveim stöðum, sem ráðgert er í skýrslunni, þarf að hafa veg eftir sem áður fyrir Hvalfjörð. Sérfræðingar þeir, sem láta skýrsluna frá sér fara, hafa ekki gert ráð fyrir því, að það mundi fara meira en 75% af umferðinni með ferju. Þessi 25%, sem fara þá veginn, þurfa að komast veginn, auk þess sem þarna er byggð, sem væntanlega á að halda áfram í vegasambandi, þó að bilferja komi yfir Hvalfjörðinn utanverðan.

Ég hefði þess vegna viljað óska þess, að áður en farið verður að samþykkja það hér með pompi og prakt, að bílferja skuli koma á Hvalfjörð, verði upplýst fyrir hv. alþm., hvað kosti að gera varanlegan veg með öðrum hætti, og er ekki hægt að stytta veginn fyrir Hvalfjörð með t.d. brú innarlega við fjörðinn, eins og margur maðurinn hefur bent á?

Mig langar til þess að spyrja hæstv. samgmrh., fyrst ég fór að standa hér upp út af þessu máli, hvort hann í skýrslu þeirri, sem hann gaf um kostnaðinn, hafi talið vegagerð frá aðalvegi og að aðalvegi. Ég tók eftir því, að hann gerði ráð fyrir 13 millj. kr. kostnaði við vegagerð á landi. Þýðir það, að það sé þá innifalið í kostnaðaráætluninni vegur frá Hvalfjarðarveginum að sunnanverðu niður að ferju og svo aftur að norðanverðu frá ferju og upp að Norðurlandsvegi? Ef það er, er náttúrlega áætlunin fullnægjandi, en ef það er ekki, sýnist mér, að þennan kostnað vanti, — ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti, — og ef hæstv. ráðh. talar aftur í þessu máli, þætti mér vænt um, að hann upplýsti mig um þetta.