17.12.1965
Efri deild: 32. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forsetl. Þetta stjórnarfrv. speglar marga hluti, en fyrst sérstakt og vandræðalegt andlit ríkisstj., sem grípur til örþrifaráða. Öllum ber saman um, að það sé uppgripagóðæri í landinu. En samt gengur búskapurinn svo illa hjá hæstv. ríkisstj., að hún kemur ekki saman fjárl. ríkisins nema með því móti, meðal annarra slæmra kosta, að taka út af fjárl. óhjákvæmilega liði og ætla gjaldþegnum að borga þá með aukasköttum. Slíkt á nú að gera með þeim hætti, að ég tel til örþrifaráða. Hæstv. ríkisstj. minnir með þessum hætti á þá óforsjálu búskussa, sem settu svo illa á eða fóru svo illa með hey í góðæri, að þeir urðu heylausir og ráku út, sem kallað var. Nú á dögum eru þeir fágætir í bændastétt, þessir menn. En um þá eru til margar skopsögur frá fyrri tíma.

Sá gjaldaliður, sem var á fjárl. yfirstandandi árs vegna rafmagnsveitna ríkisins, 39.2 millj. kr., er nú rekinn út og þetta frv. af því tilefni lagt fram. Það er annars eftirtektarvert, að það virðast einkum vera kindur hæstv. landbrh., sem líka er hæstv. raforkumrh., sem verða fyrir þessu, að vera reknar út. Eftirminnilegar verða 47 milljónirnar til vega, sem reknar voru út og ollu miklum eltingaleik hér á hv. Alþ., þó að þær séu í bili komnar í hús. En sleppum þessu tali. Hins vegar er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. grípur nú til með því að leggja á alls konar aukaskatta til að standa utan fjárl., m.a. launagjöld, sem ríkinu ber að annast, er flóttastefna í stjórnarfari og mjög viðsjárverð. Þessi dreifiaðferð getur fljótt orðið að háskalegum sjúkdómi í fjárhagskerfi þjóðarinnar. Þetta er einmitt aðferð krabbameinsins, sem sáir til sín og dreifir sér um líkamann, ef það fær tíma til þess. Auðvitað þarf nútímasamfélag á mikilli skattheimtu að halda, ef það á að geta orðið við réttmætum kröfum nútíma þegna, og mér finnst Íslendingar oft vera allt of gjaldsárir, þegar samfélagið á í hlut. En sú skoðun mín afsakar þó alls ekki ráðdeildarleysi í meðferð opinbers fjár.

Þegar hæstv. ríkisstj. sá fram á það, að henni ætluðu ekki að hrökkva nálega 4 milljarðar tekna til að byggja upp með venjulegum hætti fjárl. ríkisins fyrir 1966, þá var henni að mínu áliti skylt að stokka upp spilin, en ekki taka upp á því að hafa rangt við, eins og ég tel að hún hafi í raun og veru gert með 47 millj. kr. vegafjárniðurfellingunni og einnig með því að draga út úr fjárl. tillagið til rafmagnsveitna ríkisins, þó að hvort tveggja sé auðvitað fyrir opnum tjöldum gert. En þó að þetta sé gert fyrir allra augum, hlýtur það samt að vera gert til þess, að sjálf fjárlögin verði lægri og minna stingi í augun, hversu mikil skattheimtan er, þegar saman kemur, og hve mikið hún hefur hækkað í höndum þessarar hæstv. ríkisstj. Og þetta tekst að því leyti, að fáir munu nú orðið vera, sem kunna nöfn á öllum tollunum og sköttunum, beinum og óbeinum, og þaðan af síður, að þeir geti tínt þá upp í samlagningu til að sjá, hvað þeir gera í heild.

Hæstv. núv. ríkisstj. verpir skatteggjum sínum út um allt. Söluskattahækkanir eru endurteknar, eignarskattur hækkaður á fasteignir, sérskattur lagður á bændur vegna ríkisbanka, iðnlánaskattur lagður á, launaskattur, sérskattur á sement, sérskattur á timbur, sérskattur á steypustyrktarjárn, aðgönguskattur að veitingahúsum, ríkisábyrgðarskattur, vegaskattur og benzínskattur. Þetta er mikil skatteggjafrjósemi og ekki allt upp talið þó.

Flestir þessir skattar efla dýrtíðina, því að þeir fara út í verðlagið jafnharðan. Eitt skattegg eyddist samt um daginn í móðurlífi, farmiðaskatturinn, og verður að teljast nýlunda hjá svo hraustri móður. En annað egg fæddist samstundis í staðinn, gjaldeyrisskatturinn, svo að ástæðulaust er að efast um framhaldsgetu. Og svo er nú þetta skatteggið, rafmagnsskatturinn, sem hér er sérstaklega til umr. og hreiður þess utan fjárl.

Þetta frv. er í sjálfu sér mjög stórt mál. því að það heitir „frv. til l. um ráðstafanir til að bæta fjárhag rafmagnsveitna ríkisins.“ Ekki er vanþörf á því að bæta fjárhag þeirra. En mikil og góð fyrirsögn er ekki einhlít. Eins og ég hef áður sagt, er tilgangurinn með frv. fyrst og fremst sá að losa ríkissjóðinn við útgjöld, enda hefur hæstv. fjmrh. kannazt við það. Og það verður harla lítið úr því, að bættur verði fjárhagur rafveitnanna með þessu tiltæki, þ.e.a.s. eins og frv. er úr garði gert. Ekkert ráðrúm er til að endurskoða frv. Því er fleygt inn í þingið og á að verða strax að lögum, eins og allir vita. Meirihlutavaldi með lokuðum augum á að beita til þess, að mér skilst. Skatturinn, sem frv. felur í sér, er nefndur verðjöfnunargjald og á að nema 35 millj. kr. í heild. Nú er það svo, að verðjöfnunar er þörf. En þetta gjald er ekkert verðjöfnunargjald í reynd, því að það breytir ekki verðhlutföllum, það jafnar ekki.

Eiríkur rauði skírði landið, sem hann fann, Grænland, til þess að nafnið fýsti menn til að flytjast þangað. Sú nafngift varð til að villa. Af hliðstæðum ástæðum og með álíka rétti hafa höfundar frv. kallað rafmagnsskattinn verðjöfnunargjald. Það skattheiti er hrekkur. Ég er fylgjandi raunverulegri verðjöfnun á rafmagni, en á móti þessu gjaldi, eins og það trónar í frv. Rafmagn er orðið lífsnauðsyn fyrir alla. Rafvæðing Íslands alls er mikið fyrirtæki og mikilvægt. Engum manni getur dottið í hug, að peningar til rafvæðingar fáist utan úr geimnum. Ég er alveg sammála orðalagi hv. frsm. meiri hl. fjhn. að því er það snertir. Engum manni getur dottið í hug, að rafmagn geti komizt inn á hvert heimili á Íslandi, svo dreifbýlt sem það er, nema með því móti, að samfélagið beri af því jöfnunarkostnað og hann mikinn. Einnig er rafmagn sú lífsþörf, sem er mjög eðlilegt að sé öllum í té látin á sama verði, og að því ber hratt að stefna. Eins og olía og benzín er selt sama verði um land allt, á rafmagn að verða það líka. Það er afar þýðingarmikið jafnvægismál. En þetta kemst aldrei í kring, nema aðaljöfnunarsjóður þjóðarinnar, ríkissjóðurinn, verði þar að verki. Þess vegna er fráleitt, að tekið hefur verið út úr honum framlagið til rafmagnsveitna ríkisins.

Aftur á móti tel ég spor í rétta átt heimildir þær í frv. um eftirgjafir til rafmagnsveitna ríkisins á tilgreindum skuldum og skuldavöxtum, sem felast í 1.—3. gr. frv. Þær eftirgjafir geta dálitið létt reksturinn. En þær eftirgjafir eru of litlar. Þess vegna flytjum við fjhn: menn Framsfl. brtt. við 1. gr. frv. um, að við gr. bætist ákvæði um að veita ríkisstj. heimild til að ákveða, að ríkissjóður taki að sér greiðslur á föstum lánum, erlendum og innlendum, sem tekin hafa verið handa raforkusjóði vegna rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins.

Þessi till. er heimildartill., og í raun og veru verður það að viðurkennast, að aðeins heimild á við vegna þess, með hvaða hraða málið er rekið, að það getur ekki verið fullkomlega rannsakað, hvað mikið þetta kostar. Ég held þess vegna, ef hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) hefði athugað, að hér er um heimild að ræða, mundi hann ekki hafa haft þau orð um þessa till., sem hann hafði, þá hefði hann getað tjáð fylgi sitt við hana.

Upplýst hefur verið, að þau lán, sem hér um ræðir, eru erlend lán um 438.8 millj. kr. og innlend lán um 143.4 millj. kr., eða samtals ca. 582.2 millj. kr. Talið er, að nálega 131 millj. kr. af þessum skuldum stafi af gengisfellingu ísl. krónunnar í sambandi við erlendu lánin. Auðvitað átti ríkið að taka á sig gengisfellingartapið strax vegna svona fyrirtækis. En betra er seint en aldrei. Ef till. þessi yrði samþ., mundi stórum vænkast hagur rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitnanna og það hafa áhrif á söluverð rafmagnsins hjá þeim. En með því yrði þó engan veginn komizt að því marki, að verðið á rafmagni hjá rafmagnsveitum ríkisins og héraðsrafmagnsveitum ríkisins yrði sambærilegt t.d. við verðið hjá rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þess vegna flytjum við aðra brtt. Hún er einnig heimild, breyting á þá leið, að á eftir 3. gr. komi ný gr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða, að söluverð rafmagns frá rafmagnsveitum ríkisins til héraðsrafmagnsveitna skuli vera jafnhátt því verði, er rafmagnsveita Reykjavíkur greiðir landsvirkjun fyrir rafmagn. Og verð á rafmagni frá héraðsrafmagnsveitum ríkisins skal vera það sama og rafmagnsverð hjá rafmagnsveitu Reykjavíkur. Ríkissjóður greiðir þann halla, sem verða kann af rekstri rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins vegna fyrirmæla þessarar greinar.“

Ég vil undirstrika það, að þessi till. er einnig í heimildarformi og af sömu ástæðu og ég greindi frá, að fyrsta till. væri það. Með slíkri framkvæmd, sem þessi 2. till. gerir ráð fyrir, yrði komizt nærri takmarkinu um jöfnun á rafmagnsverði hjá landsmönnum. Það yrði komizt nærri því.

Loks flytjum við eina till. enn. Hana flytjum við vegna þess, að við teljum, að skipulag rafmagnsmálanna í landinu þurfi gaumgæfilegrar athugunar við og framkvæmd skipulagsins öll. Þegar lög um landsvirkjun og l. um Laxárvirkjun voru sett, var þar um skipulagslega frumsmíð að ræða, og eins og oftar voru málin lögð fram þannig, að Alþingi var í tímahraki með athugun þeirra. Ef ég man rétt, gerði líka hæstv. raforkumrh, þá ráð fyrir, að þau lög yrðu sett í athugun mjög fljótt. Svo kemur þetta frv., sem ákveðið virðist vera að verði gert að lögum með hraðsuðu. Verðbólga og dýrtíð eru sífellt einnig að raska hlutunum stórlega. Þess vegna er nauðsynlegt að endurskoða skipan þessara mála nú þegar. Þau eru stór í sniðum og þung á höndum, en undir þeim og heppilegum úrlausnum þeirra er mikil farsæld komin. Þess vegna er nefndarstarfi sannarlega til þeirra kostandi. Tillaga okkar er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 12. gr. komi ákvæði til bráðabirgða: Ríkisstjórnin skipar 5 manna n. til að endurskoða raforkulögin, nr. 12 frá 2. apríl 1946, og framkvæmd þeirra með tilliti til þess að koma bættu skipulagi á stjórn raforkumála í landinu og ódýrari og hagkvæmari rekstri. Fjórir nefndarmanna skulu skipaðir eftir tilnefningu þingflokkanna, einn frá hverjum, en einn án tilnefningar og sé hann formaður. N. skili áliti fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Ég vænti þess, að hv. stjórnarstuðningsmenn sjái sóma sinn í að samþykkja þessa till.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. lagði fram skriflega brtt., og ég vil lýsa því yfir, að ég mun styðja hana, því að hún herðir á um athugun þessara mála.

Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa lengri framsögu. Það segir sig sjálft af því, sem ég hef tekið fram, að afstaða okkar framsóknarmanna til frv. fer eftir því, hvort brtt. okkar verða samþykktar eða ekki.