18.02.1966
Efri deild: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um það frv., sem nú er hér til 1. umr. Ég geri að vísu ráð fyrir því að eiga þess kost að fjalla um málið í þeirri n., sem því verður vísað til, sjútvn., og get því sparað mér að ræða ýmis atriði, sem hljóta að koma til sérstakrar athugunar í n. En ég tel þó alls kostar óhjákvæmilegt að leggja á það nokkra áherzlu nú þegar við 1. umr., að þetta mál er þannig vaxið, að sjútvn., sem um það mun eiga að fjalla, verður að fá í sínar hendur margvísleg gögn, sem tilheyra þessu máli, til þess að gera það kleift að taka afstöðu til þess, afstöðu, sem væri reist á rökum, á þeim staðreyndum, sem fyrir liggja og fyrir þurfa að liggja, áður en hægt er að afgreiða þetta mál. Og ég vil í því sambandi leggja sérstaka áherzlu á tvennt: 1) Á hvaða grundvelli eru þeir útreikningar byggðir, sem þetta frv. hvílir á eða meginatriði þess? 2) Hafa einhver atriði, sem máli skipta í sambandi við verðlagningu og af komu þeirra atvinnufyrirtækja, sem hér er um að ræða, einhver mikilvæg atriði, ekki verið tekin með í sambandi við þá reikninga, sem frv. byggist á?

Ég held að það sé ekki alls kostar rétt sem sagt er eða a.m.k. látið skína í í grg. fyrir frv., að samkomulag hafi orðið í yfirnefndinni, sem ákvarðar ferskfiskverðið, um þetta frv. eða meginefni þess. Þar varð að vísu samkomulag um það að leggja til, að ferskfiskverðið hækkaði um 17%. Hins vegar hygg ég, að það hafi alls ekki verið samkomulag um að fara þá leið til að ná þessu marki að færa nálægt 90 millj. til á milli greina, þ.e.a.s. frá síldveiðunum og yfir til bolfiskveiðanna. Ég hygg, að þessu atriði hafi til að mynda fulltrúi Alþýðusambandsins ekki verið sammála, og mér er tjáð, að það hafi ekki verið haft samráð við hann um þetta frv., hvernig það hefur verið undirbúið og er í einstökum atriðum úr garði gert.

Aðalefni þessa frv. eða sú nýjung, sem þar er helzt um að ræða, er í stuttu máli sú að færa tæpar 40 millj. kr. milli tveggja framleiðslugreina fiskveiðanna og fiskiðnaðarins, þ.e.a.s. frá síldaraflanum og til þorskaflans. Eins og fram hefur komið, ber enginn á móti því, að það var brýn nauðsyn að hækka ferskfiskverðið og það verulega. Helzta gagnrýnin, sem fram hefur komið í sambandi við þá 17% hækkun á ferskfiskverði, sem ákveðin var nú í vetur, er sú, að þessi hækkun sé ófullnægjandi, sé ekki nógu mikil. en enginn neitar því, að hún hafi verið nauðsynleg og jafnvel að hún sé algert lágmark, svo að ekki sé meira sagt. Þetta er hins vegar allmikil hækkun svona í einu, og ég skal í sjálfu sér láta það liggja á milli hluta, hvort hægt hefði verið eða nauðsynlegt að hafa hana meiri, eins og vitanlega hefði verið æskilegt. En hitt orkar miklu meira tvímælis að mínum dómi og þarf að rökstyðja það betur en þegar hefur verið gert, hvort þessi hækkun á ferskfiskverðinu er með þessu frv. og öðrum þeim aðgerðum, sem því eru samfara, framkvæmd á réttmætan og eðlilegan hátt.

Þessar aðgerðir, sem fyrst og fremst felast í frv., sem hér um ræðir, að færa allverulegt fjármagn með beinum lagafyrirmælum frá einni atvinnugrein til annarrar, ég segi ekki, að slík ráðstöfun sé dæmalaus, að hún hafi ekki verið gerð áður með ýmsu móti, beint og sérstaklega óbeint, en slik ráðstöfun þarf hverju sinni mjög mikillar athugunar við, því að hún er engan veginn einföld og vandalaus. Það er vitað, að með ýmsum hætti, ýmsum óbeinum hætti a.m.k., framkvæmir ríkisvaldið margvíslegar tilfærslur, sem verka e.t.v. hliðstætt við það, sem ætlað er að ná fram með þessu frv., og ég segi ekki, að slíkar tilfærslur með beinum lagafyrirmælum frá einni atvinnugrein til annarrar geti ekki verið réttlætanlegar undir vissum kringumstæðum eða jafnvel óhjákvæmilegar. En það þurfa að liggja fyrir þeim mjög ljós og eindregin rök, ef þær eiga að standast.

Eru þá ekki slík rök fyrir hendi í sambandi við þetta mál? Í fljótu bragði kann mönnum að finnast, að þau séu það og þetta sé tiltölulega upplagt, að taka nú eins og 4 tugi millj. af síldargróðanum, sem svo margir ræða um, og færa hann yfir til fiskiðnaðarins, sem talað er alltaf um að berjist mjög í bökkum. Um þennan síldargróða er það að segja, að síldveiðar eru einhver hin allra óábyggilegasta og sveiflumesta atvinnugrein, sem við stundum, eins og okkur er öllum kunnugt. Nú 2—3 síðustu árin hefur síldveiði í heild verið mjög mikil, og það er ómótmælanlegt, að ýmsir hafa haft bæði mjög miklar atvinnutekjur og ýmis fyrirtæki verulegan gróða í sambandi við síldveiðarnar. Og þá vaknar e.t.v. eðlilega sú spurning: Getur þá ekki verið og er þá ekki réttmætt, að síldarútvegurinn, sá bróðirinn í þessu tilfelli, sem betur gengur og efnaðri er, leggi eitthvað af mörkum til þess að styðja hinn bróðurinn, sem er bolfiskaflinn, sem nú eins og sakir standa er í erfiðari aðstöðu, stendur sig lakar? Hér þarf sérstaklega að athuga tvennt, þegar svara á þessari spurningu. Það er í fyrsta lagi: Hefur sá aðili, sem á að njóta þeirrar tilfærslu, þeirrar verulegu tilfærslu á fjármagni, sem hér er ráðgerð, sannanlega þörf fyrir þetta fé? Og á hinn bóginn: Er sá aðilinn, sem ætlunin er að skattleggja, sannanlega hinn rétti, er hann sannanlega aflögufær?

Ég mun fyrst fara nokkrum orðum um frystihúsin og hag þeirra, en það eru þau, sem hér eiga fyrst og fremst hlut að máli sem þiggjendur í þessu tilfelli. Til þess að frystiiðnaðurinn geti staðið undir hinni ákvörðuðu hækkun á hráefnisverði, er nú talið nauðsynlegt að færa yfir til þessa iðnaðar um það bil 4 tugi millj. af hráefnisverði síldarafla. Það er vissulega alveg rétt, sem allrækilega var undirstrikað af síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Norðurl. v., að allir, sem við einhvern atvinnurekstur fást á Íslandi nú, hafa miklar áhyggjur af því, hversu verðbólgan leikur lausum hala, hversu mikið það hættuástand er, sem hún getur skapað, og hvernig hún getur og hlýtur að ógna framleiðslunni og þá ekki sízt útflutningsframleiðslunni, sem er bundin af verði á erlendum mörkuðum, — getur ógnað tilveru hennar hvenær sem er. En þetta á vitanlega við um atvinnurekstur almennt og e.t.v. útgerðina, a.m.k. sumar greinar útgerðarinnar, alveg sérstaklega. Allt stefnir í þá átt óneitanlega, að útvegurinn hreinlega strandi á skeri verðbólgunnar. En sem betur fer er þetta ekki orðið enn þá, og í sumum greinum er, að ég hygg, afkoman í bili nokkru betri en stundum er látið af, og ég held, að það eigi nú í dag við frystihúsaiðnaðinn. Skýringin á því, að hann stendur þó ekki hallari fæti en raun ber vitni, er vitanlega fyrst og fremst og nálega eingöngu sú, að það hafa orðið mjög verulegar hækkanir á erlendum mörkuðum á útfluttum afurðum þessarar iðngreinar.

Ég skal aðeins nefna nokkrar tölur í sambandi við frystihúsin, sem mér hafa verið tiltækar. Það er að vísu erfitt að afla sér staðgóðra upplýsinga um ýmsa hluti, að því er varðar þennan rekstur. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér, hafa 65 frystihús, hús, sem framleiða samtals um eða yfir 96% af öllum frystihúsaafurðum landsmanna, þessi 65 frystihús hafa haft verulegan hagnað tvö undanfarin ár. Hér eru undanskilin nokkur lítil frystihús úti á landi, sem hefur skort hráefni m.a. og eiga í erfiðleikum af sérstökum ástæðum, en framleiða ekki nema 3—4% af heildarframleiðslu frystihúsanna. En samkv. skattaframtölum þessara 65 frystihúsa, samkv. skattaframtölum þeirra sjálfra höfðu þau tæpar 40 millj. kr. í beinan hagnað á árinu 1964. Ég legg aftur áherzlu á, að þetta er byggt á skattaframtali þeirra, og það ætti því sízt að vera of hátt metið.

Nú liggja að sjálfsögðu ekki fyrir tölur, sem hafa verið dregnar út úr skattaframtölum um reksturinn árið 1965. En útreikningar, sem eru byggðir á nákvæmlega sama grundvelli og útreikningar skattaframtala árið 1964 og gáfu þá útkomuna ca. 40 millj. kr. hagnað, slíkir útreikningar byggðir á sama grundvelli gefa fullt tilefni til að ætla, að á árinu 1965 hafi beinn hagnaður frystihúsanna orðið allt að því helmingi hærri en árið áður eða um 75 millj. kr., þessara sömu 65 aðalfrystihúsa landsins. Þetta er að vísu ekki nákvæm tala; getur ekki verið það, en ég tel, að hún muni ekki vera mjög fjarri lagi.

Þá er þess enn fremur að geta, að þau tvö ár, sem ég ræði hér um sérstaklega, árin 1964 og 1965, hafa umrædd 65 frystihús lagt í endurbætur og viðhald fjárupphæð, sem nemur um 125 millj. kr. Þetta er kallað endurbætur og viðhald. En þeir menn, sem eru þessum málum mjög vel kunnugir. hafa staðhæft í mín eyru og fært að því, að ég hygg, nokkuð gild rök, að óhætt sé að reikna með því, að a.m.k. helmingur þessarar upphæðar, þ.e.a.s. eitthvað yfir 60 millj. eða milli 60 og 70 millj. kr., hafi raunverulega farið í nýbyggingar og sé því í sjálfu sér hreinn rekstrarhagnaður þessara ára, sem kemur fram sem eignaaukning. M.ö.o.: út úr þessu dæmi kemur þetta: Raunverulegur gróði umræddra 65 frystihúsa hefur s.l. tvö ár numið töluvert álitlegri upphæð, eða þegar þetta er lagt saman hvort tveggja, hreinn hagnaður samkv. skattframtölum og helmingurinn af því. sem kallað er viðhalds- og endurbótakostnaður, sé það talið nýbyggingar, kemur út úr þessu dæmi um 175 millj. kr. hagnaður frystihúsanna á þessum tveimur árum, og í rauninni sýnist mér, að hér geti varla verið um annað að ræða en lágmarkstölu, þar sem þetta er byggt á skattaframtölum, en allir vita, að þau sýna algeran lágmarkshagnað, svo að ekki sé meira sagt.

En hver er skýringin á því, að afkoma frystihúsanna virðist ekki vera sérstaklega slæm s.l. 2 ár þrátt fyrir verulega hækkaðan tilkostnað. sem óneitanlega hefur orðið á þessu tímabili? Þetta á sér sína eðlilegu skýringu, og skýringin er, að verðhækkanir fiskafurða á erlendum mörkuðum hafa orðið mjög verulegar á hverju ári nú allmörg undanfarin ár. Samkv. opinberum skýrslum hefur verð á þessum fiskafurðum. sem hér er um að ræða, þ.e. útflutningsverðið. meðalverð. hækkað sem hér segir: Frá meðalverði 1962 til meðalverðs 1963 var hækkunin 4.1%. Frá 1963—1964 var hækkunin 8%. Frá 1964—1965 var hækkunin á erlendum mörkuðum hvorki meira né minna en 13.4%. Og frá 1965 til ársbyrjunar 1966 var hækkunin enn orðin tæp 7%. Það eru líkur til þess, þó að ekkert verði um þau fullyrt, að þessi þróun haldi eitthvað áfram, þótt varlegast sé að spá sem minnstu um það, hvað framtíðin kann að geyma í sínu skauti, en þessar mjög verulegu verðhækkanir á útflutningsafurðum frystihúsa, sem ég nú nefndi, eru þegar orðnar staðreynd.

Nú hefur það, eins og kunnugt er, verið ákveðið, að fiskverð — hráefnisverðið — skuli hækka um 17%, þ.e.a.s. það verð, sem sjómenn og útgerðarmenn fá í sinn hlut. Mér telst svo til, að þessi hækkun á hráefnisverði svari til rösklega 7% hækkunar á útflutningsverði sjávarafurða, — ef eigi að mæta henni með hækkuðu útflutningsverði, verði það að hækka um 7% til að mæta henni einni. Nú er það vitanlegt, að fleiri hækkanir verða á rekstrarkostnaði hraðfrystihúsa, hafa orðið og verða á árinu, og er þar stærsti liðurinn óhjákvæmilega kaupgjaldshækkanir í þeirri dýrtíð, sem við eigum við að búa. Segjum svo, að það þætti réttmætt og eðlilegt, ef niðurstaðan yrði sú, að annar kostnaður, sem er þá fyrst og fremst hækkað kaupgjald, hækki um sama hundraðshluta og ferskfiskverðið eða um 17% á árinu. Til þess að mæta þeirri hækkun á launagreiðslum mundi útflutningsverðmætið þurfa að hækka um 4%. M.ö.o.: til þess að hækkun útflutningsverðmætisins ein saman geti mætt 17% hærra hráefnisverði og 17% hærri vinnulaunum, þyrfti útflutningsverðmætið að hækka frá árinu 1965 um 11%, þ.e. allmiklu minna en hækkun á útflutningsverðmæti þessarar greinar varð frá 1964—1965. Ég tel, að það séu nokkrar horfur á því, að svo verði, sbr. það, að 7% hækkun er þegar orðin staðreynd um áramót. En þó að svo verði ekki, sýnist mér eftir sem áður, að það dæmi, sem ég hef verið að reikna hér, eigi að geta gengið upp, því að það er fleira, sem kemur hraðfrystiiðnaðinum til góða, en hækkun á útflutningsverðmætinu. Það er þá í fyrsta lagi, að frystihúsunum er nú ætlað nokkuð aukið hagræðingarfé úr ríkissjóði. En í öðru lagi sýnist mér, að miðað við þær tölur, sem ég nefndi áðan um hagnað frystihúsanna, þurfi ekki að taka nema hluta af þeim hagnaði, sem frystihúsin höfðu á s.l. ári, til þess að þetta dæmi gæti komið sómasamlega út fyrir hraðfrystihúsin, þannig að þau gætu tekið á sig þessar hækkanir, sem ég nú hef nefnt, án þess að sérstakir styrkir komi til.

Það kann að vera, að einhverjar af þessum tölum verði vefengdar, og það er sjálfsagt að rökræða um þær. En grundvöllurinn, sem ég byggi þetta á, er, eins og ég áðan sagði, skattaframtöl hraðfrystihúsanna sjálfra eða meginþorra þeirra, og hygg ég, að megi allsæmilega byggja á þeim grundvelli sem lágmarki þess, hver afkoman hefur orðið.

Maður hefur heyrt það ár eftir ár, að frystihúsin hafa talað um erfiðleika og versnandi afkomu. Það er orðið nærri því árvisst. Og stundum hafa þau vissulega haft töluvert til síns máls vegna þeirra miklu hækkana, þeirrar verðbólgu, sem verið hefur hér innanlands. En ég held, að það gefi þó dálitla hugmynd um það, að ástandið núna, eins og það er um þessar mundir, er nokkru betra en það hefur oft verið áður. Það sést á því, að það mun vera í fyrsta skipti síðan farið var að semja um fiskverð eða ákvarða fiskverð á svipaðan hátt og gert hefur verið nú hin síðari ár, sem frystihúsaeigendur hafa sagt, að þeir gætu tekið á sig nokkra hækkun á ferskfiskverði. Ég hygg, að þegar setzt var að samningaborði nú, hafi það skeð í fyrsta skipti, að þeir töldu sig geta tekið á sig 8% hækkun, áður en farið var að rökræða neitt um það við aðra, hvað þeir gætu. Þetta er vitanlega hin gleðilega afleiðing af því, hversu sjávarafurðirnar og þá í þessu tilfelli afurðir frystihúsanna hafa hækkað mjög verulega á erlendum mörkuðum á undanförnum árum.

Þessar athuganir, sem ég hef sett hér fram, eiga að renna nokkrum stoðum undir það, að ástæða sé til að athuga það nokkru betur en gert hefur verið, hvort sú tilfærsla frá síldveiðum og til bolfiskveiða, þ.e.a.s. til frystihúsanna, sem vinna þorskinn og ýsuna, sé nauðsynleg, eins og á stendur. En nú er lagt til, að það eigi að flytja þarna yfir nálega 40 millj. Og hver er það, sem á að borga þessar tæplega 40 millj., sem hraðfrystiiðnaðurinn á að fá til þess að mæta hækkuðu ferskfiskverði? Það er síldveiðin, sem það á að gera, segja menn. Og hún getur þetta, vegna þess að þar hefur verið um að ræða mikinn gróða, segja menn enn fremur. Það er staðreynd, að síldarverksmiðjurnar hafa haft allverulegan gróða undanfarin ár. Gróði þeirra árið 1964, sem er að vísu hinn mesti, sem um getur, mun örugglega vera um 200 millj. eða jafnvel heldur hærri tala. Það má því með nokkrum rétti segja, að síldarverksmiðjurnar allar, sem samtals græða eitthvað um 200 millj., hefðu getað lagt eitthvað af mörkum til annarra, ef þörf hefði verið á. En nú virðist mér það ljóst, að síldarverksmiðjuiðnaðurinn á í raun og veru ekki að borga fimmeyring af þessum tæpu 40 millj., sem um er að ræða. Það eru aðeins tveir aðilar, sem þessar 40 millj. lenda á. Það eru annars vegar útgerðarmenn síldveiðiskipa og hins vegar sjómenn á síldveiðiskipum. Þessi skattlagning, eins og hún er fyrirhuguð í frv., leiðir einungis til beinnar lækkunar á hráefnisverðinu, á síldinni sjálfri upp úr skipi, og það eru ekki aðrir en útgerðarmenn skipanna og sjómennirnir, sem þessi lækkun lendir á. Og lækkunin nemur, að því er virðist, um 10 kr. á hvert síldarmál.

Nú hafa síldveiðisjómenn grætt einhver ósköp undanfarin ár, segja menn. Það er rétt, að sennilega um það bil þriðjungur síldveiðisjómanna hefur haft ýmist mjög góðar eða það sem við köllum góðar tekjur undanfarin 2—3 ár. Annar þriðjungur síldveiðisjómanna hefur haft allsæmilegar, jafnvel dágóðar tekjur. En þriðjungurinn, sem þá er eftir, hefur, að því er ég bezt veit, haft lélegar tekjur og yfirleitt ekki hærri tekjur en sem svarar þeirri tryggingu, sem um er að ræða, eða lítið fram yfir það, og það eru ekki tekjur, sem eru til þess að miklast af. En hvernig er það þá með síldveiðiskipin? Það má e.t.v. segja, að sum smærri skipin, sem stunda síldveiðar yfir hásumartímann, það er þannig um þau, að það eru yfirleitt gömul skip, en jafnframt hafa þau ekki aðstöðu til þess að veiða nema tiltölulega lítið og það eru fyrst og fremst þau, sem koma í lægsta flokkinn og er að vísu minnst af tekið, en hafa líka af minnstu að miðla. En það eru fyrst og fremst nýju skipin, þau sem langbezt veiða, sem hljóta að borga bróðurpartinn af því, sem á að flytja þarna yfir. Og þessi skip eru ákaflega dýr. Þau kosta með veiðarfærum um og yfir 20 millj. kr., og þau allra nýjustu og stærstu fara töluvert fram yfir það. Þessi skip þurfa því að fiska mjög mikið, ef rekstur þeirra á að bera sig. Og enn vil ég benda á það, að síldveiði hefur sýnt það, að hún er því miður mjög óörugg atvinnugrein. Það eru miklar sveiflur í sambandi við síldveiðar, og það eru ekki alltaf þau uppgrip hjá síldveiðisjómönnum og útgerðarmönnum, sem verið hafa hjá þriðjungi flotans s.l. 2—3 ár.

Ég hef nú bent á það með nokkrum rökum, að það sé full ástæða til þess að athuga betur í fyrsta lagi, hvort nauðsynlegt er að gera þá tilfærslu á milli greina sjávarútvegs, sem lögð er til með þessu frv., og í öðru lagi, hvort það kemur þá réttlátlega niður, eins og er til ætlazt, að sjómenn og útgerðarmenn á síldveiðiflotanum beri þetta einir. Það er enginn efi á því, að framkvæmd á öllum svona tilfærslum, öllum svona færslum á fé milli atvinnugreina, er ákaflega erfið og vandasöm og viðkvæm. Eins og bent var á af hv. 3. þm. Norðurl. v., höfum við um þetta dæmi, sem á að vera til viðvörunar og ég get ekki trúað öðru en þeir, sem sömdu þetta frv., hljóti að hafa hugsað til öðru hverju, meðan þeir voru að ganga frá því. Það er dæmið um það, þegar ætlunin var og ákveðið var með brbl. í vor að færa nokkrar millj. á milli tveggja, ef svo mætti segja, tveggja greina sjálfra síldveiðanna, þ.e.a.s. það átti að færa frá bræðslusíldarverðinu og yfir til saltsíldarverðsins nokkrar millj. kr. En þetta varð svo erfitt og óvinsælt, að síldveiðiflotinn sigldi allur í höfn og neitaði þessu, og það var horfið frá því að framkvæma þessa tilfærslu eða verðjöfnun þarna á milli, og þó mátti segja, að þetta væri ekki mikið annað en færa úr einum vasanum e.t.v. að einhverju leyti í hinn. Að vísu gengur það dálitið misjafnt yfir skipin eftir því, hvað þau hafa aðstöðu til að veiða mikið í salt og hvað þau veiða mikið í bræðslu, og hugmyndin, sem þarna lá að baki, var út af fyrir sig skiljanleg. Hún var sú að stuðla að því, að það yrði, saltað meira, það yrði verðmætari framleiðsla, sem við fengjum, heldur en ella. En þrátt fyrir það, þó að ekki væri um meira að ræða en færa þarna á milli nokkrar millj., miklu lægri upphæð en hér er um að ræða, og þetta var milli tveggja greina sjálfs síldarútvegsins, var það svo óvinsælt, að það eitt með öðru og kannske ekki hvað sízt olli því, að síldveiðiflotinn gerði hina eftirminnilegu uppreisn, sem svo hefur verið kölluð, og ekki varð neitt úr neinu.

Nú spyr ég að lokum: Hefur í sambandi við undirbúning þessa frv. verið haft samband við þá aðila eða fulltrúa þeirra aðila, sem eiga raunverulega að borga þennan brúsa, þ.e.a.s. útgerðarmenn og sjómenn á síldarskipunum? Þetta er mikilvægt atriði, því að mér sýnist, að málið geti horft þannig við, að hér sé verið að reyna að leysa vanda, sem ég að mínum dómi tel að ekki sé enn fullsannað, að sé fyrir hendi, með því að stofna til nýrra og jafnvel stórkostlegra vandræða.

Niðurstaða þessara hugleiðinga minna er, ég vil draga hana saman að lokum í örfá atriði: Það er í fyrsta lagi, að 17% hækkunin á fiskverði, sem ákvörðuð var nú um áramótin, var óhjákvæmileg og nauðsynleg. 2) Það liggur ekki nægilega ljóst fyrir, og í rauninni liggja engir tölulegir útreikningar fyrir um það, að sú tilfærsla, sem þetta frv. gerir ráð fyrir frá síldarútvegi til frystihúsaiðnaðar, sé nauðsynleg í dag. Þvert á móti virðist margt til þess benda, að frystihúsin nú í dag eigi að geta tekið á sig þessa hækkun á ferskfiskverðinu. 3) Þessi tilfærsla, eins og hún er hugsuð, skerðir allverulega hag eða hagnaðarmöguleika ótryggasta hluta útvegsins, þ.e.a.s. útgerð skipa á síldveiðar. 4) Á það legg ég ekki minnsta áherzlu, að þessi tilfærsla eða verðjöfnun í því formi, sem hér er fyrirhugað, er því miður líkleg til þess að geta skapað mjög illvígar deilur í sambandi við næstu síldarvertíð, — deilur, sem gætu haft truflandi og jafnvel örlagarík áhrif. Ég er ekki að hvetja einn eða neinn til þess að stofna til slíkra deilna, en ég bendi aðeins að gefnu tilefni á þá hættu, sem mér sýnist að hér geti verið fyrir hendi og ég veit að getur verið fyrir hendi.

Ég vil taka það fram sérstaklega, að sú hugsun, sem kemur mjög ákveðið fram í grg. frv. og sömuleiðis í ræðu hæstv. sjútvmrh., að breyta grunni útflutningsgjaldanna úr verðmætisgjaldi og í magngjald, þessi hugmynd eða hugsun er að mínu viti athyglisverð og í rauninni, að ég held, algerlega réttmæt. En ég vil benda á það, að í þessu frv. hefur verið horfið að nokkru og allverulegu leyti frá þessu sjónarmiði aftur, sem þó virðist hafa vakað fyrir þeim, sem frv. sömdu, a.m.k. öðrum þræði, og ég fyrir mitt leyti tel. að það sé miður farið. Eg held, að það hafi átt að stíga þetta skref fullt nú.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta frv. að svo komnu máli. Sjútvn., sem fær málið til meðferðar, verður, eins og hér hefur verið lögð rík áherzla á, að fá öll þau gögn, sem tiltæk eru um þetta mál. þau gögn, sem frv. er byggt á, því að það er vitanlega nauðsynleg forsenda þess, að hægt sé að leggja á málið réttan og eðlilegan mælikvarða.