18.02.1966
Efri deild: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þeim tveim hv. ræðumönnum, sem rætt hafa þetta frv., síðan ég flutti framsöguræðu mína, tiltölulega mjög málefnalegar umr. um það vandamál. sem hér er um fjallað. Þó eru örfá atriði í máli þeirra, sem ég vildi víkja örlítið nánar að, þótt ég skuli ekki lengja umr. mikið frá því, sem orðið er.

Ræðumenn eru sammála um, að 17% fiskverðshækkun hafi verið nauðsynleg og jafnvel í lægri kanti þess, sem samkomulag hefði getað tekizt um. Það er viðurkennt m.ö.o., að það sé algert lágmarksverð, sem þarna hafi verið náð, og er síðan vitnað í marga útgerðarmenn, sem látið hafa til sín heyra á opinberum vettvangi undanfarna daga, um, að þeir telji 17% hækkun of lága. Til þess þó að ná þessari 17% hækkun var talið nauðsynlegt af yfirnefndinni að fara ákveðnar leiðir auk þess fyrirheits, sem gefið var um opinberan stuðning þar að auki, sem nánar mun verða skýrt frá í sambandi við frv., er ég boðaði í minni framsöguræðu og enn hefur ekki verið lagt fram, um sérstaka aðstoð við sjávarútveginn, svipað því, sem flutt var hér á síðasta þingi. Ef menn eru sammála um það, sem við getum ályktað af ræðum þessara tveggja hv. síðustu ræðumanna, að 17% fiskverðshækkun hafi verið algert lágmark, hljóta menn líka að vera sammála um, að nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja þetta verð hafi orðið að gera. Og það virðist mér a.m.k. hv. 3. þm. Norðurl. v. einnig viðurkenna og hann telji nauðsynlegt, að hið opinbera komi þarna til móts við þá fáu aðila, sem auk þess er ætlað að greiða þessa fiskverðshækkun, sem er síldariðnaðurinn, eins og hér hefur verið bent á.

En á hinn bóginn vilja menn a.m.k. ekki á þessu stigi, sem er e.t.v. eðlilegt, það vantar frekari upplýsingar um málið að þeirra dómi, vilja menn ekki ræða um það, hver eigi að borga brúsann. Það er sem sagt ákvörðun, sem bíður síðari tíma, þegar þeir hafa haft aðstöðu til í nefndarstörfunum að kynna sér það, hvort nauðsynlegt er að gera þá tilfærslu, sem frv. gerir ráð fyrir, og eins hitt, að framlag ríkisins sé það, sem ráð er fyrir gert. Ég held það og vænti þess, að þeir fái aðgang að þeim upplýsingum, sem þeir óska, í n. og veit, að formaður n. hefur þegar gert ráðstafanir til, að þeim verði þær í té látnar, svo sem kostur er.

Svo hefur verið um það spurt, sér í lagi af hv. síðari ræðumanni, eða frá því skýrt öllu heldur, að ekki hafi verið haft samband við fulltrúa Alþýðusambandsins við samningu þessa frv. Ég skal ekki fullyrða neitt í þessu efni, en ég þykist þó vita svo mikið, að samráð hafi verið haft við alla þá aðila, sem áttu sæti í yfirnefndinni, en hún er, eins og fram kom í minni framsöguræðu, skipuð fulltrúum bæði fiskkaupenda og fiskseljenda. Tel ég þar með svarað þeirri fsp. líka, hvort haft hafi verið samband við útgerðarmenn og sjómenn um þetta mál, og ég hygg, að það samband hafi verið haft við þessa aðila í gegnum störf þeirra í yfirnefndinni. En það er rétt og ekki ástæða til að leyna því, enda hefur það þegar komið fram á opinberum vettvangi, að fulltrúi Alþýðusambandsins tók ekki afstöðu til þessarar niðurstöðu yfirnefndarinnar og lét gera sérbókun, sem ég gat um áðan í minni framsöguræðu, og er hans bókun að meginefni það, að hann telur yfirnefndina ekki vera réttan aðila til að gera það samkomulag eða till. um slíka tilfærslu á gjöldum sem gert er ráð fyrir í frv. En að öðru leyti greiðir hann atkv. með sjálfri niðurstöðunni, þ.e.a.s. fiskverðinu.

Hv. 5. þm. Reykn. taldi, að ráðstafanir frv. mundu, ef að lögum yrðu, lækka verðið á hverju síldarmáli um ca. 10 kr., að hann gizkaði á. Ég skal ekki segja um, hver áhrif þessarar aðgerðar verða á verðlagningu síldarafurða í vor. Hitt veit ég, að að sjálfsögðu munu síldarverksmiðjurnar taka þátt í þessum kostnaði líka, því að síldarverð er á hverjum tíma ákveðið með hliðsjón af því, hvað síldarverksmiðjurnar geti á hverjum tíma greitt, og er talið, að gengið sé til þess ýtrasta í þá átt.

Þegar frá eru dregnar almennar umr., sem inn í þessar umr. hafa þegar blandazt um efnahagsmál og ég skal ekki teygja tímann á að lengja, stendur eftir sú fullyrðing hv. 3. þm. Norðurl. v., að aflaleysi sé ekki ástæðan til þeirra vandræða, sem ýmsar greinar útvegsins eiga við að etja í dag, og er vitnað þar til þess mikla aflamagns, sem aldrei hafi verið meira en á s.l. árl. Það er þó eigi að síður staðreynd, að þær greinar íslenzks sjávarútvegs, sem verst eru staddar í dag, eiga einmitt við mikið aflaleysi að stríða. Vélbátarnir frá 40—120 tonna stærðinni, sem eru of litlir til að stunda vetrarsíldveiðar, og svo togaraflotinn eiga einmitt við þetta stóra vandamál að etja. Og þegar vitnað er til þess, hve fáir bátar hafa stundað línuveiðar á þessari vertíð, og fiskverðinu m.a. kennt um, þá kann það að eiga sín vissu rök, að fiskverðið sé hvað þá útgerðargrein snertir ekki nógu hátt. Hitt veit ég sjálfur af viðtölum við þá menn, sem hér eiga hlut að máli, að þar er fyrst og fremst ástæðan sú, að tekjuvon einstaklinganna og útgerðarmannanna af þessum veiðum er mun minni og hefur verið það undanfarin ár. Í beinu framhaldi af því hafa togaraeigendur á undanförnum árum sótt mjög um það, að veiðisvæði þeirra yrðu rýmkuð, til þess að kanna þann möguleika að veiða á nýjum svæðum, sem þeir telja að fiskur sé á. Það er sem sagt aflaleysi ákveðinna greina í sjávarútveginum, sem ég tel vera eina af höfuðástæðunum til þeirra erfiðleika, sem er við að etja nú, þó að þar komi að sjálfsögðu fleira til.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. spurði: Geta þeir aðilar, sem hér er rætt um að taki á sig aukin útgjöld, geta þeir tekið þau á sig, og hvert verður síldarverðið næsta vor? Ég hef þegar svarað því, að það er ógerlegt að spá um það á þessu stigi, hvert síldarverðið verður næsta vor. Er meira að segja enn þá töluvert af birgðum til í landinu af bæði lýsi og mjöli frá síðustu sumar og haustvertíð, sem ekki er farið og ekki hefur fengizt endanlegt verð á, en m.a. af því verður síldarverðið næsta vor ráðið. En hinu verður þó ekki móti mælt, að sú grein sjávarútvegsins, sem býr við mest góðæri í dag, er stærri vélbátaflotinn, þ.e.a.s. bátarnir yfir 150 tonn og upp í allt að 4 hundruð tonn, sem aflað hafa sérstaklega vel undanfarin ár, og ef þeir aðilar, sem að þeim bátum standa, geta ekki tekið á sig einhverjar auknar álögur, er ég hræddur um, að harðni á dalnum hjá flestum öðrum. A.m.k. hefur það ekki ávallt þótt nein goðgá að færa á milli atvinnugreina, eins og hér er gert ráð fyrir, þegar um tímabundna erfiðleika þeirra er að etja.

Varðandi þá erfiðleika, er ég áðan minntist á, varðandi vélbátana af ákveðinni stærð og togarana, starfa í þeim efnum nú sérstaklega skipaðar nefndir, sem væntanlega innan ekki langs tíma skila sinum sérálitum, og ég veit, að þegar hefur verið í þeim báðum lögð mikil vinna í að komast að réttri niðurstöðu og grundvalla till. á þeim möguleikum, sem þar eru til úrbóta.

Ég vil svo að öðru leyti ítreka fyrri óskir mínar um það, að n. hraði, svo sem kostur er, störfum sínum, því að tekjuliðir þessa frv. eru miðaðir við gildistöku 1. marz, og ég hef fulla ástæðu til að ætla, að við þeim óskum verði orðið, þó að sjálfsagt sé að láta þær upplýsingar í té, sem málið varða, áður en n. skilar sínum störfum, en ég minni á, að þetta er fyrri deild málsins.