14.10.1965
Efri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

4. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni, 4. þm. Austf., fyrir góðar undirtektir um afgreiðslu þessa máls, og kom það ljóslega fram í hans ræðu, að hann er sammála þeim rökum, sem hníga að flutningi frv., og hefur boðið fram sitt lið til að greiða götu þess hér í hv. þd. Og ég vænti, að svo reynist, eins og ég sagði áðan í minni framsöguræðu, það reynist hugur okkar allra, sem í þessari þd. eigum sæti, að málið fái sem allra fyrst afgreiðslu.

Varðandi þá fsp., sem hann gerði um tiltekna þál., sem hann las hér upp í sinni ræðu, og um afgreiðslu á henni verð ég að svara því, eins og á stendur, að ég hef ekki í þeim verkefnum, sem ég hef komizt til að vinna að í mínum þessum nýju störfum, séð þetta verkefni þar. Ég skal hins vegar láta kanna nú sem allra fyrst, hvort þetta gæti legið í einhverju öðru rn. heldur en því, sem ég starfa í, og spyrjast fyrir um það, þannig að svör gætu legið fyrir um það við síðari umr. þessa máls, en á þessu stigi get ég ekki frekari upplýsingar um það gefið. Ég hef ekki orðið var við það í þeim störfum, sem ég hef unnið þann stutta tíma, sem ég hef þar verið. En ég skal sem sagt sjá svo til, að upplýsingar liggi fyrir um það við síðari umr. málsins hér í hv. þd.