14.02.1966
Neðri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, lá fyrir síðasta Alþ. frv., sem var að mestu leyti shlj. þessu frv., en fékk þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Þá komst frv. til 2. umr., og bar ég þá fram sem minni hl. allshn. till. til breyt. á því frv. Þegar málið kom til 1. umr. á þessu þingi, lýsti ég skoðunum okkar Alþb.- manna á þessu máli og hvaða till. við hygðumst flytja til breyt. og sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það hér við 2. umr.

Karl Guðjónsson kom inn sem þm. Alþb., meðan ég var forfallaður, og tók sæti mitt í allshn. og hefur lagt fram brtt. efnislega shlj. þeirri, sem við fluttum í fyrra, en það er varðandi hlutafjáreign erlendra ríkisborgara í íslenzkum hlutafélögum. Við Alþb.-menn teljum, að í þessu frv. eigi að vera ótvíræð ákvæði um það atriði, að í félagi, þar sem enginn félaga ber fulla ábyrgð á skuldum félagsins, skuli félagið eða stofnunin eiga hér heimilisfang og varnarþing og allir félagar, hluthafar eða aðilar, vera íslenzkir ríkisborgarar. Við sættum okkur ekki við, að nein undanþága sé þar frá í l. sjálfum, en bendum á, að ef þess gerist þörf að dómi meiri hl. Alþ. að leyfa útlendingum að eiga hér hlut í hlutafélögum, sé auðvelt að setja um það sérstök lög hverju sinni.

Annað atriði, sem mest hefur verið deilt um í þessu sambandi, er það, hvort ráðh. skuli hafa undanþáguheimild hvað snertir önnur fyrirtæki en hlutafélög og eignaraðild útlendinga að þeim. Ég hef áður gert grein fyrir skoðunum okkar á því máli. Við erum því algerlega mótfallnir og höfum þar samstöðu með fulltrúum Framsfl. í n. Þar sem fulltrúar Framsfl. flytja nokkuð ýtarlegar till. um þetta atriði, sem við erum efnislega sammála, töldum við ekki rétt að flytja sérstakar till., en styðjum þær, eins og þær liggja fyrir.