21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að karpa við hv. 5. þm. Austf. um skatta eða ekki skatta. Það er, eins og hv. 3. landsk. þm. sagði, kannske næsta ófrjótt tal að vera að karpa um það. Mín skoðun er sú, að það sé ekki um nýja skatta að ræða í venjulegri merkingu þess orðs, svo sem okkar orðræður voru í sambandi við fjárl. Hv. 5. þm. Austf. hefur um það aðra skoðun, og þýðir ekki um það að fást. Og þó að honum kannske þyki, að ég geri með því minn hlut enn verri, vil ég taka það fram, að ég hafði ekkert í huga þá um það, að fjárhagur ríkissjóðs kynni að leyfa það að taka á ríkissjóð þær kvaðir, sem leiddi af aðstoð við útveginn, enda hafði þá enginn maður hugmynd um það, hvort eða hversu mikla fjárhæð þar væri um að ræða. Og varðandi það atriði, að það sé óhæfileg meðferð fjárl. að láta menn greiða atkv. um útgjaldatill., svo sem átti sér stað um niðurgreiðslurnar, sem ég geri ráð fyrir að hann hafi átt við, og miða þær við þá upphæð, sem þar var um rætt, veit hv. þm. mætavel, að niðurgreiðslufjárhæðin er ætið fullkomin áætlunarupphæð í fjárl. og niðurgreiðslum hefur verið breytt til og frá á fjárhagsári æ ofan í æ, þannig að það hefur aldrei verið talið, að þar væri um neina fastmótaða fjárhæð að ræða, enda byggjast niðurgreiðslur ekki á neinni lagasetningu. Heimild til þeirra er að vísu byggð sem almenn heimild á lagasetningu, má segja, en ákvarðanirnar um það, hvort eða að hve miklu leyti niðurgreiðslum sé beitt, eru í höndum ríkisstj. hverju sinni, og hefur aldrei verið efazt um það, að hún hefði þar ákvörðunarvald, hvað sem liði þeirri tölu, sem stæði í fjárlögum.

Annars var það ekki þetta, sem gaf mér tilefni til að standa upp, heldur var það ræða hv. 3. landsk. þm., sem var með sérstakri hógværð og flutt af fullkominni viðurkenningu á öllum staðreyndum þessa máls. Hann vék að því, sem vissulega má um deila, hvort rétt sé að fara þessa leið, sem hér er talað um, að lækka niðurgreiðslur eða framkvæma önnur úrræði, svo sem t.d. að leggja á skatta í einhverju formi. Það er fullkomlega virðingarvert sjónarmið og allt annars eðlis en halda því fram, að það sé ekkert að gera í þessu efni annað en einfaldlega að segja bara ríkissjóði að bera sín útgjöld. Þarna er um allt aðra hugsun að ræða og miklu raunsærri og rökréttari, sem fullkomlega er þess virði, að henni sé gaumur gefinn.

Það er skoðun ríkisstj., svo sem kemur fram í grg. þessa frv., að hún telur ekki fært að gera till. um nýja skatta né heldur telur hún fært að leggja til, að útgjöld til verklegra framkvæmda ríkisins verði enn lækkuð, en það eru, eins og ég áðan sagði, þau einu útgjöld, sem er hægt að spara nokkrar verulegar fjárhæðir á, heldur telur hún, að þetta úrræði sé skást af þessum þremur, þó að það sé engan veginn gott. Og ég skal taka undir það með hv. þm., að þetta er vissulega engan veginn gott, að grípa til þessa úrræðir, ekki vegna þess, að það sé ekki gott að losna við niðurgreiðslur, heldur vegna þeirra afleiðinga, sem það hefur, miðað við núverandi verðlagskerfi okkar. Og ég vil taka það skýrt fram, svo sem ég tók fram einnig í Ed., að ef það er skoðun hv. þm. við nánari athugun þessa máls í þn. eða með öðrum hætti, að það sé hyggilegri leið að gripa til einhverra skatta, sem menn geta þá verið sammála um eða nokkurn veginn sammála um að leggja á, heldur en velja það úrræði, sem hér er bent á, finnst mér það fullkomlega þess virði, að allar slíkar hugleiðingar séu athugaðar af fullri alvöru.

Það eina, sem vakir fyrir ríkisstj., er það, sem ég veit að allir hv. þdm. gera sér grein fyrir að verður að gerast, að afla fjár til að standa undir þeim útgjöldum ríkissjóðs, sem hér er um að ræða. Ég geri ekki ráð fyrir, að hér sé neinn hv. þm., hvorki í stjórnarliðinu né stjórnarandstöðu, sem sé ekki sammála um, að það beri að stefna að því, að ekki verði hallarekstur hjá ríkissjóði á þessu ári, eins og verið hefur síðustu 2 ár, það sé hin brýnasta nauðsyn að lagfæra það ástand. En ef ætti að fara að leggja þessi útgjöld á ríkissjóð án þess að hirða nokkuð um að sjá fyrir fé til þess að standa undir þeim, þá væri um fullkomið ábyrgðarleysi að ræða, sem hlyti að stefna út í hallarekstur vísvitandi stefna út í hallarekstur á þessu ári.