11.10.1965
Sameinað þing: 0. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

Varamenn taka þingsæti - þingmennskuafsal

Aldursforseti (Halldór Ásgrímsson):

Eftirfarandi bréf hafa borizt. Fyrst vegna varamanns Guðmundar Í. Guðmundssonar, en bréf frá Guðmundi Í. Guðmundssyni er svo hljóðandi:

„Ég undirritaður segi hér með af mér þingmennsku.

Virðingarfyllst.

Guðmundur I. Guðmundsson.“

Samkv. þessu hefur Guðmundur Í. Guðmundsson afsalað sér þingmennsku, en Friðjón Skarphéðinsson bæjarfógeti var hans varamaður. Hann hefur nú tekið sæti á Alþingi, hefur setið á Alþingi áður og þegar verið rannsakað kjörbréf hans. Tekur hann því sæti sem aðalmaður, og verður það gilt tekið, ef enginn mælir því gegn.

Á síðasta þingi var lesið bréf frá Gunnari Thoroddsen, þar sem hann afsalaði sér þingmennsku frá lokum þess þings. Sveinn Guðmundsson vélfræðingur er mættur hér á Alþingi í hans stað. Hann hefur átt sæti á Alþ. og kjörbréf hans hefur áður verið rannsakað. Tekur hann nú sæti á Alþingi sem aðalmaður, ef enginn mælir því gegn.

Þá hefur borizt bréf frá Davíð Ólafssyni, svo hljóðandi:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og verð fjarverandi næstu vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að fara fram á, að 1. varamaður landsk. þm. Sjálfstfl., Ragnar Jónsson skrifstofustjóri, taki sæti mitt á Alþingi í fjarveru minni.

Davíð Ólafsson,

6. landsk. þm.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Ragnar Jónsson skrifstofustjóri hefur áður tekið sæti á Alþingi og kjörbréf hans verið rannsakað og samþ. Tekur hann nú sæti á Alþ., ef enginn mælir því í gegn.

Þá hefur borizt svo hljóðandi bréf frá Eðvarð Sigurðssyni:

„Þar sem ég get ekki sinnt þingstörfum næstu vikur vegna sjúkleika, leyfi ég mér, með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis, að fara fram á, að 1. varamaður landsk. þm. Alþb., Ingi R. Helgason lögfræðingur, taki sæti á Alþ. í veikindaforföllum mínum.

Eðvarð Sigurðsson,

3. landsk. þm.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Þessu bréfi fylgir svo kjörbréf Inga R. Helgasonar lögfræðings, sem hefur ekki áður verið rannsakað. Ber því að skipa þm. í kjördeildir, og ef enginn mælir því gegn, mun ég hafa þann hátt á að lesa upp nöfn þm. í stafrófsröð og biðja skrifstofustjóra að draga miða fyrir hönd þm., um leið og nöfn þeirra eru nefnd.