22.03.1966
Efri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

145. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ein og hv. frsm. heilbr.- og félmn. tók fram, varð ekki ágreiningur innan nefndarinnar um frv. í heild sinni. Hins vegar tók ég það fram á nefndarfundum, að ég mundi flytja brtt. við 5 gr. frv., brtt., sem fæli það í sér, að árlegt framlag úr ríkissjóði yrði jafnhátt árlegu framlag úr jöfnunarsjóði.

Frv. sama efnis var á ferðinni á þinginu í fyrra, og í því frv. var einmitt gert áð fyrir þessu, að árlegt framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga yrði 15 millj. kr. upphæð og að árlegt framlag úr ríkissjóði yrði einnig 15 millj. kr. að upphæð. Þessu hefur nú verið breytt á þann veg, að framlag úr ríkissjóði skuli kveðið í fjárlögum hverju sinni.

Í þessari breytingu frá frv. í fyrra el ég, að um talsverða afturför sé að ræða, og ég tel ekki sanngjarnt gagnvart sveitarfélögunum að breyta til í þessu efni.

Í frv. í fyrra var gert ráð fyrir, að ríkissjóður og sveitarfélögin skyldu greiða jafnháa upphæð í þennan ágæta lánasjóð sveitarfélaga. Þá var gert ráð fyrir, að lánasjóðurinn væri sameign ríkisins og sveitarfélaganna, en frá því hefur nú verið horfið með þeirri breytingu, sem orðin er á frv.

Hér var sem sagt um algert jafnræði í fjárhagslegu tilliti að ræða á milli ríkissjóðs og sveitarfélaganna, en nú er þetta jafnræði strikað út. Framlagið úr ríkissjóði skal ákveðast í fjárlögum hverju sinni, og með því er sýnilega, að því er ég bezt fæ séð, horfið að því að draga verulega úr stuðningi ríkissjóðs við sveitarfélögin í þessu efni.

Þetta tel ég mikilsvert atriði og sízt til þess fallið, að ég geti fylgt því. En fyrirætlun um það að draga úr framlagi ríkissjóðs frá því, sem hugsað var á síðasta ári, sannast bezt á því, að lánasjóðurinn, eins og ég tók fram áðan, á ekki að vera sameign sveitarfélaganna og ríkisins, heldur á að vera sjálfstæð stofnun, sameign allra sveitarfélaga á landinu. Ég tel þetta sem sagt ákveðið spor aftur á bak. Mér fannst og finnst mjög sanngjarnt, að ríkið leggi fram fé til þessa sjóðs alveg til jafns við sveitarfélögin, og tel, að það sé ekki ósanngjarnt, að þetta framlag verði óafturkræft, þannig að lánasjóðurinn verði þrátt fyrir það séreign sveitarfélaganna.

Sem sagt, ætlunin er að spara ríkissjóði útgjöld í þessu efni. En það má segja, að ef ríkissjóðurinn megi illa við að skuldbinda sig til þess að afhenda 15 millj. kr. árlega, þá má jöfnunarsjóður sveitarfélaga ekki síður illa við því. Og það munu vera margir fleiri en ég, sem líta svo á, að ríkisvaldið standi í það mikilli skuld við sveitarfélög landsins, að sízt hafi verið til of mikils ætlazt, að það legði fram þessar 15 millj. kr. árlega til lánasjóðsins.

Nú verður það hins vegar ofan á að hlífa ríkissjóði, en níðast á tekjustofnum sveitarfélaganna, níðast á jöfnunarsjóðnum. Það á að rýra það fjármagn, sem sveitarfélögunum stendur sameiginlega til boða til rekstrar og framkvæmda, rýra það um 15 millj. kr. árlega og leggja í þennan sjóð. Ég hefði talið það ekki ósanngjarnt, ef sanngjörn aðstoð hefði komið frá ríkinu, þ.e.a.s. gengið hefði verið til móts við sveitarfélögin um fjárframlög til þessa sjóðs.

Ég hef sem sagt á þskj. 337 flutt till. um það, að hvor aðili, ríkissjóður og jöfnunarsjóður, leggi væntanlegum lánasjóði til 15 millj. kr. hvor árlega. Með þeirri breytingu tel ég sveitarfélögunum vera rétt hjálparhönd og að þau verðskuldi það af hálfu ríkisvaldsins, enda ekki vanþörf á að rétta sveitarfélögunum hjálparhönd. En hjálp er þeim ekki veitt með þessu út af fyrir sig. Þetta er eins konar skyldusparnaður, sem felst í þessu frv., — skyldusparnaður, sem sveitarfélögunum er lagður á herðar. En ég tel, eins og ég sagði áðan, að sveitarfélögin megi illa við því að missa fé úr rekstrinum og framkvæmdunum, og væri þá lítill vegur, ef ríkið kæmi þar til móts við, og auk þess hefði þá verið von til, að lánasjóðurinn gæti orðið eitthvað meira en nafnið eitt, orðið þess verulega megnugur að rétta hlut sveitarfélaganna beinlínis og óbeinlínis í auknum tekjum, er fram liðu stundir.

Ég vænti þess, að hv. dm. athugi þetta frá þessu sjónarmiði og að þessi brtt. verði samþ., en hún er, eins og ég sagði, sama efnis og ráð var fyrir gert í frv. á síðasta ári.