13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

1. mál, fjárlög 1966

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur á milli umr. haft til athugunar ýmis erindi og mál, sem voru ekki athuguð til fulls fyrir 2. umr. eða bárust svo seint, að þau gátu ekki komið til athugunar fyrir þá umr. Helzti málaflokkurinn, sem n. átti óafgreiddan, var um fjárveitingar vegna byggingarframkvæmda skólamannvirkja, sem eru í byggingu, og vegna nýrra framkvæmda við skólamannvirki. Auk þess er um að ræða afgreiðslu á ýmsum erindum, sem n. hefur nú afgr. og leyfir sér að flytja brtt. um á þskj. 153, 164, 166 og 175. Fulltrúar Framsfl. og Alþb. í fjvn. óska, að það sé tekið fram í sambandi við till. n., sem hún flytur sameiginlega, að um afgreiðslu þeirra vísi þeir til sama fyrirvara og þeir höfðu við 2. umr. málsins. Sérstakan fyrirvara hafa þeir látið bóka um till. um framlög til skólamannvirkja, og er hann á þessa leið:

„Varðandi skólamálin viljum við taka fram, að við erum samþykkir hækkun frá því, sem ákveðið var í frv., svo langt sem hún nær, en að öðru leyti stöndum við ekki að afgreiðslu þeirra.“

Meiri hl. fjvn. flytur á þskj. 159 brtt. við tekjuhlið frv. Er þar lagt til, að niður falli farmiðaskattur, sem gert var ráð fyrir að næmi 25 millj. kr. Hins vegar er lagt til, að liðurinn: Hluti af umboðsþóknun og gengismismun gjaldeyrisbankanna hækki um 35 millj. kr. og nemi þá alls 66 millj. og 500 þús. kr. Samkv. þessum brtt. hækkar tekjuhlið frv. um 10 millj. kr.

Ég mun þá víkja að einstökum till. n. á þskj. 153, 164, 166 og 175 við gjaldahlið frv.

Á 7. gr. er gerð sú leiðrétting, að vextir af innlendum lánum skuli taldir 8 514 265 kr. í stað 7 978 100 kr. í frv. Þessi leiðrétting, sem nemur rúmum 536 þús. kr., hefur ekki áhrif á heildarniðurstöðutölur frv., því að hin rétta tala er í rekstraryfirliti.

Við 12. gr. er gerð ein brtt. á þskj. 166, vegna þess að fallið hefur niður við 2. umr. fjárveiting til byggingar sjúkrahúss á Sauðárkróki. Lagt er til að til þess séu veittar 400 þús. kr.

Á 13. gr. A er lagt til að hækka styrk til að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum um 50 þús. kr. Er það vegna gistihússins í Bjarkarlundi á Barðaströnd.

Á 13. gr. F er lagt til að hækka launalið Skipaskoðunar ríkisins um 150 þús. kr. og ferðakostnað um 50 þús. kr. — Einnig er tekinn upp nýr liður: Til rekstrar sjómannaskóla í Vestmannaeyjum 225 þús. kr. Er hér um að ræða helming af rekstrarkostnaði skólans. Hinn helmingurinn er greiddur úr bæjarsjóði Vestmannaeyja, auk þess sem allt stofnframlag til skólans hefur verið greitt af Vestmannaeyjabæ.

Við 14. gr. A eru fyrst tillögur um fjárveitingar til skólabygginga og skólastjóraíbúða. Að þessu sinni hefur n. haldið þeirri reglu, sem gilt hefur undanfarið, varðandi allar framkvæmdir, sem byrjað hefur verið á. Hefur hún miðað tillögur sínar við 1/5 hluta af upphaflegri kostnaðaráætlun, síðan er þeim viðbótarhækkunum, sem átt hafa sér stað á tímabilinu síðan bygging var hafin, deilt niður á 3 ár. Varðandi sjónarmið meiri hl. fjvn. um nýjar byggingar skólahúsa og skólastjóraíbúða er það að segja, að í flestum tilfellum er lagt til, að teknar séu upp nokkrar fjárveitingar, sem fyrst og fremst ættu að nægja til þess að ljúka fullnaðarundirbúningi, svo sem teikningum og öðru þess háttar. Verði heildartillögur n. samþ., leiðir það til þess, að hækkun á fjárveitingum til barnaskólahúsa og skólastjóraíbúða nemur rúml. 706 þús. kr. og hækkun á fjárveitingum til gagnfræðaskóla 2 millj. 500 þús. kr.

Samkvæmt till. n. eru að þessu sinni fjárveitingar til 18 nýrra skólahúsa og skólastjóraíbúða, en auk þess er nú till. um viðbótarframlög til þeirra skólahúsa, sem áður hafa hlotið fjárveitingu, en framkvæmdir eru ekki hafnar við. Er því hér um 26 ný skólahús að ræða. Verði þessar till. n. samþ., hafa 7 þessara skólabygginga hlotið um helming áætlaðs framlags, ein skólabygging hefur þá hlotið um 3/5 hluta og 6 skólahús hafa þá hlotið 1/5 hluta af framlagi ríkissjóðs. Það er augljóst mál, að þessar fjárveitingar, sem hér um ræðir, eru í mörgum tilfellum svo ríflegar, að þær ættu að tryggja, að skálahúsin verði byggð á skemmri tíma en ella.

Að þessu sinni er sá háttur hafður á um fjárveitingar til skólabygginga í kaupstöðum, sem hafa í byggingu fleiri en eitt skólahús á hvoru fræðslustigi, að framlög ríkisins til barna- og gagnfræðaskóla eru tekin í einu lagi. Er þetta gert til hagræðis fyrir bæjarfélögin, því að þau geta þá beint heildarfjármagninu til ákveðinna bygginga, sem að þeirra dómi eru mest aðkallandi hverju sinni.

Ég skal nú gera nokkurn samanburð á fjárveitingum til skólabygginga á valdatíma vinstri stjórnarinnar og nú.

Árið 1958, en það var síðasta árið, sem vinstri stjórnin sat að völdum, voru skólabyggingar sem hér segir: Styrkur til byggingar barnaskóla og íbúða fyrir skólastjóra nam samtals 9 millj. og 760 þús. kr., þar af til nýrra skólahúsa og skólastjórabústaða 1 millj. 333 þús. kr. Styrkur til byggingar gagnfræðaskóla og héraðsskóla var þá samtals 3 millj. 599 þús. kr., þar af til nýs gagnfræðaskóla 100 þús. kr. Auk þess voru veittar 2 millj. kr. sem stofnframlag vegna barnaskóla- og gagnfræðaskólabygginga, sem fullsmíðaðar voru árið 1954. Samtals voru því fjárveitingar til byggingar barna- og gagnfræðaskóla árið 1958 15 millj. 359 þús. kr.

Samkv. fjárlagafrv. nú, að viðbættum till. fjvn., eru fjárveitingar til barna- og gagnfræðaskóla samtals að upphæð 102 millj. 548 þús. kr. — Mismunur er því 87 millj. 189 þús. kr.

1958 var veittur styrkur til byggingar iðnskóla í Reykjavík 500 þús. kr. Samkvæmt fjárlagafrv., að viðbættum till. fjvn., er nú lagt til að veita til iðnskóla í Reykjavík. Hafnarfirði og Akureyri samtals 3 millj. 580 þús. kr.

Til byggingar húsmæðraskóla var veitt ½ millj. kr. árið 1958. Í fjárlagafrv. nú er lagt til að veita til sömu skóla 4 millj. og 600 þús. kr.

1958 voru veittar 1 millj. 375 þús. kr. til byggingar menntaskóla, nú samkv. fjárlagafrv. 10 millj. 367 þús. kr.

Til byggingarframkvæmda fyrir bændaskóla voru 1958 veittar 252 þús. kr., en nú samkv. fjárlagafrv. 3 millj. 375 þús. kr.

Auk þeirra byggingarframkvæmda, sem hér hafa verið taldar upp, var veitt á 20. gr. fjárl. 1958 1 millj. 341 þús. kr. Hins vegar eru ótaldar skólaframkvæmdir samkv. 20. gr. fjárl. nú, að viðbættum till. fjvn., að upphæð 16 millj. 540 þús. kr.

Samtals var veitt til skólabygginga 1958 19 millj. 828 þús. kr., en samkv. fjárlagafrv. nú, að viðbættum till. fjvn., er lagt til að veita á næsta ári 141 millj. 511 þús. kr. til sömu framkvæmda. Mismunurinn er því 121 millj. 683 þús. kr. Með því að leggja til grundvallar hækkun byggingarkostnaðar samkv. upplýsingum hagstofunnar kemur í ljós, að raunveruleg hækkun nemur ekki lægri upphæð en 100 millj. kr.

Við 14. gr. A er enn fremur flutt till. um hækkun til Alþýðuskólans á Eiðum og héraðsskólanna á Núpi, Reykholti og Laugarvatni vegna of lágrar rekstraráætlunar í fjárlagafrv. — Lagt er til, að liðurinn: Til námskeiða fyrir gagnfræðaskólakennara hækki um 50 þús. kr. — Þá er lagt til að hækka fjárveitingu vegna viðhaldskostnaðar íþróttavalla hjá Íþróttakennaraskóla Íslands um 50 þús. kr. — Framlag til íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal er lagt til að hækki um 19 þús. kr. — Lagt er til, að styrkur til Skáksambands Íslands hækki um 50 þús. kr. — Loks er lagt til, að við bætist nýr liður: Til rannsókna á félagslegum högum stúdenta 50 þús. kr.

Þá koma brtt. n. við 14. gr. B. Fyrst er till. um nýjan lið: Til náttúruverndarráðs, ferðakostnaður vegna sérstakra rannsókna 25 þús. kr. — Þá er lagt til, að styrkur til ritstarfa, útgáfustarfsemi o. fl. hækki um 100 þús. kr. Eru 50 þús. kr. af þeirri upphæð ætlaðar dr. Sigurði Jónssyni til rannsókna á sjávargróðri við strendur landsins, en sérstök brtt. um styrk til hans í því skyni felld niður. — Lagt er til, að liðurinn: Til skálda, rithöfunda og listamanna hækki um 300 þús. kr. Er það sem næst 10% hækkun. Enn fremur er hér till. um nýjan lið: Til endurbóta á húsi Bjarna riddara Sívertsens (síðari greiðsla) 100 þús. kr.

Við 15. gr. er ein brtt., að liðurinn: Til kristilegrar æskulýðsstarfsemi hækki um 50 þús. kr. Við 16. gr. A eru nokkrar brtt. Eins og venja er til hefur fjvn. skipt framlagi til fyrirhleðslna á einstakar framkvæmdir. Samkv. till. n. hækkar framlag til fyrirhleðslna um 45 þús. kr. — Næst er till. um framlag til sjóvarnargarðs á Stokkseyri, 100 þús. kr. — Lagt er til, að framlag til skógræktarfélaga hækki um 160 þús. kr. Verður það þá jafnhátt því, sem er á fjárl. yfirstandandi árs. — Lagt er til að hækka launalið Veiðimálaskrifstofunnar um 175 þús. kr., og er þá höfð í huga ráðning fiskifræðings við laxeldisstöðina í Kollafirði. — Að venju gerir fjvn. till. um skiptingu þess fjár, sem lagt er fram til byggingar húsmæðraskóla utan kaupstaða. Loks er flutt við þennan líð 16. gr. till. um nýjan lið: Til landþurrkunar í Eyjum í Út-Hjaltastaðaþinghá 50 þús. kr.

Við 16. gr. B er till. um, að launaliður fiskmatsins hækki um 100 þús. kr. Er það sökum þess, að á s.l. sumri voru ákveðnar breytingar á mati skreiðar fyrir Ítalíumarkað. Einnig er lagt til, að ferðakostnaður matsmanna hækki um 50 þús. kr. — Þá er till. um nýjan lið: Verðlagsráð sjávarútvegsins 1 millj. kr. Samkvæmt lögum nr. 60 frá 1964 skal kostnaður við verðlagsráð sjávarútvegsins greiddur úr ríkissjóði frá 1. jan. 1966.

Við 16. gr. C er flutt till. um 150 þús. kr. hækkun á framlagi til byggingar iðnskóla á Akureyri. Við 16. gr. E er fyrst till. um að hækka launalið Hafrannsóknastofnunarinnar um 125 þús. kr. — Einnig er lagt til að hækka framlag til rannsóknaráðs ríkisins um 200 þús. kr. vegna aukins kostnaðar. — Af sömu ástæðu er lagt til að hækka framlag til Verzlunarskóla Íslands um 200 þús. kr. og til Samvinnuskólans um 100 þús. kr.

Við 17. gr. eru fluttar nokkrar brtt. Lagt er til, að framlag til bjargráðasjóðs hækki um helming, verði 1 millj. 950 þús. kr. Er það í samræmi við ákvæði nýrra laga. — Lagt er til, að liðurinn: Til vatnsveitna samkv. lögum hækki um 200 þús. kr. — Enn fremur eru hér þrír nýir liðir: Til vatnsveitu í Staðarsveit 40 þús. kr. Til borunar eftir neyzluvatni á Eyrarbakka 50 þús. kr. Til vatnsveitu vegna Borga í Hornafirði 20 þús. kr. — Lagt er til, að styrkur til Alþýðusambands Íslands hækki um 50 þús. kr. — Einnig er lagt til, að styrkur til starfskvennaskóla Barnavinafélagsins Sumargjafar hækki um 35 þús. kr. — Nýir liðir eru um byggingarstyrk til dagheimilis á Selfossi, 75 þús. kr. og til sjúkraflugs í Árneshreppi 25 þús. kr. — Loks er till. um hækkun á styrk til Ungmennafélags Íslands um 50 þús. kr. og til Æskulýðssambands Íslands um 30 þús. kr.

Við 18. gr. eru að venju nokkrar brtt. Í fyrsta lagi eru till. um niðurfellingu á styrk til þeirra, sem látizt hafa, frá því að fjárlagafrv. var samið. Í öðru lagi eru till. um breyt. á styrkjum og nýja styrki, sem n. leggur til að samþ. verði. Ekki eru teknir upp styrkir til þeirra, sem að einhverju leyti hafa lífeyrisréttindi umfram ellilífeyri almannatrygginga. Hins vegar hefur n. beitt sér fyrir því, að þeir aðilar, sem að opinberum störfum hafa unnið og njóta aðeins óverulegra bóta úr lífeyrissjóði, fái hækkað framlag úr viðkomandi sjóði. Hefur þá viðkomandi ráðuneyti stutt þá framkvæmd.

Við 19. gr. er brtt. um að hækka 7. lið gr. hækkun útgjalda vegna launahækkana, um 7 millj kr.

Við 20. gr. eru þrjár brtt. Lagt er til að hækka fjárveitingu til Íþróttakennaraskóla Íslands um 440 þús. kr. Ætti með því að vera kleift að gera heimavistarhús skólans fokhelt á næsta ári. — Lagt er til, að liðurinn: Til bygginga á prestssetrum hækki um 300 þús. kr. — Loks er till. um nýjan lið: Til byggingar jarðskjálftamælingarstöðvar á Akureyri 215 þús. kr.

Við 22. gr. eru nokkrar brtt. Lagt er til að heimila ríkissjóði að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af vísindatækjum, sem Eðlisfræðistofnun háskólans á kost á frá bandarískum vísindastofnunum. — Einnig er lagt til að heimila endurgreiðslu aðflutningsgjalda til Rafveitu Siglufjarðar, Rafveitu Ísafjarðar og Rafveitu Snæfjallahrepps. Verður slíkt að teljast eðlilegt, þar sem í lögum um Landsvirkjun segir, að hún skuli undanþegin aðflutningsgjöldum. Þá er heimiluð endurgreiðsla á aðflutningsgjöldum af vélum til niðursuðu sjávarafurða til útflutnings fyrir K. Jónsson & Co., Akureyri, og Niðursuðu- og hraðfrystihús Langeyrar. Er hér um sömu fyrirgreiðslu að ræða og samþ. var til handa niðursuðuverksmiðjunni Norðurstjörnunni í Hafnarfirði. — Enn fremur er lagt til, að samþ. verði eftirtaldar heimildir: Að endurgreiða aðflutningsgjöld af kvikmyndasýningarvélum fyrir samkomuhús í kauptúnum með innan við 600 íbúa, þó ekki nema einni vélasamstæðu á hverjum stað. — Að taka allt að 4 millj. kr. lán handa jarðhitasjóði. — Að ábyrgjast fyrir h/f Fylki, Reykjavík, allt að 200 þús. sterlingspunda lán. Er það til kaupa á nýjum skuttogara. — Að ábyrgjast allt að 60 millj. kr. lán til byggingar og endurbóta á síldarverksmiðjum, síldarflutningaskipum og síldarumhleðslustöðvum. — Að ábyrgjast allt að 1 millj. kr. lán fyrir „Icelandic Arts and Crafts“, enda hafi hlutafjárloforð verið greidd að fullu. — Að ábyrgjast allt að 3 millj. kr. lán fyrir Umferðarmiðstöðina í Reykjavík. — Að ábyrgjast allt að 1 millj. kr. lán fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi vegna flokkunarviðgerðar Akraborgar. Að selja sýslumannsbústaðinn á Eskifirði ásamt tilheyrandi lóðarréttindum. — Að leyfa Innkaupastofnun ríkisins að selja Landgræðslusjóði húseignina Ránargötu 18, Reykjavík, ásamt tilheyrandi lóðarréttindum.

Verði þessar till. fjvn. og meiri hl. n., sem ég hef nú lýst, ásamt brtt. samvn. samgm., sem hún hefur borið fram og frsm. hennar mun gera grein fyrir, — verði þessar brtt. allar samþ., hafa þær í för með sér, að niðurstöðutölur fjárlagafrv. hækka um 10 millj. kr. og hagstæður greiðslujöfnuður verður 1 573 607 kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið máli mínu og vænti, að þessar brtt., sem ég hef nú lýst, hljóti samþykki og fjárlagafrv. þannig breytt verði samþykkt.