14.10.1965
Efri deild: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

3. mál, lántaka vegna vega- og flugvallargerða

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það gleður mig, að hæstv. fjmrh. skyldi út af fyrir sig viðurkenna, að það hefði verið eðlilegra að afla þessarar lántökuheimildar á þingi, áður en því lauk. Það var aðalatriðið í minni ræðu, svo að við erum út af fyrir sig sammála um það.

Hins vegar vildi hann halda því fram, að það hefði þegar í vegáætlun verið gert ráð fyrir þeim framkvæmdum, sem um væri að tefla, og fjáröflun til þeirra væri í vegáætlun, en það hefði aðeins láðst að fá lántökuheimild þeirra vegna. Ég hef nú ekki lesið vegáætlunina svo gaumgæfilega, að ég vilji fullyrða um þetta atriði, en ég vil þó segja það, að á bls. 12 og 13 í vegáætluninni, þar sem fjallað er um þær framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að afla lántöku til, held ég, að það sé varla hægt að finna þessum orðum hæstv. fjmrh. stað. Það er að vísu gert ráð fyrir nokkrum fjárhæðum í landsbrautir, t.d. á Vestfjörðum. Það er nú samtals, skilst mér, 5 millj. og 200 þús. vegna lánsfjár. En ég sé ekki, að það geti mætt þeirri upphæð, sem hér er um að ræða í þessum l., nema það komi þá nánari sundurliðun frá fjmrh. um það, hvað af þessari upphæð hefur farið til Vestfjarðaveganna, hvað hefur farið til Reykjanesbrautarinnar og hvað til flugvalla. En ég vil jafnframt geta þess, að ég tel þetta í sjálfu sér aukaatriði. Aðalatriðið var bara þetta, að það er farið fram hjá Alþ. með þetta að mínum dómi. Það er óheppilegt, vegna þess að þá er brotin niður vegáætlunin.

Ég tek það enn og aftur fram, að mér dettur ekki í hug að telja eftir þær samgöngubætur, sem þarna er um að tefla, og ég vil segja það, að við framsóknarmenn höfum æ ofan í æ flutt einmitt frv. um heimild til lántöku til samgöngubóta, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þannig að það er ekki það, sem er athugavert við þetta. En það á bara að liggja fyrir, um leið og þingmenn í heild afgreiða vegáætlunina, þannig að rétt mynd fáist þá þegar af þessum málum.

Það er í sjálfu sér ekki ástæða til þess að vera að elta ólar meira við þetta. Í sjálfu sér er það, sem ráðh. upplýsti um Reykjanesbrautina, ekki til bóta fyrir málstað stjórnarinnar að mínum dómi, þar eð mér skildist hann þá segja, að það hefðu verið tekin lán í brautina, án þess að nokkur heimild hefði verið til þess. Það er ekki farið að afla þeirrar heimildar fyrr en eftir á. Það er náttúrlega formlegur ágalli, en það er aðeins formið. Allir eru út af fyrir sig sammála um það, að þessa braut eigi að leggja og taka til þess lán. Það má segja það, eins og hann sagði, að það hefði kannske ekki verið mikil áhætta fyrir stjórnina að gera það í trausti þess, að allir væru sammála um þessa framkvæmd.