25.10.1965
Efri deild: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

13. mál, vélstjóranám

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð í tilefni af því, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði hér, vegna þess að ég er einn af höfundum þessa frv. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að 4. námsstigið veitir ekki ný atvinnuréttindi, nema því fylgi sveinspróf í vélvirkjun. N., sem undirbjó þetta frv., athugaði þessa hlið málsins gaumgæfilega, held ég að mér sé óhætt að fullyrða, og ég held, að það sé ekki neinn grundvöllur fyrir því að fara að gefa þarna nýtt réttindastig, þannig að síðasta menntunarstigið, 4. stigið, gæfi tvenns konar réttindi, það gæfi sérstök réttindi, þegar vélskólanum væri lokið, og svo enn á ný viðbótarréttindi eða ótakmörkuð réttindi, ef sveinspróf kæmi þar á ofan. Og það er m.a. vegna þess, að 3. stigið gefur þegar svo mikil réttindi eftir l. um atvinnu við siglingar eða því frv., sem hér hefur verið borið fram. Það er talið nauðsynlegt af mönnum, sem gerst til þekkja í þessum málum, bæði skólamönnum og vélstjórum, að þeir, sem gegna vélmeistararéttindum, ef svo má segja, þeir, sem verða yfirvélstjórar á stærstu skipum flotans, — það er talið nauðsynlegt, að jafnframt vélskólanámi hafi þeir sveinspróf í vélvirkjun. Þess vegna er það skilyrði látið fylgja æðsta stigi, því að það verður að gæta þess, að 4. stigið gefur, þegar áskilinn starfstími er kominn, ótakmörkuð réttindi á allar vélar, mestu réttindi, sem hægt er að fá.

Hins vegar ber þess að gæta, að það er ekki vist, að þetta sé í raun og veru svo ákaflega mikið þrekvirki fyrir þann, sem lýkur vélskólanum, að taka einnig sveinspróf í vélvirkjun. Ég vil undirstrika það sérstaklega, að andstætt þeim reglum, sem gilt hafa, þegar allir hafa þurft að hafa sveinspróf eða 4 ára nám í járnsmíðagrein, áður en þeir byrja í vélskólanum, er núna hægt að hafa þetta þannig, að sá, sem lýkur vélskólanum, getur tekið sveinspróf í vélvirkjun á eftir, hann getur tekið vélskólann fyrst. Og bæði er það, að eftir þeim reglum, sem eru í frv., getur viðkomandi maður, sem fer inn í vélskólann, haft nokkra þekkingu, hann hefur getað verið í smiðju í 2 ár, og það er enn þá annað, sem ég vildi benda alveg sérstaklega á, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að það sé tekin upp smíðakennsla í vélskólanum, bæði 1. og 2. bekk, og út á þetta smíðanám í vélskólanum mundi viðkomandi vélstjóri fá styttingu námstímans í vélvirkjun á eftir, þannig að það væri mjög almennt, hugsa ég, hægt að ætla, að sá, sem lyki vélskólanum og tæki svo sveinspróf í vélvirkjun á eftir, ef hann hefði ekki stundað neitt að ráði iðnað, áður en hann kom í vélskólann, hann þyrfti alls ekki að stunda það nema í 2 vetur líkast til, þannig að vélskólinn getur þarna að nokkru leyti komið í staðinn fyrir eða stytt verklega námið í sjálfu vélvirkjunarfaginu. Ég man nú ekki, hvar það er í frv., en það er hér gert ráð fyrir því einmitt, að um þetta sé haft samband við iðnfræðsluráð, þannig að þeir, sem hafa lokið síðasta stigi vélstjóranámsins, eigi þess miklu hægari kost að ljúka vélvirkjunarnáminu heldur en ella væri, ef þeir hefðu þurft að taka það áður en þeir byrjuðu í vélskólanum. En í raun og veru er það ljóst með þessu frv., að hver og einn, sem lokið hefur 2. bekk vélskólans, hver og einn, sem hefur gert það og hefur hug á að ljúka 3. bekk og taka þar með æðstu vélstjóragráðuna, veit fyrir fram, að það er ekkert gagn í að fara í 3. bekk og ljúka, nema taka sveinsprófið líka. Á þann hátt er enginn blekktur, menn vita það fyrir fram, að þeir taka ekki 3. bekk, nema annaðhvort hafa þetta sveinspróf áður eða a.m.k. eiga þá tiltölulega auðvelt með að taka það siðar, ef þeir vilja leggja út í það. En ég tel enga þörf á því að fara að skipta réttindunum enn þá frekar en gert er með þessu frv.