23.04.1966
Neðri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim tveimur hv. þm., sem hér hafa talað um þetta mál, fyrir þeirra undirtektir. Að vísu voru þeir ekki ánægðir með málið að öllu leyti, sem ég heldur aldrei bjóst við, en þeir ræddu það af hófsemi og skilningi, og ber að virða það og þakka. Það hefði vissulega verið fróðlegt að ræða mörg atriði í þeirra máli, en það skal ég ekki gera, vegna þess að það riður á að koma áleiðis ýmsum málum, og gefst þá kannske einnig kostur á að ræða það frekar.

Varðandi þær hugleiðingar, sem hv. 3. þm. Reykv. hér varpaði fram í sinni ræðu, var það vissulega allrar athygli vert, sem þar kom fram. Samvizkubitinu skulum við nú sleppa út af fyrir sig, því að ég mundi segja, að frv. væri allt of stórt, ef það ætti að vera í réttu hlutfalli við samvizkubitið, því að það er ekki til staðar, en því mun annars varpað fram fremur til gamans. En það, sem hv. sagði um skipulag og um vandamál strjálbýlis og þéttbýlis, það er vissulega alveg efnislega rétt. Þetta er vandi, sem allar þjóðir eiga við að glíma og það ekki síður hinar ríku þjóðir, og t.d. hin háiðnvæddu lönd eiga alveg sérstaklega við þennan vanda að glíma, þær þjóðir einmitt, sem er hvað ríkastar í heiminum, og það er hvarvetna miklum erfiðleikum háð að vega hér upp á móti. Hitt er annað mál, sem ég held að við verðu um leið að gera okkur grein fyrir, þó að ég viti, að við erum allir sammála um það, að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir samdrátt byggðarinnar, þá getum við ekki heldur horft fram hjá því, sem einnig á sinn þátt í þessari þróun í öllum löndum, en það er einmitt krafa fólksins um batnandi lífskjör. Endurskipulagning atvinnuvega á þann hátt að byggja upp stórrekstur í æ ríkari mæli hjá hinum iðnvæddu þjóðfélögum hefur leitt til þessarar þróunar. Við skulum gera okkur grein fyrir því einnig hér á Íslandi þó að við allir viljum vinna að því að dreifa byggðinni, að þá er frumkrafa þjóðarinnar sú að búa við sem bezt lífskjör, og okkur hefur sem betur fer á undanförnum árum, — við getum látið það liggja milli hluta hér, hverjum það er að þakka, — þá hefur okkur tekizt að bæta hér lífskjör þjóðarinnar meira en nokkru sinni áður, sem er vissulega gleðilegt. Og undirstaða þess, að það sé hægt að ráðast í stórvirki til þess að jafna hlut strjálbýlisins, er þó það, að afkoma þjóðarheildarinnar sé orðin það góð, m.a. með arðbærum atvinnurekstri, sem lýtur að sjálfsögðu lögmálum arðbærisins fyrst og fremst, að það sé fyrir hendi slíkt fjármagn hjá þjóðinni, að hún geti lagt þarna meira af mörkum. Og m.a. sýnir þetta frv. það, þó að hv. þm. kunni ekki allir að vera ánægðir með það, að þar er beinlínis gert ráð fyrir, að fjármagn, sem þjóðinni áskotnast með sérstökum hætti, verði nú notað til þess að leggja nokkurt lóð til þess að vega upp þann mismun, sem uppbygging iðnþróunar kynni annars að hafa í för með sér. Það er alveg rétt, sem hefur komið hér fram, að gallinn á þessu er auðvitað sá, að það er oftast nær hæg að sýna reikningslega fram á, að það sé hagkvæmast að setja fyrirtækin upp, þar sem þéttbýli er fyrir. Vandinn er svo aftur sá, hvað við getum gengið langt í því að knýja atvinnureksturinn út á þau svið og þau svæði, þar sem ekki er eins arðbært að reka þau, án þess að ganga svo langt, að það komi út í minni afrakstri fyrir þjóðarbúið. Þetta er ekki íslenzkt vandamál, en eins og ég sagði, þetta er vandamál, sem margar þjóðir hafa átt við að glíma, og auðvitað því efnaðri, sem þær eru, því betri aðstöðu hafa þær til þess að sporna hér við fótum, og ég vona það innilega, að við getum í ríkari mæli — og það ekki af neinu samvizkubiti, heldur vegna þess, að við höfum efni á því, einmitt vegna vaxandi framleiðslu og vaxandi möguleika okkar atvinnusviðinu, — þá getum við í æ ríkari mæli stuðlað að því að leggja fram fé til þess, að þetta jafnvægi raskist ekki um of.

Ég kem þá enn og aftur að því, sem ég sagði í minni frumræðu, að hér er ekki eingöngu um atvinnumál að ræða. Við sjáum það alveg glöggt, t.d. á Austurlandi, þar sem er meiri velmegun en kannske nokkurs staðar annars á landinu og hærri meðaltekjur fólks, þá hefur samt ásóknin í að flytja í þéttbýlið síður en svo minnkað, jafnvel aukizt. Og þessa sögu er víðar hægt að segja, vegna þess að þá gerir fólkið kröfu til aukinna þæginda og þá verður að taka málið á breiðari grundvelli en eingöngu atvinnulega. Þess vegna er mikil nauðsyn, eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði, að gera áætlanir, ekki aðeins á atvinnusviðinu, heldur einnig félags og menningarlega, og ég álít, að það sé ekki með fullri sanngirni hægt að segja það, nema síður sé, að það sé látið arka að auðnu með það, því að það er fyrst núna á síðustu árum, sem eru hafnar kerfisbundnar áætlunargerðir. Bæði hefur ríkið sjálft gert í fyrsta skipti nú síðustu árin áætlanir um sínar eigin framkvæmdir, auk þess eru þær svæðaáætlanir, sem hér er verið að gera. Það er verið að vinna að sérstökum áætlunum núna einmitt varðandi uppbyggingu menntamála næstu árin, sem er mjög brýn nauðsyn að vinna að, og á fleiri sviðum þarf að sjálfsögðu að gera slíkar áætlanir. Þetta kemur auðvitað ekki allt í einu, og það er margt, sem þarf á að líta, en þetta verður að sjálfsögðu að þróast í þá átt, að það sé ekki eingöngu handahófskennt, — það get ég fullkomlega tekið undir, — og það er svo aftur önnur saga, hvað hægt er að ganga langt í þessu efni. En þetta frv., þó að mönnum kunni sumum að þykja það lítið í sniðum, þá legg ég þó áherzlu á, að starfað verði eftir áætlunargerð um uppbyggingu ákveðinna landshluta, og það tel ég vera ákaflega jákvæðan þátt í þessu máli og þátt, sem er umfram það, sem áður hefur verið í þeim frv., sem flutt hafa verið. Hvort sem þetta frv. svo er skuggi af frv. Framsfl., eins og ágætur samþingismaður minn sagði hér í þessari deild, eða bergmál af þeim, eins og annar ágætur samþingismaður minn úr sama kjördæmi sagði í Ed., það skal ég alveg láta liggja á milli hluta. Ég held, að það þjóni ekki ákaflega miklu, ef á að fara að rekja það lengra aftur í tímann. Það vildi nú svo til, að ég flutti sjálfur ásamt fleiri þm. fimm sinnum frv. um þetta mál, áður en frv. þeirra framsóknarmanna sáu dagsins ljós, en ég sé ekki heldur, að það þjóni neinu að vera að vitna í það. Það er ágætt, ef augu manna opnast fyrir því, að það sé nauðsynlegt að starfa að þessu með skipulagsbundnum hætti, en ekki með einhverju fálmi út í loftið, að gera þetta í þetta skiptið og annað í hitt skiptið, án þess að þar sé nokkurt samræmi í vinnubrögðum. Þess vegna vona ég, að hvað sem öðru líður, getum við nú verið sammála um, að þetta sé þó mikilvægt spor í þá átt að vinna að þessum málum með skipulagsbundnum hætti.

Ég ætla ekki að fara að ræða um áhrif álbræðslu. Ég býst við, að hv. þm. í þessari d. séu orðnir nægilega þreyttir á því og ég verði væntanlega nægilega þreyttur á því í Ed. að ræða það, þegar þar að kemur. En mér finnst nú minn ágæti samþingismaður úr Norðurl. e., vera nokkuð róttækur í skoðunum, þegar hann heldur, að það muni leiða af sér svipaða tilflutninga og hervinnan hér á stríðsárunum, þó að sé reist verksmiðja, sem í mesta lagi er talin taka 500 manns í vinnu, miðað við þá fjölgun, sem verður á fólki bæði hér og annars staðar á landinu á næstu árum. Auk þess tók ég eftir því, ég held það hafi verið í hinu ágæta málgagni Framsfl. á Akureyri, þar sem var skýrt frá því, að væri farið að hringja í vinnumiðlunarskrifstofu þar og spyrja eftir vinnu syðra. En það fylgdi líka með, að það væri spurt eftir því, hvort þar væri ekki hærra kaup, og það hefur aldrei verið meiningin, að það yrðu greidd hærri laun hér. Auðvitað er hægt að skapa jafnvægisleysi í þjóðfélaginu, og það jafnvægisleysi er þegar fyrir hendi, við skulum gera okkur grein fyrir því. Yfirborganir hér í Reykjavík í byggingariðnaði t.d. eru miklu meiri en annars staðar á landinu, ef þær þá þekkjast þar, nema kannske á Austurlandi, þar sem spennan hefur verið hvað mest, og auðvitað laðast fólk þangað, sem um yfirvinnuna er að ræða. Það hefur verið til staðar hér í nokkur ár, að slíkt ástand hafi verið fyrir hendi. En að öðru leyti skal ég ekki fara út í þessa álbræðslu hér við þessa umr. Það er rétt, að tekjurnar af henni fara ekki að koma fyrr en eftir nokkur ár, og það er ástæðan til þess, að fyrstu árin er gert ráð fyrir því einmitt, að aðrir tekjustofnar atvinnujöfnunarsjóðsins komi til. Og ég vil endurtaka það og leggja á það áherzlu, að ég tel sjálfsagt, eftir því einmitt sem áætlanir gefa til kynna, bæði fyrir einstaka staði og heil byggðarlög, að þá verði notuð heimild laganna til þess að afla lánsfjár, eftir því sem þörf krefur, til viðbótar því, sem aðrir stofnlánasjóðir að sjálfsögðu eiga og er skylt að leggja fram ekki síður á þessa staði en aðra á landinu.

Þessi sjóður má alls ekki verða til þess að létta af öðrum stofnlánasjóðum, þannig að þeir skjóti sér undan að lána til framkvæmda í þessum landshlutum. Til allrar hamingju er það nú svo, að atvinna hefur víðast hvar verið næg um landið. Það hafa verið erfiðleikar sérstaklega norðanlands, sem við þekkjum, sem þaðan erum, vegna þess að aflabrestur hefur þar verið, og erfiðleikarnir hafa fyrst og fremst stafað af því, því að á flestum þessum stöðum mundu vera næg atvinnutæki til þess að velta öllum atvinnu, ef aflann skorti ekki. Þarna stöndum við andspænis mjög alvarlegu vandamáli og vandamáli, sem í rauninni sjóður sem þessi leysir ekki nema þá með bráðabirgðaaðstoð, því að það er líka alvörumál að ætla að hverfa frá uppbyggingu á einum stað, sem aðallega hefur miðað, eins og nú hefur verið, að sjávarútvegi, og fara að byggja upp ný fyrirtæki til þess að veita fólkinu þar atvinnu, þannig að ef svo fiskafli legðist að landi, sem oftast nær skilar þó mestum hagnaðinum og er arðbærastur, fengist ekki fólk til að vinna í fiskiðjuverunum. Þarna er um að ræða mikinn vanda og erfiðleika, sem eru sérstaks eðlis og við að sjálfsögðu verðum að vona að verði ekki til langframa, að fiskur komi alls ekki að einum landshluta. Þetta hefur flutzt til, eins og við þekkjum um síldina, kann að gera það aftur, en þetta sýnir okkur einungis einn erfiðleikann, sem er við alla uppbyggingu í þessu landi og gerir líka áætlunargerð ósköp erfiða, að við vitum svo ákaflega takmarkað frá einu ári til annars, hvað við fáum í aðra hönd, einmitt vegna þess, hvað við byggjum á hráefni, sem við ráðum sáralítið eða ekkert yfir.

Ég mun svo ekki, herra forseti, lengja þessar umr. meira, en endurtek það, að ég fagna því, að hv. þm., sem hér hafa talað, hafa tekið efnislega vel undir málið, og ég vonast til, að það verði greitt svo fyrir því, að það geti orðið afgr., áður en þessu þingi líkur.