14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, fjárlög 1967

Frsm. 2. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Bæði við 1. og 2. umr. um fjárlög hef ég í alllöngu máli rætt um þá stjórnarstefnu, sem það fjárlagafrv., sem nú er til afgreiðslu, er markað af, og sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það að þessu sinni, við síðustu umr.

Milli 2. og 3. umr. hefur ekkert nýtt komið fram, ekkert annað en það, sem við mátti búast og þegar hefur verið gerð grein fyrir. Eins og ég tók fram við 2. umr., ber þetta fjárlagafrv. engin merki þeirrar verðstöðvunarstefnu, sem hæstv. ríkisstj. telur sér henta að halda á lofti nú fram að næstu alþingiskosningum, að öðru leyti en því, að ríflega er áætlað fé til niðurgreiðslna á vöruverði, en þó er sú fjárhæð, 708 millj. kr.; ekki miðuð við, að núgildandi niðurgreiðslur standi lengur en til 1. nóv. næsta ár, og þá ekki séð fyrir því með þeim fjárlögum, sem nú á að fara að afgreiða, að óbreyttar niðurgreiðslur geti haldizt allt næsta ár. En þó er öll sú upphæð, sem ætluð var til launauppbóta á næsta ári, felld niður, og þannig er ekki séð fyrir fjárgreiðslum til launahækkana á næsta ári, á því tímabili, sem fé til niðurgreiðslna spannar ekki yfir, og engar fjárhæðir eru ætlaðar til hugsanlegrar nýrrar aðstoðar við sjávarútveginn eða fiskiðnaðinn Þrátt fyrir verðstöðvunarfrv. er ljóst, að jafnvel stjórnarvöldin sjálf ætla sér að standa fyrir verðhækkunum á næsta ári, það ber fjárlagafrv. með sér. T.d. liggur fyrir ákvörðun heilbrigðisyfirvaldanna um hækkun daggjalda á sjúkrahúsum úr 450 kr. í 500 kr. á dag 1. janúar n.k., eða um 11%, en við 500 kr. daggjaldið eru fjárl. miðuð. Hinn 1. nóv. s.l. hækkuðu daggjöldin úr 400 kr. í 450 kr., þannig að skv. þessu hækka daggjöldin um 25% frá 1. nóv. s.l. til 1. jan. n. k., svo að ekki er sjáanlegt annað en að af því muni leiða hækkun á sjúkrasamlagsgjöldum, en talið er, að 25% hækkun á daggjöldum í sjúkrahúsum muni valda 15% hækkun á kostnaði við sjúkrasamlögin.

Ég hef áður rakið það, að tvö helztu einkenni fjárlagafrv. eru þau, að annars vegar ber það ekki vott um neina stöðvunarstefnu með 825 millj. kr. hækkun á tollum og sköttum, heldur meiri útþenslu á rekstrarliðum en nokkru sinni fyrr, og hins vegar ber það einkenni fyrri fjári. hæstv. núv. ríkisstj., að þeim vanda að ná saman endum á fjárlagafrv. í dýrtíðarflóðinu er mætt með niðurskurði nauðsynlegustu framkvæmda. Það einkenni hefur nú milli 2. og 3. umr. verið undirstrikað með afgreiðslu skólamála, sem geymd voru til 3. umr.

Við afgreiðslu núgildandi fjárl. rakti ég þá skipulögðu baráttu, sem stjórnvöldin halda uppi til þess að halda aftur af þeim aðilum, sem brjótast í því að hefja nýjar skólabyggingar, og greindi frá þeim ráðstöfunum, sem þá voru teknar upp til þess að draga valdið í þessum efnum úr höndum Alþingis og til rn., þannig að framkvæmdaáætlun embættisliðsins skyldi geta gert að engu ákvarðanir Alþ. um það, hverjar skólabyggar skyldi hefja á ári hverju. Með þessum hætti eru þverbrotin þau ákvæði skólakostnaðarlaganna, að þegar Alþ. hafi samþ. stofnkostnaðarframlag til ákveðinnar skólabyggingar, þá sé ríkissjóði skylt að hafa lokið greiðslu framlaga, miðað við upphaflega kostnaðaráætlun, innan 5 ára, frá því að fyrsta framlagið var innt af hendi. Þessari stefnu, sem upp var tekin í fyrra, að draga ákvörðunarvaldið í þessu efni úr höndum Alþ. og beita því til að halda aftur af nýjum framkvæmdum í skólamálum, hvað sem þörfinni liður, er enn haldið áfram við setningu fjárl. nú.

Ég hef áður lýst því, að einhver allra neikvæðasti árangur stjórnarstefnunnar undanfarin ár er sá, að hún hefur leitt til þess, að mestu uppgripaaflaárin, sem þjóðin hefur lifað, lifa ekki leitt til stórátaka í þeim framkvæmdum, sem varða þjóðarheildina alla, heldur hefur ríkisstj. í æ ríkara mæli orðið að grípa til þess að draga úr verklegum framkvæmdum, eftir því sem rekstrarkostnaður ríkisins hefur blásið út. Einhverjar hinar verstu neyðarráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gripið til í þeim tilgangi að koma saman fjárl. í þeirri óðaverðbólgu, sem af stefnu hennar hefur leitt, eru þær að setja sérstakar hömlur á byggingu nýrra skóla, á sama tíma og hvers konar ónauðsynlegar byggingarframkvæmdir einkaaðila eru hömlulausar. Sá hugsunarháttur virðist eiga að ríkja, að þarfirnar ú skólahúsnæði skipti ekki máli, heldur verði einhver lágmarksupphæð, sem afgangs verði á fjárl., þegar búið er að spenna upp alla rekstrarliði, að duga sem framlag til nýrra skólabygginga, og síðan er augunum lokað fyrir þörfinni og þeim kröfum, sem skyldunámið leggur ríkisvaldinu á herðar, nýjar umsóknir eru látnar hlaðast upp ár frá ári, og með sérstökum ákvæðum í fjárl. er embættisliðinu heimilað að koma í veg fyrir framkvæmdir, og sveitarfélögum er jafnvel neitað um leyfi til þess að hefja byggingarframkvæmdir fyrir eigið fé. Þetta er sama stefnan og lýsir sér í orðum hæstv. fjmrh. í fjárlagaræðunni síðustu, þegar hann sagði um byggingar íþróttamannvirkja, að varðandi framtíðina væri nauðsynlegt að samþ. ekki önnur íþróttamannvirki en þau, sem fjárhagsgeta íþróttasjóðs leyfir hverju sinni. Hér er ekkert spurt um þarfirnar og ekki skylduna að halda uppi lögboðinni íþróttakennslu í skólunum. En geta íþróttasjóðs, hvað er það? Hún er hverju sinni svolítill hluti af þeim litla skammti, sem stjórnarvöldin hafa eftir til nauðsynlegra framkvæmda, þegar vitlaus stjórnarstefna þeirra er búin að spenna upp allan rekstrarkostnað, þegar stjórnarvöldin hafa hent millj. og milljónatugum í hvers kyns óþarfa. Í stað þess að láta þörfina á byggingu nýrra íþróttamannvirkja ganga fyrir óþarfanum og bruðlinu, t.d. óþarfa sendiráðum, almannavörnum, tilgangslausum sendiferðum o.fl., o.fl., þá er sú leið valin að sporna við nýjum framkvæmdum og takmarka þær við það litla, sem eftir verður af fé til verklegra framkvæmda, þegar hækkanirnar á rekstrarliðunum hafa gleypt sitt. Þessi stefna gildir varðandi íþróttasjóð, og þessi stefna gildir varðandi nýjar skólabyggingar. Lögin um greiðslu á hluta ríkissjóðs í skólabyggingum á 5 árum eru sniðgengin og öll áherzla lögð á að halda niðri nýjum skólabyggingum, hvað sem þörfinni liður, jafnvel þótt ekki sé hægt að halda uppi lögboðinni skólaskyldu að öllu leyti og ekki hægt að veita skólavist öllum þeim fjölmörgu unglingum, sem vilja stunda framhaldsnám að skyldunámi loknu. Það er ömurlegur árangur stjórnarstefnunnar undanfarin ár, að í þessum miklu góðærum skuli ekki vera unnt að gera stórátak í byggingu nýrra skóla, heldur skuli vera teknar upp sérstakar aðferðir til þess að hamla gegn nýjum framkvæmdum. En eins og ég áðan sagði, hef ég þegar svo mjög rætt þær afleiðingar stjórnarstefnunnar, sem koma fram við setningu fjárl. í niðurskurði á verklegum framkvæmdum, að ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þær frekar að sinni, en vil fara nokkrum orðum um þær brtt., sem ég flyt nú við 3. umr. á þskj. 152.

Ég geri með 1. till. minni tilraun til þess að fá nokkuð bættan hlut Kópavogskaupstaðar í sambandi við úthlutun fjár til skólabygginga. Til barna- og gagnfræðaskóla, sem þegar hefur verið veitt fé til, eru Kópavogi ætlaðar 5 millj. 716 þús. kr., en ég legg til, að sú upphæð verði hækkuð í 8 millj. og með því tekið meira tillit til þess en gert hefur verið, að áætlanir um byggingarkostnað við þá einstöku skóla, sem um er að ræða, eru nú verulega hærri en þær upphaflegu áætlanir, sem fjárveitingin er nú miðuð við. Í sambandi við Kársnesskólann munar um 7.5 millj. kr. á núgildandi áætlun og upphaflegri áætlun. Hún hefur hækkað úr 13.8 millj. kr. í 21.3, og kostnaðaráætlun um sundlaug bæjarins er 2.4 millj. kr. hærri en upphaflega áætlunin. Ef hluti Kópavogskaupstaðar yrði miðaður við þessar nýju áætlanir, sem forráðamenn bæjarfélagsins hafa gert grein fyrir, og þær viðbótarfjárveitingar yrðu látnar af hendi á þeim greiðsluárum, sem eftir eru í sambandi við þessar byggingar, ætti framlagið í heild að hækka í um það bil 8 millj. kr., eins og ég legg til, að gert verði. Kópavogskaupstaður hefur algera sérstöðu meðal sveitarfélaga landsins varðandi þörf á skólabyggingum vegna þess, hve hlutfallslega stórir eru hinir yngri árgangar bæjarbúa. Íbúar kaupstaðarins eru á 10. þús., og af þeim eru tæplega 2500 nemendur í barna- og gagnfræðaskólum eða nærri fjórði hver bæjarbúi, og á ári hverju hefja skólagöngu í fyrsta sinn jafnmargir nemendur og í Reykjavík, sem er 10 sinnum stærri bær. Á næsta ári mun kaupstaðurinn leggja fram úr bæjarsjóði um 10 millj. kr. til skólabygginga, og ég tel með tilliti til þess, sem ég hef nú hér rakið, eðlilegt, að framlag ríkissjóðs til skólabygginga þar verði hækkað í 8 millj. kr.

Í nýjum lögum um iðnfræðslu er gert ráð fyrir því, að kennsla fari fram í skólum, sem nái til stærra svæðis en verið hefur, og þeir verði þeim mun fullkomnari og stærri. Til þess að lögin geti verið annað en nafnið tómt, þarf sérstakt átak í þessum efnum. Þar sem byggja á slíka skóla, dugir skammt að veita smáupphæðir á ári hverju og miða með því við, að það taki langt árabil að þoka þessum framkvæmdum áleiðis. Hér er ekki um marga skóla að ræða, og það ætti að vera unnt að láta byggingarframkvæmdir við þá ekki komast í sömu úlfakreppu og nú er fyrir hendi í sambandi við byggingu annarra skóla. Ég held, að hv. Alþ. ætti að sameinast um að halda þessum flokki skólabygginga, þær eru tiltölulega fáar, upp úr volæðinu í nýjum skólabyggingum, og legg því til í næstu þremur brtt. mínum, að framlag til þeirra verði tvöfaldað. Áætlað er, að hin nýja iðnskólabygging í Hafnarfirði muni kosta 32.2 millj kr., og það er því algerlega óviðunandi, að um 1 millj. kr. fjárveiting á ári frá ríkissjóði verði látin nægja til þess að reisa þá byggingu, sem nauðsynlegt er, að komist upp á mun styttri tíma en slíkar fjárveitingar eru miðaðar við.

Í brtt. þeim, sem fluttar eru við fjárlagafrv. í nafni fjvn., er m.a. gert ráð fyrir hækkun á framlagi til vatnsveitna um 3 millj. kr., og eru þá hafðar í huga hinar stórfelldu framkvæmdir Vestmannaeyjakaupstaðar við lagningu vatnsveítu úr landi, og auk þess mun ríkissjóður eiga ógreidd framlög til ýmissa annarra sveitarfélaga. Öllum hv. alþm. er kunnugt um þær miklu framkvæmdir, sem Vestmanneyingar eru nú að vinna að með lagningu vatnsveitu um langan veg úr landi og út í Eyjar. Þessar framkvæmdir, sem áætlað er að kosti um 80 millj. kr. fyrir utan innanbæjarveitu, eru einstæðar hér á landi og aðrar slíkar munu ekki verða unnar. Vestmanneyingar hafa búið við þá aðstöðu í vatnsmálum, sem ekki hefur þekkzt á öðrum þéttbýlum stöðum í landinu, og nú, þegar kemur að því, að úr þessum málum verði bætt, eru þær framkvæmdir, sem með þarf til þess, svo miklum mun dýrari og umfangsmeiri en annars staðar hefur verið um að ræða, að þar kemst enginn samjöfnuður nærri. Það er mín skoðun, að það sé eðlilegt, að sá kostnaður, sem Vestmanneyingar hafa umfram aðra landsmenn af því að afla sér neyzluvatns, verði að mestu leyti greiddur úr sameiginlegum sjóði landsmanna, og alveg sérstaklega þykir mér fráleitt, að umframkostnaðurinn verði tekjulind fyrir ríkissjóð með aðflutningsgjöldum af efni til framkvæmda við stofnæð, eða verulegur hluti af þeim fjárveitingum, sem Eyjabúar fá til þess að mæta þessum kostnaði, fari til greiðslu á aðflutningsgjöldum til ríkisins. Ég hef því lagt til með 5. og 7. brtt. minni á þskj. 152 annars vegar, að hækkað verði framlag ríkissjóðs til vatnsveitna í 10 millj. kr. með tilliti til þess, að ríkissjóður geti þegar á næsta ári tekið verulegan þátt í kostnaði við stofnæð vatnsveitu þeirra Vestmanneyinga, og hins vegar verði ríkisstj. heimilað að endurgreiða Vestmannaeyjakaupstað aðflutningsgjöld af efni til stofnæðar og vatnsgeyma vatnsveitunnar til Vestmannaeyja. Ég trúi ekki öðru en þeir hv. alþm., sem fyrir skömmu stóðu að því að heimila erlendu auðfélagi tollfrjálsan innflutning til framkvæmda, geti fallizt á þá aðstoð við Vestmanneyinga, sem ég hef hér lagt til að þeim verði veitt í sambandi við þær sérstöku stórframkvæmdir, sem þeir eiga nú í til þess að fullnægja einni af frumþörfum íbúanna í Vestmannaeyjum.

Fyrir 2. umr: fjárl. flutti ég brtt., sem felld var, þess efnis, að ríkisstj. væri heimilað að taka lán til þess að endurlána til byggingar dráttarbrauta. Ég gerði þá grein fyrir þeim framkvæmdum og þörfinni á stuðningi við þær og endurtek það ekki nú. En vegna þess að þess sjást engin merki, að ríkisstj. hyggist tryggja fjármagn í þessar framkvæmdir, flyt ég nú við 3. umr. till. varðandi þetta sama málefni í nokkuð breyttri mynd eða á þann veg, að ríkisstj. verði heimilað að taka allt að 15 millj. kr. lán til greiðslu á framlögum ríkisins til byggingar dráttarbrauta. Fyrir 2. umr. flutti ég einnig brtt. í þá átt að auka framlag til jarðhítarannsókna um 2.1 millj. kr. og lagði þá sérstaka áherzlu á nauðsyn þess, að slíkar rannsóknir færu fram í grennd við þéttbýlið hér við Faxaflóa, þar sem hagnýtur jarðhiti kæmi að hvað mestum notum. Sú till. mín fékk því miður ekki samþykki þá. En ég fagna því sérstaklega, að nú hefur náðst samkomulag um það í fjvn., að hún flytji brtt., þar sem gert er ráð fyrir að hækka framlag til jarðhitarannsókna um 2 millj. kr. og til þess verði heimiluð lántaka. Ég fagna því, að þessi till. kemur fram nú við 3. umr., og vænti þess, að um hana fáist samstaða allra hv. alþm.