18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

129. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það voru nokkur orð í tilefni af þeim brtt., sem hv. 5. þm. Austf. hefur flutt um útflutningsgjald af síldarafurðum. Það er nú ekkert langt síðan, að hækkað var verulega útflutningsgjald af síldarafurðum og leizt mörgum ekki á blikuna í því sambandi, að slíkt gæti staðizt til frambúðar, og ég vil minna á það, að í vor sem leið, þegar síld og síldarafurðir voru verðlagðar, lagði ég það til í Síldarverksmiðjustjórn ríkisins, að hún skoraði á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að sú hækkun, sem þá hafði nýlega verið gerð á útflutningsgjaldi af síldarafurðum, yrði látin ganga til baka. Nú er miklu erfiðara að verðleggja síld en var í vor sem leið, þótt það væri erfitt þá, margfalt erfiðara, og ég tel nokkurn veginn víst, að það verði ekki hægt að verðleggja hana öðruvísi en að breyta grundvellinum, þ. á m. útflutningsgjaldinu. Ég geri ráð fyrir, að það komi greinilega í ljós, að það standist alls ekki að taka 8% af þessum afurðum í útflutningsgjöld, og ég er hv. þm. sammála um, að það sé eðlilegra að ganga í þetta mál núna strax og að Alþingi geri það heldur en að farið verði að fjalla um þessi mál utan Alþingis síðar, þegar það er búið að ljúka störfum, og sé skynsamlegt að horfast í augu við þetta strax. Ég mun því greiða atkv. með þessari brtt.