17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

159. mál, skólakostnaður

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég hafði nú kvatt mér hljóðs, áður en málið tók þeim breyt., sem nú hafa á orðið og hefði því átt að geta fallið frá orðinu, en ég óska heldur eftir, að það komi fram hér við umr., hver afstaða mín var til málsins og hvers vegna ég var ekki meðflm, að þeirri till. hv. samþm. á Austurlandi, sem hér lá fyrir um það að fella nafn Eiðaskóla út úr frv.

Skólakerfið hefur tekið mjög miklum breyt. frá því að Eiðaskóli var stofnaður og hann fellur nú eða nám hans inn í hið almenna skólakerfi á sama hátt og annarra alþýðu- og héraðs- og gagnfræðaskóla, og þess vegna fannst mér dálítið hæpin rök fyrir því að taka nafn hans út, þegar slíkir skólar voru taldir upp. Hins vegar var mér það alveg ljóst, eins og fram hefur komið hér, að alþýðuskólinn á Eiðum er stofnaður með sérstökum l. og byggist á sérstökum samningi. Hann er stofnsettur á grundvelli samnings, sem gerður var á sínum tíma á milli Múlasýslna og ríkissjóðs. Og ég var þeirrar skoðunar, að sá samningur hlyti að halda gildi sínu og sá réttur, sem honum fylgdi, þrátt fyrir það, að þetta ákvæði hefði verið sett inn í l. núna. Ég skal játa það, að ég er ekki lögfræðingur og mér dettur ekki í hug að slá þessu föstu, en þetta var mitt mat og á þessu byggðist sú afstaða mín, að ég var ekki með flutningi brtt. Þetta vildi ég, að kæmi hér fram,