21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það getur náttúrlega aldrei neinu spillt að setja þetta inn í sjálfa stjórnarskrárgreinina. Ef menn vilja vera algerlega öruggir, er það kannske réttara. Hins vegar finnst mér fyrir mitt leyti þess ekki vera nein þörf. Ég geri ráð fyrir því, að þeim íslenzkum ríkisborgara búsettum úti í löndum, sem ætlaði að óska eftir að kjósa hér á landi, yrði nokkuð erfitt um að fá sig dæmdan inn á kjörskrá í kjördæmi, af því að um það hljóta kosningalög að setja ákvæði, í hvaða kjördæmi menn eigi kosningarrétt, og hljóta að setja skilyrði fyrir því, að menn séu þar búsettir eða hafi verið þar búsettir á einhverjum degi, áður en kosning fer fram. En sem sagt, þetta atriði skiptir náttúrlega í sjálfu sér engu máli um efni frv., eins og hæstv. forsrh. sagði. Það eru allir sammála um, að þetta hljóti og eigi að vera svo, að það séu menn hér á landi búsettir, sem eigi kosningarrétt, þó kannske með vissum undantekningum, þannig að starfsmenn utanríkisþjónustu séu taldir hér heimilisfastir og fái að kjósa, þó að það sé náttúrlega hugargerð í sjálfu sér, því að raunverulega hafa þeir e. t. v. verið að ferðast úti í löndum áratugum saman, þannig að hvort sem þetta er látið vera óbreytt, eins og það er í frv., eða það er skotið inn alveg ákveðnu ákvæði um þetta, er fylgi mitt við frv. alveg óbreytt eftir sem áður. Það breytir auðvitað engu um það.

Viðvíkjandi því, sem kom hér fram í umr., um það, hvort setja eigi þetta kosningaaldursmark við 20 ár eða einhvern lægri aldur, vil ég segja það, að ég vil í þessu tilliti fyrst og fremst binda mig við það, sem samkomulag hefur náðst um. En það er auðvitað og verður algert álitamál, hvort það á kannske að miða við 20 ár eða 19 ár eða 18 ár. Það er álitamál, og það er svo sem ekki nein algeng regla í því efni, eins og menn sjá, þegar menn kynna sér, hvaða ákvæði gilda um þetta í öðrum löndum. En þetta er það mark, sem menn nú hafa orðið sammála um, og þess vegna get ég alveg fallizt á að samþykkja það. Og ég verð líka að segja, að mér finnst það heldur eðlilegt, þegar ekki er hreyft við kjörgengisskilyrðum, þ.e.a.s. þegar látin eru saman falla kosningaaldursskilyrði og kjörgengisskilyrði. En fari menn mjög langt niður með kosningarréttarskilyrði, býst ég við því, að ýmsum þætti eðlilegt að gera strangari kjörgengisskilyrði. Ég geri ráð fyrir því, að sumum þætti það vafasamt að miða kjörgengisaldur við 18 ár, þó að þeir gætu fallizt á það að miða kosningarrétt við 18 ár.