13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Meginefni þessa frv. til stjórnarskipunarlaga um breyt. á 33. gr. stjórnarskrár fjallar um lækkun á aldursmarki um kosningarrétt við kosningar til Alþingis úr 21 í 20 ár. Forsaga þess, að frv. þetta er fram komið, skal ekki rakin hér. Það var gert við 1. umr. málsins hér í hv. d. og ekki ástæða til, að það verði endurtekið. Þess skal þó getið, að mþn. hefur fjallað um málið síðan í fyrra, og var hún skipuð 7 mönnum. Voru þeir allir sammála um að lækka aldursmarkið, en skiptar skoðanir voru um það innan n., hve langt skyldi ganga í því efni, en nm. voru þó sammála um það að lækka kosningaaldurinn í 20 ár að þessu sinni.

Samkomulag varð um það hjá ríkisstj. og stjórnarflokkunum að flytja frv. til breytinga á 33. gr. stjórnarskrárinnar í samræmi við þetta. Því er hins vegar ekki að leyna, að ýmsir, a.m.k. Alþfl.-menn, hefðu gjarnan fallizt á að ganga nokkru lengra í þessu efni.

Hv. 9. þm. Reykv. klauf allshn., sem um málið hefur fjallað, og ber fram á sérstöku þskj. brtt. við frv. á þann veg, að aldursmarkið verði fært niður í 18 ár. Enda þótt ég sé út af fyrir sig efnislega ekki á móti slíkri lækkun á aldursmarkinu, mun ég greiða atkv. gegn þeirri till., enda tel ég ekki við hæfi að ljúfa samkomulag, sem gert hefur verið um málið til tryggingar framgangi þess milli stjórnarflokkanna og ég hef áður getið um.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl. allshn., hefur meiri hl. n. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með breytingum, sem ég held að allir viðstaddir nm. hafi verið sammála um, einnig hv. 9. þm. Reykv. Hin fyrri breyting er um að fella inn í frvgr. ákvæði um lögheimili hér á landi sem kosningarréttarskilyrði. Verður að teljast eðlilegt, ef ekki nauðsynlegt, að slíkt ákvæði sé í gr. Hin breytingin er sú, að í stað orðsins „fjárráður“ komi: ekki sviptur lögræði. Samkv. gildandi l. um lögræði verða menn ekki fjárræða fyrr en 21 árs og mundu því ekki öðlast kosningarrétt 20 ára, eins og ætlazt er til með frv., nema þessi orðalagsbreyting á því verði gerð. Þótt að vísu sú leið sé opin að breyta lögræðisl. til samræmis við ákvæði frv., þá varð n. sammála um, að eðlilegra sé að miða hér við lögræði en fjárræði, því að úr því að rök þykja fyrir því, að menn sviptir fjárræði hafi ekki kosningarrétt, hljóta að vera enn meiri rök fyrir því, að þeir, sem sviptir eru sjálfræði, hafi ekki þann rétt.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Það liggur ljóst fyrir, og aðalatriði þess voru rædd nokkuð ýtarlega við 1. umr. hér í hv. d. Einn nm., hv. 1. þm. Vestf., var ekki viðstaddur á fundinum, þegar n. afgreiddi málið.

Ég vil að lokum láta þess getið, að ég hafði áhuga á að fella niður óflekkað mannorð sem kosningarréttarskilyrði. Var um þetta rætt nokkuð ýtarlega á fundum allshn. Samstaða fékkst þó ekki um þessa breytingu, og vildi ég því ekki flytja um það brtt., sem kynni að leiða til þess að torvelda framgang frv. eða tefja hann.