06.12.1966
Neðri deild: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

84. mál, Iðnlánasjóður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að vekja athygli á því, eins og reyndar mun hafa komið fram í ræðu iðnmrh. hér áðan, að á síðasta þingi var samþ. að heimila iðnlánasjóði að taka allt að 100 millj. kr. lán til þess að mynda nýjan lánaflokk í því skyni að veita sérstök hagræðingarlán til viðbótar almennum lánum. Það er nú liðið næstum því ár síðan þetta var samþ. hér á Alþ., án þess að nokkur framkvæmd hafi átt sér stað fyrr en nú. Samkv. þessu frv. á að veita iðnlánasjóði 25 millj, kr. lántöku í þessu skyni. Mér finnst, að hér hafi óeðlilega mikill seinagangur átt sér stað og það sé of skammt gengið með því að tryggja aðeins 25 millj. kr. til þessarar starfsemi, því að fjárþörfin er að sjálfsögðu miklu meiri en það. Þá virtist mér það koma fram í ræðu hæstv. ráðh., að það væri ætlazt til þess, að þau lán, sem sjóðnum eða hagræðingardeild iðnlánasjóðs væri heimilað að taka samkv. þessu frv., mundu verða mjög vaxtahá. En hins vegar er ætlazt til, að lánin, sem iðnaðarfyrirtækin fái, þessi hagræðingarlán, verði vaxtalág og það eigi þess vegna að taka hluta framlagsins, sem kemur úr ríkissjóði, til þess að borga vaxtamismuninn. Þetta verður þess að sjálfsögðu valdandi, að framlag ríkisins til iðnaðarlána notast miklu verr en ella. Mér finnst rétt í þessu sambandi að benda á það, að hér fyrir hv. d. liggur annað frv., þar sem gert er ráð fyrir að auka verulega framlag ríkissjóðs til sjóðsins, og mér sýnist, að það sé enn þá meiri ástæða til þess að samþykkja það frv., þegar fyrir liggur nú hér, að taka á verulegan hluta af framlagi ríkisins til þess að greiða vaxtamismun, en það verður ekki notað beint til útlána, eins og ætlunin hefur þó verið. Ég vil þess vegna vænta þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki bæði þessi frv. til meðferðar samtímis, og það sé eðlileg afleiðing af því frv., sem hér liggur fyrir, að framlag ríkissjóðs til iðnlánasjóðs verði verulega hækkað, þar sem er gengið inn á þá braut að taka nokkurn hluta af þessu framlagi til þess að greiða vaxtamismun, en það rennur ekki beint til útlána, eins og áður hefur verið.