13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Háttvirtu hlustendur. Það hefur áreiðanlega ekki verið til vegsauka fyrir Alþ. eða þm., þegar þeir lýsa í ádeiluræðum sínum eins og við þessar útvarpsumr. ástandi og atvikum í þjóðfélaginu allt öðru vísi en staðreyndir segja til um og allt öðru vísi en meginþorri manna veit af eigin raun. Þetta hefur hent stjórnarandstæðinga mjög alvarlega fyrra kvöld þessara umr., og enn heldur sami sónninn að þessu leyti áfram í kvöld. Nú liggur það í hlutarins eðli, að í takmörkuðum ræðutíma er ekki hægt að hrekja allar þær firrur stjórnarandstæðinga, sem fram hafa verið bornar, en þó getur það ekki hafa farið fram hjá hlustendum, að talsmenn stjórnarflokkanna hafa haft allt aðra sögu að segja um stjórnmálaástandið í landinu og þróun mála en stjórnarandstæðingar. Þegar formenn stjórnarandstöðuflokkanna höfðu lokið sínum lestri, mátti helzt skilja, að hér væri allt í grænum sjó. Bar þeim samþingsmönnum Eysteini og Lúðvík lítið á milli í hrollvekjum sínum, og minni spámennirnir hafa svo höggvið í sama farið.

Ég skal nú taka nokkur dæmi af málflutningi formanna stjórnarandstöðunnar. Eysteinn Jónsson segir: „Aðgerðir ríkisstj. hafa verkað eins og eitur“. Minna mátti ekki gagn gera. Lúðvík Jósefsson segir: „Hann á ekkert skylt við stefnu ríkisstj., sá hagvöxtur, sem hér hefur átt sér stað“. Í kvöld sagði Ólafur Jóhannesson: „Vissulega er það að kenna stjórnarstefnunni, þeir erfiðleikar, sem vissar atvinnugreinar eiga við að búa“. Svona er samræmið. Hagvöxturinn á ekkert skylt við stefnuna, en ef einhverjir erfiðleikar koma á daginn, er það afleiðing stjórnarstefnunnar. Ólafur Jóhannesson sagði einnig, að stjórnin hefði ekki þurft að glíma við erfitt árferði, engin stjórn setið við aðra eins hagsæld frá náttúrunnar hendi. Einstæð aflabrögð og óvanalega hagstætt verðlag á erl. mörkuðum.

Eins og Sigurður Ingimundarson o. fl. hafa bent á í þessum umr., þá verður hagvöxtur þjóðarframleiðslu og þjóðartekna á viðreisnartímabilinu alls ekki rakinn bara til góðæris. Aflabresturinn fyrir norðan og óhemju kalskemmdir fyrir austan segja sína sögu. Hey fyrir milljónatugi var flutt til hér á landinu til bændanna fyrir austan. Togaraútgerð á takmörkuðum veiðisvæðum hefur verið með afbrigðum erfið og línuútgerð að úreldast. Naumast hægt að fá verkafólk eða sjómenn til þeirra starfa. Bæði árin 1955 og ekki síður 1958 voru viðskiptakjör mjög hagstæð, ekki síður en nú undanfarið. Samt gafst vinstri stjórnin upp í desember 1958. Á árunum 1961 og 1963 var verðlag með eðlilegum hætti og ekkert meira en það. Árin 1964 og 1965 voru viðskiptakjörin aftur á móti mjög hagstæð, en síðari hluta ársins 1966 dynur yfir stórkostlegt verðfall á útflutningsafurðunum. Það veldur hver á heldur, og enn hefur tekizt að mæta hinu gífurlega verðfalli án verulegra skakkafalla vegna skynsamlegrar stjórnarstefnu, einmitt skynsamlegrar stjórnarstefnu.

Eysteinn Jónsson sagði, að allt hefði nú staðið í blóma, ef óstjórnin hefði ekki komið til. Þessu lýsti nú Hermann Jónasson allt öðruvísi, þegar vinstri stjórnin gafst upp í desember 1958. „Ný verðbólgualda skollin yfir“, sagði þessi forsrh. vinstri stjórnarinnar, „við erum að fara fram af brúninni“, og loks upplýsti hann, að ekki væri nokkur samstaða um nein úrræði til bjargar í þeirri sælu ríkisstjórn vinstra samstarfsins og þar með voru dagar hennar taldir.

Báðir voru formenn stjórnarandstöðunnar innilega sammála um, að viðreisnin hefði grafið undan afkomu almennings. Vaxandi samdráttur í iðnaði, landbúnaður í úlfakreppu og álögin eru ofboðsleg. Verðstöðvunarstefnan bara sjónhverfingar bugaðra manna, lágkúrulegar tilraunir til þess að fela ófremdarástandið. Skuldir við útlönd hefðu vaxið, skorin niður framlög til sjúkrahúsabygginga, — ég held að þeir hafi næstum allir verið að tala um það, — ekkert raforkuver byggt. Mörg fleiri málblóm gat að líta og verður kannske vikið betur að þeim, áður en lýkur. Allt var ástandið hrollvekjandi að dómi þessara manna.

Ég verð að játa, að þetta er ekki álitlegur grundvöllur til þess að byggja framtíðina á, ef satt væri. En er þetta þá satt? Er allt í grænum sjó í þjóðfélaginu? Er það virkilega hrollvekjandi að búa á Íslandi í dag? Að þessu skal nú vikið, en viðfangsefnið verður að nálgast frá nokkuð öðrum sjónarhóli. Auðvitað verður hér ekki brugðið upp nema skyndimyndum. Það verður hins vegar ekki hrakið og má hver einstaklingur vita nokkuð af eigin raun, að á síðustu 7–8 árum hafa orðið meiri framfarir í efnahag Íslendinga en á nokkru öðru sambærilegu tímabili í sögu þeirra hingað til. Á viðreisnartímabilinu hefur þjóðarauðurinn í raunverulegum verðmætum aukizt um 40–50%, eins og forsrh. upplýsti í sinni ræðu. Mest hefur aukningin orðið í vélum og tækjum og mannvirkjum atvinnuveganna. Auknar skuldir við útlönd, þegar frá er talinn gjaldeyrisvarasjóður og aðrar innistæður, nema aðeins nokkrum hundruðum millj. kr., á sama tíma sem eignamyndunin, aukin verðmæti í landinu sjálfu, hafa numið 13 þús. millj. kr. Fjármunamyndun á mann er meiri á Íslandi en í nokkru öðru Evrópu- eða Ameríkuríki. Næst á eftir Íslandi koma Sviss, Bandaríkin, Kanada og Svíþjóð. Þetta hefði einhvern tíma þótt nokkurs virði, að Ísland væri á undan þessum þjóðum. Vöxtur þjóðarframleiðslu hefur verið mjög mikill hér á landi á þessum árum, hvort sem miðað er við fyrri tímabil hérlendis eða önnur lönd. Í þessu efni hefur t, d. orðið mikil breyting frá því á árunum 1955–1960. Þá var vöxtur þjóðarframleiðslunnar hægari hér á landi heldur en í nokkru öðru landi í Vestur-Evrópu, aðeins 1% að meðaltali á ári. Eitt árið, 1957, minnkaði þjóðarframleiðslan jafnvel, miðað við næsta ár á undan. Á árunum 1961–1965 hefur þjóðarframleiðsla Íslendinga hins vegar vaxið um 5.4% á ári til jafnaðar, sem er meiri vöxtur en í nokkru öðru iðnþróuðu landi í Evrópu og Ameríku. Skv. nýútkominni skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar fyrir árið 1965, var Ísland það ár hið 3. í röðinni af aðildarríkjum stofnunarinnar í þjóðarframleiðslu á mann. Aðeins í Bandaríkjunum og Svíþjóð var framleiðslan á mann meiri. Þennan grundvöll framtíðarvelmegunar hefur tekizt að leggja, á sama tíma og launastéttir hafa fengið vaxandi hluta af þjóðartekjum, þar sem ráðstöfunartekjur kvæntra verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna með börn á framfæri hafa vaxið að meðaltali á viðreisnartímanum um 47%, samtímis aukningu þjóðartekna á mann að meðaltali 33%.

Af hálfu ríkisvaldsins hefur svo sérstaklega verið leitazt við að rétta hlut hinna lægst launuðu. Í því skyni voru m. a. á árinu 1961 sett lög um launajöfnun karla og kvenna, en með þeim var ákveðið, að á árunum 1962–'67 skyldu laun kvenna hækka til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og skrifstofuvinnu. Við byrjun tímabilsins var yfirleitt 21% munur á lágmarkslaunum karla og kvenna í þessum starfsgreinum, en 1. jan. s.l. var fullum launajöfnuði náð.

Eins og félmrh. upplýsti í sinni ræðu, hafa ótalmargar breyt. orðið á félagsmálalöggjöfinni, sem hafa jafnan stefnt að því að létta lífsbaráttu þeirra, sem standa höllum fæti. Auk framangreindra lífskjarabreytinga, sem flestar eru mælanlegar í tölum og koma fram í vísitölu, verður svo að hafa í huga önnur atriði, sem að vísu hafa ekki áhrif á vísitölu, en hafa engu að síður mjög mikil áhrif á lífskjörin, m. a., að allt viðreisnartímabilið hefur víðast á landinu verið næg atvinna handa öllum og víða beinlínis skortur á vinnuafli, að vegna afnáms innflutningshafta hefur vöruval og framboð komið í stað vöruskorts og svartamarkaðsbrasks, svo almenningur getur betur nýtt hinar miklu tekjur, að vegna tollalækkana hefur lækkað verð á ýmsum vörutegundum, sem áður voru taldar lúxusvörur og eru því ekki í vísitölugrundvellinum, en eru nú taldar til sjálfsagðra lífsþæginda.

Hin margvíslegu lífsþægindi, sem þorri ísl. þjóðarinnar nýtur nú, eru talandi tákn um mikla og vaxandi velmegun hennar. Samanburður við aðrar þjóðir sýnir, að almenningur nýtur óvíða jafn mikilla lífsþæginda og hér á landi. Eru dæmin talandi og almenningi kunn, þótt ekki veitist tími hér til þess að rekja það frekar.

En á fleira er að líta. Fleiri hrollvekjandi staðreyndir, svo notuð séu þeirra eigin orð, stjórnarandstæðinga. Stöðvun allrar framleiðslu landsmanna er ekki langt undan, sagði Lúðvík Jósefsson. Landbúnaður hefur dregizt saman, en Eysteinn Jónsson taldi þessa atvinnugrein vera í úlfakreppu. Landbrh. Ingólfur Jónsson er búinn að hrekja þessa firru og Ágúst Þorvaldsson, sem talaði hér af hálfu Framsfl., hann gerði það að verulegu leyti líka í kvöld, þó að það yrði kannske alveg óvart hjá þessum bónda. En hann var að lýsa því, eins og menn heyrðu, hvað bændur hefðu getað varið mörg hundruð millj. kr. árlega í framkvæmdir á viðreisnartímabilinu. Þetta var hans dómur um samdráttinn og úlfakreppuna hjá landbúnaðinum. Ágúst var að vísu að fárast yfir greiðslum bænda í stofnlánadeild landbúnaðarins. Það væri í ætt við miðaldafjötra, að bændur greiða lága prósentu af launum sínum í þeirra eigin stofnlánasjóð. Nú, ekki er talið eftir af framsóknarmönnum sams konar gjald til bændahallarinnar eða Hótel Sögu. Samræmið er ekki sem allra bezt. En á það skal minnt, að aðrir stofnlánasjóðir, sérstaklega sjávarútvegsins, fiskveiðasjóður, og að nokkru leyti iðnlánasjóður, hafa einmitt verið byggðir upp á sama hátt og enginn talið eftir.

Landbrh. sýndi fram á, að Stéttarsamband bænda sjálft hefði ákveðið að láta semja framkvæmdaáætlun fyrir landbúnaðinn fyrir áratuginn 1961–'70. Á miðju áætlunartímabilinu eða eftir 5 ár er yfirleitt komið langt fram úr áætlunargerð bændanna sjálfra, langt fram úr því, sem þeir sjálfir gerðu kröfu til og ætluðust til að koma áleiðis í þjóðfélaginu á þessum áratug. Þurrheyshlöður átti að byggja, 600 þús. teningsmetra á 10 árum, en á 5 árum var búið að byggja 741 þús. teningsmetra. Súgþurrkunarkerfi átti á 10 árum að koma upp skv. óskum bændanna og áætlun, sem svaraði 200 þús. teningsmetrum. En eftir 5 ár hafði verið byggt sem svaraði 640 þús. teningsmetrum. Þetta er úlfakreppan. Dráttarvélar áttu bændur að eignast á 10 ára tímabilinu 4000 talsins, en höfðu eignazt 3000 á 5 ára tímabili viðreisnarinnar. Íbúðarhús áttu bændur að eignast 700 talsins á 10 árum, en höfðu eignazt 538 hús á 5 ára tímabilinu. Er furða, þó að setji hroll að formanni hins gamla bændaflokks, Framsóknar, þegar svona er ástatt?

En það voru fleiri fjólur í málflutningi stjórnarandstæðinga. Form. Framsfl. sagði, að það væri ráðsmannanna á þjóðarbúinu að gera grein fyrir, hvað orðið hefði af þjóðartekjunum á undanförnum árum. Þetta er þessi maður sí og æ að endurtaka, sagði það líka á flokksþinginu. Veit hann ekki, hvað hefur orðið af þjóðartekjunum, þessi maður? Sér hann ekkert í kringum sig? Sér hann ekki bátaflotann, sér hann ekki byggingarnar, sér hann ekki tækin, vélarnar og allt, sem allur almenningur hefur fyrir augum? Auðvitað speglast þjóðartekjurnar í velmegun fólksins, eins og ég hef verið að gera grein fyrir, í raunverulega vaxandi þjóðarauði. En stjórnarandstæðingar segja, að atvinnuvegirnir hafi verið sérstaklega grátt leiknir. Þar er þó fjármunamyndunin mest. Um þetta eru til greinargóðar upplýsingar, sem birzt hafa fyrst í þjóðhagsog framkvæmdaáætluninni fyrir árið 1963–'66 og síðan í yfirliti Efnahagsstofnunarinnar um fjármundamyndunina árin 1962 og 1965.

Sé samanburður gerður á milli tveggja fjögurra ára tímabila, áranna 1956–1959 annars vegar og 1962–1965 hins vegar, hefur orðið stórmikil aukning fjármunamyndunar í vélum og tækjum í hverri einustu grein, að rafvirkjunum og rafveitum undanteknum. Er þá miðað við fast verðlag, þ. e. verðlag ársins 1960. Í heild er fjármunamyndunin eða verðmætasköpunin í vélum og tækjum h.u.b. 50% meiri á síðara tímabilinu, viðreisnartímabilinu, en því fyrra. Vélar og tæki í landbúnaði eru h. u. b. 100% hærri, fiskiskip 55% hærri, vélar í iðnaði 38% hærri og ýmsar vélar og tæki, en í þeim flokki eru flestar vinnuvélanna, 62% hærri.

Ástæðan fyrir því, að fjármunamyndunin í rafvirkjunum og rafveitum, minnkar á milli tímabilanna er að sjálfsögðu sú, að Steingrímsstöð er í byggingu á fyrra tímabilinu, en Búrfellsvirkjun ekki hafin á því síðara, sem endaði 1965. En framkvæmdir við Búrfellsvirkjun hófust á s.l. ári, 1966, fyrstu stórvirkjun í fallvötnum landsins, jafnframt því, sem hafizt er handa um stóriðju með byggingu álbræðslu við Straumsvík. En áður var búið að framkvæma virkjunarrannsóknir á 30–40 stöðum á landinu í miklu stærri stíl en nokkru sinni áður og verja til þess á annað hundrað millj. kr. Og ef borin er saman fjármunamyndun í vélum og tækjum fyrr og síðar, miðað við sama verðlag, þ. e. ársins 1965 í þessu tilfelli, kemur í ljós, að hún er um það bil helmingi meiri á s.l. ári einu en tveim árum vinstri stjórnarinnar 1957 og 1958, og þá er miðað við sama verðlag, en þessi 2 ár var hún 2279 millj., en 2100 millj. kr. á s.l. ári. Þarna getur form. Framsfl. m. a. leitað að því, hvað orðið hefur af þjóðartekjunum í tíð viðreisnar. Þetta kallaði svo Ingvar Gíslason í fyrradag „ár hinna glötuðu tækifæra“. Það eru hin glötuðu tækifæri. Tvöföld fjármunamyndun í vélum og tækjum atvinnuveganna á við það, sem áður hefur þekkzt. Það er stórvirkjun í Þjórsá. Það er stóriðja við Straumsvík. Það er stórskipahöfn í Straumsvík. Það er bygging kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Það er nýr 50 millj. kr. vegur á milli Húsavíkur og Mývatnssveitar. Það eru byggðaáætlanir, fyrst Vestfjarðaáætlun og síðan Norðurlandsáætlun, og það er löggjöf um stofnfjárframlög og tekjuöflun til framkvæmda á byggðaáætlunum, þar sem eru l. um atvinnujöfnunarsjóð. Það er upphaf stálskipasmíði í landinu. Það er bygging dráttarbrauta fyrir hinn nýja skipastól, og svona mætti lengi telja. Þetta kalla þessir menn „ár hinna glötuðu tækifæra“.

Margendurteknar staðhæfingar stjórnarandstæðinga um dæmalausa verðbólgu eða óðaverðbólgu, eins og þeir orða það, á viðreisnartímabilinu, að hún sé meiri en nokkru sinni áður, eru ýmist blekkingar eða bein ósannindi. Óvefengjanlegur, fræðilegur og réttur samanburður staðfestir þetta. Á áratugnum 1. jan. 1950 til 1. jan. 1960 er hækkun vísitölu framfærslukostnaðar að meðaltali á ári 8.5%. Hækkunin á ársgrundvelli var síðasta hálft ár vinstri stjórnarinnar 35.5%. En voðinn sjálfur var þá framundan, er sú stjórn gafst upp, ef ekki hefði verið tekið í taumana. Frá 1. maí 1964 til 1. maí 1965 er hækkun framfærsluvísitölunnar aðeins 4.7%. Áhrif júní-samkomulagsins áreiðanlega, sem hér eru að verki, og það er því rangt hjá Eðvarð Sigurðssyni, að ríkisstj. hafi svikið þetta samkomulag, og átti ég sannast að segja sízt von á því frá honum. Þetta er lægsta hækkun vísitölu á ársgrundvelli, 4.7%, allt frá 1950. Enn þá minni hækkun er þó frá 1. maí 1966 og til 1. marz nú, eða aðeins 2.6% og alls er hækkun vísitölu framfærslukostnaðar á ári frá 1. maí 1964 eða undanfarin 3 ár og þar til nú aðeins 6.5%. Allt eru þetta eðlilegar staðreyndir, þegar haft er í huga, að allar ráðstafanir núv. ríkisstj. hafa fyrr og síðar verið við það miðaðar, eins og lýst var yfir, að vinna gegn vexti verðbólgunnar. Það hefur hins vegar verið viðurkennt, að ríkisstj. hefur ekki tekizt að ráða niðurlögum verðbólgunnar, en því var heldur aldrei lofað. Ólafur Jóhannesson sagði hér áðan: „Verðstöðvunin er bara blekking,“ og svo: „Því var ekki gripið til hennar fyrr?“ Það var gripið til verðstöðvunarinnar fyrr. Eðvarð Sigurðsson var að tala um það hér áðan. Það átti að beita henni haustið 1963. Það var eitt síðasta verk Ólafs Thors á stjórnmálasviðinu og hér á Alþ. Öll stjórnarandstaðan reis upp á móti því. Henni var enn beitt, verðstöðvuninni, í samkomulaginu 1964. Framsókn var auðvitað utangátta og hafði þar ekkert erindi. Hins vegar ber að þakka góða samvinnu fulltrúa verkalýðsins og vinnuveitenda við ríkisstj. um þetta farsæla samkomulag.

Hver stjórnarandstæðinga á fætur öðrum hefur geipað um það, að dregið hafi verið úr ríkisframlögum til sjúkrahúsabygginga og meðferð heilbrigðismála sé áhyggjuefni. Hannibal Valdimarsson sagði í kvöld, að læknar hefðu svipt hulunni frá á fundi nýlega, en hann sleppti nú alveg frekari skýringu á því, hvernig hulu þeir hefðu svipt frá — lét hér við sitja. Það var syndsamleg þögn hjá hv. þm., því að allt eru þetta beinlínis ósannindi, og þeim þm., sem halda þessu fram, er það engin ofætlun að fara með rétt mál. Þeir hafa aðgang að ríkisreikningunum og fjárlögum, og sjálfur hef ég nýlega gert grein fyrir framlögum til heilbrigðismála á stúdentafundinum og enginn hreyft andmælum, sem heldur ekki var hægt, og enginn af þessum ágætu læknum — ekki einn einasti. Ef borin eru saman útgjöld ríkisins í tíð vinstri stjórnar 1958 og nú, og allt fært til sama verðlags, 1965, sést óyggjandi, að ríkisframlögin eru nú meira en helmingi hærri eða 127% hærri en þá til heilbrigðismála á helztu greinum fjárlaga. Enn fremur stóraukin félagsleg fjáröflun fyrir vangefið fólk og hjartaverndarsamtök. Þeim síðarnefndu tryggðar árlegar tekjur um 8 millj. kr., en styrktarsjóði vangefinna árlegar tekjur um 24 millj. kr.

Sagt hefur verið, að læknishéruð skorti lækna. Ekki er það ný bóla. Það hefur verið svo frá aldamótum. Einhvern veginn var það svona líka, þegar Framsókn var í stjórn, þótt þeir séu að fárast yfir þessu núna. Hins vegar hafa verið sett ný læknaskipunarlög árið 1965, sem veita héraðslæknum margs konar hlunnindi, staðaruppbót, utanfararstyrki, sérstök námslán, styrki til bifreiðakaupa, sérstakar aldursuppbætur og margt fleira, sem þegar er farið að hafa sín áhrif. Unnið er að því að setja skipulagsreglur um læknamiðstöðvar fyrir beiðni fólksins heima í héruðum á fjórum stöðum, og margt fleira mætti telja, svo sem breyt. á læknakennslunni, sem undirbúin hefur verið, og aðstöðu heimilislækna, endurskoðun alls heilbrigðiseftirlits í landinu og margt, margt fleira. Þessa stundina eru sérfræðingar heilbrigðisstjórnar á fundum með erl. sérfræðingum frá Danmörku og víðar að til þess að ljúka skipulagi Landsspítalalóðar, raða þar verkefnum og áætla kostnað hvers stigs framkvæmda fyrir sig. Ráðgert er, að hægt verði að ljúka byggingu Landsspítalans, miðað við það, sem nú er undir, á árunum 1967–'69 og nauðsynlegum öðrum byggingum, svo sem nýju mötuneyti og eldhúsi fyrir ca. 1400 manns, sem kosta mun yfir 50 millj. kr. eitt út af fyrir sig. Fjölgun sjúkrarúma, auk nýrra deilda og gjörbreyttrar aðstöðu, yrði nærri 22% , en líkleg fólksfjölgun á sama tíma 5—6%. Séu stjórnarandstæðingar nú með áhyggjur vegna heilbrigðismála, er það alveg nýtt fyrirbrigði í þeirra herbúðum.

Sagt er, að ég hafi bannað útvarpsþátt, „Þjóðlíf“, um heilbrigðismál. Þetta er ósatt. Ég gerði við útvarpsráð aths. um það, hvernig að þessum þætti væri ráðgert að vinna. Undir þá gagnrýni mína, hefur sá gamli, fyrrv. útvarpsstj. Jónas Þorbergsson, fullkomlega tekið. Þetta er líka sá gamli ritstjóri Tímans, þótt hann fengi ekki, fyrr en seint og um síðir, inni í því blaði með aths. sína. Útvarpsráðið sjálft tók lögum samkv. þær ákvarðanir um þennan útvarpsþátt, sem því fannst við eiga. Ég hef hvorki fyrr né síðar heyrt efni hans og því aldrei tekið afstöðu til þess. Ósannindin um mína afstöðu er búið að kyrja svo oft, að e. t. v. trúa stjórnarandstæðingar nú sínum eigin ósannindum.

Iðnaðurinn er sagður kominn á vonarvöl. Ekki vitnaði hin merka iðnsýning 1966 þar um, þótt S.Í.S.-fyrirtækin hirtu ekki um þátttöku af sinni hálfu. Skv. skýrslum Hagstofunnar hefur verið vöxtur í velflestum iðngreinum tímabilið 1961–1965. Stofnfjármál iðnaðar hafa verið tekin föstum tökum og tekið stakkaskiptum. Iðnlánasjóður hefur á 4 síðustu árum lánað 20 sinnum meira en í tíð vinstri stjórnarinnar á sama tíma. Árleg lán voru þá um 2 millj. kr., voru 76.5 millj. kr. 1966, verða á annað hundrað millj. kr. í ár. Lausaskuldum hefur verið breytt í föst lán, hagræðingardeild stofnuð við iðnlánasjóð og einnig veiðarfæradeild, lánsheimildir stórauknar og sjóðnum útvegað lánsfé til ráðstöfunar. Aukning útlána aðeins fjögur síðustu árin er á áttunda hundrað prósent. Iðnaðarbankinn hefur á sama tíma aukið rekstrarlán sín um 230% og sett upp útibú í Hafnarfirði, Akureyri og við Grensás. Nýjar iðngreinar hafa risið upp, þótt dregið hafi úr öðrum. Iðnþróunarráð hefur verið sett á laggirnar til þess að stuðla að framtíðarrekstri þessarar atvinnugreinar. Rannsóknarstofnanir hennar liafa verið efldar. Hér væla og skæla stjórnarandstæðingar og hafa gert svo undanfarin ár, á meðan unnið hefur verið að því að treysta framtíð iðnaðar á Íslandi.

Það er ekki nýtt að heyra það úr herbúðum stjórnarandstæðinga, að stjórnarliðið sé þreytt og úrræðalaust, það vanti forustu. Hér í þingsölunum og á göngum þingsins, ekki síður yfir kaffibollanum, bera þeir sig hins vegar aumlega upp undan því, að stjórnin beri fram allt of margþætt og umfangsmikil lagafrv. Þeir séu vanbúnir að taka afstöðu til þessara frv., svo sem til er ætlazt. Hér yrði allt of langt mál að tíunda mjög umfangsmikla og blómlega löggjöf, sem vitnar um rösklegt forustuhlutverk viðreisnarstjórnarinnar og stuðningsliðs hennar, en andstæðingarnir verða minntir rækilega á hina umfangsmiklu löggjöf viðreisnarstjórnarinnar í kosningabaráttunni, það mega þeir vita. Lög um frjálsa verzlun, en með henni hefur verið endurheimt lánstraust út á við, byggður upp gjaldeyrisvarasjóður, sem nemur nærri 2000 millj. kr., og almenningi skapað frjálst vöruval. Lög um stórvirkjanir og stóriðju. Lög um stofnlánasjóði, byggðajafnvægi og margs konar menningu og framfarir. Lög um álbræðslu og kísilgúrverksmiðju, ásamt mjög veigamikilli húsnæðismálalöggjöf og fjárveitingum þess opinbera til íbúðarbygginga í ríkara mæli en nokkru sinni áður fyrr. Það verður af nægu að taka.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég hef nú dregið upp svipmyndir úr þjóðlífinu, sem ég hygg, að ekki verði um deilt, að vitni örugglega um ríkulegan árangur viðreisnarstefnunnar. Hafa verður einnig í huga aðrar ræður stjórnarsinna í þessum umr. Ég hef borið óyggjandi staðreyndir saman við hrollvekjandi lýsingar form. Framsfl. og annarra stjórnarandstæðinga á þróun þjóðfélagsmála á viðreisnartímabilinu. Við getum róleg látið hverjum og einum eftir að dæma, á hvoru sé meira mark takandi, staðreyndum eða hrollvekjum þeirra framsóknarmanna. Það er slíkan samanburð, aðeins í miklu, miklu ríkara og fjölbreyttara mæli, sem við sjálfstæðismenn munum gera okkur far um að leiða fram í dagsljósið í kosningabaráttunni í vor. Síðan látum við öruggir kjósendurna dæma. Á hverju byggjum við í framtíðinni? Sjálfstæðismenn byggja á traustri og grundvallaðri stefnu, sjálfstæðisstefnunni, þar sem sköpunargáfa, athafnaþrá og þrek einstaklingsins er í senn driffjöður og burðarás framfara og frelsi í orði og athöfnum leiðast gjarnan. Við munum byggja á þeim trausta grundvelli, sem þróazt hefur alhliða í þjóðfélaginu á viðreisnartímabilinu. Við spyrjum ekki um ferðir kommúnista eða svokallaðs Alþb. Sjálfir vita þessir menn ekki lengur, hvað þeir vilja. Þeir eru sjálfum sér sundurþykkir, pólitísk samtök þeirra margklofin „eða ekki að látast“, eins og Hannibal Valdimarsson hefur komizt að orði. Þegar hann byrjaði að tala um bakteríuglösin í kvöld, hélt ég að hann ætlaði að fara að skýra fyrir okkur, hvað kommúnistar hafa verið að brugga honum og sonum hans í þessu svokallaða Alþb. að undanförnu. Annars skal ég ekki angra Hannibal í sorgum þeim, sem hann tjáði í lok ræðu sinnar. Hann sagði, að steinarnir mundu tala í kosningabaráttu Alþb. Hvað við er átt með slíku, veit ég ekki.

Framsókn vill fara „hina leiðina“. Það setur að þeim góðu mönnum hroll við að horfa upp á allar þær stórstígu og margháttuðu framfarir og þróun, sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu, meðan þeir voru utan stjórnar. Allt er á huldu um „hina leiðina“ nema eitt. Meiri ríkisafskipti, aukin ríkisforsjá, aftur höft og úthlutunarnefndir. Við óskum framsóknarmönnum góðrar ferðar á göngu þeirra hina leiðina.

Við sjálfstæðisfólk vil ég segja: Göngum gunnreif til kosninganna í júní. Viðreisnartímabilið er mesta blómaskeið íslenzkrar þjóðfélagsþróunar. Viðreisnarstefnan hefur lagt öruggan grundvöll að framtíðinni. Okkar litla þjóð býr yfir miklum möguleikum. Unga kynslóðin, sem nú horfir vonglöð fram á veginn, erfir betra Ísland en nokkur önnur ung kynslóð á undan henni. Látum ekkert tækifæri ónotað í kosningabaráttunni, tökum höndum saman og göngum fram til sigurs. — Góða nótt.