18.04.1967
Efri deild: 73. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

Starfslok deilda

Karl Kristjánsson:

Vegir skiljast, eins og hv. forseti sagði, og býsna margvíslega, þannig er það allajafna við og við.

Ég vil fyrir hönd þd. þakka hæstv. forseta fyrir hans alúðlegu þakkar- og kveðjuorð. Hann hefur verið forseti þessarar d. í 8 ár, og ýmsir okkar hafa setið með honum hér í d. og verið undir stjórn hans öll þessi ár. Ég tel sérstaka ástæðu til þess að þakka honum fyrir einstaklega prúðmannlega forsetastjórn, sanngjarna og góða undir að búa, og ég óska honum og fjölskyldu hans allra heilla. Það er ekki nema augnablik til sumarsins. Við göngum út í sumarið, sumir til þess að stríða í kosningum. Ég sleppi öllum óskum í því sambandi, en hitt vil ég segja, að ég óska öllum — og vil mælast til, að þið gerið það að gagnkvæmum óskum — gleðilegs sumars og farsældar á komandi sumri. Ég tek undir óskir hæstv. forseta til starfsmanna Alþingis, árna þeim allra heilla á komandi sumri og þakka þeim góð störf. Svo bið ég ykkur, hv. þdm., að taka undir þessi orð mín með því að rísa úr sætum. — [Dm. risu úr sætum.]