25.10.1966
Neðri deild: 7. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (1711)

11. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. samhljóða þessu var flutt á síðasta Alþingi og var vísað til hv. landbn. Frv. kom aldrei úr n., og fékkst því enginn dómur á það, hvernig hv. alþm. líta á málið. Það kom þó fram við 1. umr. í fyrra, að tveir hv. þm. gerðu aths., hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði aths. við 4. gr. frv. og hv. 3. þm. Vesturl. gerði aths. við 9. gr. frv.

Þetta frv. er samið af veiðimálanefnd og veiðimálastjóra og fjallar aðallega um ósaveiði og ýmsar endurbætur, sem veiðimálanefnd og veiðimálastjóri halda fram að gera þurfi á laxveiðilögunum. En það er ekki nema eðlilegt, að ýmsir líti misjöfnum augum á þetta. Það er alltaf viðkvæmt mál, þegar snert er við hagsmunamálum. Það á ef til vill að fara að skerða hagsmuni einhverra, sem notið hafa góðs af löggjöfinni áður. En ég get upplýst það, að veiðimálanefnd og veiðimálastjóri eru hvenær sem er tilbúnir að koma til viðtals við þá nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, sömuleiðis er ég fús til þess að ræða við nefndina, ef þess verður óskað. Það má vel vera, að það megi breyta orðalagi eða hugtökum frá því, sem er í frv., til samkomulags og ná eigi að síður þeirri lagfæringu á löggjöfinni, sem talin er vera nauðsynleg.

Þar sem hér er um alveg sams konar frv. að ræða og flutt var í fyrra og þá fór fram 1. umr. hér í þessari hv. d. og hv. þm. er málið þess vegna kunnugt af umr. frá því í fyrra, tel ég ekki ástæðu til að fara að endurtaka það. Ræðurnar liggja frammi, og menn geta rifjað þær upp, ef þær eru gleymdar, en ástæðulaust að vera að endurtaka það, sem þá var sagt.

Ég vil því, herra forseti, leggja til, að frv. verði nú að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn., um leið og ég óska þess, að málið fái afgreiðslu hér á hv. þingi, ef samstaða eða meiri hluti gæti fengizt fyrir því.