31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (1723)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja mikið um þetta mál, enda hafa þegar farið fram ýtarlegar umræður um það. Ég vil aðeins lýsa fylgi mínu við þá stefnu, að það séu gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að styrkja innlendan veiðarfæraiðnað, en tel hins vegar, að sú lausn, sem felst í þessu frv., miði ekki í rétta átt í þeim efnum, og skal svo láta útrætt um það.

En vegna þess að hér er rætt um iðnaðarmál, sem snerta bæði iðnaðinn og sjávarútveginn, hefði ég gjarnan viljað beina fsp. til hæstv. iðnmrh. um málefni, sem nýlega hefur borizt hér til þingmanna.

Fyrir nokkru mun öllum hv. þm. hafa borizt bréf frá Kassagerð Reykjavíkur, sem hljóðar á þessa leið:

Hv. alþm. Þar sem ástæða er til að ætla, að á næsta ári eigi að halda áfram tugmilljóna króna styrkveitingu til hraðfrystihúsa landsins, viljum vér vinsamlega vekja athygli yðar á eftirfarandi :

Kassagerð Reykjavíkur h/f, sem í dag annar allri umbúðaþörf (öskjur og bylgjupappakassar) landsmanna, á við alveg tilfinnanlegan og mjög alvarlegan lánsfjárskort að stríða og hvað öskjugerð snertir hefur vart hálfnýttan, en mikið til fullafskrifaðan vélakost. Þykir oss rétt og skylt að benda á, að dótturfyrirtæki Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Umbúðamiðstöðin h/f (stjórnarform. hr. alþm. Jón Árnason), er þegar byrjuð að vinna að grunni verksmiðjuhúss hinnar nýju öskjugerðar og hefur fest kaup á vélum. Í trausti þess, að pólitískir fjötrar aftri yður ekki frá því að taka þjóðlega afstöðu í máli þessu, kveðjum við yður.

Með vinsemd og virðingu.

Kassagerð Reykjavíkur h/f.

Agnar Kristjánsson.“

Ég held, að það liggi í augum uppi, að það mun ekki vera hagkvæmt fyrir sjávarútveginn, þegar fyrir er verksmiðja í landinu, sem annar öllu þessu verkefni og er þegar að mestu afskrifuð, að þá verði reist nýtt fyrirtæki til þess að keppa við hana. Ég vildi sem sagt í framhaldi af þessu beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. hafi ekki haft þetta mál til athugunar, og ef svo er ekki, hvort hún telji ekki rétt að gera það, því að mér sýnist, að ef það væri gert, væri hér hægt að koma í veg fyrir óþarfa fjárfestingu og líka hægt að tryggja útgerðinni, þ.e.a.s. hraðfrystihúsunum, en vitanlega bitnar það á útgerðinni að lokum, hagstæðara verðlag á þessum vörum en ella. Það má vel vera, að hraðfrystihúsin séu ekki ánægð með það verðlag, sem er á þessum vörum, en að sjálfsögðu ætti að vera hægt að fá samkomulag milli þeirra aðila um, að það verði sanngjarnt. En það hlýtur að liggja í augum uppi, að hagkvæmara er að leysa þetta mál með einu stóru fyrirtæki, sem þegar hefur afskrifað eignir sínar að mestu, heldur en að fara að byggja upp nýtt fyrirtæki til að keppa við það.