28.11.1966
Neðri deild: 20. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (1820)

63. mál, Iðnlánasjóður

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þar sem rætt hefur verið hér á þinginu áður allmikið um iðnaðarmál og þá erfiðleika, sem iðnaðurinn á nú við að búa, get ég haft þessa framsögu mína styttri en ella.

Mér finnst rétt að byrja mál mitt á því að benda á nokkrar staðreyndir, sem er að finna í fjárlögunum, sem nú liggja fyrir á þingi.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að veita 50 millj. kr. til stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þar af eru 17 millj. kr., sem koma á móti framlagi, er bændur greiða til stofnlánadeildarinnar. Þá er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því að greiða 41 millj. kr. í fiskveiðasjóð, sem á að koma á móti því útflutningsgjaldi, sem rennur í fiskveiðasjóð og talið er framlag sjávarútvegsins. Í þriðja lagi skal bent á það, að til iðnlánasjóðs er ekki gert ráð fyrir að veita nema 10 millj. kr. M.ö.o.: það er ráðgert að veita til stofnlánadeildar landbúnaðarins 50 millj. kr., til fiskveiðasjóðs 41 millj. kr., en ekki nema 10 millj. kr. til iðnlánasjóðs.

Ég geri þennan samanburð ekki vegna þess, að ég sé að telja eftir þau framlög, sem ganga til landbúnaðar og sjávarútvegs, ég tel þau vera fullkomlega réttmæt og sjálfsögð, en ég nefni þetta hins vegar til að benda á það, hvernig iðnaðurinn er enn þá afskiptur í þessum efnum og viðhorf ráðandi manna er allt annað til hans en til hinna höfuðatvinnuvega þjóðarinnar. Ég held, að öllum, sem athuga þessi mál af sanngirni, verði það samt ljóst, að það þarf að tryggja iðnaðinum fullkomið jafnrétti í þessum efnum og hann sé sízt þýðingarminni atvinnuvegur en hinir tveir. Það er sjálfsagt að vinna að því í framtíðinni að efla sem mest landbúnaðinn og sjávarútveginn innan þeirra takmarka, sem það er hægt. En það eru þó viss takmörk fyrir því, hvað langt er hægt að ganga í þeim efnum, m.a. vegna þess, hve mikil veiðin má vera, ef á ekki að ganga um of á fiskstofnana. Og eins takmarkast að sjálfsögðu landbúnaðarframleiðslan nokkuð af því, hverjir sölumöguleikar hennar eru. Þjóðinni mun hins vegar halda áfram að fjölga í landinu á komandi árum, ef allt fer eins og ætlað er, og til að mæta þeirri atvinnuþörf, sem það skapar, verður það ekki gert á annan æskilegri hátt og eðlilegri en þann að efla iðnaðinn, og þess vegna þarf að veita honum aðra aðbúð en þá, sem hann á nú við að búa og m.a. kemur fram í þeim tölum, sem ég hef nú rakið. Og það er líka kunnara en frá þurfi að segja og er búið að ræða svo ýtarlega um það hér áður á þessu þingi, að ég sé ekki ástæðu til að rifja það ýtarlega upp, að iðnaðurinn á nú við sérstaka erfiðleika að búa af mörgum ástæðum, m.a. af hinum mikla innflutningi iðnaðarvara, sem hefur átt sér stað, án þess að hann væri nokkuð undir það búinn að mæta þeirri samkeppni, því að áður en jafnmiklum innflutningi erlendra iðnaðarvara var sleppt inn í landið, þurfti að sjálfsögðu að gera ýmsar ráðstafanir til að bæta samkeppnisaðstöðu innlends iðnaðar, eins og með því að tryggja honum nægilegt lánsfé, hafa lánskjör eða vaxtakjör hófleg og sjá um, að þetta væri gert undir þeim kringumstæðum, þegar gengisskráningin væri ekki iðnaðinum sérstaklega óhagstæð. Ekkert af þessu hefur átt sér stað, og þess vegna er eðlilegt, að á ýmsum sviðum standi íslenzkur iðnaður halloka í þessari samkeppni. En ein mikilvægasta leiðin til þess að bæta aðstöðu hans er einmitt sú að tryggja honum aukið fjármagn, og að því er stefnt með því frv., sem hér liggur fyrir. Ég skal fúslega viðurkenna, að þar er hvergi nærri gengið eins langt og skyldi, en þó mundi sú bót fást, ef þetta frv. yrði samþ., að hið fasta tillag til iðnlánasjóðs frá ríkinu mundi sennilega hækka um helming, og auk þess er gert ráð fyrir því að auka að nokkrum mun þá lántökuheimild, sem sjóðurinn hefur nú, og ætti það að geta orðið honum til nokkurra bóta, ef hún væri hagnýtt.

Ég vil aðeins geta þess, sem líka kemur fram í grg., að á meðal iðnaðarmanna er mikill áhugi á að fá tryggða þá jafnréttisaðstöðu við aðra atvinnuvegi, sem felst í þessu frv., þ.e. að ríkið leggi fram jafnmikið fé í iðnlánasjóð og iðnfyrirtækin leggja til hans, alveg eins og gert er nú í sambandi við stofnlánadeild landbúnaðarins og fiskveiðasjóð.

Ég vil svo treysta því, að þetta mál fái góðar undirtektir hér í hv. þd., og leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. iðnn.