06.02.1967
Neðri deild: 35. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (1834)

77. mál, heildarskipulag miðbæjarins í Reykjavík

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hv. þm. mun vera nokkuð kunnugt um, hvað þetta frv. í aðalatriðum gengur út á, sem sé að setja sérstaka n. til þess að athuga um heildarskipulag miðbæjarins í Reykjavík, takmarkaðan á þann hátt, sem er gert í 1. gr. þessa frv. Þetta er gert til þess að fá nokkurt tækifæri af hálfu þess opinbera til þess að athuga betur um, hvernig skynsamlegast sé að skipuleggja miðbæinn. Það má taka þetta frá ýmsu sjónarmiði, þegar verið er að ræða það. Það má ræða það frá fjárhagslegu eða peningalegu sjónarmiði, því verðmæti, sem hér liggur í, og það má ræða þetta frá sjónarmiði okkar menningar og frá sjónarmiði fegurðar og ræktar við þjóðminjar.

Ég ætla, áður en ég kem inn á það, sem er höfuðatriði fyrir mér í þessu máli, að minnast dálítið á peningalega hlið þessa máls. Ég veit ekki, hvort menn hafa almennt gert sér ljóst, hvaða verðmæti felst sem stendur í miðbænum, bara í lóðunum í miðbænum í Reykjavík. Sannleikurinn er sá, að það braskverð, sem hlaupið er í lóðirnar hérna núna, er orðið svo gífurlegt, að það ýtir undir, að hér verði byggt á hverri einustu lóð, þó að það sé ekkert vit í því frá neinu öðru sjónarmiði. Og ef menn athuga þá teikningu, sem birt hefur verið af miðbænum í Reykjavík í blöðunum undanfarið, má sjá, að hann er svo þétt settur eftir þeirri teikningu, að maður gæti bezt trúað, að hann sykki, það er ekki allt of fastur grunnur hérna undir og hefur nú lengi verið að sökkva, en það er verið að yfirfylla hann þannig, að það mundi ekki vera gert í neinni höfuðborg, samtímis því sem um leið er verið að ryðja burt öllu því, sem hér var fyrir af merkilegum þjóðminjum. En einmitt vegna þess braskverðs, sem hlaupið hefur í þessar lóðir, er hætta á ferðum, svo framarlega sem það opinbera tekur ekki í taumana og lætur stöðva hér við. Og það, sem mundi vera afleiðingin af þessu frv., ef það væri samþ., er, að það væri þá a.m.k. stöðvað við nokkur ár, þannig að menn fengju tíma til þess að hugsa um, hvað þeir eru að gera, því að ég held, að það sé verið að gera ráðstafanir hér í Reykjavík viðvíkjandi miðbænum, sem menn mundu skammast sín fyrir og iðrast eftir nokkur ár eða nokkra áratugi og afkomendurnir mundu yfirleitt bölva mönnum fyrir að hafa gert, þannig að það er bezt fyrir þá, sem nú ráða því, hvað þarna verður gert, að athuga vel, hvað þeir eru að gera.

Það er þá bezt fyrst að upplýsa ofurlítið um verðmætið í sambandi við þessa hluti, vegna þess að e.t.v. kemst það næst hjarta margra að ræða þetta frá þeirri hlið, þó að þeir tækju máske minna tillit til ýmislegs, sem snertir fegurð eða menningu eða þjóðrækni í þessu. Nú nýlega keypti Alþ. eða ríkið lóð SÍS hérna við hliðina á okkur. Verðið var, ef ég man rétt, 20 millj. kr. Þetta verð er raunverulega eingöngu fyrir lóðirnar. Ég býst við, að mönnum hefði verið alveg sama, hvort þessir húskofar stæðu þar á eða ekki. Og ég er ekki út af fyrir sig að gagnrýna þetta. Ég býst við, að það verð, sem þarna hefur verið gefið, muni vera verð, sem samsvarar nokkuð því braskverði, sem nú er á lóðum í miðbænum í Reykjavík. En það er bezt, að menn geri sér ljóst, hvað þessir hlutir þýða, þegar þeir þurfa að meta allar aðrar lóðir í miðbænum samsvarandi. 20 millj. kr. fyrir lóðirnar hérna mun vera ca. 12 þús. kr. á fermetra eða sextugfalt fasteignamat. Nú vil ég spyrja: Hafa menn gert sér ljóst t.d., hvað lóðirnar í Austurstræti kosta? Ég býst við, að í Austurstræti séu um 23 lóðir. Þær mundu með sama mati, sextugföldu fasteignamati, kosta 327 millj., þessar 23 lóðir í Austurstræti. Ef menn vildu athuga Aðalstræti, þar sem þó nokkuð er óbyggt enn þá og þar sem munu vera einar 18 lóðir, mundu þær með samsvarandi mati kosta 217 millj. Ég skal geta þess, að bara í þessum ferhyrning, sem ég ræði hér um viðvíkjandi miðbænum, er t.d. eitt einasta firma eða einn einasti aðili, sem á þar einar 7 lóðir, þær mundu með þessu mati kosta 76 millj. Það eru margar fleiri lóðir í miðbænum, ég skal ekki gizka á, hvað þær mundu kosta allar saman. En e.t.v. verður myndin skýrari, ef menn athuga, hvers virði allar jarðir á Íslandi eru. Fasteignamat allra jarða á Íslandi, allra jarða í sýslunum, mun vera um 139 millj. kr., í kaupstóðunum, ef þeir eru taldir með, eru 84 millj., þ.e. 223 millj. Allar jarðir á Íslandi, í sýslum og kaupstöðum, mundu þannig vera metnar á rúmar 200 millj. kr. Það er svipað og Aðalstræti í Reykjavík.

Það er rétt, að menn leiði dálítið hugann að þessum hlutum. Það eru um 6000 bændur á Íslandi. Þeir hafa með því að vinna á jörðunum á Íslandi skapað verðmæti jarðanna. Það verðmæti er ekki metið sérstaklega stórt. Ég efast um, að þeir gætu selt fyrir fasteignamat allir saman, og í því lagafrv., sem hér var verið að ræða áðan, er meira að segja ríkinu bannað að kaupa yfir fasteignamati. En fasteignamatið er sem sé þetta, sem ég gat um. Allar jarðir á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi mundu til samans vera um 200 millj. kr. virði að fasteignamati og mundu varla einu sinni seljast á það. (Gripið fram í.) Já, þær hækka vafalaust einhverjar eftir nýja matinu, ég efast um, að þær hækki allar. Mér þykir nokkuð djúpt á þessu nýja mati, og gaman þætti mér að sjá, þegar það nýja mat kæmi, hvernig matið yrði á lóðunum í Reykjavík, á jörðunum hérna í Reykjavík. Og ég veit satt að segja ekki, hvernig á því stóð, að það var farið að meta bara á 25 ára tímabili, þegar verðbólgan var mest að ganga hér í garð, í staðina fyrir á 10 ára tímabili, og ég held, að það mætti nú fara að breyta þeim lögum og taka þá upp aftur mat á 5 eða 10 ára tímabili, ef við ætlum að halda verðbólgunni áfram. Það mun láta nærri, og ég segi það við þá, sem tala mest um, að hér á Íslandi sé engin stéttaskipting og mikill jöfnuður í eignum manna, að jarðeignir allra bænda á landinu, ef hlunnindin eru ekki tekin með eða hús, séu kannske eins og það, sem einn aðili í Reykjavík á í lóðum. Og það væri óskandi, að það fengist, og ég held, að það mætti gjarnan láta rannsaka það, hvað allar lóðirnar hér innan Hringbrautar í Reykjavík eru mikils virði og hverjir eiga þær. Við skulum muna það, að þetta litla verðmæti, sem felst í jörðunum úti um land, skapa 6000 bændur með sinni vinnu. En verðmætið, sem er hér í lóðunum í Reykjavík, hefur þjóðfélagið sjálft skapað, og eigendur þeirra hafa ekki komið nærri því að skapa neitt verðmæti á því, nema rétt eins og hver annar þegn þjóðfélagsins. Þetta eru atriði, sem eru þess virði að rannsaka þau, og ég hef hvað eftir annað minnt hér á, sérstaklega þegar menn hafa verið í vandræðum með skattlagningu og annað slíkt, að einn af réttlátustu sköttum, sem hægt væri að leggja á í þjóðfélaginu, væri verðhækkunarskattur á lóðir og lendur. Og mér finnst a.m.k., að áður en þær ákvarðanir eru teknar að byggja eins og vitlausir menn á öllum lóðum í miðbænum, mætti þó athuga um það, hvort ekki væri rétt að setja verðhækkunarskatt á, þannig að þegar það opinbera eða aðrir færu að kaupa þessar lóðir að lokum upp, rynni þó ekki allur þessi gróði í vasa þeirra, sem af tilviljun eru eigendur nú og fæstir hafa gefið mikið fyrir þessar jarðir. Ég skal taka það fram, að með því mati, sem ég legg þarna til grundvallar með þeim aths., sem ég gerði, mundu allar lóðirnar í þessum ferhyrning, sem þessi lög fjalla um, vera um 1400 millj. kr. virði. Og það er vitanlegt, að það eru meir og meir þær opinberu stofnanir sjálfar, sem kaupa þetta upp. Ég vil leggja áherzlu á þessa hluti, til þess að menn geri sér ljóst, ef menn hefðu engan áhuga á því, hvernig miðbærinn í höfuðborg Íslands lítur út eða hvort allt væri rifið, sem minnti eitthvað á, að við hefðum átt einhverja forsögu, þá vil ég minna menn þó á, að það er allmikið fjárhagslegt spursmál, sem þarna er í veði. Ég veit ekki, hvort það er meiningin, — það hafa verið fáir fundir í þeirri n., sem kosin var til þess að athuga um nýtt þinghús, — ég veit ekki, hvort það er meiningin að fara smám saman að kaupa upp allar lóðirnar hér í kring. Náttúrlega er nauðsynlegt, að ríkið eignist þær á einn eða annan hátt, en menn þurfa a.m.k. að vera búnir þá að gera sér nokkra hugmynd um, hvað eigi að gera með þetta, hvernig eigi að byggja þetta og reyna að hafa eitthvert samræmi og eitthvert skipulag í því. M.ö.o.: þarna er um gífurleg, fjárhagsleg verðmæti að ræða, sem þarf mjög vel að athuga, og það væri ekki úr vegi, að menn fengju nokkurt tækifæri til þess að íhuga þetta mál.

Tilgangurinn hjá mér hins vegar með þessu frv. hefur fyrst og fremst verið sá, að það yrði reynt að koma á einhverju samstarfi um það, hvernig miðbærinn í Reykjavík yrði byggður, áður en búið væri að koma alveg í veg fyrir alla möguleika til slíks. Það er vitanlegt, að nú sem stendur er t.d. ríkisstj. að hugsa um að byggja stjórnarráðshús, og hefur það lengi verið á döfinni, og ríkisstj. á, eins og þið vitið, ágæta lóð til þess og vissulega orðin þörf á því eins og fleiru. Það er almennt vitað, að bæjarstjórn Reykjavíkur vill gjarnan byggja hér ráðhús og hefur haft þann að mínu áliti mjög slæma hátt á að fara að taka ákvarðanir þar um, sem að vísu eru ekki gildar. Þær ákvarðanir eru ekki gildar, vegna þess að það er ekki búið að samþykkja neitt skipulag um þetta, að ætla að setja þetta ráðhús niður í Tjörnina og slá þar tvær flugur í einu höggi, gera það eins dýrt og vitlaust byggt og hægt sé og í öðru lagi að eyðileggja Tjörnina, sem er einn uppáhaldsstaður Reykvíkinga. Í þriðja lagi er vitað, að það er verið að undirbúa byggingu alþingishúss og mikið um það hugsað, en ekkert samkomulag um, hvar það eigi að vera. En allar þessar þrjár opinberu aðalbyggingar, sem ég hef nefnt, hafa verið hugsaðar hér í miðbænum. Og það er hver nefndin að vinna að sinni, þannig að það eru líkur til þess, að að lokum skelli menn þessu niður hér og hvar, án þess að hafa hugmynd um, hvernig það passi inn í umhverfið, a.m.k. ef haldið verður áfram álíka og gert hefur verið í Reykjavík undanfarið, að hvert götuhorn út af fyrir sig hefur verið skipulagt, hver hæð út af fyrir sig hefur verið skipulögð þannig, að það hefur verið tekinn lítill reitur af henni, en aldrei nokkurn tíma gert sér í hugarlund, hvernig hæðin mundi líta út sem heild. Skólavörðuhæðin hefur verið eyðilögð með því, að það hefur verið sett eitt hús á þennan stað, annað hús á þennan. Um tíma var byggðin þar þannig, að maður hélt helzt, að hún mundi sporðreisast einhvern daginn, af því að það var allt úti í annarri hliðinni, og svo er þetta allt saman kórónað með því, þegar ekkert pláss er þar lengur, að byggja Hallgrímskirkju þar. Það er þannig til skammar, hvernig skipulagið hefur verið hugsað viðvíkjandi Reykjavík, að það er búið að eyðileggja núna svo og svo mikið af öllum möguleikum, sem hér hafa verið. Hér eru 7 hæðir, svipað og í Róm, og ef Rómverjar og Grikkir hefðu byggt eitthvað svipað og Íslendingar hafa gert núna, sem tóku þó við þessu svo að segja óbyggðu nú um aldamótin, hefði svei mér ekki verið mikið spurt um, hvers konar byggingar hefðu verið í Aþenu eða Róm.

Við erum að verða okkur til skammar með þá skipulagningu, sem er á Reykjavík í heild. Það hefur verið farið þannig að með þessar byggingar, að það hefur verið búið til eitt kraðak í staðinn fyrir að reyna að skapa einhverja fegurð og eitthvert samræmi í þetta. Og ef svo á ofan á allt þetta að eyðileggja miðbæinn svona líka, sýnir það bezt, hve gersamlega bæði smekklausir og ræktarlausir við erum orðnir. Ég held þess vegna, að það sé tími til kominn, áður en miðbærinn er eyðilagður á sama hátt og Skólavörðuhæðin eða annað slíkt, að Alþ. láti staldra við og reyni að samræma þessar opinberu byggingar, sem þarna eiga að vera, og umhverfi þeirra,. komi sér niður á, hvernig þessi miðbær eigi að vera. Ég vil segja það, að þessi skipulagsteikning, sem þarna liggur fyrir, virðist vera gerð eingöngu frá einu sjónarmiði og það peningalegu sjónarmiði, frá því sjónarmiði að hrúga eins miklu á hvern kvaðratmetra og hægt er af byggingum, eins háum og þeir þora vegna flugvallarins, sem þeir þó ekki vita, hvort eigi að vera hér í framtíðinni eða ekki, því að aldrei er tekin nein ákvörðun í samræmi hver við aðra. Það væri svo sem alveg eftir mönnum t.d. fyrst að banna allar tiltölulega háar byggingar og leggja svo flugvöllinn niður á eftir, rétt eins og ég gæti trúað, að það væri meiningin að fara að flytja höfnina í Reykjavík inn í Elliðavog eða þar inn eftir, en byggja svo kannske allar tollstofur og öll möguleg birgðahús hér niðri í miðbænum, eftir að höfnin þar ætti bara að vera fyrir fiskiskip.

Ég álít, að það þurfi að vera samræmi í þessum hlutum og það þurfi að vera hugsun á bak við það. Menn þurfa að gera sér hugmynd um, hvernig þetta eigi að verða. Við erum hér til allrar hamingju ekki með svo stórt þjóðfélag, að við getum ekki skapað okkur eitthvert yfirlit yfir þessa hluti. Þessar þrjár stórbyggingar einar, sem ríkisstj., Alþ. og bæjarstjórnin ætla sér að byggja hér í þessum litla miðbæ, væru strax nóg tilefni til þess, að það sé athugað alvarlega, hvernig eigi að koma þeim fyrir, og þar að auki veit ég ekki betur en t.d. Seðlabankinn og aðrir séu líka að kaupa hér upp eignir, einn daginn i Lækjargötunni, annan á Fríkirkjuveginum, til þess að tryggja sér stórhýsi þar. Það opinbera er sem sé að byggja þarna, það opinbera er vafalaust um leið líka að sprengja upp lóðaverðið. En það opinbera þyrfti þó a.m.k. að reyna að koma sér niður á það, hvernig þetta ætti að vera. Við skulum segja t.d., ef það yrði nú að samkomulagi við Reykjavíkurbæ, að ráðhús yrði sett á annan stað en í Tjörnina, hvar það þá ætti að vera, og væri ekki búið áður að loka þeim stað eða eyðileggja þann stað með einhverri annarri opinberri ráðstöfun, þannig að allt ræki sig hvað á annars horn. Ég fæ satt að segja ekki skilið, hvernig menn geta horft upp á það að láta gera ráðstafanir eins og hér er verið að gera í miðbænum núna án þess að fara að hugsa um, hvernig miðbærinn sem heild mundi líta út fallegastur. Og ég þekki engan mann, sem finnst hann líta út fallegast, eins og hann er á teikningunni núna.

Ég held þess vegna, að það sé orðin mikil nauðsyn fyrir okkur að fá þetta athugað sameiginlega af öllum þeim aðilum, sem þarna eiga í hlut. Þess vegna felst það í minni till., að bæði Alþ., ríkisstj. og borgarstjórn Reykjavíkur skuli skipa menn af sinni hálfu og í fjórða lagi skuli Arkitektafélag Íslands skipa mann til þess að athuga um miðbæinn, hvernig hann yrði byggður fallegastur. Það er enn þá tími til þessa. Það er náttúrlega búið að eyðileggja ýmislegt, en það er ekki búið að eyðileggja svo mikið, að það sé ekki hægt að bjarga ýmsu enn þá. Ég skal taka sem dæmi t.d. um eyðileggingu, að það stóð fallegt hús hér við Lækjartorg, sem Útvegsbanki Íslands átti, sem Íslandsbankinn gamli byggði, verulega fallegt hús í gömlum stíl með súlum. Ég man eftir, að í gamla daga var meira að segja Útilegumaður Einars Jónssonar geymdur þar lengi vel í fordyrinu, og þetta hús sómdi sér ve1. Þetta hús var eyðilagt. Af því að það var fagurt vafalaust, þurfti það að víkja. Það kom kassi þarna í staðinn. Það eina, sem er eftir að gera þó við kassann, er að breiða yfir tilhöggna steininn, sem var þarna neðst, því að hann er í algeru ósamræmi við allt hitt og búið hvort sem er að eyðileggja hann með þessu móti. Það er vafalaust lóðaverðið, sem hefur gert það að verkum, að mönnum hefur fundizt nauðsynlegt að búa til einn kassa þarna. Ég veit ekki, hvort það er meiningin seinna t.d., að eitt af verzlunarhúsunum hérna og að mörgu leyti sérkennilegustu, gömlu Brydes-húsunum, — hvort það er meiningin líka að eyðileggja það hús og kannske byggja þar eitthvert stórhýsi á lóðinni. En eitt veit ég. Ég veit, að það er meining hjá borgarstjórn Reykjavíkur að eyðileggja bæði Iðnó og Búnaðarfélagshúsið, tvö söguleg hús, annað teiknað af fyrsta íslenzka arkitektinum og bæði tengd við mikið og margt í sögu landsins. Þessi tvö hús á auðsjáanlega að eyðileggja. Það er helzt eins og ekkert, sem er gamalt, sem er sérkennilegt, megi standa. Það, sem aðrar þjóðir reyna að gera, er að varðveita þessa hluti. Það er að gæta þeirra, það er að vernda þá, það er að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að það sé hægt að halda þeim við, einmitt af því að þeir eru gamlir. Komandi kynslóð kemur til með að geta byggt alveg nóg af húsum, fínum húsum, dýrum húsum og listrænum húsum og öllu mögulegu slíku. En engin af þessum ríku kynslóðum, sem kemur til með að koma á eftir okkur, getur byggt aftur það, sem við rífum í dag, engin, ekki frekar en menn skrifi núna handritin, sem brunnu eða voru eyðilögð einu sinni. Það verður um megn þeim, sem á eftir okkur koma að bæta það, sem við eyðileggjum. Ég verð þess vegna að segja, að mér finnst allur sá oflátungsháttur nýríkrar yfirstéttar, sem einkennir Reykjavík og hefur smitað langt út frá þeirri yfirstétt, mér finnst hann í fáu koma eins fram og í því gersamlega virðingarleysi fyrir öllu því, sem heitir gamlar minjar hér. Það er hræsnað í sambandi við handritin. Bankar geta byggt stór hús, en handritahús hefur ekki verið hægt að byggja enn þá. En gömlu húsunum, sem geyma sögulegar minjar og við eigum ekki mikið af, eins og þið vitið, þeim á að útrýma, eins og í þessu tilfelli Iðnó og Búnaðarfélagshúsinu.

Ég álít, að þetta séu hlutir, sem ekki megi viðgangast. Það er ekki nokkur ástæða til þess að breyta þarna til. Það má vel viðhalda þessu, eins og það er þarna, og það ætti að gera sérstakar ráðstafanir til þess að vernda þessi gömlu hús gegn eldi, alveg eins og við mundum gera við menntaskólann gamla. Við komum til með að fá þann dóm, ef við sýnum algert virðingarleysi í öllum þessum efnum, að okkar kynslóð sé nýríkir, smekklausir og ræktarlausir oflátungar, sem bara vilji setja sem flottastan svip á þetta allt saman og nýtízkulegastan, en skeyti ekkert um að varðveita það gamla.

Það kemur að vísu ekki þessu máli við, en ég mundi nú segja, að það er t.d. ein gata í Reykjavík frá gömlum tíma, sem hefur einna minnst verið skemmd þannig, það er Vesturgatan. Ef það væri hægt að viðhalda einni svona götu í Reykjavik nokkurn veginn, og það yrði náttúrlega að bæta þeim mönnum, sem hefðu þar lóðir, á ýmsan hátt, og það opinbera á yfirdrifið af lóðum hér í þeirri Stór-Reykjavík, sem kemur til með að byggjast, en eftirkomendunum mundi þykja slík gata eftir ein 200 ár eitthvað það dásamlegasta að sjá í allri Reykjavík og þá mundi slík varðveizla metin mikils.

Torfbæir voru nokkrir til hérna. Sölvhóll var enn til fyrir 40 árum. Mér þótti hart, þegar hann allt í einu hvarf. Það er hart, að við skulum svo að segja skammast okkar fyrir okkar fortíð. Við þurfum að rífa það allt saman niður, sem minnir á hana, og erum þó alltaf að tala um þessa fortíð og erum stórir fyrir þessa fortið, stórir andlega séð. Ef við athugum ekki okkar gang um þetta, áður en það er orðið of seint, verðum við skoðaðir sem einhverjir mestu skemmdarvargar í Íslandssögunni. Það verður ekki aftur tekið, sem við erum búnir að gera með því meira eða minna að eyðileggja þær 7 hæðir, sem Reykjavík er byggð á. En miðbærinn, sem upphaflega var Reykjavík, er þó lítt skemmdur enn þá. Og við gætum reynt að gera hann þannig úr garði, að hann sameinaði það tvennt í senn að varðveita það, sem ánægjulegast væri af þeim litlu, fornu minjum, sem þar væru til, og yrði um leið fagur, smekklega byggður, hugsaður sem ein heild, þannig að allt stangist ekki hvað við annað, sem sé búinn til eins og það væru menn með yfirsýn og hugsun, sem hefðu skapað hann, en ekki eins og einhver smánefnd hefði kastað sínu byggingarleyfinu í hvern aðilann eftir því, hvernig á stóð þann daginn, til þess að byggja slíkt hús, sem þeim viðkomandi aðila þóknaðist að byggja þar. Það er ekkert af þessum húsum, sem liggur svo mikið á, að það mætti ekki bíða við 1—2 ár að athuga, áður en búið væri að eyðileggja þessa möguleika.

Ég álít, að þessi till., sem hér liggur fyrir um að kjósa svona nefnd til þess að athuga heildarskipulagið á miðbænum, sé till., sem eigi rétt á sér. Ég vil vonast til þess, að hv. alþm. fáist til þess að íhuga þetta mál, áður en það er orðið of seint. Ég veit ekki til þess, að hæstv. ríkisstj. sé búin enn þá að staðfesta skipulagíð viðvíkjandi miðbænum í Reykjavík. Það var ekki a.m.k. á síðasta þingi búið að því, Alþ. ræður öllu um þetta og ber alla ábyrgð í þessum efnum. Það byggir enginn neitt hér án slíks leyfis, og Alþ, getur enn þá bjargað því, sem bjargað verður þarna, og reynt að bjarga okkar sóma viðvíkjandi framtíðinni.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. sé þessu máli vísað til 2. umr. og hv. allshn.