27.02.1967
Neðri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (1930)

125. mál, utanríkisráðuneyti Íslands

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Aðalefni þessa frv., sem hér liggur fyrir, virðist mér vera það, að um allar meiri háttar ákvarðanir í utanríkismálum skal rn. hafa samráð við utanrmn. Alþ., bæði meðan Alþ. er að störfum og milli þinga. Þetta er efnislega það sama, sem ég hef boðizt til þess að sjá um, að gert verði, þ.e.a.s. ef vissum skilyrðum er fullnægt. En í þessu frv. er ekkert um það, að þau skilyrði, sem ég nefndi, verði lögfest, um leið og þessi ákvörðun er tekin, að um allar meiri háttar ákvarðanir í utanríkismálum skuli rn. hafa samband við utanrmn. Hins vegar var um sama leyti og þetta frv. kom fram lagt hér fram álit frá mþn., sem var starfandi til að endurskoða þingsköp Alþ., og þar í er ákvæði um þetta sama atriði, sem ég vildi, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa upp. Í því er lagt til, að settar verði í stað 4. málsl. 10. gr. þingskapanna tvær málsgreinar, sem orðist svo:

Utanrmn. starfar einnig milli þinga og er ríkisstj. til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal stjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt milli þinga sem á þingtíma.“ Og svo kemur til viðbótar: „Nm. eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju, sem þeir fá í n., ef formaður eða ráðh. kveður svo á.“

Ég hef áður lýst því yfir, að með þessu skilyrði skyldi ég vera fús til þess að freista þess, að meiri samvinna yrði höfð við utanrmn. en gert hefði verið að undanförnu, og geri ráð fyrir, að þetta atriði, sem þingskapanefnd hefur tekið upp í sitt álit eða sinar till., verði þá lögfest um leið og aðalatriði, eða 1. mgr., þessarar 1. gr. þessa frv. yrði lögtekið, eða ef frv. frá þingskapan., sem ég vildi kalla svo, verður afgreitt hér, með skilyrðinu eins og hún leggur til.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða mikið efnislega um frv. Það er gert ráð fyrir, að árlega skuli ráðh. gefa skýrslu til Alþ. um viðhorf ríkisstj. til utanríkismála og um störf íslenzku sendinefndarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum ásamt rökstuddri grg. um afstöðu Íslands til einstakra mála á þinginu. Þetta get ég út af fyrir sig fallizt á, því að mér finnst þetta ekki óeðlilegt, þó að minna hafi verið gert að því á undanförnum árum, svo langt aftur sem ég þekki a.m.k., að þetta hafi verið gert. Hins vegar finnst mér 2. mgr. frv. meira orka tvímælis. Þar er gert ráð fyrir, að sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna skuli skipuð til eins árs og þingflokkarnir allir hafa rétt til að tilnefna einn fulltrúa hver í n. Það eru miklu fleiri alþjóðastofnanir en Sameinuðu þjóðirnar, sem þá gætu komið til mála að þingflokkarnir tilnefndu beint fulltrúa í, en hér eru aðeins nefndir til fulltrúar á þing Sameinuðu þjóðanna, og því teldi ég, að það mál þyrfti að athugast betur a.m.k., hvort þetta væri sá rétti og eðlilegi háttur að hafa á

þessu máli. Ég teldi líka vafasamt, hvort það ætti heima í þessu frv., ef ákvæði yrðu um þetta sett, frekar en í öðrum lögum, því að þótt það sé skylt efni, er það ekki jafnsjálfsagt, að það komi inn í þetta frv., eins og hin atriðin, sem ég nefndi og tel eðlileg að uppfylltum skilyrðum.

Ég fyrir mitt leyti mundi þess vegna geta fallizt á, að frv. um þetta, eins og segir í 1. mgr. og síðustu mgr. frv., yrði lögtekið, hvort sem það yrði samkv. þessu frv. eða samkv. till. þingskapanefndar, að því viðbættu, sem ég áður hef getið um, að trúnaðarskylda yrði ekki rofin.

Ég skal svo ekki fara mörgum fleiri orðum um þetta. En það hefur bæði við umr. um rétt Íslendinga til landgrunnsins og í þessu sambandi verið rætt um þau trúnaðarbrot, sem ég minntist á, að framin hefðu verið og hefðu verið ástæðan til þess, að sambandið við utanrmn. hefði verið miklu lausara en vera ætti. Það er rétt að geta þess í þessu sambandi, að því hefur verið æ ofan í æ haldið fram, að þessi meðferð mála, sem verið hefur að undanförnu, væri lögbrot. Nú eru engin ákvæði um sambandið á milli rn. og utanrmn. nema í þingsköpum, og þar er þetta ákvæði um, að ráðh. skuli bera undir utanrmn. mál, þýðingarmikil utanríkismál, sem hann telur rétt að gera. En þessi skylda nær aðeins til þess tíma, sem er utan þingtímans. Í þingsköpunum er það beinlínis tekið fram, að rn. skuli ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga, þannig að ef um lögbrot er að ræða í þessu sambandi, tekur það aðeins til þess tíma, sem þing situr ekki. Hitt má aftur kannske deila um, hvað er eðlilegt og hvað er óeðlilegt í þessu sambandi, en um lögbrot er ekki að ræða í þessu tilfelli, nema ef stór utanríkismál koma fyrir á því tímabili, sem þingið situr ekki, og eru ekki borin undir n. Nú situr Alþ., eins og vitað er, frá byrjun októbermánaðar og fram í apríl eða apríllok eða jafnvel maí, þannig að það, sem er þarna á milli, er sumartíminn, þegar sjaldan kemur fyrir mikið af slíkum málum, sem samkv. orðanna hljóðan í þingsköpunum ætti að bera undir n. Og ég minnist ekki margra mála, sem komið hafa fyrir til afgreiðslu a.m.k. á þessu tímabili. Öll aðalafgreiðsla þessara mála fer fram á þeim tíma, sem þingið situr venjulega. Það hefur verið reynt að vefengja það, sem ég hafði eftir fyrrv. utanrrh. hér, að hann hefði talið, að trúnaðarbrot hefði verið framið á undanförnum árum, sem hefði orðið ástæðan til þess, að hann hefði ekki borið mál undir n. eins og hann annars mundi hafa gert. Einnig hefur verið vitnað í það, að ég hafi nefnt í sjónvarpsviðtali, sem ég átti við blaðamenn tvo um daginn, árin 1959—1960, sem þetta hefði átt að vera framkvæmt á, en bæði var það, að ég hafði ekki þá við höndina nein gögn til þess að líta í, og eins hitt, að ég taldi, að það mundi ekki út af fyrir sig skera úr, um hvaða ár þarna var að ræða, heldur hitt, hvort þetta hefði verið gert eða ekki, en þetta mun hafa verið á árunum 1958, 1959 og 1960. Og það skal ég gjarnan leiðrétta hér með. En þessi gögn hef ég í höndum og skal, ef þingnefnd Framsfl. verður samþykk gjarnan leggja þau gögn fram. En sú þn. hefur verið boðuð, og ég tel ekki ástæðu til að fara frekar út í það, fyrr en rannsóknarn. hefur störf sín, þá skal ég gjarnan vera fús til að leggja fram þau gögn, sem ég hef í höndum.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 5, landsk. þm., hélt því fram, að ég hefði sagt, að utanrrh. hefði verið blekktur í sjónvarpsmálinu. Þetta sagði ég ekki. Því var haldið fram á stúdentafundi, sem ég var staddur á, að hann hefði verið blekktur, og mitt svar var það, að ef hann hefði verið blekktur og það væru færð fram rök fyrir því eða líkur fyrir því, teldi ég ekki óeðlilegt, að þetta væri rannsakað. En það má ekki snúa hlutunum við eða breyta efni þeirra, því að það gefur ekki rétta mynd af því, sem sagt var. Ég tel það enn sjálfsagt, að þau mál, sem fyrir utanrmn. eru lögð og ákveðið er að óska eftir að verði meðhöndluð sem trúnaðarmál, þau verði höfð sem trúnaðarmál, en séu ekki birt í blöðum jafnvel daginn eftir að þau hafa verið höfð uppi í n., eins og gert hefur verið. En ég skal aðeins endurtaka í þessu sambandi það, sem ég hef sagt áður hér, að ég er tilbúinn til samvinnu við utanrmn., ef þessum skilyrðum, sem ég óskaði eftir að sett yrðu í því sambandi, yrði fullnægt.

Sem sagt, þetta frv. er í aðalatriðum í samræmi við það, sem ég get hugsað mér að samþ. verði, hvort sem það verður samþ. sem þetta frv. eða sem frv. frá þingskapan., en aukaatriðið í þessu, sem ég tel vera, hvernig sendinefndin á þing Sameinuðu þjóðanna verði skipuð, tel ég að þurfi frekari athugana við, áður en samþykkt er hér.