10.03.1967
Neðri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (1979)

144. mál, Fiskimálaráð

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Við, sem flytjum þetta frv., sem prentað er á þskj. 283, um Fiskimálaráð, höfum haft þetta mál lengi til athugunar og teljum, að brýna nauðsyn hafi borið til þess og beri til þess, að allir þeir, sem hlut eiga að máli og starfa að sjávarútvegi, myndi eitt sérstakt ráð, sem hafi með að gera að móta heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins og í markaðsmálum.

Það eru mörg nauðsynleg ráð og stofnanir, sem hafa unnið mikilvægt og merkt starf í sjávarútvegsmálum, en það hefur ekkert heildarráð verið til, sem hefur markað heildarstefnu þannig, að það hafi verið tekið tillit til allra greina og reynt að samræma störfin í sjávarútvegsmálum, og þess vegna teljum við mikla nauðsyn á því, að slíkt ráð sem þetta verði stofnað.

Eins og fram kemur í þessu frv., leggjum við til, að hagsmuna- og heildarsamtök allra þeirra, sem hlut eiga að máli, í fyrsta lagi sjómenn og þeir, sem fisksins afla, bæði undirmenn og yfirmenn, eigi fulltrúa í þessu ráði, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, þeir, sem skipin eiga, bæði vélskipin og togaraútgerðina, L.Í.Ú. og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, verkamenn, sem vinna að aflanum í landi, eiga einnig að tilnefna fulltrúa í Alþýðusambandi Íslands. Einnig leggjum við til, að þeir, sem fara með helztu greinar fiskiðnaðarins, eigi að tilnefna menn í þetta ráð, en það er Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, síldarútvegsnefnd og Félag ísl. fiskimjölsframleiðenda, en í því félagi eru allar síldarverksmiðjur á landinu, einnig Félag ísl. niðursuðuverksmiðja. Þá teljum við eðlilegt og sjálfsagt, að þær stofnanir, sem lána mest fé til sjávarútvegsins, eigi fulltrúa í þessu ráði, en það er þá í fyrsta lagi Seðlabanki Íslands, Fiskveiðasjóður Íslands, fiskimálasjóður, og enn fremur teljum við sjálfsagt og eðlilegt, að Efnahagsstofnunin og Fiskifélag Íslands eigi aðild hér að. M.ö.o.: eins og þetta frv. liggur fyrir, leggjum við til, að þetta ráð verði byggt upp af heildarsamtökum allra þeirra, sem að sjávarútvegi starfa, og lánastofnunum, sem lána til sjávarútvegsins, og sömuleiðis þeim stofnunum, sem fyrst og fremst fjalla um þessi mál, en það verði undir stjórn sjútvmrh., sem jafnframt verði formaður þessa ráðs. Við teljum eðlilegt, að slíkt ráð sem þetta verði byggt upp af þessum atvinnuvegi sjálfum og opinberum stofnunum, sem honum tilheyra, en ekki að byggja það upp sem pólitískt ráð, að öðru leyti en því, að okkur þykir það vera eðlilegt og sjálfsagt, að sá ráðh., sem fer með sjávarútvegsmál í ríkisstj. hverju sinni, hafi forustu um að kalla alla þessa aðila saman til þess að móta í framtíðinni heildarstefnu í sjávarútvegsmálum.

Meginverkefni þessa ráðs er hugsað það, að við uppbyggingu fiskiskipastólsins skal við það miðað, að fjölbreytni verði í útgerð landsmanna og eðlilegt jafnvægi á milli hinna mismunandi útgerðargreina, svo að tryggð verði eftir föngum hráefnisöflun til fiskiðnaðarins. Í öðru lagi: Við uppbyggingu fiskvinnslu- og fiskiðnaðarfyrirtækja skal tillit tekið til æskilegrar dreifingar fyrirtækjanna og við það miðað, að afkastageta þeirra sé hæfileg með hliðsjón af mögulegri öflun hráefnis, og enn fremur skal miða að því, að sem mest fjölbreytni verði í vinnslu sjávarafurða. Í þriðja lagi: Fiskimálaráð skal hafa forgöngu um markaðsrannsóknir og skipulegar aðgerðir til öflunar nýrra markaða fyrir sjávarafurðir svo og um framleiðslu nýrra vörutegunda.

Ég mun síðar ræða þessa þrjá þætti í verkefnum fiskimálaráðs, en ég get ekki látið hjá líða, áður en ég geri það, að minnast á það nokkrum orðum, að það geta komið til greina ýmis önnur mikilvæg og nauðsynleg verkefni, eins og t.d. það að vinna frekar og betur að verðlagningu sjávarafurða. Fyrir nokkrum árum var stofnað verðlagsráð sjávarútvegsins og þá brotið blað í sambandi við verðlagningu sjávarafurða. Það form hefur reynzt mjög vel að mínum dómi. En þó er eitt, sem skyggir á það form, og það er það, að allur undirbúningur, allir útreikningar og öll gögn, sem fyrir verðlagsráði liggja hverju sinni, eru unnin af sérhagsmunasamtökum innan útvegsins hverju fyrir sig, en engin heildarstofnun, sem vinnur úr þessum gögnum.

Það heyrist allt of oft og er gert mikið úr, að sjómenn og útvegsmenn eigi í deilum sín á milli um skiptingu þeirra verðmæta, sem skipin afla. Það er sannfæring mín, að þessar deilur þurfi ekki að vera, og til þess að koma að mestu í veg fyrir þær þurfa þessir aðilar að hafa nánara samstarf en nú er og hefur verið. Það eiga að vera starfandi samstarfsnefndir sjómanna og útvegsmanna árið um kring. Fulltrúar sjómanna þurfa að eiga þess kost að fylgjast með þróun útgerðar og öllum verðbreytingum, sem eiga sér stað í rekstri hennar, mynda sér skoðanir um orsakir þeirra og leitast við í samráði við útvegsmenn að koma í veg fyrir óeðlilegar hækkanir í rekstrarkostnaði útgerðarinnar. Sjávarútvegurinn þarf nauðsynlega að koma sér upp hagstofnun, og ekkert er eðlilegra en fulltrúar sjómanna eigi þar greiðan aðgang. Slík hagstofnun á að fylgjast á hlutlausan hátt með öllu því, sem lýtur að útgerð, fiskverkun, fisksölu og markaðsöflun, og vera sú stofnun, sem allir geta treyst að fari eingöngu með rétt mat á hlutunum, en leitist ekki við að hagræða tölum og áliti fyrir einn aðila á kostnað hinna innan þessarar sömu atvinnugreinar.

Þegar við grandskoðum, hvað sjómenn og útvegsmenn eiga mörg sameiginleg áhugamál og hversu hagsmunir þeirra fara á óteljandi hátt saman, kemur það í ljós, að deilur og metingur um kaup og kjör eru aðeins lítill hluti á móti öllu því, sem saman fer. Það er sameiginlegt velferðarmál sjómanna og útvegsmanna að fara sem bezt með þann afla, sem á skip kemur, til þess að fá sem mest verð fyrir hann. Það er stórkostlegt hagsmunamál beggja aðila að haga innkaupum til þarfa skipsins á sem skynsamlegastan hátt og fara vel með skip, vélar, tæki og veiðarfæri. Á þann hátt lækkum við útgerðarkostnaðinn frá því, sem nú er, og þarna gæti átt sér stað stórfelld lækkun kostnaðar, sem mundi við allar eðlilegar aðstæður vera metin til þess, að því, sem sparaðist, yrði skipt á milli útgerðar og sjómanna. Ef slík stofnun væri starfandi sem ég nefndi áðan, hagstofnun sjávarútvegsins, sem sjávarútvegurinn sjálfur í heild, bæði þeir, sem að honum vinna, þeir, sem skipin eiga, og fiskvinnslustöðvarnar kostuðu, væri eitt af hennar mörgu verkefnum að fylgjast þarna með, og ef útgerðarkostnaður lækkaði fyrir það, að skipstjóri og skipshöfn sýndu hagsýni og skyldurækni í störfum, skapaðist möguleiki til raunverulegra kjarabóta, sem ekki yrðu gleyptar með hækkuðu verðlagi samstundis.

Það er rétt að gera sér nokkra grein fyrir því, hvaða breytingum fiskiskipastóllinn hefur tekið nú á rúmlega tveimur áratugum. Við höfum prentað hér í grg. með frv. yfirlit yfir fiskiskipastólinn frá árunum 1944, 1954, 1958, 1964 og 1. jan. 1967. Við sjáum á því yfirliti, að nú á síðustu árum, einkum frá árinu 1964—1967 hefur skipastóllinn, sem er undir 100 rúmlestum, mjög minnkað, enda hefur fækkað skipum í þessum stærðarflokki úr 648 niður í 577 á þremur árum. Viðbót skipa innan við 100 tonn er sorglega lítil, og hún var á árinu 1963 21 skip, samtals 688 rúmlestir, 1964 fór hún niður í 11 skip, 682 rúmlestir, 1965 fór hún niður í 3 skip, 156 rúmlestir, og á s.l. ári niður í 2 skip, 109 rúmlestir. Á sama tíma gengur þessi sífellt eldri floti úr sér og margfalt fleiri skip hverfa nú af skipaskrá með hverju ári sem líður, bæði skip, sem stranda, sökkva, og mörg skip, sem eru gerð ónýt, eftir að bráðafúi hefur komið upp í þeim. Hins vegar hefur orðið mjög mikil og ör þróun í byggingu fiskiskipa yfir 100 smálestir, og þau skip fara alltaf stækkandi með hverju árinu sem líður. Veruleg þróun hefur þó fyrst og fremst átt sér stað í þessum skipabyggingum frá árinu 1958 til síðustu áramóta, en þá fjölgaði þessum skipum úr 49 upp í 184 skip. Nú eru í byggingu 34 skip fyrir íslenzka útgerðarmenn og félög, og það gefur nokkra hugmynd um, hvað þessi skip eru alltaf að stækka, því að meðalstærð þessara skipa er talin vera um 318 smálestir. Þriðji flokkur fiskiskipanna eru botnvörpuskipin. Þar hefur orðið verulegur samdráttur, og samkvæmt skipaskrá um síðustu áramót eru skráð 32 botnvörpuskip, samtals 22876 rúmlestir, en í raun og veru eru ekki nema rúmlega 20 botnvörpuskip gerð út hér á landi í dag. Botnvörpuskipaútgerðin hefur því stórkostlega dregizt saman, því að á árinu 1954 var 51 skip í útgerð, og það horfir því óvænlega fyrir þessari útgerð, en hún var um langt árabil ein sterkasta stoð íslenzkrar útgerðar.

Við höfum á undanförnum árum lagt höfuðáherzlu á að byggja stærri skip, sem fyrst og fremst hafa verið byggð með síldveiði fyrir augum. En á sama tíma hefur hrakað aftur minni útgerðinni. Það er hún, sem fyrst og fremst skapar frystihúsunum og atvinnulífinu víðs vegar um land, þá ekki síður hér við Faxaflóa, helztu atvinnuna, og ef hér heldur áfram sem nú horfir, þá er víða vá fyrir dyrum á litlum stöðum úti um land í sambandi við öflun fisks fyrir frystihúsin og fiskiðnaðinn í landinu.

Það er ekki úr vegi í þessu sambandi að gera nokkuð að umræðuefni heildarfiskaflann á liðnum árum og gera sér grein fyrir þeirri þróun, sem hefur orðið í veiðunum, en á árinu 1944 var heildaraflamagn Íslendinga 461314 tn. Þá var síldin og loðnan af því hvorki meira né minna en 221843 tn., en það var eitt mesta síldarárið, 1944. Síðan brást síldarútgerðin um langt árabil, og á árinu 1950, eða 6 árum síðar, var síldaraflinn ekki nema 60441 tn., á móti 262585 tn. af öðrum fiski. Á árinu 1960 er síldaraflinn 136437 tn. á móti 377306 tn. af fiski. Og á árinu 1984 fer síldaraflinn yfir annan fiskafla og er þá orðinn 553036 tn. á móti 418500 tn. Á árinu 1965 verður stórfelld aukning á síldaraflanum, og þá kemst hann upp í 812600 tn., en annar fiskur lækkar aftur töluvert frá árinu á undan og er þá kominn niður í 385702 tn. Og á s.l. ári, en ekki liggja fyrir endanlegar tölur, mun síld og loðna vera um 900 þús. tn., en annar fiskafli er kominn niður í 340 þús. tn. M.ö.o.: fiskaflinn hefur lækkað frá árinu 1964 til s.l. árs, 1966, úr 418478 tn. niður í 340 þús. tn. Á árunum 1954—1964 hefur sóknin á íslenzka þorskstofninn aukizt um 87%, en heildarafli minnkað um 22%. En á síðustu tveim árum hefur sóknin á íslenzka þorskstofninn ekki minnkað, en heildaraflinn hefur, eins og ég sagði áðan, enn þá minnkað og það mjög ískyggilega á síðustu tveim árum. Á árinu 1944 var síld og loðna tæplega 48% af heildarveiðimagninu, en annar fiskur var þá rúmlega 52%. Á s.l. ári var þetta hlutfall þannig, að síldaraflinn var kominn í 72 1/2 % á móti fiskaflanum 27 1/2%.

En nú spyrja menn: Hvernig stendur á því, að fiskaflinn minnkar svo mjög? Auðvitað er það fyrst og fremst vegna þess, að minni útgerðin hefur dregizt verulega saman og stærri skipin, sem fara á vertíð, veiða aflann yfir hávertíðina á netaveiðinni, það er lagt á það höfuðkapp að veiða þá meginhluta aflans, en ekki að stunda þessar fiskveiðar árið um kring, enda er svo komið og hefur verið á undanförnum árum, að um 48% af öllum heildarfiskafla landsmanna að undanskilinni síld er veitt á tveimur mánuðum af árinu, og það gerir það að verkum, að nýting fiskiðnaðarfyrirtækjanna er ekki með þeim hætti, sem æskilegt er, og þyrfti hér að verða mjög veruleg breyting á, og þyrfti einnig að fara inn á nýjar greinar við fiskveiðarnar til þess að jafna hér veiðina vegna þeirra mörgu og miklu fyrirtækja, sem nú hafa búið sig undir fiskiðnaðinn og hafa gert það snilldarlega á liðnum árum, til þess að skapa þeim jafnari rekstrargrundvöll en verið hefur.

Mesta uppbyggingin, sem orðið hefur á undanförnum árum í sjávarútvegi, er auk síldveiðiskipanna, sem ég hef gert að umræðuefni, fjölgun síldarverksmiðja, og miklu fjármagni hefur verið varið til síldariðnaðarins, enda eru nú 46 síldarverksmiðjur á öllu landinu, og er afkastageta þeirra um 18350 tn. á sólarhring. En í tölu þessara verksmiðja eru allar verksmiðjur, sem hafa möguleika til að vinna feitan fisk, þó að raunar sumar þeirra séu að mestu starfræktar sem venjulegar fiskimjölsverksmiðjur. Þessar verksmiðjur skiptast þannig eftir landshlutum: Á Suðurlandi og Vesturlandi að Ísafjarðardjúpi eru 17 og afkastageta þeirra er 5995 tn. á sólarhring. Á Norðurlandi og að Langanesi eru 15 verksmiðjur með afkastagetu 6725 tn. á sólarhring. Og á Austurlandi eru 14 verksmiðjur með afkastagetu 5630 tn. á sólarhring. Auk þessara verksmiðja eru 16 fiskimjölsverksmiðjur, sem eru ekki taldar með síldarverksmiðjunum og allar eru starfræktar að meira eða minna leyti, eftir því sem hráefni gefst hverju sinni. Síldarsöltunarstöðvarnar eru komnar upp í 103 á öllu landinu, og þær eru starfræktar að meira eða minna leyti skv. upplýsingum síldarútvegsnefndar. Hraðfrystihúsin í fisk­ iðnaðinum eru 93 á landinu, og er frystiafkastageta þeirra um 1600 tn., miðað við 10 klst. á sólarhring, og þessi frystihús hafa geymslurými fyrir um 73 þús. tn. Nýting á afkastagetu hraðfrystihúsanna var á árinu 1960 ca. 17%, 1964 ca. 17.3% og 1965 ca. 19%, en þá er einnig miðað við. 10 tíma vinnu á sólarhring.

Það má segja, að öll hraðfrystihús vinni saltfisk og skreið, og af þeim er 21 hús, sem eru sérstaklega búin vélum til vinnslu á saltfiski, en auk hraðfrystihúsanna eru 40 aðrar söltunarstöðvar, og eru 18 þeirra búnar vélum til vinnslunar. Niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðjur eru 16 í landinu, og má segja, að eitt af því, sem okkur hefur minnst fleytt fram með, er uppbygging niðursuðuiðnaðarins, þó að nokkur bót hafi orðið á því á síðustu árum, því að á árinu 1964 nam útflutningsverðmæti niðursuðuvara 20 millj. kr., en það jókst árið 1965 í 32.6 millj. kr. og var á árinu 1966 45.1 millj. kr. En þetta er auðvitað miklu lægra hlutfall, margfalt lægra en hjá flestum eða öllum öðrum fiskveiðiþjóðum veraldar. Japan flytur t.d. út fisk fyrir 300 millj. dollara á árinu 1964, þar af eru niðursuðuvörur um 42%. V.-Þýzkaland flytur inn niðursoðið fiskmeti 1963, 40 þús. tn., það er mjög há prósenta af niðursoðnu fiskmeti.

Það er sjáanlegt, að þó að hafi orðið mjög ör og merk og mikil uppbygging í fiskiðnaði á liðnum árum og áratugum og þó sérstaklega í síldariðnaði og hraðfrystiiðnaðinum, þá þurfum við Íslendingar að fara yfir á fleiri greinar og við þurfum að vera vakandi fyrir því að efla þær greinar og leita markaða fyrir þær, sem eru þægilegastir fyrir okkur á hverjum tíma. Við eigum að stórauka okkar niðursuðu, en til þess þarf auðvitað mikið fjármagn, og við eigum að fara yfir á nýjar greinar, eins og t.d. frystiþurrkun matvæla. Og ég get ekki stillt mig um það við þetta tækifæri að vekja enn frekari athygli á frystiþurrkuninni, en hún er vel þekkt aðferð við verkun matvæla og hefur í nokkuð öðru formi verið notuð hér á landi við verkun harðfisks, og nýjasta aðferðin í þessu efni er kölluð hraðfrystiþurrkun, og hún er í því fólgin, að varan, oft fryst, er sett í stálgeymi, geymirinn síðan lofttæmdur. Í geyminum eru svo plötur, sem hægt er að hita, og við lofttæminguna gufar vatnið úr efni því, sem þurrka skal, og bindur þar með varma. Við það kólnar varan og frýs, ef hún var ekki frosin, þegar hún var sett í geyminn, og þurrkunin fer því þannig fram, að ísinn í vörunni gufar upp. Til þess að þetta geti gerzt á nægilega stuttum tíma, er nauðsynlegt að veita varma inn í geyminn, án þess að hitastig hans hækki of mikið. Þeim mun lægra sem hitastigið er, þeim mun betri verður varan, en um leið er vinnslan dýrari. Aðalútbúnaðurinn við frystiþurrkun er geymirinn sjálfur og sérstakar lofttæmidælur. Aðferð þessi við frystiþurrkun var fyrst eingöngu notuð í meðalaiðnaði, t.d. við þurrkun á blóði, og svo til að framleiða matvæli, sem voru hentug í hernaði, þar sem þau voru bæði létt og auðmeðfarin. Síðan síðustu heimsstyrjöld lauk, hefur tækninni á þessu sviði fleygt fram, enda hafa miklar tilraunir verið gerðar með aðferð þessa, bæði í Bretlandi, Danmörku og einkum Bandaríkjunum. Matvæli þurrkuð á venjulegan hátt í lofti hafa haft gljáandi yfirborð, rýrnað óeðlilega og verið hörð og mjög slöpp, en þau taka raka hægt í sig og bólgna upp og þurfa einn til tvo tíma til að mettast af raka. Þessu er allt öðruvísi varið hvað viðkemur frystiþurrkuðum vörum. Þær eru frauðkenndar ag taka í sig raka strax á 3—5 mín. og halda eðlilegum lit og útliti. Næringargildi frystiþurrkaðra matvæla er mjög svipað næringargildi þeirra ferskra, og þó að fjörefnainnihaldið rýrni lítið eitt, er rýrnunin minni en við flestar aðrar verkunaraðferðir.

Sala og dreifing frystiþurrkaðra matvæla ætti að vera auðveld, þar sem þær heimta ekki neitt ákveðið hitastig, hafa allt að tveggja ára geymsluþol og vegna þess hvað þær vega lítið miðað við næringargildi. Í Bandaríkjunum er aðferð þessi notuð í stórum stíl, og áætla Bandaríkjamenn, að umsetning frystiþurrkaðra vara muni ná um 2000 millj. dollara á árinu 1970. Þessi aðferð á að geta gert kleift að koma fiskafurðum okkar á fjarlægari markaði og þá í hitabeltinu.

Áður en ég lýk að tala um Frystiþurrkunina, vil ég geta þess, að frystihúsin hér eru búin ýmsum þeim vélakosti, sem nauðsynlegur er við frystiþurrkun, en þau skortir auðvitað sjálfþurrkunartæki. Hér er um leið að ræða, sem getur orðið mjög mikils virði fyrir íslenzku þjóðina í framtíðinni, því að það verður að auka fjölbreytni í verkun sjávarafla. Og það eru ótalmargir aðrir möguleikar, sem eru til og við höfum illa notað og allir bera sök á. Og ég vil þá sérstaklega nefna í sambandi við niðursuðuna, að við höfum yfir að ráða 6—8 þús. tn. af þorsk og ufsahrognum árlega. Við höfum yfir að ráða um 4 þús. tn. af grásleppuhrognum, þorsklifur í miklu magni, síld, sem sagt af öllum stærðum í ótakmörkuðu magni, af smáum humar magn, sem óvíst er, þar sem fiskimenn fleygja nú þessu fyrir borð, þar sem það er alls ekki nýtt. Auk þess má nefna kúfisk, sennilega líka krækling, nokkurt magn af kolkrabba, en allar þessar vörur eru notaðar í stórum stíl til niðursuðu erlendis. Að svo miklu leyti sem hráefni þessi yfirleitt eru nýtt, eru þau nú flutt út fryst eða söltuð og fullunnin í erlendum verksmiðjum eða unnin hér á fljótlegastan og ódýrastan hátt, svo sem i síldarbræðslum og einstaka vara til beitu.

Það er einungis nú á síðari árum, að hafizt hefur verið handa um að framleiða fullunna vöru í nokkru magni, en framleiðsla þessi hefur átt mjög erfitt uppdráttar vega skorts á raunhæfri söluframkvæmd og skorts á fjármagni, en það er auðvitað eðlilegt, eins mikið og hefur verið gert í sjávarútvegi til uppbyggingar frystiskipastólsins og uppbyggingar fiskiðnaðarins í landi, sem fyrir er.

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um markaðsrannsóknir og markaðskönnun.

Það má segja, að um 1880 hófst sókn í fiskveiðum okkar Íslendinga með stóraukinni þilskipaútgerð. Eftir aldamótin hefst svo mótorbáta útgerðin víðs vegar um land, togaraútgerð frá Reykjavik og Hafnarfirði, og um líkt leyti hefja Íslendingar þátttöku í síldveiðum, sem áður höfðu eingöngu verið stundaðar af Norðmönnum og Svíum. Fiskiskipaflotinn jókst stöðugt og aflinn að sama skapi. Í árslok 1916 stóð hagur þjóðarinnar með allmiklum blóma og allir höfðu sæmilega atvinnu. En á árinu 1917 varð þjóðin að láta af hendi helming af togaraflota sínum til hernaðarrekstrar Bandamanna, að vísu fyrir fullt verð, en þá dró mjög verulega úr framleiðslu og atvinnuleysi sigldi í kjölfarið i stærstu bæjum landsins. Þegar fyrri heimsstyrjöldinni lauk 1918, stóð þjóðin í bili höllum fæti. En hún átti þá eins og jafnan áður framsýna og dugandi menn, sem sáu, að það þurfti að byggja upp fiskiskipaflotann og efla framleiðslu þjóðarinnar, og það var gert af miklu kappi. Fiskiskipaflotinn varð fljótlega meiri en er hann var stærstur á árinu 1917. En þessi sókn var mjög einhliða. Allt kapp var lagt á að auka flotann og um leið aflamagnið. Það varð lítil breyting á því, hvernig fiskurinn var verkaður sem markaðsvara. Mestur hluti aflans var saltaður, bæði þorskaflinn og síldaraflinn. Eftirspurnin eftir íslenzkum saltfiski var svo mikil, að menn höfðu ekki verulegar áhyggjur af því, hve einhæf þessi verkun var. Sama var að segja um saltsíldina, sem næstum eingöngu var grófsöltuð. Aðrar greinar fiskverkunar voru á frumstigi. Síldarbræðsla var að vísu hafin. Vinnsla lýsis úr fisklifur var í framför, en um nýtingu hrogna og fiskbeina var lítið hirt.

Árin fyrir 1930, að árinu 1930 meðtöldu, voru mikil aflaár á mælikvarða þeirra tíma og um allmörg ár þar á eftir. Sem dæmi um það, hve sjávarafli var einhæfur á þessum tíma, skal ég nefna það, að á árinu 1929 voru 79.9% af útfluttum sjávarafla saltaður fiskur og saltsíld. Eftir þessi aflaár gerðist það, að á árinu 1930 hófst hin mesta viðskiptakreppa, sem sögur hafa farið af. Þessi kreppa flæddi um lönd og álfur. Hér á landi kom hún hart niður á sjávarútveginum, sem þá eins og raunar enn í dag var svo að segja eini útflutningsatvinnuvegur landsins. Þá féll verð á útflutningsafurðum okkar á skömmum tíma um 1/3—1/2, en lítil breyting varð á verði þeirrar framleiðsluvöru, sem seld var innanlands. Rekstur allrar útgerðar í landinu var hinn hörmulegasti, því að útgerðin var rekin með stórhalla. Það voru framkvæmd skuldaskil. Skuldir landsins út á við jukust með hverju árinu sem leið. Þá urðum við fyrir stórum áföllum með hinni svokölluðu Ottava-ráðstefnu, sem Bretar boðuðu til. Þar var tekið af skarið og Bretar gerðu þar ákvörðun um, að öll samveldislöndin skyldu njóta viðskipta við Bretland og Bretland við þau. Það átti að útiloka önnur lönd, og það var mikið áfall fyrir okkur, því að Bretar voru okkar bezta viðskiptaþjóð á þessum tíma eins og lengi síðar og eru í raun og veru enn þá. En það rættist nokkuð úr þessu. Bretar tóku tillit til þeirrar sérstöðu, sem Íslendingar áttu í þessum efnum, og það rættist nokkuð úr með sölu á afurðum. En þá tók aftur sama vandræðaástandið við. Öll þau viðskipti, sem við áttum á þeim árum við Miðjarðarhafslöndin, voru þannig, að þau gátu ekki keypt vörur, nema vörur væru keyptar á móti, og þá hófust vörukaupaviðskipti við Miðjarðarhafslöndin, og það voru erfiðir tímar, sem þá fóru í hönd. Þá sáu útvegsmenn, sjómenn og ríkisvaldið, að hér varð að mynda samtök til þess að selja okkar útflutningsvörur. Þá voru mynduð samtök Sölusambands ísl. fiskframleiðenda. Þá var fiskimálanefnd stofnuð. Hún fór inn á nýjar brautir að afla fiskinum markaða annars staðar, fór að huga að því að auka hraðfrystan fisk, og hún vann mjög merkt og mikilvægt starf á sínum tíma. Síðan tekur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna við forustunni og heldur áfram af miklu kappi að afla frystum fiski markaða erlendis og byggir verksmiðju í Bandaríkjunum. Sama má segja um sjávarafurðadeild Sambands ís1. samvinnufélaga, þó að hún sé nokkru yngri. Fleiri heildarsamtök í ákveðnum fiskgreinum eru stofnuð og fyrir ekki allmörgum árum Samlag skreiðarframleiðenda og fleiri aðila. Markaðskönnun og markaðsrannsóknir þessara aðila hafa að verulegu leyti verið háðar starfi þessara samtaka í þeirra greinum fiskiðnaðarins, en ekki með það fyrir augum að bæta við nýjum iðngreinum. Það er það sem vantar algjörlega inn í þetta starf. Ég skal ekki gera lítið úr því, sem fiskimálasjóður hefur lagt af mörkum á undanförnum árum, en hann hefur greitt til markaðsleitar og auglýsinga fyrir íslenzkar sjávarafurðir erlendis á árunum 1956—1966 8 millj. 871 þús. kr.

Ég tel, að hér sé um nægilegt verkefni að ræða fyrir slíkt ráð eins og þetta, sem við leggjum til með þessu frv., að verði stofnað.

Á s.l. þingi flutti ég tillögu, sem var samþykkt 5. maí, um athugun á aukinni fjölbreytni í framleiðslu sjávarafurða og eflingu þeirra iðngreina, sem vinna útflutningsverðmæti sjávaraflans. Ég veit, að ríkisstj. skipaði nefnd skv. samþykkt Alþingis, þriggja manna nefnd, sem vinnur nú að þessum hluta málsins, og ég vona, að sú nefnd fari að skila störfum innan skamms, en það verður sjálfsagt úr mörgu að vinna og margt að gera í þessum málum á næstu árum.

Ég get ekki svo lokið máli mínu, að ég minnist ekki örlitið á, hvað okkar markaðssvæði er í raun og veru takmarkað. Forustumenn á sviði útflutningsmálanna hafa fyrst og fremst lagt á það höfuðáherzlu á undanförnum árum að selja mestan hluta aflans til Ameríku og til Austur-Evrópulandanna. Það hefur aftur verið minna kapp lagt á að afla markaða fyrir íslenzkar sjávarafurðir í Vestur-Evrópu, og nú er svo komið, að heimurinn er skiptur í markaðsbandalög, og V.-Evrópuþjóðirnar, þar sem lífsstandardinn er tiltölulega hár, þar sem mikið fjölmenni er, þar er búið að setja innflutningstolla til verndar viðskiptum innan markaðsbandalaga, á sama tíma og við stöndum utan við öll markaðsbandalög. Við getum ekki teflt á það í framtíðinni að byggja markaðinn á því, hvernig hann er í Bandaríkjunum og við A.-Evrópulöndin eingöngu. Til skamms tíma hefur verið talið, að jafnkeypisviðskiptin væru erfiðasta vandamál okkar samfara þátttöku í fríverzlunarbandalagi, en á fáum árum hafa viðskipti okkar við A.-Evrópu tekið svo miklum breytingum, að gerlegt er að finna lausn á því vandamáli í sambandi við það, að Ísland gengi í EFTA. Viðskiptin við A-Evrópu námu meira en 1/3 hluta af heildarviðskiptum okkar á árinu 1959, en voru 1965 tæplega 1/7 hluti þeirra. Fyrir þessu liggja ýmsar ástæður, svo sem betri og stærri freðfiskmarkaður í Bandaríkjunum og Bretlandi, þar til nú, að mjög hefur syrt í álinn, stórkostleg framleiðsluaukning á síldarlýsi og síldarmjöli og sívaxandi síld- og fiskveiðar Sovétríkjanna sjálfra, Póllands og A.-Þýzkalands, sem minnka innflutningsþörf þeirra á síld og freðfiski. Pólland, A.-Þýzkaland og jafnvel Sovétríkin hafa nú byrjað að flytja út freðfisk, og hafa þau tvö fyrrnefndu lítinn áhuga á að kaupa hann af okkur. Þetta er ósköp eðlilegt. Þetta eru þjóðir, sem eru að byggja upp sinn eigin flota, þær stefna að því að vera sem mest sjálfum sér nógar, en við þurfum aftur að hugsa meira um það, sem svo að segja eingöngu fiskveiðiþjóð, að efla okkar sölumöguleika í sem flestum löndum, og þá megum við sízt af öllu glata því að eiga möguleika til þess að komast með okkar framleiðsluvöru inn á markaðinn í V.-Evrópu, sem er og verður stærsti markaður fyrir okkar framleiðsluvöru og lang notadrýgsti, og einmitt þær þjóðir koma til með að kaupa þann hluta af okkar framleiðsluvörum, sem mest verður unninn heima í landinu og er dýrastur.

Við eigum ekki sífellt að stefna að því að auka aflamagnið og ekki hirða um það að vinna sem mest verðmæti úr þeim afla, sem á land kemur. Við eigum fyrst og fremst nú að hugsa um það að vinna meira heima, auka verðmæti aflans, skapa jafnhliða markaði í fleiri löndum fyrir okkar afurðir, og við, sem þetta frv. flytjum, teljum, að það sé spor í rétta átt og það sé eðlilegt, að allir þeir, sem hér eiga hlut að máli, sameinist um það að byggja hér upp heildarsamtök, sem hafi það markmið að móta heildarstefnu, sem verði til hagsbóta fyrir þjóðfélagíð í heild í framtíðinni. Og ég er sannfærður um það, að með stofnun slíks ráðs sem fiskimálaráðs er farið hér inn á nýjar brautir, sem er sjálfsagt og eðlilegt að fara.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta mál á þessu stigi, en ég vænti þess, að hv. alþm. taki þessu frv. af velvilja og skilningi. En áður en ég lýk máli mínu, vil ég geta þess, að einn aðili er ekki með í sambandi við uppbyggingu skv. frv., en það er Samlag skreiðarframleiðenda, en ég er mjög opinn fyrir því, að það verði athugað í þeirri n., sem fær frv. til meðferðar.

Að lokum legg ég svo til, að þessu máli verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr.