14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (2028)

186. mál, aðstoð við félagsmenn verkalýðsfélaga til byggingar íbúðarhúsa

Flm. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 431 flyt ég ásamt 3. þm. Reykv. og 10. landsk. þm. frv. til l. um sérstaka aðstoð við félagsmenn verkalýðsfélaga til byggingar íbúðarhúsa. Meginefni þessa frv. er það, að félagsmenn í verkalýðsfélögum, sem ekki eiga rétt á lánum úr lífeyrissjóðum, skuli fá lán að upphæð 125 þús. kr. tiI íbúðarkaupa og íbúðarbygginga, lán úr atvinnuleysistryggingasjóði af sérreikningi verkalýðsfélagsins í sjóðnum, og þessi lán skulu þeir fá, enda þótt þeir fái þau viðbótarlán, sem veitt eru til efnalítilla félagsmanna verkalýðsfélaga skv. sérstökum ákvæðum laga þar um. Lánin verði til 33 ára með 4% vöxtum og afborgunarlaus fyrstu 3 árin. Stjórn viðkomandi verkalýðsfélags úthluti lánunum, en stjórn atvinnuleysistryggingasjóða ávísar þeim síðan til húsnæðismálastjórnar, sem sér um afgreiðslu þeirra og síðan um innheimtu.

Í 2. gr. Frv. er gert ráð fyrir, að þessi lán megi einnig veita til kaupa á eldrí íbúðum eða til endurbyggingar eða viðbyggingar við eldri íbúðir.

Þar sem nú er komið fram yfir miðnætti, skal ég spara mér að ræða almennt um húsnæðismálin, þann vanda, sem þau eru, bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélagið í heild, þeirra stóra þátt i verðbólgumyndun síðari ára og mörg önnur atriði í þeim efnum, sem sannarlega þyrfti að ræða hér á hv. Alþ. Frv. þetta miðar að því, að stuðla að úrbótum fyrir þá, sem verst eru settir í þessum efnum, þ.e.a.s. fyrir þá félagsmenn verkalýðsfélaga, sem eiga ekki aðgang að lífeyrissjóðum. Það er nú svo, að það fer saman, að einmitt þeir, sem ekki eiga aðgang að lífeyrissjóðum, eru í flestum tilvikum lægst launaða fólkið, og vegna takmarkaðra fjárhagsmöguleika verður það að sæta verri kjörum en hinir, sem betri hafa aðstöðuna á þessu sviði. Það er hvort tveggja, að yfirleitt verður þetta fólk að sætta sig við lélegri íbúðir, kjallaraíbúðir, risíbúðir og annað þess háttar, þar sem það er viðráðanlegra hvað verð snertir, þótt okrið sé hið sama í mörgum tilvikum á þessum íbúðum sem öðrum. Og yfirleitt verður þetta fólk einnig að sætta sig við hærra verð, vegna þess að það hefur ekki ráð á neinum verulegum útborgunum eða þeim háu útborgunum, sem gera það að verkum, að hægt er að fá verðið eitthvað niður.

Frv. gerir ráð fyrir, að atvinnuleysistryggingasjóður aðstoði þetta fólk sérstaklega með þeirri lánsupphæð, sem ég áðan nefndi, þ.e.a.s. 125 þús. kr. Ég vil aðeins minna á, að atvinnuleysistryggingasjóður varð til fyrir 12 árum í vinnudeilunum 1955 með því móti, að þá var lagt til hliðar sem svaraði 4% af kaupi verkafólks, miðað við almennt kaup verkamanna í Rvík. Þessi sjóður er því í rauninni í eðli sínu hluti af kaupi verkafólksins, og verkalýðsfélögin hafa sína sérreikninga í sjóðnum. Á þessa sérreikninga falla þau iðgjöld, sem greidd eru á félagssvæði hvers félags fyrir sig. Atvinnuleysistryggingasjóður er nú orðinn einn öflugasti sjóður í landinu, um 950 millj. kr. um s.l. áramót, og spyrja mætti, hvort eigendur þessa sjóðs, þ.e.a.s. verkafólkið, hefðu notið sjóðsins verulega, og ég held, að það verði að játa, að svo er ekki. Sem betur fer, hefur sjóðurinn ekki þurft að eyða miklu af fé sinu til þess að standa undir sínu höfuðhlutverki, þ.e.a.s. að greiða bætur vegna atvinnuleysis. Hins vegar hefur mjög mikið fé verið lánað úr sjóðnum, og á óbeinan hátt hefur verkafólk auðvitað notið þess. Sjóðurinn hefur lánað mikið til húsnæðismála, til hins almenna húsnæðislánakerfis. Mun láta nærri, að á siðasta ári hafi það verið um 60 millj. kr. Nú hefur verið ákveðið, að sjóðurinn láni á þessu ári 30 millj. til sérstaks byggingarflokks hér í Rvík, sem verkalýðsfélögin sömdu um árið 1965. Þó að verkafólk hafi notið einhvers af þessu framlagi sjóðsins til húsnæðislánanna, er enginn efi á því, að þeir eru í meiri hluta, sem hafa ekki getað notfært sér þessi lán, og þau hafa á ýmsan hátt farið til annarra og þeirra, sem betur eru stæðir en einmitt þetta fólk, sem ég hef nú rætt um, í verkalýðsfélögunum. Ég vil aðeins taka dæmi af félagi, sem ég er kunnugastur, Verkamannafélaginu Dagsbrún, en sjálfsagt er hlutfallslega eins ástatt með flest önnur. Á sérreikningi Dagsbrúnar við atvinnuleysistryggingasjóð verða yfir 200 millj. kr. á þessu ári, eða 18% af öllu fé atvinnuleysistryggingasjóðsins. Þetta er það fé, sem lagt hefur verið til hliðar vegna vinnu verkamanna hér í Rvík og gert samkv. samningum verkalýðsfélaganna í kaupdeilunni 1955. Ég þori að fullyrða, að verkamennirnir í Rvík hafa ekki notið hlutfallslega þessa mikla sjóðs, og úr því á þetta frv. að bæta.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál núna, en þó vil ég sérstaklega vekja athygli einnig á 2. gr. frv., sem heimilar, að lánað sé til kaupa á eldri íbúðum eða til lagfæringa á slíkum íbúðum, endurbygginga, stækkana o.s.frv. Það er nú svo, að fyrir þetta fólk eru oft einu möguleikarnir til þess að komast yfir húsnæði að kaupa eldra húsnæði, þ.e.a.s. íbúðir í gömlum húsum. Þær þurfa ekki alltaf að vera þær lökustu, en þær eru kannske litlar, en e.t.v. viðráðanlegri hvað verð snertir. Gallinn er bara sá, að til þessara hluta veitir enginn aðili lán, og það er aðeins með prívatlánum, hjálpsemi fjölskyldunnar, e.t.v. einhverri lítilfjörlegri bankaaðstoð, sem menn geta fengið fé til slíkra kaupa.

Ég held, að þetta sé mál, sem þyrfti að taka öðrum tökum en nú er gert, og þetta frv. stuðlar að því, að svo verði. Ef þetta frv. næði fram að ganga, yrði lán, sem meðlimir verkalýðsfélaganna hefðu möguleika á að fá, frá 470 þús. upp í 540 þús. kr. að hámarki. Ég held, að menn hljóti að skilja, að þetta er algjört lágmark þess, sem þarf, eins og verð er nú yfirleitt á íbúðum, til þess að hugsanlegt sé, að almenni verkafólk geti risið undir því að festa sér íbúð á einhvern hátt.

Ég vil svo, herra forseti, mælast til þess, að frv. verði vísað til hv. heilbr: og félmn. að þessari umr. lokinni.