14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (2061)

196. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það mál, sem hér er flutt, og raunar hið fyrra einnig, en tel, að þetta hafi þó raunar sérstöðu, ekki beint í sambandi við það, sem hér er um rætt, heldur almennt varðandi bætur. Hér er um að ræða bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði, en menn hafa gjarnan viljað halda því fram, að þær ættu endilega að fylgja öðrum bótum úr almannatryggingum, og þær voru á síðasta þingi samræmdar slysabótum almannatrygginganna. Þetta er mál, sem ég hef oft haft aðstöðu til að ræða, en haft þá skoðun, að það ætti ekki endilega að binda saman bætur þessa sjóðs og bætur almannatrygginga, vegna þess að hér er um sjálfstæðan og aðskilinn sjóð að ræða, sem hefur sínar eigin tekjur, sem eru óháðar tekjum almannatrygginganna, og upplýst var nú nýlega hér í hv. d., hve stór og öflugur þessi sjóður er orðinn og hefur þess vegna vel efni á því að greiða bætur, ekki einhverja ölmusustyrki, heldur nánast laun, þegar menn eru atvinnulausir. Dagpeningar eru nú aðeins 150 kr. fyrir kvænta menn, fyrir giftar konur það sama og 135 kr. röskar fyrir einstaklinga, og þetta er ekki nema hluti af dagkaupi nú, rýr hluti, mundi ég segja, og með hverju barni allt að þremur eru greiddar núna 17 kr., og þetta er með vísitöluálagi. Það sjá náttúrlega allir, að hér er um mjög lágar upphæðir að ræða og ekki von til þess, að menn geti framfleytt fjölskyldum sínum af því.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál hér. Ég vil mjög taka undir einmitt þau rök, sem hér hafa verið flutt fyrir báðum þeim málum, sem hér um ræðir. Það er auðvitað ekki nokkurt réttlæti í því, að einmitt barnmörgu fjölskyldurnar skuli i raun og veru verða afskiptar, þegar verið er að úthluta styrkjum eða dagpeningum á þann hátt, sem hér er gert. Það mætti kannske segja, að það mætti vera eitthvert hámark bóta, t.d. miðað við laun, þannig að það færi ekki beinlínis að vera gróðavegur fyrir menn að vera á bótum úr slíkum sjóðum, en það á ekki að takmarka við barnafjöldann á þann hátt sem hér er gert. Ég sem sagt vil mjög eindregið taka undir efnisatriði þessa frv.