12.12.1966
Efri deild: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (2089)

87. mál, héraðsskóli í Austur- Skaftafellssýslu

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Fyrir

20 árum fór fram gagngerð endurskoðun á skólalöggjöf landsins. Þá voru sett lög um skólakerfi og fræðsluskyldu og í framhaldi af því ný lög um barnafræðslu og gagnfræðanám og menntaskóla. Helztu breyt. og nýmæli, sem gerð voru við þá endurskoðun, eru þau, að allir skólar skulu mynda samfellt skólakerfi og skólunum er skipt í fjögur stig, þ.e. barnafræðslustig, gagnfræðastig, menntaskóla- og sérskólastig og háskólastig, að skiptin milli skólastiga skyldu verða önnur að ýmsu leyti en áður var, þannig að barnaskólarnir störfuðu einu ári skemur en verið hafði, en gagnfræðanámið lengdist að sama skapi. Enn fremur, að menntaskólar yrðu fjögurra ára skólar í stað 6 ára, eins og þeir voru áður. Í þriðja lagi var ákveðið, að skólaskylda skyldi lengd. Í fjórða lagi var stefnt að því að koma á sem jafnastri aðstöðu til skólagöngu, hvar svo sem æskufólk er búsett í landinu. Landsprófið var liður í þessu, þar sem nemendur áttu að geta tekið inntökupróf upp í menntaskólana í skólum gagnfræðastigsins víðs vegar úti um land. Og í fimmta lagi var að því stefnt, að aukin skyldi fjölbreytni í skólastarfinu.

Það kemur greinilega fram í grg. með frv. um skólakerfi og fræðsluskyldu, hvað lögð var rík áherzla á það af þeim, sem undirbjuggu skólalöggjöfina fyrir 20 árum, að sem mestur jöfnuður yrði um aðstöðu fólks til skólagöngu. Í þessari grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það, sem einkum vakir fyrir n. við skólaskipan þessa stigs,“ þ.e. gagnfræðastigsins, er það, að fræðslan verði nægilega fjölbreytt og hagnýt og dregið verði úr þeim aðstöðumun, sem misjafn fjárhagur og búsetuskilyrði hafa valdið. Hver unglingur á þessu aldursskeiði þarf að fá þá fræðslu, sem bezt á við hæfileika hans og áhugaefni og helzt getur komið honum að notum, hvort sem hann heldur áfram námi eða hverfur að atvinnu. Efnahagur eða búseta má ekki valda torfærum. Hvert mannsefni þarf að koma til skila.”

Nú hefur þessi skólalöggjöf verið í gildi í 20 ár, og því miður er reynslan sú, að eftir þennan tíma vantar mikið á, að fullur jöfnuður sé um aðstöðu ungmenna í landinu til skólagöngu. Kemur þar m.a. til, að í sumum landshlutum vantar enn þá tilfinnanlega skóla, einkum á gagnfræðastiginu. En með skólalöggjöfinni var stefnt að því, að hver sýsla og hver kaupstaður væri fræðsluhérað og í hverju fræðsluhéraði skyldi vera einn gagnfræðaskóli hið minnsta. Þessu ákvæði laganna var að sönnu breytt síðar, en að þessu var stefnt með lagasetningunni fyrir 20 árum.

Þegar þessi endurskoðun skólalöggjafarinnar var gerð, sem ég hef nú drepið á, voru starfandi í landinu nokkrir héraðsskólar, sem höfðu þá þegar 10—20 ára starfsferil að baki. Þeir skólar höfðu verið reistir fyrir forgöngu héraðanna, þar sem þeir voru stofnsettir og störfuðu, en með ríflegum stuðningi ríkisins. En með hinni nýju skólalöggjöf voru gerðar tvær veigamiklar breytingar á aðstöðu héraðsskólanna. Áður höfðu þeir verið að lögum sjálfseignarstofnanir, sem héruðin höfðu haft forgöngu um að reisa og sáu um rekstur á og skipuðu stjórn skólanna. En með lögunum um gagnfræðanám, sem sett voru 1946, var eignarrétti héraðsskólanna breytt, þannig að þá var kveðið svo á, að þeir skyldu vera sameign ríkisins og hlutaðeigandi sveitarfélaga, þannig að eignarhluti ríkisins væri 3/4, en hluti hlutaðeigandi sveitarfélags 1/4 og stofnkostnaður, að því er snertir viðbætur eða nýja skóla, skyldi greiddur í þessum hlutföllum. Hin meginbreytingin, sem gerð var á aðstöðu héraðsskólanna, var sú, að námsefni þeirra var fellt inn í hið samræmda skólakerfi. Þeir áttu að gegna því hlutverki í skólakerfinu að veita æskufólki í þeim héruðum, þar sem þessir skólar starfa, aðstöðu til fullkomins gagnfræðanáms. Þetta kemur einnig fram í grg. fyrir l. um skólakerfi og fræðsluskyldu, því að þar segir svo um stöðu héraðsskólanna í skólakerfinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Héraðsskólar þeir, sem nú eru til, mundu taka þar við og nokkrir fleiri rísa upp til viðbótar. Þeir yrðu yfirleitt tveggja vetra skólar og tækju við þeim, sem lokið hefðu unglingaprófi. Þó gæti komið til greina að hafa eina ársdeild neðan við til þess að jafna aðstöðumun, ef nemendur yrðu misvel undirbúnir. Eftir fyrri veturinn í héraðsgagnfræðaskóla gætu nemendur þreytt miðskólapróf, en siðari veturinn yrði helgaður hagnýtu námi, hliðstæðu við nám í fjórða bekk gagnfræðaskólanna í kaupstöðunum.“

En þrátt fyrir það, þó að stefnan að þessu leyti væri mörkuð á þennan hátt fyrir 20 árum, hefur framkvæmdin orðið sú, að enginn héraðsskóli hefur verið byggður síðan 1949. Skógaskóli er yngstur á meðal menntastofnana, sem nefna má þessu nafni, og hann tók til starfa haustið 1949. Og nú er svo komið, að í sumum héruðum verða skólarnir, sem eiga að gegna því hlutverki að veita fullnægjandi aðstöðu til gagnfræðanáms fyrir sveitaæskuna, að synja fjölmörgum umsækjendum um skólavist. Afleiðingarnar fyrir nemendurna eru þær, að annaðhvort verða þeir að fresta um sinn gagnfræðanámi og missa þá oft dýrmætan tíma eða jafnvel að þeir hverfa algerlega frá framhaldsnámi. Þegar ástæður eru þannig, má með sanni segja, að mikið skorti á, að æskufólkinu í landinu sé af þjóðfélagsins hálfu búin fullnægjandi aðstaða að þessu leyti.

Ég skal ekki fara að gera hér að umtalsefni í löngu máli, hvaða orsakir kunna að vera til þess, að svona er komið. Þær orsakir geta verið af ýmsum toga spunnar og jafnvel ekki alls staðar þær sömu. En ég tel, að um þennan þátt skólamála hafi að undanförnu ekki verið nægileg örvun af hendi ríkisvaldsins. Þó að ýmislegt hafi verið gert og sumt vel á sviði skólamála, hefur allt annað setið í fyrirrúmi en það að fjölga héraðsskólum í landinu eða bæta aðstöðu þeirra, sem fyrir eru.

Annað, sem kemur til greina í þessu sambandi, er það, að með sívaxandi verðbólgu vex hröðum skrefum sá kostnaður, sem því fylgir að koma upp slíkri menntastofnun sem héraðsskóli er. Á hinn bóginn hafa tekjustofnar sýslufélaganna staðið nær óbreyttir um mjög langt skeið, og nú er svo komið, að sýslufélögin hafa yfirleitt úr litlu að spila til þess að taka á sínar herðar þungar fjárhagsbyrðar eða ráðast i kostnaðarsamar framkvæmdir. Þetta hefur Alþingi að vissu leyti viðurkennt, því að ég minnist þess, að fyrir eigi löngu var hér til umr. á þingi till. um það, að nauðsyn bæri til þess að láta endurskoða tekjustofna sýslufélaganna, og mig minnir, að sú till. væri samþ. og afgr. sem ályktun Alþingis.

Það hefur einnig komið í ljós í sambandi við starfsemi héraðsskólanna, að fjárhagur þeirra hefur orðið mjög óhægur og þeir hafa átt erfitt með að ráðast í þær framkvæmdir, sem nauðsyn bar til, vegna viðbóta eða nauðsynlegs viðhalds, og af þeim ástæðum var það, að á þinginu 1961 var enn gerð breyt. á eignarrétti og aðstöðu héraðsskólanna, þeirra sem starfað hafa um áratugi, með sérstakri löggjöf, sem eru l. nr. 34 frá 1962. Flm. að því frv. voru 4 þm. úr Sjálfstfl., og átti það tiltölulega góðum skilningi að mæta hér á hv. Alþingi og tiltölulega greiðan gang í gegnum þingið. En með þeirri löggjöf, l. nr. 34 frá 1962, var skrefið stigið að fullu, þannig, að héraðsskólarnir verða, ef hlutaðeigandi héruð leita samninga um það á grundvelli laganna, séreign ríkisins. Og nú mun það vera svo, að flest þau héruð, sem að þessum menntastofnunum standa, hafa notfært sér ákvæði þessara laga, og munu flestir þessara skóla þegar vera orðnir séreign ríkisins. Þegar þetta skref var stigið í löggjöfinni, mátti mönnum vera það ljóst, að með því hlyti í raun og veru að vera mörkuð sú stefna af löggjafans hálfu, að ríkið kostaði og hefði á sínum vegum rekstur allra héraðsskóla í landinu, ekki einungis þeirra, sem l. frá 1962 sérstaklega taka til, heldur og nýrra héraðsskóla, sem reistir kynnu að verða. Ég lét þessa skoðun í ljós við afgreiðslu frv. á þingi 1961—1962 og lét atkv. mínu um það mál fylgja hér í þessari hv. d. svofelldan fyrirvara, eins og Alþingistíðindin votta, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég lít þannig á og vil láta það koma fram í umr. um þetta mál, að með þessu frv. sé tekin upp ný stefna um greiðslu kostnaðar þeirra skóla, sem hér um ræðir, og eignarrétt á þeim. Hér er að mínum dómi skapað fordæmi, þannig að sú nýja regla, sem Alþ. lögfestir nú í þessu máli, hljóti að gilda um nýja héraðsskóla, sem reistir kunna að verða, þótt svo sé ekki fyrir mælt í þessu frv., eins og það nú er orðað. Með þessum skilningi greiði ég atkv. með frv. óbreyttu, eins og það liggur hér fyrir.“

Aðstaðan á Suðausturlandi er í þessu efni mjög erfið. Eiðaskóli starfar á Fljótsdalshéraði, eins og kunnugt er, og er aðalmenntastofnun Austurlands, a.m.k. sveitahreppanna, á gagnfræðastiginu. En Eiðaskóli er ein af þeim menntastofnunum, sem ekki hafa getað fullnægt eftirspurn nemenda um skólavist nándarnærri eins og þörf hefði verið á. Umsókn um þennan skóla hefur hin síðari ár verið svo mikil, að það hefur orðið að synja fjölmörgum um skólavist árlega. Þetta skapar að sjálfsögðu mikla erfiðleika fyrir þá nemendur, sem komast ekki þarna að til skólavistar, eins og ég hef áður drepið á. Síðan er enginn fullkominn gagnfræðaskóli á svæðinu frá Eiðum á Fljótsdalshéraði að Skógum í Rangárvallasýslu. Fólksfjöldi á þessu svæði er þó allmikill og vegalengdir mjög miklar, svo að það er af þeim ástæðum fullkomlega eðlilegt, að á þessu svæði verði reistur sem fyrst fullkominn og vel búinn skóli, er veiti fræðslu á gagnfræðastiginu. Þetta hefur um nokkurt árabil verið áhugamál Austur-Skaftfellinga og það hefur oft verið rætt þar á fundum heima í héraðinu og með ýmsum hætti verið reynt að þoka þessu máli áleiðis, þó að frv. á þingi hafi ekki verið borið fram um þetta efni fyrr en nú. En þróun skólamála í Austur

Skaftafellssýslu er komin á það stig, að nokkurn veginn er ákveðið, með hverjum hætti séð verði framvegis fyrir barnafræðslu í héraðinu. Það er enn fremur nokkurn veginn ákveðið, hvernig séð verði fyrir aðstöðu unglinga til þess að ljúka námi á unglingastiginu, þ.e.a.s. fyrri hluta gagnfræðanáms. Það eru enn fremur teknar til starfa miðskóladeildir á Höfn og á Djúpavogi, sem eru vísir að fullkomnu skólahaldi á þessu svæði og bæta til bráðabirgða úr brýnustu þörf, en geta þó ekki veitt fullnægjandi aðstöðu á þessu sviði til frambúðar.

Á síðasta sýslufundi sýslunefndar A-Skaftafellssýslu var einróma samþykkt svofelld ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýslufundur Austur-Skaftfellinga 1966 telur, að brýn nauðsyn sé á því að byggja héraðsskóla (heimavistarskóla gagnfræðastigs) í sýslunni, en telur jafnframt, að útilokað sé, að sýslan geti staðið straum af stofn- og rekstrarkostnaði slíkrar stofnunar skv. lögum nr. 41/1955. Skorar sýslunefndin því fastlega á alþm. kjördæmisins að bera fram frv. á næsta Alþ. til breytinga á téðum lögum, þess efnis, .að ríkið láti byggja héraðsskóla í Austur-Skaftafellssýslu, sem sé eign ríkisins.“

Og fulltrúafundur bænda í Austur-Skaftafellssýslu, þar sem saman voru komnir 30 fulltrúar búsettir á víð og dreif um héraðið, tók eindregið í sama streng um miðjan nóv. s.l., því að þar var gerð með shlj atkv. allra fulltrúa svofelld ályktun:

„Fulltrúafundur bænda í Austur-Skaftafellssýslu, haldinn að Mánagarði dagana 12.—13. nóv. 1966, fagnar því, sem áunnizt hefur í skólamálum sýslunnar, sérstaklega með tilkomu miðskóladeildar á Höfn, og skorar á alþm. kjördæmisins að vinna að framgangi héraðsskólastofnunar í sýslunni i samræmi við tillögu frá sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu, er samþykkt var á sýslufundi 1966.“

Í samræmi við þessar áskoranir og í framhaldi af þeim umræðum og undirbúningi um þetta mál, sem farið hefur fram í Austur-Skaftafellssýslu á undanförnum árum, er nú þetta frv. hér fram borið.

Það er efni frv., að reisa skuli nýjan héraðsskóla í Austur-Skaftafellssýslu og sé hann búinn heimavist handa nemendum. Skóli þessi skuli reistur skv. áætlun, er menntmrh. í samráði við sýslunefnd lætur gera, og skuli við það miðað, að hafizt verði handa við smíði skólans eigi síðar en á árinu 1968 og skólinn verði fullgerður á eigi lengri tíma en 5 árum. Þá er kveðið svo á í frv. í samræmi við stöðu hinna eldri héraðsskóla og í samræmi við þá skoðun, sem ég hafði áður á þingi látið í ljós um það efni, að ríkissjóður beri allan kostnað af byggingu og rekstri þess héraðsskóla, sem lög þessi taka til, en sýslan skuli þó leggja skólanum til ókeypis skólastað. Þá eru ákvæði um námsefni og prófkröfur, að þær verði hinar sömu og eru í öðrum skólum, sem starfa á gagnfræðastiginu og eru sambærilegir. Og loks eru ákvæði í frv. um það, að ríki og sýslufélag eigi saman aðild að stjórn skólans, þannig að menntmrh. skipi tvo stjórnarmenn og annan þeirra formann, en sýslunefnd kjósi þrjá stjórnarmenn að fengnum tillögum fræðsluráðs.

Ég gat þess fyrr í þessari ræðu, að Eiðaskóli væri menntastofnun Austurlands, a.m.k. sveitahreppanna, á þessu skólastigi, gagnfræðastiginu, sem hér er sérstaklega rætt um. En Eiðaskóli er þannig settur, að 10 hreppar eru, að segja má, í næsta nágrenni við þá menntastofnun, eða allir hrepparnir á Fljótsdalshéraði. Hins vegar er Suður-Múlasýsla landfræðilega klofin sundur af fjallgörðum, sérstaklega af fjallgarðinum, sem myndar Breiðdalsheiði og gengur í sjó fram milli Breiðdals og Stöðvarfjarðar, svo að til skamms tíma hefur alls ekki verið fær vegur meðfram ströndinni á milli þessara byggðarlaga, þó að nú sé búið að koma þar færum vegi á milli byggðarlaganna. Það þykir því mjög koma til álita, að sá hluti Suður-Múlasýslu, sem liggur sunnan Breiðdalsheiðar, standi að héraðsskóla þeim, sem hér er rætt um, ásamt Austur-Skaftafellssýslu. Og ef svo yrði, mundu sýslunefndir beggja þessara sýslufélaga með nokkrum hætti verða aðilar að málinu, og er þá gert ráð fyrir því, ef svo skipast, að sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu kjósi tvo menn í skólanefnd, en sýslunefnd Suður-Múlasýslu einn.

Ég hef þá gert grein fyrir aðdraganda þessa máls og enn fremur helztu ákvæðum frv. og tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að svo stöddu, en legg til, að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.