18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2227)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að það er óhæfa að leggja vegáætlunina svona seint fram og brot á sjálfum vegal., og verður að gera ráð fyrir því, að menn dirfist ekki að endurtaka slíkt.

En ég kvaddi mér hljóðs til þess að mæla fyrir brtt. á þskj. 591 frá okkur 4 þm. af Austurlandi. Við hefðum að vísu viljað flytja fleiri brtt. og flytja m.a. nokkrar brtt. við þann kafla vegáætlunarinnar, sem ráðgerir bein framlög á árunum 1967—1968, en okkur var sagt það á þann hátt, að við tókum það trúanlegt, að það kæmi ekki til greina, að meiri hl. léði máls á því að breyta nokkrum stafkrók í þeim kafla áætlunarinnar, og sáum við þá ekki, þegar við slíkt ofurefli var að etja, að það þýddi að fara að flytja brtt. um þann kafla.

Aftur á móti kom það fram, að ætlunin var að hreyfa talsvert þann kafla áætlunarinnar, sem fjallar um þá vegi, sem lagðir verða, ef fjár verður sérstaklega aflað til þeirra síðar, og þá er átt við lánsfé, og því höfum við farið á stúfana með nokkrar brtt. á þskj. 591, og vil ég fara um þær örfáum orðum. En áður vil ég þó segja, að við þm., sem stöndum að þessum brtt., teljum það alveg hneykslanlegt, hversu Austurland hefur fengið lítið af því lánsfé, sem aflað hefur verið til vegagerða. En þar er þó þörfin einna mest á öllu landinu fyrir nýja vegi. Ég ætla ekki að rekja tölur í þessu sambandi, en væri reiðubúinn til að sýna fram á þetta með tölum, ef þetta yrði véfengt. Við viljum því vona það í lengstu lög, að hv. alþm. taki vel í þessar till., sem við flytjum á þskj. 191. En einstakir liðir þeirra eru þessir:

Fyrst að veita til Austurlandsvegar eða setja heimild vegna Austurlandsvegar 8 millj. hvort ár, en Austurlandsvegur er liður í hringbrautinni um landið, og á þessari hringbraut eða hringleið um Austurland, sem kölluð er Austurlandsvegur, eru margir tugir km ruðningar einir enn, og á það jafnt við ýmsa kafla á aðalleiðinni milli Norðurlands og Austurlands og á leiðinni Austurland—Suðurland, þ.e.a.s. áleiðis til móts við vegina á Suðurlandi. Þar eru mjög stórir kaflar enn þá ruðningar einir og ónothæfur vegur, má segja, miðað við nútíma farartæki. Ef þessi heimild yrði samþ. og notuð, mætti bæta úr á vissum köflum, byggja upp ýmsa kafla, bæði á aðalleiðinni milli Norður- og Austurlands og eins á þessari leið um Suðausturland, sem ég var að lýsa áðan, t.d. í Berufirðinum og víðar.

Þá er þannig ástatt á Austurlandi, að Vopnafjörður er ekki tengdur öðrum byggðum Austurlands. Þar eru þau missmíði á, að Hellisheiði er óvegur enn þá, þó að það sé jeppaleið, en búið er að byggja upp veg á heiðina auðaustanverða. og leggjum við til, að í þessa heiði verði heimilaðar af lánsfé 21.4 millj. hvort árið eða 5 millj. alls. Þetta mundi að vísu ekki nægja til þess að gera heiðina alla góða, en mundi þó hrökkva ærið langt í því skyni. En nú er þannig háttað, að til þess að ferðast af Austurlandi til Vopnafjarðar þarf að fara upp á Möðrudalsöræfi og síðan þaðan aftur niður í Vopnafjörð, og er þetta gífurleg vegalengd, en vegur yfir Hellisheiði mundi stytta leiðina til Vopnafjarðar um hundruð km. Og þá fyrst gæti maður sagt, að Vopnafjörður og byggðir þar norður af væru komnar í samband við Austurland. þegar vegurinn væri kominn yfir Hellisheiði.

Norðfjörður og Neskaupstaður eru mjög einangruð byggðarlög enn þá, þótt flugsamgöngur séu orðnar sæmilegar og þótt Oddsskarðsvegurinn sé í sjálfu sér dágóður vegur og vel gerður á minni tíð. Þessi byggðarlög eru mjög einangruð, svo að til stórtjóns er fyrir þau, og ekki aðeins fyrir þau, heldur aðra landsmenn líka, því að Neskaupstaður er vaxandi framleiðslustöð, sem allir þekkja, og gífurleg verðmæti, sem þar koma að landi, og þyrfti að vera öruggt samband við það byggðarlag. En því fer fjarri, að svo sé, vegna þess, hversu Oddsskarðsvegurinn liggur hátt, en þannig er háttað landslagi á þessum slóðum, að ef gerð væru jarðgöng í skarðinu, mundi það lækka fjallveginn verulega og verða til þess að öllum líkindum, að Oddsskarð yrði nær alltaf fært, ef vel væri gætt að hreinsa af veginum með nýtízku tækjum. Það mundi sem sagt gerbreyta þessari leið, ef þessi jarðgöng yrðu gerð. Að vísu skal það játað, að það er ekki búið að rannsaka alveg til fulls, hvernig berglögin eru í skarðinu, en þó er það talið víst, að þarna muni vera vel fallið til jarðgangagerðar, og sú fjárhæð, sem við stingum upp á, 6 millj. hvort árið, mundi að öllum líkindum fara nokkuð langt með að duga til þess að komast þarna í gegn, og sjáum við þá, að hér er alls ekki um stórvirki að ræða samanborið við byltingu þá, sem yrði í samgöngumálum, ef þetta kæmist í framkvæmd, því að 12 millj. eru ekki nema svo sem eins og andvirði tiltölulega lítils mótorbáts, eins og nú er komið málum.

En til viðbótar því, sem ég færði fram áðan og nefndi til stuðnings því, hve mikil nauðsyn væri á að hafa góðar samgöngur við Neskaupstað, er þess að gæta., að þar er myndarlegt sjúkrahús rekið fyrir allt Austurland, og á marga aðra lund er Neskaupstaður eins konar miðstöð fyrir fjarðarbyggðirnar á Austurlandi, og væri því mjög þýðingarmikið einnig af þeim ástæðum að koma þarna á öruggum samgöngum á landi.

Loks er till. um að heimila 3 millj. hvort árið til Fjarðarheiðarvegar. Seyðisfjörður er nú orðinn eitt mesta framleiðslupláss á landinu, en samband er þar mjög lélegt á landi yfir Fjarðarheiði, sem er einn hæsti fjallvegur landsins. Vegurinn er þar mjög lélegur, þ.e.a.s. hann er afar mjór og allt of lágur og liggur ekki á heppilegustu slóðum. En vel upp byggður nýtízkuvegur mundi langt hrökkva til þess, að ætíð yrði hægt að hafa samgöngur á landi við Seyðisfjörð, en þangað fara nú gífurlegir flutningar, sem verða að fara fram á landi að verulegu leyti. Þetta ætla ég, að hv. þm. sé alveg augljóst og að það sé mjög sanngjarnt að heimila nokkrar fjárhæðir til þess að byrja á þessum vegi. Þetta mundi náttúrlega ekki hrökkva til þess að ljúka honum, en það mundi verða stór áfangi þó, sem fengist fyrir þessar 6 millj., og er það ekki hærri fjárhæð en sem svarar vænum trillubát, eins og nú er komið málum.

Ég hygg, að menn hafi í raun og veru alls ekki áttað sig á því, hversu mikið vantar á, að ýmiss konar þjónusta hafi verið innt af hendi við Austurland, miðað við þá stórkostlegu atvinnubyltingu, sem þar hefur orðið, því að segja má, að þar sé um fullkomna byltingu að ræða, og þarna eru komin blómleg framleiðslupláss, sem allir landsmenn byggja orðið afkomu sína á að meira eða minna leyti. En þjónustan er í algeru ósamræmi við þýðingu þessara byggðarlaga, eins og nú er komið, og á það við um samgöngur á landi, samgöngur á sjó og raunar í lofti líka og alls konar þjónustustarfsemi. Úr því verður raunar ekki bætt til neinnar hlítar í sambandi við þessa vegáætlun, en ég vil vona, að hv. þm. taki vel þessum uppástungum, sem hér eru gerðar til þess að stíga þessi skref í samgöngumálum Austurlands, og þau eru byggð á mikilli sanngirni. Það er óhætt að fullyrða, að svo er, þegar borið er saman við það, sem fyrirhugað er að gera fyrir lánsfé.