18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (2228)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þó að það væri full ástæða til þess að gera þessar till. að endurskoðaðri vegáætlun í heild að umræðuefni og þá einnig þá meðferð, sem hún hefur fengið hér á hv. Alþ., og þær aðstæður, sem hafa verið til afgreiðslu hennar, skal ég þó eftir atvikum láta mér nægja að mæla fyrir þeim brtt., sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. Sunnl. og hv. 4. þm. Sunnl. Það er um að ræða tvær brtt. á þskj. 562. Þessar till. lúta báðar að III. kafla vegáætlunarinnar, sem eru um framkvæmdir, sem verða ekki að öllu leyti greiddar af fé vegasjóðs á áætlunartímabilinu.

Önnur er við hraðbrautargreinina í þeim kafla, um Suðurlandsveg, að hækka þær heimildir, sem þar er að finna fyrir árin 1967 og 1968. Ég ætla ekki hér að taka tíma til þess að ræða um nauðsynina á því, að ekki sé lengur dregið að ráðast í framkvæmdir í hraðbrautunum, því að það hefur verið gert við ýmis tækifæri hér á hv. Alþ. En við flm. þessara brtt. teljum, að við eigum ekki að draga lengur að hefja þær framkvæmdir á þessu sviði, sem undirbúningur og tæknilegir möguleikar leyfa. Okkur virðist, að þær upphæðir, sem hér er gert ráð fyrir í till., eins og þær liggja fyrir, séu ekki í samræmi við neina raunverulega áfanga þess verks, sem um er að ræða, og hafi þær verið það, þegar vegáætlunin var upprunalega samþykkt, er mér nær að halda, að þær séu það ekki lengur. Ég hef leitað upplýsinga á vegamálaskrifstofunni um það, hvernig ástatt er um undirbúning þessa verks og framkvæmdamöguleika á þessu sviði. Vegamálastjóri hefur tjáð mér, að lokið sé tæknilegum undirbúningi undir lagningu hraðbrautarinnar frá Lækjarbotnum og upp að Svínahrauni og gert sé ráð fyrir, að kostnaður við þá framkvæmd sé um 40 millj. kr., og það er enn fremur skoðun vegamálastjórans, að framkvæmanlegt sé með þeim tæknilegu möguleikum, sem hann getur ráðið yfir, að Ijúka því verki á einu ári. Við þetta miðast till. okkar um það, að heimildin fyrir árið 1967 sé hækkuð upp í 40 millj. kr. úr 17 1/2, eins og hún er í till. eins og þær liggja nú fyrir.

Með sama hætti er talið, að fyrir næsta vor sé unnt að ljúka verkfræðilegum undirbúningi undir næsta áfanga þessa verks, sem þá yrði frá Lækjarbotnum og niður fyrir Rauðavatn, niður undir hraðbrautarkerfið, sem hér kemur í kringum Reykjavík. Gert er ráð fyrir, að kostnaður við það verk, og þá er átt við báða þessa vegarkafla fullfrágengna með slitlagi, muni nema um 66 millj. kr., sem einnig væri kleift að framkvæma á einu ári, og við það miðast till. okkar um árið 1968.

Ég held ekki, að það sé ástæða til þess hér að vera að færa frekari rök að nauðsyn þess, að þessi hraðbraut sé nú sett í framkvæmd. Hér er um að ræða þýðingarmesta aðdráttarveg höfuðborgarsvæðisins og samgönguæð til Suðurlandsundirlendisins, og það er öllum ljóst, sem þennan veg þekkja, að hann stenzt nú ekki lengur það álag, sem á honum er, og er brýnna úrbóta þörf.

Hin till. okkar á þskj. 562 er við 3. lið þessa kafla vegáætlunarinnar, landsbrautir, og gerir ráð fyrir heimildum til þess að verja nokkru fé til rannsókna brúarstæðis og undirbúning brúarbyggingar á Ölfusá við Óseyrarnes. Ég held, að það fari ekki milli mála, að það sé skoðun flestra, sem til þekkja, að þarna muni koma brú. Auðvitað eru menn misbjartsýnir á það, hve fljótt það muni ske. Hér er áreiðanlega um mjög fjárfreka framkvæmd að ræða. Kostnaður við hana hlýtur að skipta tugum millj. En áður en hægt er að ræða í fullri alvöru um þá framkvæmd og gera sér grein fyrir henni, þurfa að fara fram þarna umfangsmiklar og alldýrar rannsóknir. Vegamálastjóri telur, að slíkar rannsóknir, jarðboranir og undirbúningur af fleira tagi geti kostað allt að 2 millj. kr., og þar sem hér er um að ræða framkvæmd, sem hefur mikla þýðingu fyrir þéttbýlt og stórt hérað, þessi brú mundi tengja saman sjávarþorpin beggja vegna Ölfusárósa í Árnessýslu og auk þess skapa möguleika á hringvegi um þorpin 5 í vestanverðri Árnessýslu, og til þess að það sé hægt að gera sér fyllilega grein fyrir þessari framkvæmd, verða allumfangsmiklar framkvæmdir að fara fram, eins og ég hef gert grein fyrir, og við leggjum þess vegna til, að það verði ekki dregið að láta þessar rannsóknir fara fram, svo að hægt verði að gera sér grein fyrir þessu verki.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þm. muni skilja nauðsynina á því að greiða fyrir þessu hvoru tveggja, sem ég hef gert að umræðuefni. Því miður hafa ekki verið raunhæfir möguleikar á öðru en að gera þessar till. sem brtt. við þennan III. kafla, áætlunarinnar, þar sem fjármunir hafa ekki verið til ráðstöfunar í þessu skyni og till., sem við framsóknarmenn höfum flutt og til meðferðar hafa verið fyrr á þessu þingi, hafa ekki fengið afgreiðslu, en þar á ég þæði við frv. okkar framsóknarmanna í hv. Ed. um það, að leyfisgjöldin skuli renna í vegasjóð, og eins við till., sem fluttar voru sem brtt. við l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunarinnar, þar sem við lögðum til, að ráðstafað væri meira af greiðsluafgangi ríkisins til vegagerðar. En þar sem slíkar till. hafa ekki fengið afgreiðslu, hefur ekki verið um annað að ræða en að gera brtt. við þennan III. kafla, og við teljum, að mikið væri unnið við að fá þessi verk þar inn. Það koma tímar og koma ráð með að afla fjár, ef þessar heimildir komast inn í vegáætlunina.