08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (2261)

13. mál, hlutverk Seðlabankans að tryggja atvinnuvegunum lánsfé

Fram, meiri hl. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessarar till. Efni hennar er ásökun á Seðlabankann um, að hann gegni ekki skyldu sinni samkv. Seðlabankalögunum, og áskorun á ríkisstj. um, að hún vandi um við hann fyrir þessa meintu vanrækslu, sem flm. telja að sé, að hann sjái ekki um hæfilegt lánsfé til atvinnuveganna, en hafi þó yfir nógu lánafé að ráða, eins og látið er liggja að.

Mál þetta var rætt allýtarlega, áður en því var vísað til n., og kom mjög greinilega fram, að Seðlabankinn liggur ekki á neinu ónotuðu fé. Það var enn fremur upplýst, að á 12 síðustu mánuðunum, sem upplýsingar lágu fyrir um, nam útlánaaukning bankakerfisins yfir 1700 millj. kr., en innlánaaukning kerfisins á sama tíma rúmum 1200 millj. Útlánaaukningin hefur því farið nærri 500 millj. kr. fram úr sparifjáraukningunni. Ef hv. flm. telja, að hér hafi ekki verið nógu langt gengið, ættu þeir a.m.k. ekki í sömu andránni að vera að tala um verðbólgu. Það er of mikið ósamræmi í málflutningi til þess, að þeir geti verið þekktir fyrir það. Það væri að stíga á benzínið með öðrum fætinum, en hemlana með hinum. Það væri líka í ósamræmi við alla þekkingu á efnahagsmálum og í ósamræmi við þeirra eigin kenningar, þegar þeir báru sjálfir ábyrgð á stjórn landsins, og var þá beinlínis þeirra eigin afsökun á því, að þeir gátu ekki fullnægt lánsfjárþörfinni, og var það bagalegra þá en nú er.

Það var einnig upplýst við fyrri hluta umr., að öllu fjármagni Seðlabankans væri ráðstafað. Fjármagnið lægi allt annars vegar í gjaldeyrisvarasjóðnum og hins vegar í endurkeyptum afurðavíxlum. Auk þess að tryggja gjaldeyrisvarasjóðinn er innstæðubindingin, eins og nú standa sakir, eingöngu hagstjórnartæki til að tryggja það, að sparifé landsmanna gangi að miklu leyti til hinnar nauðsynlegustu framleiðslu. Hið sanna í málinu er því það, að lánastarfsemi Seðlabankans er ekki fyrst og fremst, heldur eingöngu miðuð víð þarfir atvinnuveganna, og ásökun flm. till. í garð Seðlabankans er því vægast sagt óréttmæt. Þess vegna leggur meiri hl. n. til, að till. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá.

Það er ákaflega auðvelt fyrir áróðursmenn að tala um lánsfjárskort. Lánsfjárskorturinn er illa skilgreint hugtak. Ef flm. eiga við, að lánsfjáreftirspurninni sé ekki fullnægt, er það vissulega rétt hjá þeim. En lánsfjárþörfinni í þeim skilningi hefur aldrei verið fullnægt á Íslandi, a.m.k. ekki síðan nútíma uppbygging byrjaði hér á landi. nema þá kannske á stríðsárunum. Lánsfjárþörf í þessum skilningi er varla hægt að fullnægja hjá þjóð, sem brýzt úr kútnum á fáum áratugum, byggir upp atvinnulíf sitt og byggir óvenjulega góðar og vandaðar íbúðir yfir svo að segja alla þjóðina á skömmum tíma.

Uppbygging atvinnuveganna og efnahagsvöxtur íslenzku þjóðarinnar á skömmum tíma er átak, sem ekki getur átt sér stað án vaxtarverkja. Og sú uppbygging hefur aldrei verið hraðari en á stjórnarárum núv. ríkisstj. Á verðbólgutímum verður svo að vonum enn erfiðara að fullnægja lánsfjáreftirspurninni og þegar svo er komið, að vöntun er á vinnuafli, verður útlánastarfsemin vandasöm og getur orðið tvíeggjuð fyrir atvinnuvegina, ef ekki er rétt á haldið. Enda er svo fyrir mælt í Seðlabankal., að framboð lánsfjár skuli m.a. miða við það, að verðlag haldist stöðugt. Í gjaldeyrissjóðnum felst sparnaður, sem vissulega hefur hamlað verðbólgu, þó að ekki hafi verið komið í veg fyrir hana.

Það ber því allt að sama brunni með það, að starfsemi Seðlabankans er hagstjórnartæki, sem fyrst og fremst er miðuð við þarfir atvinnuveganna. Það er að vísu rétt, að það er vandratað meðalhófið um það að viðhalda nægri eftirspurn og fullri atvinnu annars vegar og föstu verðlagi hins vegar. Stjórn Seðlabankans og ríkisstj. verður hins vegar ekki ásökuð um það, að ekki hafi verið kappkostað að viðhalda fullri atvinnu og öllum atvinnutækjum í fullum gangi, eftir því sem vinnuafi hefur leyft. Vandi framleiðslunnar er hið háa verðlag innanlands.

Till. hv. flm. þessarar till. felur raunverulega í sér aukna seðlaprentun, eyðingu gjaldeyrisvarasjóðsins og aukna verðbólgu. Till., ef samþ. yrði, mundi því auka á vanda atvinnuveganna, en ekki leysa hann. Ásökunin, sem í till. felst, er því óréttmæt, og meiri hl. n. leggur til, að henni verði vísað frá með rökstuddri dagskrá.