16.11.1966
Sameinað þing: 10. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (2277)

12. mál, endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hafði aðallega ætlað mér að beina máli mínu að hæstv. forsrh., vegna þess að hann lét allmörg orð falla í minn garð, þegar þetta mál var hér seinast til umr., en meðan það dregst, að menn komi í salinn, get ég snúið máli mínu að hæstv. iðnmrh., sem einnig lét nokkur orð falla um þetta mál, þegar það var síðast rætt hér.

Hæstv. iðnmrh. reyndi einkum að færa það þessu máli til foráttu, að það væri erfitt í framkvæmd, og auglýsti eftir því, hvernig flm. þessa máls hefðu hugsað sér, að framkvæmdum væri háttað í þessum efnum. Ég held, að það sé einna fljótlegast að svara þessu með því að vísa til þeirrar grg., sem fylgdi þessari till., þegar hún var upphaflega lögð fyrir Alþ. af Sveini Guðmundssyni, hv. núv. 10. þm. Reykv. Í grg. fyrir till. segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Í l6. gr. l. nr. 63 frá 1957 segir svo: „Stjórn Seðlabankans ákveður að höfðu samráði við ríkisstj., eftir hvaða reglum Seðlabankinn kaupir afurðavíxla af viðskiptabönkum sínum.“ Í reglugerð Seðlabankans er þetta frekar skýrt, sbr. 30. gr. reglugerðarinnar. Það er gild regla Seðlabankans að endurkaupa afurðavíxla sjávarútvegs og landbúnaðar að 2/3 áætlaðs söluverðs til a.m.k. 6 mánaða. Slík regla mun einnig hafa verið tekin upp við framleiðslu áburðarverksmiðjunnar. Nauðsyn ber til, að aðrar framleiðslugreinar njóti sama réttar, m.a. sementsverksmiðjan, þegar hún tekur til starfa, svo og iðnaðurinn almennt.“

Ég held, að ég þurfi ekki að lesa meira en þetta úr grg. til að skýra það fyrir hæstv. iðnmrh., hvernig flm. þessa máls hafa hugsað sér, að þetta yrði framkvæmt, eða með þeim hætti, að það væri áætlað söluverð þeirrar framleiðslu, sem iðnaðurinn framleiðir, og lánað sé út á hana sem nemur 2/3 áætlaðs söluverðs til a.m.k. 6 mánaða. Þetta virðist vera sú aðalregla, sem flm. þessa máls hafa ætlað sér. Hitt er rétt, að í vissum tilfellum kann að þurfa að víkja eitthvað frá þessu, en þó þannig að svipuðum tilgangi verði náð. Ég held, að með þessari tilvitnun í grg. hins upphaflega flm. sé því fullsvarað, hvernig menn hugsi sér þetta í framkvæmd, og það sé meira en framkvæmanlegt, ef vilji er fyrir hendi.

Ég vík þá að öðru atriði, sem kom fram hjá hæstv. iðnmrh. Hann var að fullyrða það, að hér væri um sýndartill. að ræða, það væri hrein sýndarmennska að vera að flytja þetta mál. Ég held, að ég geti bezt svarað þessu með því að vitna til þeirrar framsöguræðu, sem Sveinn Guðmundsson, hv. núv. 10. þm. Reykv., flutti, þegar hann mælti fyrir þessari till, hér á Alþ. upphaflega, en það vita allir, að þann hv. þm. brestur ekki kunnugleika á iðnaðarmálum og ætti því að geta gerst sagt um það, hvaða þýðingu þessi till. mundi hafa. En honum farast svo orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er fróðlegt að gera sér grein fyrir, á hvern hátt framborin þáltill. mundi verka í framkvæmd. Með framkvæmd till. mundi skapast hér myndarleg fjöldaframleiðsla á mörgum hlutum.“ — Ég vil aðeins skjóta inn, að það er fjöldaframleiðsla, sem hæstv. forsrh. virðist sérstaklega bera fyrir brjósti. Svo heldur áfram: „Framleiðendur mundu selja viðskiptabönkum sínum efnis- og framleiðsluvíxla, en viðskiptabankinn endurselja þá eftir þeim reglum, sem Seðlabankinn mundi setja í samráði við hæstv. ríkisstj. Hvað mundi svo þetta leiða af sér? Framleiðandinn hefði bolmagn til hagkvæmari innkaupa á efnivöru. Í stað þess að framleiða vöru á dýran hátt í smáum stíl mundi hann að sjálfsögðu framleiða slíka vöru í fjöldaframleiðslu, og útkoman verður ódýrari vara, meiri framleiðsla, betri afkoma almennings. Sama má segja um verksmiðjuiðnaðinn almennt. Hann mundi fá möguleika til hagkvæmari rekstrar, fjölbreyttari framleiðslu, betri skipulagningar og jafnframt ódýrari framleiðsflu. Sem sagt, stefnt í rétta átt til hasældar fyrir alla. Þannig er hægt að taka dæmin víðs vegar úr íslenzkum iðnaði. Í dag takmarkast tæknin vegna fjárskorts.“

Ég sé ekki ástæðu til að lesa þetta lengra, en ég held, að þessi ummæli hv. 10. þm. Reykv., sem er manna fróðastur um iðnaðarmál, sýni það, að hér sé ekki neitt sýndarmál á ferðinni, og til enn frekari áréttingar því, að svo sé ekki, vil ég leyfa mér að lesa hér upp úr forustugrein, sem birtist í blaðinu Íslenzkur iðnaður, sem gefið er út af Félagi ísl. iðnrekenda, í októberhefti blaðsins þetta ár, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1958 samþykkti Alþ. till. til þál. um endurkaup Seðlabankans á framleiðslu og hráefnavíxlum iðnaðarins. Það er hins vegar ekki fyrr en á yfirstandandi ári, sem byrjað er á því að framkvæma þá viljayfirlýsingu, en þó í afar litlum mæli. Varðandi endurkaup afurðavíxla almennt er í þessu sambandi rétt að minna á, að ein meginforsenda innlánabindingar Seðlabankans er sögð vera, að með henni eigi að vega upp á móti endurkaupum Seðlabankans á afurðavíxlum. Innlánabindingin hefur hins vegar skert útlánagetu þess banka, sem einkum hefur að markmiði fjárhagslega fyrirgreiðslu við iðnaðinn, en fram til þessa hafa verið bundnar um 85 millj. kr. af fé Iðnaðarbankans í Seðlabankanum. Það skal viðurkennt, að innlánsbinding af hálfu Seðlabankans er eitt nauðsynlegra tækja hans til þess að draga úr eftirspurn og þenslu, en iðnaðurinn getur hins vegar ekki sætt sig við, að henni sé beitt til þess að draga frá honum eðlilega fjármagnsmyndun til þess að beina henni til annarra atvinnuvega Því er ekki að leyna, að endurkaup hráefna- og framleiðsluvíxla iðnaðarins hafa strandað á mikilli tregðu Seðlabankans og því borið við, að framkvæmd þeirra væri afar erfið og flókin. Iðnaðurinn getur þó engan veginn sætt sig við, að úrlausn vandamála hans verði látin standa á því. Sé það þannig, að framkvæmd endurkaupa hráefna- og framleiðsluvíxla sé svo flókin, er það krafa iðnaðarins, að leiðir verði fundnar, er jafngildi þeirri fyrirgreiðslu, sem endurkaup framleiðslu- og hráefnavíxla væru, næðu þau fram að ganga“

Ég held, að þessi ummæli, sem tekin eru nú alveg nýlega úr aðalmálgagni íslenzkra iðnrekenda, sýni það, að hér sé ekki um neitt smámál að ræða. Og það er eðlileg krafa þeirra, að ef ríkisstj. af einhverjum ástæðum eða umráðamenn Seðlabankans vilja ekki framkvæma þá leið, sem þessi till. fjallar um, verði a.m.k. í staðinn fundin önnur leið, sem tryggi iðnaðinum hliðstæðan ávinning. En á því hefur ekkert bólað af hálfu hæstv. ríkisstj. Hún hefur aðeins klifað á því, sem ekki er rétt, að þessi leið sé óframkvæmanleg, en ekki bent á neitt annað til þess að koma þar í staðinn, eða m.ö.o., hún vill viðhalda þeim lánsfjárskorti, sem iðnaðurinn hefur búið við hvað rekstrarlánin snertir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða meira við hæstv. iðnmrh., en ég get ekki látið hjá líða vegna ýmissa ummæla, sem hæstv. forsrh. lét hér falla, þegar þetta mál var hér til umr. í hv. þingi fyrir hálfum mánuði, að snúa mér að nokkrum þeirra.

Ég held, að ég víki fyrst að því, sem ráðh. sagði um verðbólguna. Hann talaði mjög mannalega um verðbólguna og kvaðst vera reiðubúinn til þess að ræða það mál við hvern sem væri og sem oftast. Og það er ekki nema gott um það að segja, því að það er þó „alltaf búningsbót að bera sig karlmannlega,“ en ég er ekki viss um það, að í raun og veru sé hæstv. ráðh. eins fús til að ræða um þessi mál og hann vildi vera láta. En það var tvennt, sem ráðh. lagði einkum áherzlu á í sambandi við það, sem hann sagði um verðbólgumálin. Í fyrsta lagi var það, að núv. ríkisstj. hefði eiginlega gert allt, sem hægt væri að gera, til þess að sporna gegn verðbólgu, og í öðru lagi, að stjórnarandstæðingar og þá ekki sízt ég sem ritstjóri við eitt stjórnarandstöðublaðið hefðum gert allt til þess að reyna að spenna verðbólguna sem mest upp, og nefndi hann nokkur dæmi þess, sem ég skal koma að síðar.

Ég vil nú fyrst víkja að því, hvort hæstv. ríkisstj. hefur gert allt það, sem talið væri eðlilegt og nauðsynlegt og sjálfsagt til þess að vinna gegn verðbólgunni. Ég veit, að hæstv. ráðh. tekur það ekki gilt, þó að ég haldi því fram, að svo sé ekki. En mér finnst ekki úr vegi í þessu sambandi að vitna til manns, sem ég veit að hæstv. ráðh. tekur áreiðanlega alvarlega, því að það er einmitt sá maður, sem er hans leiðarljós í efnahagsmálum og hann trúir, að því er virðist, alveg blint á. Þessi maður er Jóhannes Nordal bankastjóri Seðlabankans. Um sama leyti og hæstv. forsrh. var að fullyrða hér í d., að ríkisstj. hefði gert allt, sem eðlilegt og skynsamlegt væri að gera til þess að halda niðri verðbólgunni, var þessi maður, sem er hans lærimeistari og átrúnaðargoð í efnahagsmálum, að halda ræðu á fundi iðnrekenda hér í bænum. Og Morgunblaðið birti þessa ræðu bankastjórans undir fyrirsögninni: „Nauðsyn miklu öflugri hagstjórnartækja“, eða m.ö.o.: það var niðurstaða þessa manns, að það hefði hvergi nærri verið beitt nógu öflugum hagstjórnartækjum á undanförnum árum, þvert ofan í það, sem hæstv. ráðh. var að halda hér fram. Hagstjórnartaekin, sem ríkisstj. hefði beitt, hefðu verið gengisfellingar, hækkandi skattar, einkum söluskattur, lánsfjárhöft og vaxtahækkanir. En Jóhannes Nordal telur í sinni ræðu auðsjáanlegt, að þetta sé hvergi nærri fullnægjandi, heldur telur þörf enn þá miklu viðtækari hagstjórnartækja, eins og hann orðar það, og nefnir sérstaklega í því sambandi, að það sé eðlilegt að hækka skattana, að það eigi að takmarka stórlega framkvæmdir sveitarfélaga frá því, sem nú er, og það eigi að frysta sparifé fyrirtækja með því að leggja fé þeirra í sérstakan sjóð, sem þau eiga ekki að hafa sjálf umráðarétt yfir, heldur eigi það, eftir því sem manni skilst, að fara eftir vilja Seðlabankans hverju sinni, hvort fyrirtækin nota þetta sparifé sitt eða ekki. Sem sagt, þarna á að setja miklu strangari höft á einkarekstur í landinu en áður hefur þekkzt, nema kannske í stjórnartíð þeirra Emils Jónssonar og Bjarna Benediktssonar á árunum 1947—1949, þegar skömmtunarfarganið og annað slíkt var í fullum gangi.

Maður veit þá hverju maður á von á eftir 1. ágúst n.k., þegar stöðvunin á að koma í gildi, sem hæstv. ráðh. stefnir að núna, þegar sá maður, sem hann trúir á í efnahagsmálum, boðar aðgerðir eins og þær, sem ég hef nú minnzt á. En þetta sýnir hins vegar alveg ljóslega, að þótt hæstv. ráðh. sé a$ halda því fram hér, að beitt hafi verið af hálfu ríkisstj. öllum skynsamlegum ráðum til þess að halda verðbólgunni niðri, þá er það síður en svo, að aðalsérfræðingur ríkisstj. og Sjálfstfl. líti svo á, að svo sé, heldur boða þeir, að það þurfi að grípa til miklu öflugri hagstjórnartækja en þeirra, sem nú er beitt.

Ég vil þá koma að því atriði, sem hæstv. ráðh. beindi sérstaklega að mér. Hann sagði, að ég hefði ásamt ýmsum stjórnarandstæðingum átt þátt í því að reyna að spenna verðbólguna upp og ætti því vafalaust minn þátt í því, ásamt þessum mönnum, hvernig komið væri. Og hvað var það, sem hæstv. ráðh. nefndi sérstaklega til sönnunar um þetta? Það er mjög fróðlegt að athuga það og rifja það upp, því að það sýnir, hvað það er, sem hæstv. ráðh. telur vera meginorsakir verðbólgunnar í landinu. Jú, hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði verið að ýta undir kaupkröfur og ýta undir það, að bændur krefðust hærri launa. Þá veit maður það, hvað er að dómi hæstv. ráðh. aðalorsök verðbólgunnar í landinu. Það er kaup verkamannanna, og það eru laun bændanna. En hvað segja nú staðreyndirnar um þetta efni? Hvernig er háttað launakjörum verkamanna í dag samkvæmt þeim kauptöxtum, sem eru í gildi? Þeim er háttað á þann veg, að Dagsbrúnarverkamaður, sem er á mánaðartaxta, en það þykir yfirleitt eftirsóknarvert að vera á þeim taxta, miklu eftirsóknarverðara en að vera daglaunamaður, — Dagsbrúnarmaður, sem er á hinum venjulega mánaðarkaupstaxta, hefur í dag árslaun upp á 113 þús. kr. En hvað segir svo vísitöluútreikningur hagstofunnar um framfærslukostnaðinn í landinu. Þessir útreikningar sýna það, að 4 manna fjölskylda þarf að hafa til umráða 117 þús. kr. til þess að mæta þeim kostnaði, sem leiðir af því að kaupa sér mat og klæðnað til að greiða skatta, þrátt fyrir það að þá sé búið að draga frá fjölskyldubæturnar. M.ö.o.: þessi árslaun Dagsbrúnarverkamanns hrökkva fyrir fæði og fatnaði og skattgreiðslum, vantar 4 þús. kr. á, og þá er alveg eftir það, sem hann þarf að borga vegna húsnæðis þess, sem hann býr í, hvort heldur það er leiguhúsnæði eða eigin húsnæði. En það vita allir, sem nokkuð fylgjast með málum, að þessi kostnaður er nú, ef menn eru í þótt ekki sé nema heldur lítilli leiguíbúð, þá fer hann alltaf upp í 60—70 þús. kr. á ári og raunar miklu meira, ef menn eru að basla við það af litlum efnum að eignast eigin íbúð. Ef Dagsbrúnarmaðurinn á í dag að geta verið í sæmilegu húsnæði, þarf hann að vinna fyrir því að öllu leyti í eftirvinnu eða aukavinnu, og ef hún fæst ekki, verður hann að þrengja kjörin með einhverjum hætti til þess að geta dregið fram lífið.

Ég held, að það sé ómögulega hægt að halda því fram, að þeir menn, eins og ég og fleiri, sem hafa talið eðlilegt, að laun þessara manna væru eitthvað hækkuð, við séum aðalverðbólguvaldarnir í landinu. Ég held, að það sé ekki með neinu móti hægt að halda því fram, að þeir menn, sem búa við þessa kauptaxta og þessi kjör, það séu þeir, sem eigi meginþáttinn í því, hvernig nú er komið efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég vísa því algerlega á bug, að þetta sé rétt fullyrðing hjá hæstv. forsrh.

Hvernig er það með bændurna? Er það kannske rétt hjá honum, að það sé bændastéttin, sem eigi þátt í því, hvernig komið er í þessum efnum? Hvað sýna hagskýrslur um kjör bændastéttarinnar. Hagskýrslur sýna það, að bændastéttin er sú stétt í landinu, sem býr við langsamlega lægstar tekjur í dag, minni árstekjur en nokkur önnur stétt í landinu. Halda menn virkilega, að þessi verðbólga, sem þjóðin hefur við að glíma, stafi af því, að þessar tvær stéttir, verkamenn og bændur, búi við of góð kjör? Nei, það er alveg víst, að þó að hæstv. forsrh. haldi því fram, eru það allt aðrar ástæður, sem valda því, hvernig nú er komið í okkar efnahagsmálum. Það stafar ekki af því, að verkamenn hafi knúið fram of háa kauptaxta eða bændur hafi krafizt of hárra launa. Orsakirnar eru allt aðrar. Orsakirnar eru þær, að ríkisstj. hefur látið braskið og spákaupmennskuna hafa alveg lausan tauminn í landinu á undanförnum árum. Það hafa verið hagsmunir þessara aðila, sem öllu hafa fengið að ráða, og þess vegna er komið í dag eins og komið er.

Ég vísa því algerlega á bug, að það sé vegna heimtufrekju verkamanna og bænda, hvernig nú er komið í efnahagsmálum þjóðarinnar. Og ég fullyrði alveg hiklaust, að það stafar af algeru þekkingarleysi forsrh. á þessum málum, þegar hann er að halda því fram, að það sé kaup verkamannanna og bændanna, sem valdi því, hvernig nú er komið í efnahagsmálum þjóðarinnar. Orsakirnar eru þær, að braskið og spákaupmennskan hefur fengið að leika lausum hala og stjórnin hefur hvergi reynt til að hafa tök á þessum málum, þar sem fyrst og fremst hefur þurft að hafa tök á þeim.

Ástandið hér í þessum efnum hefur verið algerlega stjórnlaust. Stjórnin hefur alveg látið það afskiptalaust, hvernig braskið og spákaupmennskan hefur þróazt í landinu, heldur miklu fremur ýtt undir það, og það er meginástæðan til þess, að svo er komið sem komið er í efnahagsmálum þjóðarinnar nú eftir 5 ára samfellt góðæri, að þá eru flestir atvinnuvegir landsins reknir með stórfelldum halla. En ég vil vænta þess, að þessar umræður geti orðið til þess, að hæstv. forsrh. fari að íhuga þessi mál betur og hann geri sig ekki aftur beran að því þekkingarleysi að kenna verkamönnum og bændum um það, hvernig komið er í efnahagsmálum þjóðarinnar, og um þá stórfelldu verðbólgu, sem hér hefur verið að skapazt á undanförnum árum, því að þar er við allt aðra að sakast. Og ég skal alveg fullkomlega viðurkenna það, að ég hef verið því meðmæltur, að kjör þessara stétta væru bætt, og er það enn, og ég tel það fullkomlega hægt, án þess að það þurfi nokkuð að verða til þess, ef rétt er haldið á þessum málum, að auka dýrtíð og verðbólgu í landinu.

Ég skal svo láta útrætt um þennan þátt í því, sem hæstv. ráðh. hafði að segja um verðbólgumálin. En hann minntist hér nokkuð á sparifjárbindinguna og lánsfjárhöftin og varpaði fram þeirri spurningu, hvort ég þekkti eiginlega nokkurt land, þar sem ekki hefði verið gripið til hliðstæðra ráðstafana Ég skal játa það, að ég þekki til ýmissa landa, þar sem hefur verið gripið til nokkurrar bindingar á útiánum undir vissum kringumstæðum. En það er yfirleitt í löndum, þar sem ástandið er á allt annan veg en hér á Íslandi. Hæstv. ráðh. verður að gera sér grein fyrir því, að t.d. flest þau lönd, sem eru næst okkur, eru gömul og gróin iðnaðarlönd, lönd, sem standa á gömlum merg, og sparifjársöfnun er þar þess vegna svo mikil, að þessar þjóðir eru miklu frekar veitandi en þurfandi í þessum efnum, þ.e.a.s., að þær hafa meira sparifé en þær sjálfar þurfa að nota og veita þess vegna öðrum þjóðum oft og tíðum lán til þess að koma sínum framkvæmdum áleiðis. Hjá okkur Íslendingum er þessu allt öðruvísi varið. Við erum miklu skemmra komnir á þróunarbrautinni en þessar þjóðir, sem þýðir það, að við þurfum á miklu meiri fjárfestingu að halda til þess að byggja upp okkar atvinnulíf. Þess vegna er eðlilegt, að sparifjársöfnun verði minni hjá okkur en þeim og meira að segja það lítil, að við þurfum á erlendu fjármagni að halda að meira eða minna leyti til að byggja okkar atvinnuvegi upp, og þar af leiðandi er ástandið í þessum málum allt annað hjá okkur en hjá þessum gömlu og grónu iðnaðarþjóðum í Vestur-Evrópu eða í Bandaríkjum Ameríku. En þrátt fyrir það, þó að hér sé um svo ólíkar aðstæður að ræða hjá okkur og þessum þjóðum, sem hæstv. ráðh. var að vitna í, verð ég að játa þá fáfræði mína, að ég þekki ekkert það land, þar sem seðlabankinn eða þjóðbankinn tekur 20% af því sparifé, sem viðskiptabankarnir hafa til umráða, og dregur það alveg út úr atvinnurekstrinum í landinu. Og ég hefði gaman af því og væri mjög þakklátur fyrir það, ef hæstv. ráðh. gæti upplýst mig um það, hvaða land annað en Ísland það væri, sem gengi jafnlangt í þessum efnum með frystingu sparifjár. Ég hef verið að reyna að afla mér upplýsings um þetta, en ég hef enn ekki getað rekizt á neitt land, sem gengur jafnlangt í þessum efnum. Ég held, að það sé grundvallarregla hjá öllum þeim þjóðum, sem grípa til vissrar bindingar á sparifé eða setja vissa bindingu á útlán viðskiptabankanna, að þá sé það grundvallarregla, að þessi höft gangi ekki svo langt, að þau verði til þess að draga úr eðlilegum rekstri og aukinni framleiðni atvinnuveganna, eins og ákveðið er hér í Seðlabankalögunum. Ég held, að þessar frystingarráðstafanir í öðrum löndum séu yfirleitt við það miðaðar, að yfir þetta mark sé ekki farið. Hér hefur óumdeilanlega verið farið yfir þetta mark og miklu lengra gengið í þessu efni en annars staðar hefur heyrzt. Þess vegna er ekki hægt að neita því, hvað sem hæstv. ráðh. hafa um þetta að segja, að það er þessi stórfellda sparifjárbinding og lánsfjárhöftin, sem af henni hefur leitt, sem valda miklu um þá erfiðleika, sem atvinnuvegirnir hafa við að glíma í dag. En ég sem sagt endurtek þessa spurningu mína til hæstv. forsrh., hvort hann geti bent mér á nokkurt land, þar sem seðlabankinn eða þjóðbankinn hefur gripið til þess að festa um eða yfir 20% af því sparifé, sem kemur inn til viðskiptabankanna, og dregið fé úr atvinnurekstrinum sem þeirri upphæð svarar. Það væri fróðlegt að fá það upplýst.

Þá ætla ég að víkja að þeim þætti hjá hæstv. ráðh., sem fjallaði um samkeppnishæfni íslenzka iðnaðarins. Ráðh. var dálítið að reyna að klóra þar í bakkann. Þó komst hann ekki hjá því að lesa upp þau ummæli sín, sem ég var reyndar búinn að lesa upp áður, þar sem það var fullkomlega staðfest, að hann telur, að íslenzkur iðnaður geti ekki keppt við fjöldaframleiðslu, eins og hann orðar það, í hinum stóru löndum, og byggir þetta á því, að hér sé ekki um stóran markað að ræða Það virðist sem sagt vera grundvallarskoðun hæstv. ráðh., að stór markaður sé frumskilyrði þess, að hægt sé að reka samkeppnisfæra atvinnuvegi. Ég skal játa það með ráðh., að það hefur að sjálfsögðu sitt að segja að hafa aðgang að stórum markaði. En það er margt fleira, sem kemur til greina í þessu sambandi og er miklu þýðingarmeira en stórir markaðir. Það, sem er þýðingarmeira í þessum efnum, er að sjálfsögðu það, hvaða tækni eða verkkunnáttu menn hafa tileinkað sér og hvaða fjármagn menn hafa til þess að stunda viðkomandi atvinnurekstur. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef þeim skilyrðum er sæmilega fullnægt, enda eru fjöldamörg dæmi fyrir hendi, sem staðfesta það, þá getur íslenzkur iðnaður verið vel samkeppnisfær við þá framleiðslu, sem á sér stað úti í hinum stóra heimi. Og ég álit, að það sé hreinn sleggjudómur hjá hæstv. forsrh. að halda því fram, að með því að starfrækja iðnað í landinu, sem hann segist þó telja sjálfsagt, þá séum við dæmdir til þess að búa við hærra verðlag en ella. Um þetta mætti nefna fjöldamörg dæmi, og ég veit t.d., að ef hv. 10. þm. Reykv. kærði sig um, gæti hann nefnt fjöldamörg dæmi, sem afsönnuðu þessa fullyrðingu forsrh. Það, sem mestu máli skiptir í þessum efnum, er að hagnýta sér sem bezt tækni og verkkunnáttu og tryggja þessum atvinnurekstri hæfileg fjárráð, til þess að hann geti starfað með eðlilegum hætti.

En það er ekki aðeins í sambandi við iðnaðinn, heldur yfirleitt allar atvinnugreinar, sem starfræktar eru í landinu, sem þetta trúleysi hæstv. ráðh. kemur fram. Í þeirri frægu ræðu, sem hann hélt á flokksráðsfundi Sjálfstfl., tekur hann hvern atvinnuveginn fyrir af öðrum og kemst að þeirri niðurstöðu, að þetta séu allt saman hálfgerðir vandræðaatvinnuvegir og ekki samkeppnisfærir og að það sé fyrst og fremst þeim að kenna, en ekki ríkisstj., hvernig komið sé í efnahagsmálum þjóðarinnar í dag, það sé vegna þess, hvað þessir atvinnuvegir séu lélegir og ósamkeppnisfærir.

Ég ætla ekki að þessu sinni, því að það gefst vafalaust tækifæri til þess síðar, að ræða nánar um þetta mál við hæstv. forsrh., læt aðeins nægja að mótmæla þessari skoðun hans nú. En ég hef gaman af, í þessu tilefni, að rifja upp ummæli, sem einn af fyrrv. formönnum Sjálfstfl. hafði um þá menn, sem virðast hugsa svipað og hæstv. forsrh. um þessi mál. Það var á þeim tíma, þegar Jón Þorláksson sem ungur verkfræðingur, framgjarn og framsýnn, kom hingað til landsins, sem hann skrifaði í Lögréttu þá langbeztu grein, sem hefur verið skrifuð um íhaldsstefnuna hér á landi og ég er búinn að lesa mér mörgum sinnum til mikillar ánægju og finnst þó alltaf vera jafngóð. Ég held, að af þeim tveimur blaðagreinum, sem ég hef lesið, telji ég hana aðra þá beztu (Gripið fram í.) eða að hún komist næstum því í sama flokk og Stóra bomban eftir Jónas Jónsson. En það, sem Jón Þorláksson hafði þá að segja um menn, sem hugsa svipað um íslenzka atvinnuvegi og möguleika íslenzku þjóðarinnar til að lifa sæmilegu lífi hér í landinu, var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Þetta eru eyrnamörk reglulegs afturhaldsflokks, hverju nafni sem hann kýs að nefna sig: Vantrú á landinu, að það svari arði, ef synir þess vilja kosta kapps um að vinna að því, og vantrú á þjóðinni, að hún sé fær um að nota sér þær lyftistengur á veginum til hagsældar og sjálfstæðis, sem aflmestar hafa reynzt annars staðar“. Og með því að rifja upp þessi ummæli Jóns Þorlákssonar held ég, að hæstv. forsrh. geti séð, í hvaða flokki hann er.