30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (2343)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær umr., sem hafa orðið um þá till., sem hér liggur fyrir. Ég álít, að þess sé síður en svo þörf, því að flm. hennar hefur skýrt það mál svo vel og haldið vel á því. En það eru hins vegar nokkur atriði, sem snerta málið óbeint og hafa komið fram hjá hæstv. utanrrh., sem ég vildi segja nokkur orð um.

Ég vildi eiginlega í tilefni af því, sem hann sagði hér áðan, spyrjast fyrst fyrir um það, hvort það sé orðin stefnubreyting hjá ríkisstj. í landhelgismálinu og hún fylgi orðið fram annarri stefnu en þeirri, sem var mörkuð í þáltill, frá 1959. En þar er sú stefna ákveðið mörkuð, gerð samhljóða á Alþ., að unnið skuli að því að afla viðurkenningar á rétti Íslands til alls landgrunnsins. Og í samræmi við það voru málin svo flutt af Íslands hálfu, a.m.k. næstu ár. Virðist mér af því, sem hæstv. utanrrh. sagði um sína ræðu á þingi Sameinuðu þjóðanna og þær skýringar, sem hann gaf á henni, að ríkisstj. sé eiginlega komin inn á það að framfylgja annarri stefnu í þessum efnum og vinna að framgangi þess máls eftir öðrum leiðum. Ég vildi þess vegna beina þeirri fsp. til ráðh. og fá alveg glöggt svar hjá honum um það, hvort það sé virkilega svo, að ríkisstj. sé horfin frá þessari stefnu að vinna að viðurkenningu á landgrunninu og búin að taka upp einhverja aðra stefnu, því að ef svo er, er hér að sjálfsögðu um mjög mikilvæga og e.t.v. örlagaríka breytingu að ræða fyrir þetta mál, sem ég vildi aðeins segja í fáum orðum að þessu sinni, að ég tel, að ekki stefni í rétta átt.

Það vildi ég svo segja í sambandi við þetta mál, að ég held, að það sé mikill misskilningur hjá ráðh., að hann hafi þurft að óttast það, að hann mundi hljóta mikla andúð á þingi Sameinuðu þjóðanna, ef hann hefði túlkað sérstöðu Íslands þar og haldið fram þeim rétti, því tilkalli, sem Íslendingar gera til landgrunnsins. Ég hef verið nokkrum sinnum á þeim vettvangi, þegar þessi mál hafa verið þar rædd, og ég held, að það megi segja það, að þegar kannske 2–3 þjóðir hér í VesturEvrópu eru undanskildar, hafi málstaður Íslands í þessum efnum yfirleitt átt miklum skilningi og samúð að fagna. Og ég trúi því ekki, að það hafi neitt breytzt við það, þó að þar hafi fjölgað þjóðum, bætzt við þjóðir, sem hafa sloppið undan nýlenduoki eins og við. Ég gæti miklu frekar trúað, að okkar málstaður ætti nú á þessum vettvangi enn meiri skilningi og samúð að fagna en þó var áður fyrr. Og þess vegna akil ég satt að segja ekki þessa afstöðu ráðh.

En það, sem varð þess fyrst og fremst valdandi, að ég kvaddi mér hljóðs, var það, sem hæstv. ráðh. sagði um utanrmn., og það, sem hann sagði, að væri ástæða til þess, að n. hefði ekki starfað með eðillegum hætti á undanförnum árum. Hann kvað ástæðuna vera þá, að fyrirrennari sinn í þessu embætti hefði sagt sér, að það hefði komið fyrir í n. og að því er mér skildist oftar en einu sinni, að nm. hefðu gert sig seka um trúnaðarbrot. En það var alveg rétt gert hjá hæstv. núv. ráðh. að telja sig ekki hafa, að því er mér skildist, beinar heimildir fyrir þessu eða tilgreina ákveðin dæmi, heldur aðeins óákveðin ummæli fyrrv. utanrrh. um þessi mál. Ég vil alveg hiklaust halda því fram á þessum stað, að þetta er ósatt hjá hæstv. fyrrv. utanrrh. Ég get fullyrt það til frekari áherzlu um þetta, að t.d. síðan ég tók sæti í utanrmn. á þingi 1959 hefur ekki verið lagt fyrir n. neitt, sem hægt er að kalla trúnaðarmál, og þar af leiðandi nm. ekki getað gert sig seka um neitt slíkt, hvað þetta snertir, vegna, þess að það hefur verið fylgt þeirri reglu af hálfu ríkisstj. á þessum tíma að leggja ekkert fyrir n., sem hægt er að nefna því nafni. Ég þori líka að fullyrða það, að á þeim tíma, sem á undan er genginn, þegar Guðmundur Í. Guðmundsson var utanrrh., hefur ekkert það gerzt í n., sem er þannig lagað, að það sé hægt að saka nm. um trúnaðarbrot. En ég tel hins vegar, að þetta mál sé það mikilsvert og hér séu bornar svo þungar sakir á þá menn, sem hafa verið í utanrmn., að það væri mikil ástæða til þess, að það væri sett í þetta sérstök rannsóknarnefnd samkv. ákveðum stjskr., til þess að fá þetta upplýst, því að það eru engar smásakir, sem eru bornar á utanrmn. með því að halda þessu fram.

En jafnframt því, sem ég segi þetta, vildi ég fagna þeirri yfirlýsingu, sem kom hér fram hjá hæstv. ráðh., að hann vildi gjarnan taka upp önnur vinnubrögð í þessum efnum og taka upp fullt samstarf við n., sem ég að sjálfsögðu tel eðlilegt að sé gert á þeim grundvelli, eins og er í lögum margra annarra þjóða, að það sé beint tekið fram, að nm. séu bundnir trúnaðarheiti um þau mál, sem er þá sérstaklega fram tekið af hálfu ráðh. í n., að hann óski eftir að sæti þeirri meðferð. Ég álít, að það væri kannske eðlileg leið til lausnar þessu máli, að nú í sambandi við athugun þingskapanna, sem fram fer, verði gengið mjög greinilega frá þessu atriði.

En það er ekki eingöngu um þau mál, sem séu þannig eðlis, að það sé hægt að kalla þau trúnaðarmál, sem ríkistj. hefur ekki viljað hafa samráð við n. Ég vil t.d. rifja það upp, fyrst farið er að ræða um þessi mál, að núna í þingbyrjun, á fyrsta fundi utanrmn., fórum við tveir nm. fram á það, að utanrrh. kæmi á fund n. og skýrði henni frá helztu málum, sem lægju fyrir þingi Sameinuðu þjóðanna, og viðhorfi ríkisstj. til þeirra. Formaður n. lofaði að koma þessum tilmælum á framfæri við ráðh., og ég trúi ekki öðru en hann hafi gert það, en þennan fund er ekki enn þá farið að halda. Ég vildi mega vænta þess, að yfirlýsing ráðh. nú þýddi það, að slíkur fundur yrði haldinn og það yrði þá upphaf að því samstarfi, sem hann var að tala um að hann vildi vinna að því að kæmist á á milli ráðh. og n. Það eru ýmis mál eftir enn á þingi Sameinuðu þjóðanna, sem er fróðlegt og gagnlegt fyrir utanrmn., þá flokka, sem þar eiga sæti, en ekki eiga sæti í ríkisstj., að fylgjast með. Sum mál viðurkenni ég, að eru þannig vaxin, að það er eðlilegt, að þau séu trúnaðarmál. Mér skilst t.d., að það muni vera eftir á þinginu að kjósa menn í alþjóðadóminn. Það skiptir miklu máli fyrir Ísland. Er það búið? Það er þá misskilningur hjá mér, að það sé eftir, það mun vera búið, en það gæti eigi að síður verið fróðlegt að fylgjast með því, hvernig Ísland hefur greitt atkv. í því sambandi, þó að ég skilji vel, að með það yrði að fara sem trúnaðarmál.