24.02.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (2411)

48. mál, listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þáltill. þá, sem hér er til umr., um listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur, flyt ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafi Jóhannessyni.

Efni till. er það, að kosin verði n. til að gera till um stofnun og starfrækslu opinberra listasafna utan Reykjavíkur og jafnframt gera till. um það í samráði við samtök myndlistarmanna, hvernig stuðla mætti að því, að haldnar verði fleiri myndlistarsýningar en nú er utan höfuðborgarinnar. Hér er um brýnt mál að ræða, sem ég skal leitast við að færa sönnur á í stuttu máli.

Telja má, að alhliða framfarasókn Íslendinga hefjist ekki að marki fyrr en á árunum fyrir síðustu aldamót. Til þeirra ára er fyrst og fremst að leita upphafsins að þeim þjóðfélagsbreytingum, sem orðið hafa á þessari öld og telja má til meiri háttar umbyltinga á atvinnu- og menningarháttum, sem kunnar eru í sögu einnar þjóðar á síðari tímum. Sú saga skal ekki rakin hér í neinum smáatriðum, enda gerist þess ekki þörf. Byltingin í atvinnulífinu er ekki hið eina, sem við blasir, þegar litið er yfir sögu síðustu 6—7 áratuga. Hér hefur einnig orðið stórkostleg menningarlífsbreyting, sem ekki er síður umtalsverð og þess virði, að henni sé gaumur gefinn. Snar þáttur þeirrar breytingar er sú mikla gróska, sem orðið hefur í ástundun fagurra lista, m.a. í tónlist og myndlist, sem íslenzka þjóðin hefur lengst af farið á mis við, miðað við flestar Evrópuþjóðir. Allt á það sína eðlilegu skýringu í sögulegum og þjóðfélagslegum aðstæðum hér á landi, m.a. einangrun og fátækt auk menningarlegrar þröngsýni og afturhaldssemi ráðandi þjóðfélagsafla um aldaraðir, ekki sízt kirkjuyfirvaldanna. Íslenzk myndlist fyrri alda er þó eigi að síður merkur þáttur í menningarsögu þjóðarinnar, en því miður stórlega vanrækt sem sögulegt viðfangsefni og almenningi allt of litið kunn. Nefna má nokkra einstaklinga, sem lærðu til myndlistar og sönnuðu hæfileika sína í ýmsum verkum, sem geymzt hafa, og nokkrir alþýðumenn, sem engrar tilsagnar nutu og ekki áttu kost á að kynnast erlendri myndlist nema af orðspori, eru þekktir fyrir listiðju, sem bendir til eðlislægra hæfileika.

Einn slíkra manna var Arngrímur Gíslason frá Skörðum í Reykjahverfi, sem andaðist árið 1887. Hann bar kenninafnið málari og naut mikillar virðingar samtímamanna sinna á Norðurlandi fyrir myndlist sína, sem vissulega var ófullkomin vegna menntunarleysis listamannsins. En um hitt efast nú enginn, að hann var listamannsefni og listamannssál. Ógæfa hans var sú ein að vera fæddur nokkrum áratugum of snemma. Um það leyti, sem Arngrímur málari dó, voru eftirfarandi orð höfð eftir Valdimar Ásmundssyni, ritstjóra Fjallkonunnar: „Hér á landi hafa oft fæðzt listamenn, þótt lítið eða ekkert hafi orðið úr þeim, af því að listir geta ekki þróazt hér á landi.“

Þannig var ástandið nokkru fyrir 1890. En upp úr því verða umskipti. Einar Jónsson sigldi til myndlistarnáms 1893, Þórarinn B. Þorláksson hóf listnám 1895 og Ásgrímur Jónsson 1897. Þessir menn sneru ekki heim fyrr en þeir voru fullnuma listamenn, og það varð hlutskipti þeirra að ryðja nýjar brautir í menningarlífi þjóðarinnar. Svo ólíkir sem þeir annars voru í listsköpun og að skapferli, áttu þeir það sameiginlegt að vera miklir listamenn og trúir köllun sinni. Við höfum síðar eignazt marga listamenn, sem gert hafa garðinn frægan, en íslenzka þjóðin stendur í meiri þakkarskuld við þessa þrjá brautryðjendur en flesta eða alla aðra. En við getum ekki staðnæmzt við brautryðjendur eina. Þeim eigum við þakkarskuld að gjalda, og okkur ber að rækja minningu þeirra. Það verður ekki einasta gert með því að hlaða þeim lof og bautasteina. Minningu þeirra rækjum við bezt með því að hlúa að skapandi listastarfsemi í landinu og áframhaldandi þróun í listum. Engri stofnun er það skyldara en Alþ. að láta sín getið á þeim vettvangi og gera sitt til þess, að listamenn fái sem bezt notið hæfileika sinna, m.a. með því að styrkja þá og félagsskap þeirra með beinum fjárframlögum og með því að veita þeim verkefni við sitt hæfi í þágu þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Sparnaður á þessu sviði þjónar hvorki brýnum fjármálalegum né efnahagslegum tilgangi. Það hefur engin áhrif á ríkisbúskapinn, þótt skorin séu við nögl framlög til listmenningar. Þau verða aldrei svo mikil, að það skeri úr um afkomu ríkissjóðs. Það eru allt aðrir þættir, sem ávallt munu ákvarða ágóða eða halla í ríkisbókhaldinu. Af þeim sökum er sízt ástæða til að óttast óviðráðanlegan ofvöxt fjárframlaga til listastarfseminnar. Slíkt er tæpast hugsanlegt. Hitt er aftur nauðsynlegt, að Alþ. veiti meira fé til þessara mála og því sé varið þannig, að það komi að sem beztum notum, bæði fyrir listamennina sjálfa og þjóðina, sem á að njóta listaverkanna.

Þrátt fyrir mikla grósku í myndlist undanfarna áratugi, sem ég hef áður minnzt á er ástæða til að leiða athygli að þeirri staðreynd, að listmenningin er tæplega nein alþjóðareign hér á landi, meðan svo háttar, að myndlistarsýningar og listkynning er nær eingöngu bundin við einn stað á landinu, þ.e. Reykjavík. Listasöfn eru tæplega til úti um land. Dálítill vísir að listasöfnum er að vaxa upp á 2—3 stöðum, en allt er það smátt í sniðum. Undantekning má það heita, ef bitastæð listsýning er haldin utan höfuðborgarinnar. Þó kemur það fyrir með margra ára millibili á einstöku stað. En hér í höfuðborginni líður ekki sú vika að kalla allan veturinn, að ekki sé eitthvað að gerast á þessu sviði. Það er efnt til sýninga einstakra málara, yngri sem eldri. Samsýningar eru haldnar og yfirlits- og minningarsýningar á verkum fremstu listamanna þjóðarinnar og nú síðast á verkum Þórarins B. Þorlákssonar. Þar er einnig listasafn ríkisins, og þó að það kunni að vera laklega að því búið í núverandi húsakynnum, er það þó betra en ekki neitt. Nýlega var hafin listkynning í skólum með farandsýningum myndlistar, en sú starfsemi er einskorðuð við reykvíska skóla. Á hverju ári eru haldnar sýningar á verkum íslenzkra myndlistarmanna erlendis. Nú í haust og síðari hluta fyrra árs voru haldnar minningarsýningar á verkum Ásgríms og Júlíönu Sveinsdóttur í Kaupmannáhöfn. 6 íslenzkir málarar höfðu samsýningu í Stokkhólmi. Verk ungra listmálara voru nýlega til sýnis í Louisanasafninu í Danmörku. Íslenzkur málari sýndi verk sín á listahátíð í Edinborg. Og íslenzkir listamenn hafa í vetur átt verk á norrænni myndlistarsýningu í Kanada. Þetta er mér kunnugt um, að gerzt hefur á síðustu mánuðum, en sennilega mætti nefna fleiri sýningar á verkum íslenzkra málara erlendis. Þetta ber síður en svo að lasta. Þetta er einmitt ánægjulegur vottur um gróandann í myndlist Íslendinga og sýnir, að við erum vel hlutgengir á þessu sviði. En má það þó ekki teljast nokkuð kaldhæðnislegt, að á sama tíma sem verk íslenzkra myndlistarmanna fara land úr landi og hljóta þar lof, þá skuli það teljast viðburður, ef landsfólkinu utan höfuðborgarinnar gefst kostur á að sjá verk sinna beztu listamanna? Hér er mikið verkefni framundan, sem bíður úrlausnar. Það þarf að mynda samtök um það, að þjóðin öll geti orðið raunverulegur hluttakandi í að njóta þeirrar fegurðar og göfgandi áhrifa, sem góð list hefur að færa. Myndlistin á ekki að vera neitt einangrað fyrirbæri, sem einn fær notið, en annar ekki. Myndlist og önnur skapandi list er ekki tilgangslaus og ekki án markmiðs. Henni er ætlað að þroska manninn andlega og þá fyrst og fremst fegurðarskyn hans í víðustu merkingu þess orðs. Það er menningarauki, að sem flestir fái notið góðrar listar, og það ætti að vera þjóðfélaginu keppikefli að stuðla að því með tiltækum ráðum, að svo megi verða.

Því miður hefur þróunin orðið sú, jafnframt því sem menningar- og menntalífi hefur fleygt fram í heild, að á ýmsum mikilvægum sviðum hefur skapazt menningarlegur ójöfnuður í landinu. Þessi þróun er ekki hættulaus. Það hlýtur að hafa sín alvarlegu áhrif, ef menningarskilyrði eru að verulegum mun lakari á einum stað en öðrum. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir þessari staðreynd og leitast við að hamla á móti slíkri þróun, enda um nýtt fyrirbæri að ræða í íslenzku þjóðlífi. Telja má með réttu, að löngum hafi menningarlegur jöfnuður verið aðall íslenzku þjóðarinnar. Lista- og bókmenntaáhugi var sameign allra manna, hvort sem þeir áttu mikið eða lítið undir sér, og menningarskilyrði voru almennt lík í landshlutunum, þó að þau kunni að hafa verið fábreytt á nútímavísu. Íslenzk alþýða hefur ávallt verið fús til fróðleiks og mennta. Þjóðin er listelsk í eðli sínu og næm fyrir áhrifum listaverka, hvort sem þau eru ritað orð eða tjáning í myndum og tónum. Listnjótendur hér á landi hafa löngum verið óháðir þjóðfélagsaðstöðu eða búsetu. Áhugi á hvers kyns listum er fyrir hendi í sveitum og kaupstöðum víðs vegar um landið, og þann áhuga má glæða og veita fullnægingu með skynsamlegri listkynningu og stofnun listasafna svo víða sem kostur er. Slíka starfsemi þarf að undirbúa svo vel, að við verði unað um langa framtíð. Fjárhags- og skipulagsgrundvöllur verður að vera traustur og veita svigrúm til eðlilegrar þróunar. Slík söfn eiga aðeins að sækjast eftir hinu bezta í listum, vera á landsmælikvarða. Þau eiga að gefa sem sannasta mynd af listmenningu þjóðarinnar. En héraðslistasöfn ættu einnig að sinna þeirri listsköpun, sem kann að eiga sér stað innan héraðs eða safnumdæmisins. Mundi þá koma í ljós betur en ella, hvers virði slík list er í raun og veru.

Annað aðalatriði þessarar till. er, að ráð verði fundið til þess að fjölga myndlistarsýningum utan höfuðborgarinnar, og e.t.v. er slík starfsemi nauðsynlegur undanfari stærri aðgerða, sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni. Fjölgun myndlistarsýninga úti um landsbyggðina er áreiðanlega auðleyst verkefni. Sýningaraðstæður eru yfirleitt góðar, ef þær væru nýttar sem kostur er, og raunar sízt verri en hér í höfuðborginni. Vandinn er sá að sameina þá krafta, sem hér gætu helzt orðið að liði, nefnilega yfirstjórn menntamála, listamenn sjálfa og áhugamenn heima í héraði.

Herra forseti. Ég vænti þess, að till. þessi hljóti góða afgreiðslu hér í þinginu, og legg til, að henni verði vísað til 2. umr. og allshn.