12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (2484)

92. mál, diplomatískt samband við þýska alþýðulýðveldið Austur-Þýskaland

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við hv. 3. landsk. þm. höfum leyft okkur að flytja hér till. til þál. um, að Ísland taki upp diplómatískt samband við Þýzka alþýðulýðveldið. Það er svo, að um langt skeið, raunar um aldir, hefur Ísland haft mjög gott samband við þýzku þjóðina, hverjir sem hafa á hverjum tíma ráðið þar ríkjum. Hvað eftir annað í okkar sjálfstæðisbaráttu var það svo, að við áttum þar miklum skilningi að mæta á okkar kröfum um sjálfstæði, og einhverjir beztu vinir, sem íslenzk sjálfstæðisbarátta átti og sérstaklega Jón Sigurðsson voru einmitt í Þýzkalandi þá, eins og Konrad Maurer og fleiri slíkir. Það hefur þess vegna verið mjög eðlilegt fyrir okkur að reyna að halda sem beztu sambandi við þýzku þjóðina. Og nú er svo ástatt þar, að þar eru tvö ríki. Við höfum samband, við annað þeirra, Vestur-Þýzkaland, en höfum ekki haft diplómatískt samband fram að þessu við hitt ríkið, sem við venjulega köllum Austur-Þýzkaland eða Deutsche Demokratische Republik, og hefur verið þýtt á íslenzku sem Þýzka alþýðulýðveldið.

Við höfum hins vegar haft mjög gott viðskiptasamband við Þýzka alþýðulýðveldið. Það var raunverulega strax eftir að það var stofnað, að heita má að fyrstu viðskiptin byrjuðu og hafa aukizt ár frá ári, og í Austur-Þýzkalandi er nú t.d. smíðað fyrir okkur meginið af þeim litlu togurum, beztu síldarbátunum, sem við höfum, og viðskiptin við þetta land hafa yfirleitt reynzt okkur mjög vel. Hér á Íslandi er verzlunarráð Þýzka alþýðulýðveldisins viðurkennt og starfar hér, og allt þetta samband við Þýzka alþýðulýðveldið hefur yfirleitt gengið tiltölulega vel.

Nú hefur sá hængur verið þarna á að skorturinn á diplómatísku sambandi hefur gert það miklu erfiðara fyrir en ætla megi, að báðar þjóðirnar eða þjóðarhlutarnir mundu vilja hafa. Við höfum haft margs konar menningarlegt samband við Þjóðverjana þar í Austur-Þýzkalandi. Ekki sízt hafa oft komið hingað heim íþróttasendinefndir frá þeim. Nú hefur það gerzt hins vegar upp á síðkastið, að Vestur-Þýzkaland hefur gert nokkrar tilraunir til þess að trufla þessi samskipti þjóðanna, og hefur verið beitt í því sambandi þeim ákvæðum, sem ýmis NATO-ríki hafa knúið fram, að það þurfi áritun af hálfu skrifstofu NATO-ríkjanna í Vestur-Berlín, til þess að menn, sem búa í Austur-Þýzkalandi, megi koma hingað heim. M.ö.o.: það hefur ýmislegt verið gert af pólitískum ástæðum til þess að gera þessi viðskipti, menningarleg og pólitísk, erfiðari en vera þyrfti. Hins vegar höfum við aldrei átt öðru en vináttu að mæta frá þessu ríki. Þegar við stóðum í okkar baráttu fyrir 12 mílna landhelgi og öll okkar bandaríki í Atlantshafsbandalaginu eða flestöll tóku meira eða minna kuldalega afstöðu gagnvart okkur og lá við, að jafnvel eitt það helzta, England, færi í stríð við okkur, þá var Austur-Þýzkaland annað þeirra landa, sem strax frá upphafi viðurkenndu okkar landhelgi. Það er þess vegna ekkert, sem mælir á móti því, að Ísland taki upp eðlilegt, diplómatískt samband við AusturÞýzkaland. Öll reynsla af þeim samskiptum, sem við erum búnir að hafa hátt á annan áratug við það, bendir til þess, að það væri alveg eðlilegt og sjálfsagt.

Það, sem hins vegar fram að þessu hefur raunverulega komið í veg fyrir, að við færum að taka upp slíkt diplómatískt samband við Austur-Þýzkaland, er, að Vestur-Þýzkaland hefur beitt þeirri aðferð að hóta, að svo fremi sem Austur-Þýzkaland væri viðurkennt, mundi það slíta stjórnmálasambandi við það land, sem slíkt gerði. Þetta, sem kallað hefur verið Hallstein-kenningin, hefur haldizt í Vestur-Þýzkalandi svo að segja frá því að það var stofnað, með þeirri einu undantekningu, að Vestur-Þýzkaland hefur haft stjórnmálalegt samband við Sovétríkin, en annars ekki nema eitt af hinum sósíalísku löndum. Þegar sú samsteypustjórn, sem nú situr að völdum í Vestur-Þýzkalandi, var mynduð milli Kristilega demókrataflokksins og Sósíaldemókrataflokksins, var hins vegar breytt þarna um. Það var tekin sú ákvörðun, að VesturÞýzkaland skyldi reyna að taka upp stjórnmálasamband við öll hin sósíalísku ríki í Austur-Evrópu, að Austur-Þýzkalandi einu undanteknu. Og þar með var í raun og veru fallinn grundvöllurinn undan allri Hallsteinkenningunni. Það er vitanlegt, jafnvel þó að sumir í Vestur-Þýzkalandi kynnu að reyna að framkvæma það, að eftir að Vestur-Þýzkaland er búið að taka upp stjórnmálsamband við skulum segja nú við Rúmeníu og kannske smám saman við fleiri af þessum löndum, er enginn grundvöllur lengur að hóta því, t.d. ef Ísland eða Finnland eða eitthvert annað land tæki upp stjórnmálasamband við AusturÞýzkaland, að ætla að fara að segja: Nú slít ég stjórnmálasambandi við ykkur. — Það er vitanlegt, að það gerir Vestur-Þýzkaland ekki. Það er kannske látið í það skína af einstaka mönnum, en það er svo fjarri öllum rökum, að slíkt reyna menn ekki að viðhafa. Það væri ákaflega eðlilegt, að við sýndum nú af okkur þá pólitísku hyggju og dirfsku að verða einna fyrstir Norðurlanda til þess að taka upp stjórnmálasamband við AusturÞýzkaland. Þetta væri að öllu leyti mjög heppilegt og ánægjulegt fyrir Ísland, og Vestur-Þýzkaland gæti ekkert gert á móti því. Það er vitanlegt, að Vestur-Þýzkalandi mundi ekki koma til hugar reyndar að slíta stjórnmálasambandi við Ísland vegna slíks. Það mundi kannske verða látið í eitthvað þess háttar skína, áður en það gerðist, en eftir að það gerðist, mundi það ekki verða, gert, Þvert á móti mundi þá verða unnið því betur að því af hálfu vestur-þýzku stjórnarinnar að reyna að ná diplómatísku sambandi við hin sósíalísku lönd í Austur-Evrópu.

Gamla Hallstein-kenningin er raunverulega dauð. Það er reynt að halda henni í andarslitrunum nokkuð lengi, en það verður ekki mögulegt. Ég álít þess vegna, að við Íslendingar eigum einmitt, ekki sízt af því að Vestur-Þýzkalandi er ósköp vel kunnugt um þann vinarhug, sem við yfirleitt berum til þýzku þjóðarinnar, að verða einna fyrstir allra þessara ríkja til þess að taka upp stjórnmálasamband á eðlilegan máta við Austur-Þýzkaland. Slíkt væri mjög auðvelt að gera, og það mundi hjálpa til þess að skapa eðlilegt ástand eða vera stórt skref í þá áttina að skapa eðlilegt ástand milli hinna ýmsu ríkja í Evrópu. Þetta er svo gersamlega óeðlilegt, sem þarna hefur verið framkvæmt, að reyna að halda ríki eins og Austur-Þýzkalandi, sem ég held, að ég muni rétt, að sé orðið á meðal 10 stærstu iðnaðarvelda heims, reyna að halda því utan við og láta eins og það sé ekki til. Ég vil þess vegna vona, að þessi litla þáltill. okkar, sem aðeins felur í sér að álykta að fela ríkisstj. þetta diplómatíska samband við Þýzka alþýðulýðveldið og skiptast við það á sendiherrum, mæti skilningi hér á Alþ., og vil leyfa mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni eða þegar ekki vilja fleiri kveðja sér hljóðs, sé þessari till. vísað til utanrmn.