09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (2599)

14. mál, sjónvarp

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Í framhaldi af þeim umr., sem hér hafa farið fram, er rétt, að það komi fram, að útvarpsráð hefur jafnan verið þess mjög hvetjandi, að áherzla verði lögð á sem skjótasta dreifingu sjónvarpsins út um landið. En fyrsta skrefið í þá átt er, eins og hæstv. menntmrh. sagði í ræðu sinni hér áðan, bygging 5 þús. watta endurvarpsstöðvar á Skálafelli hér við Reykjavík. Það er frá henni, sem á að sjónvarpa til 5 þús. watta endurvarpsstöðvar í Stykkishólmi og til stöðva af sömu stærð á Vaðlaheiði við Eyjafjörð, Fjarðarheiði á Austfjörðum og Hjörleifshöfða á Suðurlandi. Sjónvarpsnot Vestfirðinga, Akureyringa, Eyfirðinga, Austfirðinga og annarra landsmanna velta því á því, að Skálafellstöðinni verði komið upp hið allra fyrsta.

Nú hefur því hins vegar verið lýst yfir af forráðamönnum sjónvarpsins, að það taki allt að 18 mánuði að fá slíka stöð erlendis frá, eftir að hún hefur verið boðin út, en Skálafellsstöðin hefur enn ekki verið boðin út. Af því tilefni var samþ. eftirfarandi bókun á fundi útvarpsráðs 11. okt. s.l.:

„Það er skoðun útvarpsráðs, að til þess að hraða dreifingu sjónvarps út um landið verði að vinda bráðan bug að því að bjóða út Skálafellsstöðina og koma henni upp.“

Hæstv. menntmrh. sagði í ræðu sinni áðan, að hann teldi, að hægt væri að hefja byggingu Skálafellsstöðvarinnar á næsta ári. Ég fagna mjög þessari yfirlýsingu, en fæ engan veginn séð, að hún fái staðizt. Það tekur 18 mánuði að bjóða stöðina út, og það er ekki samið að gera það enn þá, og hvernig á þá að vera hægt að hefjast handa, um byggingu stöðvarinnar á næsta ári? Skv. fjárhagsáætlun sjónvarpsins á fjárlagafrv. fyrir árið 1967 er ekki heldur gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til Skálafellsstöðvar, aðeins lagt til, að veitt verði fé til lítillar endurvarpsstöðvar í Vestmannaeyjum fyrir uppsveitir Árnes- og Rangárvallasýslu og til þess að ná eitthvað austur á bóginn.

Það er skoðun mín, að ekki komi til mála. að slá dreifingu sjónvarpsins á frest út um landið. Við það verður hreinlega ekki unað, að aðeins mesta þéttbýli landsins geti notið þessa merka fjölmiðlunartækis. Í því væri engin sanngirni. Að sjálfsögðu verður tækniaðstaða og fjárhagsgeta þjóðarinnar og sjónvarpsins sjálfs að ráða hér um. En kjarni málsins er þó sá, að ef við höfum efni á því að koma upp sjónvarpi fyrir Faxaflóasvæðið og Suður- og Suðvesturland á 1—2 árum, höfum við einnig efni á því að koma sjónvarpinu til annarra landshluta á svipuðum tíma. Það er reynslan í öllum löndum, að sjónvarpið nýtur mestra vinsælda í strjálbýlinu. Það eyðir fjarlægðum og einangrunarkennd og kemur með hina stóru veröld inn í stofu til fólksins í borg og sveit. Við Íslendingar höfum haft þá einstæðu afstöðu, að við höfum getað byggt byrjunarframkvæmdir okkar í sjónvarpsmálum á aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum, áður en íslenzkt sjónvarp var til í landinu, og komið íslenzku sjónvarpi fyrir það fé til meiri hluta þjóðarinnar. Engin rök hníga þess vegna að því, að fólk annarra landshluta eigi að bíða lengi eftir þessu merka fjölmiðlunartæki, sem kemur með aukna fjölbreytni, skemmtun og fróðleik til þeirra, sem kost eiga á að njóta þess. Slík ráðabreytni væri aðeins til þess fallin að auka enn á það tilfinnanlega misræmi, sem ríkir um aðstöðu fólksins í strjálbýli og þéttbýli á fjölmörgum sviðum.