09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í D-deild Alþingistíðinda. (2604)

14. mál, sjónvarp

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir með öðrum ræðumönnum hér og láta í ljós ánægju yfir því, að íslenzkt sjónvarp hefur hafið göngu sína. Ég vil líka taka eindregið undir þær skoðanir, sem hér hafa komið fram, að ekki sé við annað unandi í þessu máli en sjónvarpinu sé sem allra fyrst komið til landsmanna allra. Eftir þeim tölum, sem hér hefur verið farið með, og eftir þeirri bjartsýni, sem kom fram í ræðu hæstv. menntmrh., er augljóst mál, að frá fjárhagslegu sjónarmiði er þetta mál, sem er auðvelt að ráða við og leysa. Þess vegna er hægt að vinna að þessu af fullum krafti, eftir því sem tækni leyfir. Og á það vil ég leggja áherzlu. En annars voru það aðeins tvær fsp., sem ég vildi leyfa mér að leggja fyrir hæstv. ráðh.

Sú fyrri lýtur að því, að ég tók ekki eftir því, — má vera, að það hafi farið fram hjá mér, — að hann minntist í sinni skýrslu á Norðurland vestra, og mér er ekki alveg ljóst, hvort endurvarpsstöðin á Vaðlaheiði á að draga þangað, eða með hverjum hætti Skagafjörður og Húnavatnssýslur eigi að verða aðnjótandi þessara gæða. En hitt tók hann reyndar fram, að sérstaka stöð þyrfti fyrir Siglufjörð. Um þetta atriði vildi ég spyrja.

Hin spurningin lýtur að því, hvort ekki sé að vænta nú á næstunni frv. til l. um sjónvarp. Ég hef verið þeirrar skoðunar, og hefur sú skoðun komið fram hér áður á Alþ., að það væri helzt til veikur lagagrundvöllur undir stofnun hins íslenzka sjónvarps. Ég verð að álíta, að sú skoðun hafi nú verið staðfest af dómstólum, þar sem dómar hafa gengið í málum Vestmanneyinga og þeir hafa fallið á sömu lund, bæði í héraðsrétti og hæstarétti, og þó að ég hafi ekki séð þá dóma, skilst mér, að þeir séu byggðir á því, að ríkisútvarpið hafi ekki átt aðild að því máli, sem þar var um að tefla. Hér var frá því skýrt áðan, að það væri í ráði að taka ákvörðun um afnotagjöld og fara að heimta þau inn á næstunni. Væri nú ekki vissara fyrir hæstv. ráðh. að afla sér ótvíræðrar lagaheimildar, áður en farið væri að innheimta þau afnotagjöld, þannig að það yrði ekki þar sama niðurstaðan og í máli Vestmanneyinga?

Það má segja, að þetta atriði, hvort það sé fastur lagagrundvöllur undir þessari stofnun eða ekki, sé lítilræði og lítilsvert í sambandi við það stórmál, að íslenzkt sjónvarp er komið af stað, og um það erum við allir sammála. Og sumir líta kannske svo á að það sé í sjálfu sér smámál og nánast formsatriði að vera að fárast um það, hvort lagasetning er fyrir hendi um svona stofnun eins og sjónvarp, ef þetta, gengur annars allt að öðru leyti vel. Ég er þar á annarri skoðun. Ég álít, að einmitt með svona starfsháttum eins og við hafa verið hafðir í sambandi við þetta mál sé skapað fordæmi, sem gæti verið hættulegt. Ég álít, að það eigi ekki að vera svo, að það sé hægt að setja upp stórar stofnanir hér á landi, án þess að lagagrundvöllur sé fyrir þeim fenginn. Ég skal ljúka máli mínu, herra forseti. — Ég tek undir með síðasta ræðumanni, að það væri eðlilegt, að framkvæmdaáætlun í þessu máli væri einmitt fest í lögum.