09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (2621)

37. mál, lýsishersluverksmiðja

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil þakka ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér veitt. Ég vænti þess einnig, að alþm. fái þessa skýrslu hið fyrsta til athugunar. Hér er mikið stórmál á ferðinni, eins og flestum mun vera ljóst, mál, sem lengi hefur verið barizt fyrir og löngu tímabært að koma í framkvæmd. Við Íslendingar höfum of lengi verið aðeins hráefnisframleiðendur og ekki gert nægar ráðstafanir til þess, að hráefnið sé fullunnið í landinu sjálfu.

Hvað það atriði snerti, sem kom fram í upplýsingum ráðh., að sérfræðingurinn leggi til, að verksmiðjan verði byggð í Reykjavík eða nágrenni, finnst mér ástæða til að ræða nánar. Ég er hræddur um, að sá rökstuðningur, sem fram kom hjá hæstv. ráðh. fyrir þessari staðsetningu, sé vægast sagt mjög veikur. Ég náði ekki fyllilega að meðtaka þessi orð hans, en mér heyrðist meginrökin vera þau, að erfitt væri að fá tæknimenn til starfa við verksmiðjur úti á landi, erfitt væri að fá forstöðumenn, hafís mundi valda erfiðleikum og jafnvel rafmagnsskortur hugsamlegur. Einnig mundi markaður hér innanlands fyrst og fremst vera í kringum Reykjavík og nágrenni.

Mér kom það spánskt fyrir sjónir, að úr því farið er að rökræða um það, hvar staðsetja skuli verksmiðjuna, og draga fram röksemdir í því máli, skuli ekki um leið bent á vankantana, sem því fylgja, ef verksmiðjan verður byggð hér. Bygging lýsisgeyma fyrir 8—10 þús. tonn af lýsi væri fyrirtæki, sem mundi kosta margar millj., og þennan kostnað mætti vafalaust spara með því að byggja verksmiðjuna annars staðar. Ég vil undirstrika, að nauðsynlegt er að athuga þetta mál mjög vandlega og miklu betur en virðist hafa verið gert. (Gripið fram í.) Jú, væntanlega mundi það einnig koma þar til álita. Ég er hræddur um, að með þessum sömu rökum og fram komu í ræðu hæstv. ráðh. mætti rökstyðja, að hvert einasta meiri háttar stórfyrirtæki skuli byggt hér í Reykjavík og nágrenni. Ef Norðlendingar eða Austlendingar hefðu hug á að fá meiri háttar stórfyrirtæki, mundi vera bent á þessi sömu rök, til dæmis hafíshættuna. Hafíshættan er ekki nefnd í fyrsta sinn í sambandi við þetta mál. Það er sagt, að erfitt sé að fá tæknimenn og forstöðumenn verksmiðjunnar til þess að setjast að úti á landi. Slík rök eru auðvitað engin rök. Þá virðist heldur en ekki halla undan fæti fyrir byggðinni úti um landið, ef taka á tillit til slíkra raka og ekki veita mönnum þá aðstöðu úti á landi, að þeir geti fellt sig við að starfa þar og búa þar.

Ég held, að ég hafi þessi orð ekki fleiri að sinni, enda ekki hægt að rökræða slíkt mál í fyrirspurnatíma. Ég stóð upp vegna þess, að hér er kastað fram hugmynd um staðsetningu verksmiðjunnar, hugmynd, sem virðist vera byggð á rökum, sem eru ákaflega veik og alveg ljóst, að jafnvel þótt samin hafi verið, að mér skilst, mjög ýtarleg skýrsla um verksmiðjuna sjálfa og hugsanlegan rekstur hennar, virðist þetta atriði um staðsetninguna algerlega órannsakað mál. Þarf því að athuga það mál miklu betur, áður en farið er að kasta fram einhverjum órökstuddum hugmyndum.