23.11.1966
Sameinað þing: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í D-deild Alþingistíðinda. (2632)

61. mál, lóðaúthlutun Þingvallanefndar

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Árið 1928 var að forgöngu Jónasar Jónssonar, þáverandi menntmrh., sett löggjöf um friðun Þingvalla. Þar segir svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Frá ársbyrjun 1930 skulu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.“

Í lögum þessum segir einnig:

„Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslenzku þjóðarinnar.“

Þá er enn fremur fyrir mælt í þessari löggjöf, að sérstök n., Þingvallanefnd, skipuð þrem alþm. og kosin af Alþingi, skuli hafa fyrir þingsins hönd yfirumsjón með þessum friðlýsta helgistað allra Íslendinga. Og n. er veitt víðtækt vald, ekki einungis í sambandi við hvers konar athafnir á hinu friðlýsta svæði innan þjóðgarðsins, heldur einnig í nágrenni Þingvalla, eða eins og í 2. gr. l. um friðun Þingvalla segir: ,,Ekkert jarðrask, húsabyggingar, vegi, rafleiðslur eða önnur mannvirki má gera á hinu friðlýsta svæði eða í landi jarðanna Kárastaða, Brúsastaða, Svartagils og Gjábakka, nema með leyfi Þingvallanefndar.“

Nú er það auðsætt, að tilgangur þessarar löggjafar er sá að vernda Þingvelli og hið næsta nágrenni þeirra fyrir öllu því raski, allri þeirri mannvirkjagerð, sem torveldað geti, að Þingvellir verði um aldur og ævi friðlýstur helgistaður allra Íslendinga, eins og löggjafinn orðar það eftirminnilega.

Alþingi tekur þessa varðstöðu að sér fyrir hönd þjóðarinnar, og það felur trúnaðarmönnum sínum, þremur alþm., framkvæmdina. Nú er það skoðun margra, að enda þótt í Þingvallanefnd hafi jafnan átt sæti hinir mætustu menn, hafi þeim ekki í öllum greinum tekizt varðstaðan um Þingvelli eins og skyldi.

Ýmsir einstaklingar hafa löngum sótt það fast að komast yfir sumarbústaðalönd við Þingvallavatn, jafnvel að heita má á sjálfum Þingvöllum. Og Þingvallanefnd hefur látið undan þeirri ásókn. En þegar það fréttist nú í sumar, að Þingvallanefnd væri að úthluta til einstaklinga tugum nýrra sumarbústaðalóða í Kárastaða- og þó einkum Gjábakkalandi, vöktu þau tíðindi töluvert almenna furðu. Blaðaskrif urðu um málið. Ferðamálaráð sendi frá sér mótmæli, og ég hef heyrt, að náttúruverndarráð hafi einnig látið þetta mál til sín taka. Og þessi frétt um mjög verulega nýja lóðaúthlutun til einkaaðila á Þingvallasvæðinu vekur óneitanlega spurningar, — spurningar, sem ég tel rétt, að Alþingi, hinn lögskipaði verndari Þingvalla, og þjóðin öll, sem á þennan helgistað sameiginlega, fái skýr svör við. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram fsp. í nokkrum liðum á þessa leið:

„1) Hve mörgum lóðum undir sumarbústaði hefur Þingvallanefnd úthlutað úr landi Kárastaða og Gjábakka í Þingvallasveit? 2) Hvaða reglum hefur Þingvallanefnd fylgt við ráðstöfun lóða þessara? 3) Með hvaða skilmálum eru lóðirnar af hendi látnar? 4) Hverjir hafa fengið umræddar lóðir? 5) Hver er tilgangur Þingvallanefndar með lóðaúthlutun þessari? 6) Hefur Þingvallanefnd í hyggju að halda áfram úthlutun lóða á Þingvallasvæðinu?“