30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í D-deild Alþingistíðinda. (2649)

206. mál, rafmagn fyrir Fornahvamm

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakki hæstv. samgmrh. fyrir svör við þessari fsp. minni. Út af svörunum vil ég þó segja það, að mér var ljóst áður, að hér var ekki um það að ræða, að leggja rafmagn, nema aðstoð ríkisins kæmi til. Ég tel mig hafa fyrir því orð þeirra, sem frá samningum gengu við núverandi hótelhaldara í Fornahvammi, að ríkið ætti að útvega dísilvélarnar, en ábúandinn halda þeim við. Þess vegna held ég, að það orki ekki tvímælis, of breytt er um, að það verði gert á þann veg. En ég hefði talið, að hagkvæmasta lausnin væri sú, að ríkissjóður greiddi mismuninn, sem er á því að leggja raflínu fram í Fornahvamm, og miða við 1 1/2 km, eins og er á milli hinna bæjanna. Ég hygg, að það muni vera 1/2 millj. kr. eða rúmlega það, og það væri heppilegasta lausnin að gera það í eitt skipti fyrir öll að leysa þetta mál á þann hátt. Ég held, að það detti engum annað í hug heldur en ríkið verði að sjá um, að þarna verði byggð. Ríkissjóður á Fornahvamm, og það, að þar er rekinn núna myndarbúskapur, er að þakka þeim ábúanda, sem þar er, því að næsti ábúandi á undan honum rak þar ekki búskap nema að mjög litlu leyti. Hins vegar hefur þessi ábúandi verið mjög duglegur, og hann er búinn að koma sér upp bæði miklum bústofni og byggja þar miklar byggingar. Hitt er mér alveg ljóst, að hans búskapur stendur ekki undir því að gefa með hótelrekstrinum.

Það sem er mergur málsins, er þetta: Fornahvammi verður að halda í byggð, og það gerir ríkið, þó að þetta fólk yrði hrakið nú í burtu. Það verður ekki gert nema með fullkomnu rafmagni. Ódýrasta og bezta lausnin er að semja við raforkumálastjórnina um að borga þann kostnað, sem þarna ber á milli. Þetta er það, sem á að gera, og þetta verður gert fyrr eða seinna, þó að hæstv. ráðh. komi því ekki í verk núna. En ég vil skora á hann að láta athuga þessa hlið málsins, áður en verður farið að kaupa nýja dísilstöð og leysa málið þannig til frambúðar.