14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í D-deild Alþingistíðinda. (2667)

85. mál, rafmagnsmál Austurlands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leitast við að svara þeirri fsp., sem hér hefur verið lögð fram af öllum hv. þm. Austfjarðakjördæmis. En fsp. hefur verið lesin og hv. þm. heyrt hana í sambandi við þetta er rétt að taka fram, að raforkan á Austurlandi, þ.e.a.s. á Grímsársvæðinu, er unnin í vatnsorkuveri við Grímsá að smávægilegu leyti í vatnsorkuverum í Fjarðará í Seyðisfirði og Búðará í Reyðarfirði. En mestur hluti þeirrar orku, sem kemur ekki frá Grímsá, er unninn í dísilvélum, fyrst og fremst í Neskaupstað og á Seyðisfirði og að litlu leyti á Fáskrúðsfirði. Dísilstöðvarnar gegna jafnframt því hlutverki að vera varastöðvar gagnvart línubilunum á kerfinu og vélabilunum og vatnsleysi í Grímsá. Þær gegna því eystra því hlutverki, sem varmaorkuver yfirleitt gegna hér á landi og annars staðar, þar sem meginhluti orkunnar er unninn í vatnsorkuverum. Grímsá vinnur meiri hluta orkunnar á Austurlandi, og orkuvinnslugeta hennar er enn þá hvergi nærri fullnýtt. Fer vinnslan í virkjuninni vaxandi ár frá ári. En sökum þess að álagið á kerfið er orðið til mikilla muna meira en afl Grímsárvirkjunar, er talsverð orka einnig unnin í dísilstöðvunum.

Til að mæta hinni ört vaxandi raforkunotkun eystra hafa Rafmagnsveitur ríkisins á undanförnum árum stöðugt aukið afi dísilstöðvanna. Þannig var á yfirstandandi ári bætt við 1000 kw á Seyðisfirði. Því miður dróst tenging þeirrar aflviðbótar við kerfið lengur en áætlað var. Nú á s.l. hausti, meðan aflviðbót þessi var enn óviðtengd, vildi það óhapp til, að ein af stærstu dísilvélunum bilaði samtímis því, að vatnsleysi var í Grímsá vegna lágrennslis og frosta. Þetta olli því, að takmarka varð orkuafhendingu til síldariðnaðarins eystra, eins og kunnugt er, og mun það vera tilefni þessarar fsp. Rafmagnstruflanir á Austurlandi nú í haust stöfuðu þannig af samspili þriggja óhappa, sem urðu samtímis: 1) Seinkun á uppsetningu Seyðisfjarðarvélanna. 2) Bilun á einni stærstu dísilvélinni á svæðinu. 3) Vatnsleysi í Grímsá.

Þegar rætt er um þessi mál, ber að hafa í huga, að enda þótt fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að gera háar kröfur um öryggi gagnvart rafmagnstruflunum, getur öryggið samt aldrei arðið 100% af þeirri einföldu ástæðu, eð enginn notandi mundi vilja taka á sig kostnaðinn, sem 100% öryggi væri samfara. Rafmagnstruflanir koma því alls staðar fyrir. Spurningin er einungis um það, hversu tíðar þær eru. Má í þessu sambandi vísa til reynslu annars staðar hér á landi, og nærtækt dæmi erlendis frá er hin mikla rafmagnstruflun, er náði yfir mörg ríki í austurhluta Bandaríkjanna fyrir ári.

Kröfurnar um viðunanlegt öryggi gegn rafmagnstruflunum eiga vitanlega fyllsta rétt á sér og eru skiljanlegar, ekki sízt á Austurlandi nú, vegna síldariðnaðarins og hinna miklu verðmæta, sem þar eru í húfi. Rafmagnsveitur ríkisins hafa og fullan skilning á þessu máli og munu gera sitt ýtrasta til að tryggja notendum sínum sæmilega örugga raforku. Hinn hraði vöxtur notkunarinnar eystra, sem vikið var að í upphafi, veldur nokkrum erfiðleikum á þessu sviði, en vonir standa til, að á þeim megi sigrast.

Svo sem áður er getið, stöfuðu rafmagnstruflanir fyrir austan nú í haust af sérstaklega óheppilegu samspili þriggja orsaka. Enda þótt gild rök séu fyrir því, að slíkt samspil sé afar sjaldgæft, hafa Rafmagnsveitur ríkisins þegar í undirbúningi ráðstafanir til að auka afi dísilstöðvanna fyrir austan á árinu 1967 til verulegra muna meira en nemur árlogri aukningu undanfarin ár. Er stefnt að því, að unnt verði að anna mesta álagi án truflana, jafnvel þótt atburðir þeir, sem að framan voru taldir, endurtaki sig.

Svar við þeirri fsp., sem hér liggur fyrir, er því í sem allra stytztu máli á þá leið, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa nú þegar í undirbúningi ráðstafanir til þess að auka afl dísilstöðvanna á Austurlandi á árinu 1967 til muna meira en gert hefur verið árlega á undanförnum árum og tryggja þannig notendur gegn rafmagnstruflunum. Um alllangt skeið hefur verið til athugunar hjá raforkumálastjóra, hverjar ráðstafanir séu heppilegastar til þess að mæta vaxandi raforkuþörf á Austurlandi í framtíðinni. Og af því að þau mál snerta efni þessarar fsp., þótt óbeint sé, þykir rétt að gera nokkra grein fyrir þessum athugunum. Þeim var, að því er Austurland varðar, mikið til lokið seint á s.l. sumri. En áður en þeim lyki að fullu, sneri stjórn Laxárvirkjunar sér til ríkisstj. með beiðni um fyrirgreiðslu við lánsútvegun til ráðgerðrar nýrrar virkjunar í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu. Með því að Austurlandsathugunin hafði sýnt, að tenging raforkukerfisins eystra við Laxársvæðið kemur sterklega til greina, þótti sýnt, að ekki væri unnt að skoða raforkumál Laxársvæðisins og Austurlands alveg aðskilið. Svipaðar athuganir varðandi Norðurland vestra bentu og til, að þar kynni tenging við Laxá einnig að vera álitleg ráðstöfun. Með þetta í huga þótti rétt að hafgreiða eigi málaleitun Laxárvirkjunar án þess, að áður hefði farið fram rækileg athugun á þessum samtengingum. Skipaði ráðh. þá nefnd undir formennsku raforkumálastjóra til þess að rannsaka raforkumál Laxársvæðisins með hliðsjón af málaleitun Laxárvirkjunar og þá jafnframt, hvort hagkvæmt kynni að vera að leysa raforkumál Austurlands og Norðurlandsvetra í sameiningu við Laxársvæðið. N. þessi hefur enn ekki lokið störfum, en þess er vænzt, að hún skili áliti mjög bráðlega, og það er rétt að taka fram, hverjir eru í þessari n. Það er Jakob Gíslason raforkumálastjóri, formaður, Valgarð Thoroddsen rafmagnsveitustjóri, Sigurgeir Jónsson frá Seðlabankanum, Bjarni Bragi Jónsson frá Efnahagsstofnuninni, Knútur Otterstedt rafmagnsveitustjóri, Akureyri, og Arnþór Þorsteinsson, formaður stjórnar Laxárvirkjunar, Akureyri.

Eigi þykir ástæða til að skýra frá störfum þessarar n. í einstökum atriðum, enda mun álit hennar liggja fyrir innan skamms, svo sem ,fyrr segir. Þess skal aðeins getið, að varðandi Austurland eru teknir til samanburðar tveir meginvalkostir í raforkuefnum fyrir svæðið: 1) Virkjun í Lagarfossi. 2) Tenging við Laxársvæðið með háspennulinum. Athugaðar eru mismunandi stærðir virkjunar í Lagarfossi. Gengið er út frá mismunandi forsendum um vöxt raforkunotkunar á Austurlandi, einnig athugað sérstaklega, hver áhrif aukin notkun raforku til húsahitunar þar eystra hefur á niðurstöðurnar.

Svo sem greint var frá fyrr í máli þessu, er orkuvinnslugeta Grímsárvirkjunar enn eigi fullnýtt, þótt afi hennar sé hins vegar fullnotað og töluverð orka unnin í dísilstöðvum. Þótt Grímsá geti þannig enn um sinn tekið á sig hluta af orkuaukningunni, verða dísilstöðvarnar að taka á sig síaukinn hluta aukningarinnar, og vex vinnsla þeirra því ört. Sökum kostnaðar er slíkt eigi hagkvæmt til langframa, og hlýtur að því að koma, að reisa verði vatnsaflsstöð eystra eða tengja svæðið við Laxá. En vert er að leggja þunga áherzlu á, að með því er hlutverki dísilstöðvanna engan veginn lokið. Því veldur einmitt sú krafa notenda um öryggi gegn truflunum. sem er tilefni fsp. Dísilstöðvarnar sjá þá fyrir varaafli gegn bilunum véla eða línusliti. Það er útbreiddur misskilningur, að þörfin fyrir varaafi minnki, ef stór vatnsaflsstöð kemur inn á kerfið, það er þvert á móti. Stórar vélaeiningar krefjast meira varaafls miðað við sama öryggi notenda, því að meira munar um, ef stór vél fellur úr starfi vegna bilunar eða línuslits. Varaaflsþörfin er fyrst og fremst komin undir heildarálaginu, sem vex mjög ört á Austurlandi nú sem stendur.

Í áðurnefndri Austurlandsathugun er tekið tillit til áhrifa hvors um sig á varaaflsþörfina og þá gengið út frá sama öryggi hjá notendum, hvor valkosturinn sem valinn yrði. Kemur mjög greinilega í ljós, að varaaflsþörfin vex, eftir því sem álagið eykst. Þetta er ástæðan til þess, að þörf verður fyrir mikið dísilafl í framtíðinni, einnig eftir að orkuvinnslan hefur að heita má alveg færzt yfir á vatnsafl. Þær dísilviðbætur, sem nú eru ráðgerðar, koma því að fullum notum áfram, og fé því, sem til þeirra er varið, er engan veginn á glæ kastað.

Ég vænti þess, að ég hafi nú svarað þannig

nefndri fsp., að hv. fyrirspyrjandi sé nokkurn veginn ánægður með það.