22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (2692)

212. mál, varðveisla skjala og gagna þingkjörinna og stjórnskipaðra nefnda

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér fsp. til hæstv. ríkisstj. um varðveizlu skjala og gagna, sem þingkjörnar eða stjórnskipaðar nefndir hafa aflað í starfi sínu. Fsp. er svo hljóðandi:

„Hvaða háttur hefur verið á hafður og er á hafður um skil og varðveizlu skýrslna og gagna, sem nefndir, þingkjörnar eða stjórnskipaðar til athugunar á einstökum málum og tillögugerðar, hafa unnið eða aflað, og ef svo er, að slíkum skýrslum og gögnum sé tryggð varðveizla, hafa þá þm. ótvíræðan aðgang að þeim?“

Eins og kunnugt er, hefur það verið algengt, að Alþ. hafi kosið svokallaðar mþn., ýmist til rannsókna á sérstökum málum eða til undirbúnings mikilvægra og flókinna löggjafaratriða. Á síðari árum hefur þessi háttur orðið sjaldgæfari, en hins vegar farið í vöxt, að ríkisstj. hafi skipað slíkar n. Sjálfsagt hefur það verið hin almenna regla, að slíkar n. hafi lokið ætlunarverkum sínum og skilað niðurstöðum til réttra aðila, en hitt hefur þó engan veginn varið óþekkt, að slíkar n. hafi ekki skilað álitum og hætt störfum í miðjum klíðum án þess að ljúka þeim verkefnum, sem þeim voru falin. Er sú háttsemi að sjálfsögðu vítaverð, og virðist þar skorta aðhald frá réttum aðilum. En hvernig sem um þetta er farið hjá einstökum n., er hitt ljóst, að í flestum tilvikum hljóta þessar starfsnefndir að hafa aflað ýmissa gagna varðandi þá málaflokka, sem um hefur verið að ræða, sem engan veginn er sama, hvernig varðveitt eru eða með er farið, þar sem jafnvel óvíst er, hvort hin sömu gögn eru annars staðar fyrir hendi. Vitað er t.d., að einstakar n. hafa haft starfslið í þjónustu sinni og það jafnvel langtímum saman, þó að þær hinar sömu n. hafi ekki skilað neinum álitum eða lokið sínum verkum. Skjöl, gögn og upplýsingar, sem aflað er af starfsnefndum þeim, sem hér ræðir um, hafa að sjálfsögðu hagnýtt gildi, meðan þau eru ný af nálinni. En síðar kunna þau að hafa jafnvel ekki ómerkt sögulegt gildi, og ber því að taka tillit til þess einnig um varðveizlu slíkra skjala. Það hefur því vafalausa þýðingu fyrir stjórnmálamenn, fyrir alþm. og fyrir þá, sem fást við stjórnsýslu yfirleitt, að þau gögn, sem hér ræðir um, hljóti örugga varðveizlu og séu aðgengileg þeim, sem eðlilegan rétt hafa til atnota þeirra. Fsp. mín beinist að því að gera það ljósara en nú liggur í augum uppi, hver háttur er í þessum efnum hafður.